Fyrirlestur um gróður Íslands

Skrifað um November 16, 2015 · in Gróður

Helgi Jónsson, grasafræðingur.

Helgi Jónsson, grasafræðingur.

Þeir, sem fylgjast með umræðu um gróður og gróðurverndarmál hér á landi, verða fljótt þess áskynja, að þráfaldlega er verið að fjalla um sömu atriðin æ ofan í æ. Það er líkast því, sem menn séu alltaf á byrjunarreit og þurfi sýnkt og heilagt að eiga í þjarki við „efasemdamenn“, sem hafa leyft sér að þæfa málið með rakalausum staðhæfingum.


Svo undarlega sem það hljómar, hafa margir þeirra, sem kalla sjálfa sig „náttúruverndarmenn“, í hávegum gróðursæld fáeinna staða á öræfum og líkja þeim við vinjar í eyðimörk. Og svo dásama þessir sömu menn ördeyðu allt í kring, sem ekki megi hrófla við. Þeir virðast ekki átta sig á því, að þessar gróðureyjar eru aðeins slitrur eða leifar af gróðri á fyrri tíð. Með skynsamlegri nýtingu og öflugu endurbótastarfi mætti endurheimta megnið af fyrri gæðum á fjölmörgum öðrum stöðum.

Helgi Jónsson (1867-1925), var einn fjölhæfasti grasafræðingur þessa lands. Hann stundaði ítarlegar rannsóknir á flóru og gróðri áður en hann sneri sér alfarið að sæþörungum, en þar er nafn hans enn meðal þeirra fremstu á því sviði. Helgi gerði sér snemma grein fyrir ásigkomulagi íslenzkra gróðurfélaga og lagði fram tillögur sínar til landbóta.

Helgi var orðaður við embætti skógræktar-stjóra, þegar það var stofnað. - Aldrei hlotnaðist honum þó starf við hæfi og hafði ofan af fyrir sér með stundakennslu. Helgi vann að fræði-störfum sínum í kyrrþey. Meðal annars átti hann stórt og vandað plöntusafn; myndin sýnir flórumiða úr fórum Helga.

Helgi var orðaður við embætti skógræktar-stjóra, þegar það var stofnað. – Aldrei hlotnaðist honum þó starf við hæfi og hafði ofan af fyrir sér með stundakennslu.
Helgi vann að fræði-störfum sínum í kyrrþey. Meðal annars átti hann stórt og vandað plöntusafn; myndin sýnir flórumiða úr fórum Helga.

 

Það er hverjum manni, sem hugsar um þessi mál, hollt að lesa sem flestar greinir Helga. Hefðu menn hlýtt ráðum hans þá, væri öðru vísi um að litast hér á landi en nú.

 

 

 

 

Fyrirlestur

um

Gróður Íslands,

eftir

Helga Jónsson.

Búnaðarrit 21. árgangur 1907, 1. tbl., bls. 6-20.

 

Um gróður Íslands má ræða margt og mikið og um það efni mætti rita margar bækur, en hér munum vér að eins drepa stuttlega á ýmislegt, sem bendir á hvernig náttúran fer að því að leggja lifandi jurtabreiðu yfir bera landfláka, eða með öðrum orðum, hvernig landið hefir gróið upp og grær upp enn þann dag í dag,

Ég geng út frá því sem gefnu, að mönnum muni þykja fróðlegt að heyra eitthvað um þetta efni, þar sem nú virðist vera að vakna nokkur áhugi meðal almennings til þess að rétta náttúrunni hjálpandi hönd og styðja að uppgróðri landsins.

Forfeður vorir hafa tekið ómildum höndum á gróðri þessa lands, og unnið ötullega að eyðingu hans. Eyðingin heflr þó orðið svo sorglega mikil meðfram af því að æfikjör plantnanna hér á landi eru ekki sem bezt að mörgu leyti.

