Grimmia Hedw. – skeggmosar

Skrifað um September 29, 2014 · in Mosar

Grimmia Hedw. – skeggmosar

Um 120 tegundum hefur verið lýst innan Grimmia-ættkvíslar, en aðeins um helmingur þeirra er almennt viðurkenndur. Hér á landi vaxa 12 tegundir, en annars staðar á Norðurlöndum vaxa 28 tegundir. Á stundum hefur kvíslinni verið skipt í Dryptodon og Hydrogrimmia en það er ekki gert hér.

Allar tegundir kvíslar eru meira eða minna þúfumyndandi, ólíkt Racomitrium-tegundum, sem flestar vaxa í breiðum. Á íslenzkum tegundum er alltaf hægt að finna einhver blöð með hárodd, nema á G. ramondii. Blaðjaðar er ýmist inn- eða útundinn eða flatur en er aldrei jaðraður af löngum frumum. Á hinn bóginn getur hann verið tvö eða þrjú frumulög á þykkt og sker sig því úr. Blaðkan er jafnan eitt frumulag á þykkt en oft og tíðum tvö. Blaðfrumur framan til eru fremur smáar, ferkantaðar eða rétthyrndar og frumuveggir á stundum hnúðóttir. Flestar blaðfrumur eru sléttar en á nokkrum tegundum eru þær gúlpnar eins og hjá G. alpestris eða vörtóttar á G. anomala. Í blaðgrunni eru frumur við rifið jafnan aflangar eða striklaga með slétta, holótta eða hnúðótta langveggi.
Tegundirnar eru uppréttar, lágvaxnar og kvíslgreindar. Stöngull oftast með miðstreng. Gróhirzla er egglaga til mjó-egglaga, ýmist slétt eða rákótt og situr á 1 eða 2 cm löngum stilk. Á G. plagiopodia er stilkurinn mjög stuttur eða um 0,4 mm. Á sumum tegundum er stilkur beinn en boginn á öðrum. Gróhirzla er með opkrans; kranstennur eru 16, lensulaga, jafnan rauðbrúnar, vörtóttar, heilar, götóttar eða klofnar niður að miðju. Á Racomitrium eru tennurnar 16 klofnar nærri niður að grunni, svo að þær sýnast vera 32.
Kynlaus æxlun í formi æxlikeppa eða æxlikúlna er meðal nokkurra tegunda. Á G. anomala myndast grænar æxlikúlur á endum efstu blaða. Á G. torquata myndast brúnar kúlur eða keppir á þráðum, sem koma út úr baki rifs í neðri hluta blaðs; þessir keppir eru oft lausir inni á milli blaða.
Oftast er auðvelt að þekkja Grimmia úti í náttúrunni, einkum á þúfumynduninni. Gróhirzlur eru egglaga á beinum eða bognum stilk og hároddur litlaus. Á Schistidium eru gróhirzlur á styttri stilkum og oft eru rauðleitar og útstæðar kranstennur áberandi.
Árið 1998 birtist grein í tímaritinu Lindbergia eftir H. C. Greven, þar sem því var haldið fram, að G. grisea Cardot yxi hér á landi, en sú tegund var óþekkt annars staðar í Evrópu (sjá Lindbergia 23: 91-93. Lund 1998: Grimmia Hedw. in Iceland, including Grimmia grisea Cardot, new to Europe). En samkvæmt athugun Muňoz (1998) tilheyra þessi eintök G. reflexidens.

 

Greiningarlykill að Grimmia:

1 Öll blöð án hárodds. Rif mjög áberandi og með 2 eða 3(-4) hryggjum á baki framan til ……. G. ramondii
1 Rif ekki með hryggjum ……………………………………………….. 2

2 Blöð íhvolf og ekki greinilega kjöluð. Blöð aldrei útundin …………………. 3
2 Blöð greinilega kjöluð. Blöð oftast útundin, á stundum bara öðru megin ………. 4

3 Nær alltaf með gróhirzlur; stilkur um 0,4 mm. Blöð eitt frumulag þykkt. Rif breiðast fremst ….. G. plagiopodia
3 Hefur ekki fundizt með gróhirzlur. Blöð tvö eða þrjú frumulög á þykkt. Rif breiðast neðst ………. G. ovalis

4 Gular eða grænar æxlikúlur myndast á endum efstu blaða ……………. G. anomala
4 Engar æxlikúlur á endum efstu blaða …………………………… 5

5 Rakur stilkur beinn. Þurr gróhirzla slétt. Blaðka tvö frumulög framan til ………… 6
5 Rakur stilkur boginn. Þurr gróhirzla rákótt. Blaðka eitt frumulag framan til; blaðjaðar tvö frumulög ………… 14