Eigi er þó svo að skilja, að forfeður vorir séu öðrum fremur ámælisverðir, því samskonar gróðrareyðing af mannavöldum hefir og gengið yfir mörg önnur lönd. Hér er sérstaklega átt við skógareyðingu, enda er hvað mestur sjónarsviptir í skógunum og eyðing þeirra hefir orðið til hins mesta tjóns víðar en hér á landi. Þegar skógurinn liggur í kalda koli, fara menn að sakna vinar í stað, og fyr eða síðar verður mönnum það Ijóst, að ekki er um annað að gera en rækta skóginn af nýju. Víða erlendis hafa menn byrjað á skóggræðslunni fyrir löngu, en vér erum á eftir í því eins og svo mörgu öðru. En betra er seint en aldrei, og svo lítur út, sem hinni núlifandi kynslóð sé fullljóst að eitt af skylduverkum hennar er, að skrýða landið skógi og bæta þannig fyrir syndir forfeðranna, enda mun hún vart geta reist sér veglegri minnisvarða en ilmandi birkiskóg. En það þarf að gera meira en rækta skóg. Svo má að orði kveða að vér höfum látið reka á reiðanum síðan landið byggðist að því er ræktun landsins snertir. Túnin kringum bæina eru einu ræktarblettirnir, og mörg þeirra kafna þó sannarlega undir nafni, og þau svæðin eru svo örlítil, sem hafa verið unnin með „pál og plóg”. En þetta dáðleysi á að hreifa, enda er nú alt útlit fyiir að áhugi sé farinn að vakna í þessu efni. Vér byrjum seint að rækta landið og verðum þá, að sýna þvi meiri atorku og dugnað, Landið er gott sé því sómi sýndur og óþarft er að lifa hér við fátækt, því landið ber nægileg auðæfi í skauti sér. Mark og mið vort á að vera, að rækta landið og fara svo með það, að grænar grundir, skógarreinar og blómlegir aldingarðar skiftist á.

Með því að ræktun landsins byggist að miklu leyti á þekkingunni á hinum núverandi gróðri og æfikjörum hans, hefir mér komið til hugar að benda hér á ýmislegt, er sýni hvernig gróðurinn hefir þróast hér og náð hinni núverandi félagsskipun. Meðal annars má af því ráða, að lífskraftur gróðursins og þrautseigja er mikil hér á landi, og þarf því ekki að óttast að öllu sé á glæ kastað þó einhverju sé kostað til að græða landið upp.

Gróðurinn, sem nú er á Íslandi, er tiltölulega ungur, og vagga hans hefir staðið i skauti síðustu ísaldar. Á ísöldinni var landið alþakið jökli og það er næsta ólíklegt að nokkur af þeim plöntum, sem byggja landið nú, hafi verið hér þá, því það er með öllu óvíst að nokkur blettur hafi þá verið íslaus á landinu. Saga gróðursins byrjar því fyrst við lok ísaldarinnar. Áður en vér förum frekar út í það efni, skulum vér athuga hvernig ísöldin hafði búið í haginn fyrir hina komandi gróðraröld.

Landið var, eins og drepið var á, alþakið jökli, eða hulið jökulhellu. Jökulinn er frosið vatn eins og kunnugt er. Hann rennur því eða streymir eins og vatnið og þar eru jökulstraumar og jökulfossar. Jökulbreiðan yfir landinu hefir verið afarþykk og því fallið þungt að yfirborðinu. Jökullinn hefir því mulið bergtegundirnar í sundur og grafið sig niður í hálendið. Þegar jökullinn fór að þiðna hafa jökulárnar skolað fjalllendið og flutt með sér möl og leir niður á láglendið; þannig myndaðist jarðvegur eða mold. Orðið mold táknar eitthvað, sem mulið er, og er einkum viðhaft um smámuldar steina- eða bergtegundir á yfirborði jarðar þar sem jurtir vaxa. Í mæltu máli er orðið nokkuð yfirgripsmeira og táknar sambland af bergmulningi og rotnandi dýra og jurta leifum. Gæði moldarinnar fara eftir samsetningi bergtegundanna og bergtegundir Íslands hafa þau steinefni, sem nauðsynleg eru til jurtanæringar. Bergmulningurinn eða moldin, sem þakti jörðina við endalok ísaldar, hefir því verið góður gróðrarreitur og plönturnar hafa fljótt fest þar rætur og dafnað vel þegar er fór að hlýna og Ijós og hiti var nógur.

Vér göngum þá út frá því sem gefnu, eins og drepið var á, að landið hafi verið algjör eyðimörk þegar hinn mikla ís tók að leysa. En hvernig fluttust þá plönturnnar hingað þegar landið fór að verða byggilegt? Um það efni hefir margt verið rætt og ritað, en örugg niðurstaða hefir ekki fengist enn. Sumir halda að Ísland hafi verið landfast við önnur lönd í Norðurálfunni (Færeyjar, Skotland) eftir ísöldina. Ef svo hefir verið er það ofur eðlilegt að gróðri þessara landa svipi talsvert saman og landplöntunum er og eiginlegast að leggja land undir fót. En satt að segja, þá byggist landbrúarkenningin aðallega á samsetningu gróðursins í löndum þessum og jarðfræðingarnir fullyrða að Ísland hafi ekki verið áfast við önnur lönd eftir ísöldina. Sé það nú rétt að engin landbrú hafi verið eftir ísöldina milli Íslands og annarra landa, hvernig hafa plönturnar þá flutst inn í landið? Til að skýra það verðum vér að athuga hvernig plönturnar fara að dreifast um jörðina nú á dögum. Fræ sumra plantna eru lítil og létt eða eru útbúinn með flugfærum, þess háttar fræ berast stundum langar leiðir með loftstraumum eða vindum. Fræ sumra plantna fljóta í vatni og geta borist með hafstraumum langar leiðir (t.a.m. lausnarsteinarnir). Þá er og alkunnugt að fuglar geta borið með sér ýmiskonar fræ, að minsta kosti þegar um litla vegalengd er að ræða, og margir halda því jafnvel fram, að þeir geti flutt með sér fræ yfir úthöfin; það teljum vér þó allólíklegt. Ég vil ekki fella neinn ákveðinn dóm í þessu efni að sinni, því öll kurl eru ekki komin til grafar enn þá, og búast má við, að jörðin hér á landi beri ýms skilríki í skauti sér. Ég á þar við plöntuleifar, sem kunna að finnast í gömlum leirlögum eða jökulurðum frá ísöldinni. Meðan þessi skilríki eru hulinn leyndardómur verðum vér að láta oss lynda þær bendingar, sem hinn núverandi gróður kann að gefa. En þær eru sárlitlar og, ef satt skal segja, sýna þær ekki annað en að jurta tegundir Íslands allflestar eru komnar frá næstu löndum í Norðurálfunni, og fáar að eins frá Vesturálfunni (Grænlandi).

Það hefði verið mun hægra um vik að skýra þetta efni ef náttúrufræðin hefði staðið á hærra stigi á landnámsöldinni. Þá hefðum vér þó að minsta kosti fengið jafngóðar upplýsingar um samsetningu gróðursins og um gróðurinn sjálfan eða gróðrarfarið. Að því er gróður landsins snertir, má með fullri vissu ráða af sögunum, að öll hin sömu plöntufélög, sem byggja landið nú, hafa verið hér þegar landnámsmennina bar að landi, en þau hafa ekki haft sömu útbreiðslu þá og nú, og nægir að benda á skógana í því efni. Sagan segir að landið var viði vaxið milli fjalls og fjöru. Það megum vér þó ekki taka bókstaflega, enda má með nokkurnvegin vissu sjá hvar skógar hafa verið til forna. Þeir hafa einkum verið á láglendinu, þar sem nú eru melar, holt og móar, og allvíða í mýrlendi. Sumstaðar hafa þeir og náð talsvert uppeftir fjallahlíðunum. Þess utan má ráða af sögunum að hér hefir verið víðáttumikið graslendi og skóglausar mýrar, skriður, sandar o. fl. o. fl.

Hefðum vér nú jafnframt þessum upplýsingum fengið vitneskju um hverjar tegundir uxu hér þegar landíð byggðist, þá vissum vér og hverjar tegundir hafa borist til landsins eftir þann tíma. En því er nú ekki að heilsa. Hins vegar má telja víst að margar tegundir hafa borist hingað með landnámsmönnunum. Þeir fluttu með sér alt búferli sitt. Þar voru alidýr svo sem hestar, sauðfé, nautgripir, svín o.fl. og þá er svo sem auðvitað að þeir hafa orðið að flytja með sér fóður í ríkulegum mæli. Á þann hátt getur margt fræið hafa borist hingað. Fornmenn sáðu akra í fyrstunni og hafa þá haft útlent sæði, einkum i byrjuninni. Með útsæðinu gátu og margar plöntur borist. Þess er ennfremur getið um einn landnámsmann, Þórólf Mostrarskegg, að hann tók með sér mold frá Noregi, moldina undan stallanum í hofinu. Í þeirri mold gátu verið mörg fræ. Má vel vera að einhverjir aðrir hafi og fiutt með sér mold til Íslands þó mér sé það ekki kunnugt.