6 Blaðjaðar útundinn neðan til, að minnsta kosti öðru megin (aldrei innundinn) …………. 7
6 Blaðjaðar flatur eða innundinn, aldrei útundinn neðan til ………………………. 9

7 Einkynja, gróhirzlur hafa aldrei fundizt hér. Hároddur stuttur (0,3 mm). Plöntur brúnar efst …. G. elongata
7 Tvíkynja, oftast með gróhirzlur. Hároddur stuttur eða langur. Plöntur dökkgrænar efst ……………… 8

8 Meðalstórar plöntur, >2 cm, í lausum þúfum. Lok með langri totu …. G. longirostris
8 Smáar plöntur, <1 cm, í þéttum, flötum þúfum. Lok með stuttri totu …. G. reflexidens

9 Jaðarfrumur í blaðgrunni með þunna veggi, litlitlar eða litlausar …….. 10
9 Jaðarfrumur í blaðgrunni með þykka þverveggi, litlitlar ……………… 11

10 Einkynja, gróhirzlur hafa aldrei fundizt hér. Hároddur stuttur (0,3 mm). Plöntur brúnar efst …. G. elongata
10 Tvíkynja, næstum alltaf með gróhirzlur. Hároddur langur (1-2 mm). Plöntur gráar eða grágrænar efst …. G. donniana

11 Blöðkufrumur eru áberandi gúlpnar (þverskurður) ……………….. 12
11 Blöðkufrumur eru sléttar (þverskurður) ……………………….. 13

12 Frumur í blaðgrunni áberandi lengri en breiðar. Tvíkynja, gróhirzlur algengar, egglaga með loftaugu neðan til. Yfirborðsfrumur gróhirzlu aflangar og þunnveggja …………. G. reflexidens
12 Frumur í blaðgrunni stuttar, ferningslaga. Einkynja, gróhirzlur sjaldséðar, lang-egglaga, ekki með loftaugu. Yfirborðsfrumur gróhirzlu óreglulegar og þykkveggja …………. G. alpestris

13 Frumur við rif í blaðgrunni álíka langar og frumur neðst í blaðrönd. Lok með stutta totu. Tvíkynja, dökkgrænar efst, gróhirzlur algengar, egglaga með loftaugu neðan til. Yfirborðsfrumur gróhirzlu aflangar og þunnveggja …. G. reflexidens
13 Frumur við rif í blaðgrunni áberandi lengri en frumur neðst í blaðrönd. Lok með skástæðri trjónu. Einkynja, gráar eða grængráar efst, gróhirzlur sjaldséðar, ekki með loftaugu ………………. G. montana

14 Þurr blöð hrokkin. Hároddur stuttur eða enginn. Brúnir æxlikeppir myndast á þráðum, sem koma aftan úr rifi neðan til á efri blöðum …………………… G. torquata
14 Þurr blöð aldrei hrokkin, en undin gormlaga um stöngul. Hároddur langur á efstu blöðum. Aldrei með æxlikeppum ….. G. funalis

 

 

Grimmia ramondii (Lam. & DC.) Margad. – urðaskeggi

Grimmia plagiopodia Hedw. – veggjaskeggi

Mjög sjaldgæf; nær alltaf með gróhirzlur og auðgreind á því. Blöð oft án hárodds, aðlæg þurr en upprétt rök, egglaga til tungulaga, stærst efst. Jaðar flatur, sjaldan eilítið útundinn. Eitt frumulag á þykkt (jaðar getur þó verið tvö efst). Rif endar rétt neðan við blaðenda, breiðast efst. Hároddur stuttur, getur þó verið um 1 mm. Rætlingar gulir, sléttir.
Frumur 9-10 µm á breidd, kringlóttar eða ferningslaga, veggir þykkir og oft eilítið hnúðóttir. Frumur neðar í blaði lengri og breiðari.
Stilkur mjög stuttur (0,4 mm) og hirzla því hulin af kvenhlífarblöðum. Hetta topplaga, kögruð neðst. Lok lágt og breitt. Tennur rauðgular, mjög götóttar. Gró um 11 µm að þvermáli, fínvörtótt eða slétt.
Í þéttum, lágum, dökkgrænum eða brúnleitum þúfum. – Hætta á að rugla saman við Schistidium, sem þó er oftast með útstæðar, rauðgular eða rauðar kranstennur og beinan stilk.
Grimmia ovalis (Hedw.) Lindb. – bakkaskeggi
Grimmia elongata Kaulf. – brúnskeggi
Grimmia longirostris Hook. – dalaskeggi
Grimmia reflexidens Müll. Hal. – jöklaskeggi
Grimmia donniana Sm. – holtaskeggi

Grimmia donniana. Vex í þéttum þúfum; nær alltaf með gróhirzlur, Ljósm. ÁHB.