Það er yfir höfuð að tala ekki auðvelt og meira að segja lítt mögulegt, að nefna þær tegundir, sem borist hafa til landsins með mönnum, þá er og sama að segja um þær tegundir, sem komnar eru til landsins án mannhjálpar.

Vér hljótum því að sætta oss við að láta ósagt um hverjar tegundir hafi borist hingað fyrst. Á hinn bóginn getum vér skilið hvernig hér var ástatt í hinni miklu ísaldarleysingu, einkum þegar vér athugum verkanir hinna árlegu „ísalda”, vetranna, er yfir oss ganga. Vorleysingarnar eru mjög svo smækkuð mynd af hinni miklu ísaldarleysingu, og þegar leysingarlækirnir ólmast niður hlíðarnar og róta þar öllu um, sýna þeir oss einnig smækkaða mynd af hinum miklu leysingarlækjum frá ísöldinni. Áður gátum vér um hvernig jökullinn gnýr og mylur bergið og hvernig jökulárnar hafa borið möl og leir niður um láglendið. Við lok ísaldarinnar hefir þvi verið nýr jarðvegur á láglendi, en þar sem hærra bar á hafa verið berir klettar og skriður; — möl og sandar hafa og verið víða og tjarnir og smávötn hafa verið þúsundum saman víða á láglendinu.

Jarðvegurinn hefir því verið margskonar og tiltölulega fljótt hefir því komið upp margbreyttur gróður. Þegar eitthvert land er að gróa upp, á gróðurinn í stöðugri baráttu. Baráttan er tvenskonar, sumpart barátta við náttúruöflin og sumpart barátta milli plöntufélaganna innbyrðis. Baráttan við náttúruöflin ar oft allskæð, einkum þó þegar menn og skepnur leggja lag sitt við óvini gróðursins. Þá verður gróðurinn að hopa á hæl ekki alllítið og ber hinn alkunni uppblástur hér á landi þess ljósan vott. — En það er eins og gróðurinn sé ósigrandi, því þegar stormarnir eru búnir að sópa gróðrinum og jarðveginum burt og róta öllu svo um að ekkert bendir á, að þar hafi nokkru sinni verið byggt ból, þá fer að gróa þar upp aftur, og þó það taki ár og aldir þá vinnur gróðurinn þó talsvert á.

Baráttunni milli plöntufélaganna innbyrðis er öðruvísi varið. Hinar ýmsu jurtategundir og hin ýmsu jurtafélög, gera mjög svo misjafnar kröfur. Sumar geta lifað á beru bergi (fléttur og fléttugróður), en ekki er til neins að ætla sér að rækta gras eða skóg á beru bergi. Þróunarsaga gróðursins er talsvert margbrotin. Á fyrsta stiginu er gróðurinn mjög víða lágplantnagróður, en hann myndar jarðveg og framleiðir þannig hæfilegan bústað fyrir önnur plöntufélög. Þannig gengur það koll af kolli, eitt plöntufélagið kemur eftir annað. Þar sem þessi þróun getur haldið stöðugt áfram, og menn eða skepnur skakka ekki leikinn, verður að síðustu skógur. Önnur plöntufélög standa ekki vel að vígi í samkeppni við skóginn, því bæði er að skógartrén eru langlíf, gnæfa hátt yfir annan gróður og skjóta rótum dýpra í jörð niður. Þau hafa því greiðari aðgang að birtunni og næringarefnum í jörðunni. Þó undirgróðurinn í skógnum sé að teygja sig niður í jörðina eftir næringarefnum, þá sakar það ekki skóginn, því undirgróðurinn kemst ekki inn í búrið hans.

Það er óþarfi að geta þess að skógurinn er ekki endatakmark gróðrarins annarsstaðar en þar sem skógur getur vaxið. Hvaða gróður er hinn síðasti á þeim og þeim stað erþví komið undir ætikjörunum á staðnum.

Þá skulum vér í fám orðum drepa á nokkur aðalatriði viðvíkjandi þróunarferli gróðursins.

 

I Klettareitir.

Nakið berg, hraunhellur og berir klettar hafa verið mjög víða á landi hér og eru það enn. Þesskonar jörð er með öllu óbyggileg fyrir háplöntur. En það vill líka svo vel til, að ákveðinn flokkur lágplantna er eins og skapaður til, að nema þar land. Eg á við fléttnategundirnar eða skófirnar svokölluðu. Þær fléttutegundir, sem vaxa á steinum, líkjast skófum ekki alllítið. Þær eru svipaðastar skorpum á steinunum. Sökum þessa vaxtarlags taka þær mjög lítið á sig i stormum, og er það heppilegt fyrir þær á skjóllausum bergfletinum. Skófirnar eru afar merkilegar plöntur í öðru tilliti. Þær eru nefnilega samsettar af þörung og svepp. Sveppurinn margvefur sig utan um þörunginn og á að sjá eru þeir eins og einn einstaklingur. Sambandi þeirra er þannig varið, að hinn græni þörungur er þjónninn og sveppurinn húsbóndinn. Sveppurinn er ekki grænn að lit og getur því ekki unnið sér fæðu úr kolsýru loftsins; hann mundi þvi veslast upp á berginu ef hann hefði ekki græna þjóninn til að vinna fyrir sér. Af skófnategundum, sem alþýðu eru kunnar, má t.a.m. nefna litunarmosann. Hann er algengur um land alt og víða vex svo mikið af honum að allstór klettasvæði eru alþakin.

Þó skófirnar séu ekki miklar „fyrir mann að sjá” og þó að bergið sé hart, þá vinst það þó smámsaman þó hægt fari; skófin tekur nefnilega ýms næringarefni úr berginu og við það molnar yfirborðið smámsaman. Þótt mjög lítið molni árlega og jafnvel í mörg ár, þá safnast þegar saman kemur, eftir því sem árin og aldirnar líða. Jafnt því sem bergið molnar verður og önnur breyting, sem eykur jarðvegsmyndunina. Plönturnar deyja nefnilega, og rotnandi jurtaleifar blandast þá samanvið bergmulninginn. Þá er jarðvegur farinn að myndast og reiturinn fer að verða byggilegur fyrir aðrar tegundir, enda líður þá ekki á löngu þangað til aðrir innflytjendur koma. Nýju innflytjendurnir eru að mestu leyti mosategundir. Þá byrjar baráttan milli gamla plöntufélagsins, flóttugróðursins, og nýju innflytjendanna. Baráttunni lýkur mjög oft þannig, að landnemarnir útrýma frumbyggjunum með öllu og reiturinn klæðist mosagróðri. En skamma stund verður hönd höggi fegin. Mosagróðurinn lifir góðu lífi um stund, en jarðvegurinn eykst stöðugt og breytist og verður að lokunum byggileg jörð fyrir háplöntur, enda fara þær nú að tínast smámsaman; þær eru fáar í fyrstunni, en þeim fjölgar meir og meir og þær fara að hnappa sig þéttar og þéttar. Baráttan milli mosagróðursins og háplantanna getur verið afar löng. Að lokum munu þó háplöntnrnar sigra, einkum niðri á láglendinu, og gróðurinn breytist þá í graslendi eða lyngheiði og að lokum í skóg. Þessi gróðrarþróun er algeng í hraununum hér á landi á láglendinu. Upp til fjallanna kemst gróðurinn ekki svo langt á leið og þar verða mosaþemburnar einvaldar meðan loftslagið breytist ekki.

 

II Vatnsreitir.

Vatnsreiti nefni ég svæði, sem vatn leikur um, annanhvort rennandi vatn eða stöðuvatn.

Þar sem vatnið hefir fría rás kemur upp einkennilegur gróður, hinn svokallaði dýjagróður. Fyrstu plönturnar, sem koma hér í ijós, eru vatnssæknar mosategundir. Einstaklingarnir eru fáir í fyrstunni, en þeim fjölgar óðum og gróðurinn þéttist og verður dýjagróður. Dýjavætur eru víða allmiklar hér á landi og oft lítur svo út sem fjöllin séu girt ljósgrænum lindum, því dýjavæturnar teygja sig eftir syllunum endilöngum þar sem vatn kemur fram. Einna mest kveður þó venjulegast að dýjunum niðri við hlíðarræturnar og þar er auðveldast að rekja þróunarferil þeirra. Þegar mosagróðurinn fer að þéttast safnast þar saman talsvert af smámuldum bergtegundum. Mosaplönturnar deyja og smám saman, og þegar hinar rotnandi mosaleifar blandast þar saman við verður jarðvegurinn æ þéttari og þéttari. Að lokum er jarðvegurinn orðinn byggilegur fyrir háplöntur, og starartegundirnar fara þá að koma í ljós, og eftir því sem þeim fjölgar koma einnig aðrar tegundir og dýið breytist þá í mýri. Þess konar mýrar eru allvíða hér á landi og eru allvíða taldar meðal hinna allra beztu útengja. Víða breytast þessar mýrar fyr eða síðar í graslendi. Breytingin getur orðið tiltölulega fljótt þar sem heppilega hagar til og lækir renna um mýrarnar; þeir bera oft með sér ósköpin öll af aur og leðju út um mýrarnar þegar vatnavextir eru. Mýrar þessar eru mjög auðræktaðar.