Grimmia donniana. Vex í þéttum þúfum; nær alltaf með gróhirzlur, Ljósm. ÁHB.

Grimmia alpestris (F.Weber & D.Mohr) Schlleich. – fjallaskeggi
Grimmia montana Bruch & Schimp. – hlíðaskeggi
Grimmia anomala Hampe ex Schimp. – dílaskeggi
Grimmia torquata Hornsch. ex Grev. – hrokkinskeggi

Grimmia torquata. Ljósm. ÁHB.

Grimmia torquata. Ljósm. ÁHB.

 

 

Grimmia funalis (Schwägr.) Bruch & Schimp. – snúinskeggi

Plöntur einkynja. Rök blöð upprétt, en þurr liggja að stöngli og eru undin um hann; lensulaga til mjó-egglaga, efstu blöð oftast með langan (2 mm) eða stuttan, tenntan eða sléttan hárodd. Blaðjaðar útundinn greinilega öðru megin um eða neðan blaðmiðju; hinum megin flatur eða eilítið útundinn; tvö (á stundum þrjú) frumulög að þykkt framan til. Rif breiðara efst en neðst, nær að blaðoddi.
Frumur framarlega í blöðku með mjög þykka, hnúðótta veggi, um 8 µm á breidd, ferningslaga eða aflangar, neðst við rif striklaga með hnúðótta og þykka veggi, þverveggir þó þunnir. Neðst við blaðjaðar og lítið eitt upp með honum eru 2-4 frumuraðir af sléttveggja, oft glærum og stuttum frumum.
Kynhlífarblöð lengri en stöngulblöð og með lengri hárodd. Þráðlaga greinar með lítil (0,2-0,3 mm), kúpt og hárlaus blöð er oft að finna á sprotum.
Rætlingar vínrauðir, rauðbrúnir eða brúnir og sléttir. Stilkur boginn, um 2 mm, gulur. Gróhirzla ljósbrún, egglaga, rákótt; barmur úr þremur röðum af stórum frumum; opkrans gulur eða rauður, tennur vörtóttar, klofnar í tvennt eða götóttar. Lok keilulaga með stutta, snubbótta totu. Hetta skástæð, topplaga, klofin að neðan. Gró 14-18 µm að þvermáli, fínvörtótt.
Vex í smáum þéttum, grágrænum bólstrum, oft með að hluta rauðbrúna flekki. Plöntur 1-4 cm á hæð, gráar að ofan en svartar eða brúnar að neðan. Vex á þurrum steinum eða klettum. Allvíða, einkum um sunnan- og austanvert landið. – Auðveldast er að þekkja teundina á því, að blöðin sitja í greinilegum röðum en vinda sig um stöngul í þurrki. – Á G. torquata eru blöð vissulega undin um stöngul en þau eru hrokkin en aldrei bein.

 

Grimmia funalis. Ljósm. ÁHB.

Grimmia funalis. Ljósm. ÁHB.

Helztu heimildir:
A.J.E. Smith, 2004: The Moss Flora of Britain and Ireland. Cambridge University Press
Ágúst H. Bjarnason, 2010: Greiningarlykill að ættkvíslum íslenzkra blaðmosa (Musci) ásamt tegundaskrá. Fjölrit Vistfræðistofu n:r 40. Reykjavík.
Bergþór Jóhannsson: Íslenskir mosar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar n:r 24. Október 1993.
Elsa Nyholm, 1998: Illustrated Flora of Nordic Mosses. Fasc. 4. Copenhagen and Lund.
Muňoz, J. 1998. A taxonomic revision of Grimmia subgenus Orthogrimmia (Musci Grimmiaceae). – Annals of the Missouri Botanical Garden 85: 367-403.
Tomas Hallingbäck et al.: Bladmossor: Sköldmossor-blåmossor. ArtDatabanken, Sveriges lantbruksuniversitet. Uppsala 2008.
Tomas Hallingbäck, Ingmar Holmåsen, 2008: Mossor. En fälthandbok. Interpublishing. Stockholm.
ÁHB / 29. september 2014

P.s. Höfundur hlaut styrk frá Hagþenki 2014 til ritstarfa.

 

Leitarorð:


Leave a Reply