Gróðurþróunin er öðruvísi þar sem vatnið hefir ekki fría rás. Þess konar svæði hafa haft allmikla viðáttu hér á landi við ísaldarlokin eins og drepið var á. Hér á landi hafa tjarnir og vötn verið mjög víða í lægðunum milli hinna ótalmörgu holta, þar sem nú eru fen og foræði og flóar. Það nægir til að sýna þróunarferilinn, að benda á hvernig smávötn og tjarnir fyllast af gróðri.

Í tjörnum og grunnum vötnum koma einna fyrst í Ijós smáþörungar og vatnamosar. Þó þessar plöntur séu tiltölulega smágerðar þá er mergðin oft svo mikil að þeirra gætir eigi alllítið. Þá koma og hinar algengu vatnajurtir, þ.e. jurtir sem vaxa ávalt í vatni, svo sem nikra, þúsundblað, vatnasóley o.fl. Þessar jurtir koma fyrst í ljós fram með vatnabökkunum og haldast þar um hríð sem forverðir gróðursins. Eftir því sem fram í sækir fara hávaxnar starartegundir að gægjast út fyrir vatnabakkana, og með tímanum kemur víða upp samhangandi stararkragi umhverfis alt vatnið, en forverðirnir leita þá lengra út. Að lokum breiðist störin um alla tjörnina og sýnist hún þá algróin, en alstaðar glyttir þó í vatn milli stráanna. Þegar sú breyting er orðin, eru smávaxnari starartegundir farnar að koma upp við vatnsjaðrana. Í fyrstunni mynda þær að eins smá þúfur, en þúfurnar verða þéttari og þéttari og að lokum myndar þessi gróður samhangandi smástörungsbelti kring um tjörnina. Belti þetta er mjótt í fyrstu en færist óðum út og þekur að lokum alla tjömina, þá glyttir ekki lengur í vatn milli stráanna. en jarðvegurinn er vatnsósa upp úr. Stóru starirnar eru að mestu horfnar þegar svo langt er komið, og þær sem eftir eru, eru orðnar miklu smávaxnari. Þá er tjörnin orðin að flóa.

Víða má sjá þess merki hér á landi í flóunum að allstór svæði að minsta kosti eru uppgróin vötn, og oft má greina þar gamla vatnabakka, er líta nú út sem hringsettar þúfnaraðir. Það má með fullri vissu ráða af hinum mörgu flóatjörnum hvernig þessi gróðrarferill hefir verið. Tjarnirnar eru nefnilega mjög oft sín á hverju gróðrarstigi og yfirleitt má finna þar öll stigin frá tjörn til flóa. Flóinn er ekki endatakmarkið og hann breytist með tímanum þó hægt fari, en séu flóarnir ræstir fram getur komið þar graslendi tiltölulega íljótt.


III Kvikur jarðvcgur.

Hér á landi er mjög víða sandur. Má svo að orði kveða að sandbelti liggi kring um alt landið. Það er mjög misbreitt og víða slitið; sumstaðar er það allbreitt. Sandurinn er misjafnlega fínn. Hann er sumpart sjáfarsandur, sumpart bergmulningur þveginn í vatni, og sumpart eldfjallaaska. Sandurinn loðir illa saman og er þvi á eilífu iði eftir því sem vindurinn blæs, vötnin renna eða brimið skolar strendurnar.

Það er ekki öllum plöntum hent að vaxa í kvikum sandi. Sandgróðurinn er því samsettur af ákveðnum tegundum. Jarðstönglar þeirra skríða um sandinn þveran og endilangan og festa hann um leið. Sandjurtirnar hafa allmikinn hæðarvöxt enda þarf á því að halda, því mjög er hætt við að yfir þær skefli. Þegar er plöntur festa sig í kvikum sandi, kemur upp ofurlítil sandþúfa, því vindurinn skefur sandinn umhverfis plönturnar og ber um leið sand inn á milli þeirra. Þúfan vex bæði að hæð og ummáli. Þannig geta komið upp allstórir sandhólar. Uppgróður sandsins er í stuttu máli á þessa leið:

Meðan sandurinn er á stöðugri hreyfingu er þar ekki um neinn gróður að ræða, því þó ein og ein planta kunni að festa þar rætur einhversstaðar, þá verður saga hennar ekki löng. Um verulegan uppgróður er því ekki að ræða fyr en sandurinn er kominn í eitthvert jafnvægi og um eitthvert hlé er að ræða. Melurinn er fyrsti landneminn í söndum hér á landi. Hann þrífst þar mætavel, og kvíslast um sandinn þveran og endilangan. Áður en langt líður koma þar upp melþúfur af misjafnri stærð. Melþúfurnar verða oft afar stórar, svo réttara væri að kalla þær melbala, melhóla eða melbakka. Eftir að melurinn er farinn að vaxa í sandinum líður ekki á löngu að stallbróðir melsins, sandvingullinn, flytjist þangað. Hann þrífst mjög vel í skjólinu milli melstráanna. Seinna koma hinar aðrar sandtegundir og hirðum vér ekki að teJja þær upp, því melurinn og sandvingullinn eru lang þýðingarmestar. Mjög víða kemst gróðurinn ekki lengra áfram, því þegar melvingulþúfurnar hafa náð talsverðri stærð fara þær oft að særast af sandfokinu. og leikslokin verða oft þannig að stormurinn eyðir algjörlega gróður þann, sem kominn var, og rótar sandinum um, svo ekki sjást þess merki, að þar hafi nokkru sinni verið gróður. Þá byrjar baráttan á ný og oft getur svo farið hvað eftir annað að gróður og auðn skiftist á.

Sumstaðar er þó melgróðurinn ekki síðasta stigið, einkum þar sem ofurlítið hlé er að finna. Þegar melgróðurinn fer að eldast breytist jarðvegurinn smámsaman og verður byggilegur reitur fyrir ýmsar aðrar plöntutegundir. Einhver fyrsta breytingin á gróðrinum er í því fólgin, að melstráin lækka og þeim fcr að fækka, en að því skapi sem melnum fer aftur fer stallbróðir hans, sandvinglinum fram. Að lokum hverfur melurinn og landið breytist þá í rýrar graslendur. Þegar á þetta stig er komið, er auðvitað mjög algengt að gróðurinn eyðilegst að nýju og gróðrarbaráttan verður þá að byrja á nýjan leik. Eigi allsjaldan ber þó við, að grasflesjurnar halda sér, og gróðrarþróun heldur þar áfram; alt sem minnir á sandgróður hverfur þá meir og meir með tímanum. Þar geta komið upp grasengi, lyngheiðar og jafnvel skóglendi, eftir því sem hagar til á staðnum.

Af þessari reynslu má mikið læra. Sjálfur sandgróðurinn bendir mönnum á hvað gera skal ef þeir vilja græða upp roksanda. Enginn efi er á því að melvingul gróðrinum má koma upp allvíðast, þar sem þörf er á að hefta sandfok, en það er líka eins efalaust að sá gróður gefur að eins stundar frið víðast hvar. Þegar melgróðurinn er kominn í gott horf er því mergurinn málsins að aðstoða náttúru landsins, því vér sjáum að hún kemst ekki lengra af sjálfsdáðum, nema þar sem sérlega heppilega stendur á. Þar sem ekki er auðið að halda sandinum í skefjum með vatnsveitu er mjög svo auðsætt hvað gera skal. Það þarf nefnilega að gróðursetja langlífar plöntur þegar melurinn er búinn að binda sandinn. Eg sagði langlífar plöntur, en eg hefði alveg eins getað sagt að rækta ætti þar trékendar plöntur eða skóg.

Eigi sandgræðslan nokkra framtíð fyrir höndum hér á landi, verðum vér að fá sem fyrst vissu um það hverjar trjátegundir eru bezt fallnar til að vaxa í sandinum.

 

________________

 

„Sandarnir” svo nefndu á suðurströnd landsins teljast að nokkru leyti undir kvikan jarðveg. Þeir eru þó ekki samsettir af eiginlegum sandi, en hafa meðal annars myndast af aur, möl og grjóti, sem jöklar og jökulár hafa borið út í hafið.

Á þessum svæðum á gróðurinn í stöðugri baráttu, og ber Skeiðarársandur þess einna ijósastan vott. Frá því hann kom úr sjó hafa jökulhlaup og stórvötn sveimað þar um við og við. Þó einstaka jurtir festi þar rætur og smáblettir grói upp, eins og gamli farvegur t.a.m., þá lifir gróðurinn að eins skamma stund og hverfur oftast nær með öllu í næstu jökulhlaupunum eða stórflóðunum. Það má svo að orði kveða, að þar eigi tveir mjög svo ójafnan leik, gróðurinn og náttúruöflin, og engin von er um að gróðurinn sigri að svo komnu. Skeiðarársandur verður eflaust um langan aldur sama eyðimörkin og nú. En yrði sú breyting þar, að vatn og jöklar létu sandinn i friði, mundi hann gróa fljótt upp. Má ráða það af Brunasandi. Hraunið, sem rann þar niður á sandinn 1783, bægði Hverflsfljóti austur á við. Við það friðuðust stór svæði á sandinum, enda er þar nú mikill uppgróður og margir bæir.

 

________________

 

Skriðurnar eru ein tegund af kvikum jarðvegi einkum þær, sem eru snarbrattar. Hallinn er oft lítill í þessháttar skriðum og ekki meiri en þarf til þess að skriðan sé í jafnvægi. Sé jafnvæginu raskað, sem hæglega getur orðið ef t.a.m. gengið er um skriðuna, þá kemst yflrborðið á hreyfingu og smáskriður renna niður á við. Skriður þessar eru venjulegast ógrónar nema allra neðst við hlíðarrætumar. Þær eru svo lausar í sér og kvikular að ekki getur verið um neinn gróður að ræða. Þó er alltítt að forverðir gróðursins leita þar fyrir sér og vilja leggja hið auða land undir sig, en leikslokin verða þá ávalt hin sömu og þeir falla með sæmd eins og á Skeiðarársandi. Á þesskonar jörð getur gróðurinn ekki sigrast fyr en yfirborðið verður stöðugra, en til þess að það verði, hljóta fjöllin að molna afarmikið.

 

IV Aur- og melareitir.

Þesskonar jarðvegur hefir verið allvíða á landi hér og er það og enn. Mesti fjöldi af melareitum eru nú að gróa upp, en þeir eru mjög mislangt komnir. Sumir eru svo berir að þar er varla stingandi strá; sumir eru komnir lengra á leið. Gróðurinn byrjar með dreifvöxnum plöntum hingað og þangað. Þær eru svo fáar í fyrstunni að malarinnar gætir miklu meira. En þeim fjölgar með tímanum og þær fara að hylja yfirborðið í smáblettum. Þegar lengra líður frá er melurinn alþakinn gróðri. Uppgróður þessi getur tekið afar langan tíma, en melarnir klæðast þó venjulega allflestir að lokum. Þó er auðvitað hinn mesti munur á melum til fjalla og melum á láglendi. Til fjallanna eru melarnir miklu lengur að klæðast og ná því ef til vill aldrei, sumir hverjir, meðan loftslagið ekki breytist. Skriðurnar í fjallahlíðunum klæðast gróðri á svipaðan hátt og melarnir, þó eru lausaskriðurnar undanskildar, sem getið hefir verið um. Það gengur seint að skrýða fjallið, en með tíð og tíma tekst það þó, og gróðurinn fer og að gægjast upp fyrir brúnirnar. Uppi á fjöllunum má víða sjá fyrstu byrjunarstigin og gróðurinn verður því fátæklegri sem ofar dregur. Fjallagróðurinn sýnir oss að nokkru leiti hvernig hinn núverandi gróður hér á landi hefir litið út á æskuskeiðinu eða hér um bil við lok ísaldarinnar.

 

V Moldin

Við endalok ísaldarinnar hefir mikill hluti láglendisins verið hulinn smámuldum bergtegundum, eða með öðrum orðum verið þakinn leir. Meginið af hinni brúnleitu leirmold á Íslandi er frá ísöldinni en nokkur hluti hennar er að öllum líkindum fokjörð, sem blandast hefir saman við með tímanum.

Víða má sjá byrjunarstig þessa gróðurs á berum leirsvæðum og það má sumstaðar rekja þróunarferilinn með nokkurn veginn vissu. Gróðurinn hefir byrjað með dreifvöxnum háplöntum; eftir því sem tímar liðu fjölgaði þeim meir og meir og að lokum var jörðin alþakin gróðri. Eftir því sem til hefir hagað á staðnum hafa komið upp ákveðin plöntufélög, t.a.m. mýrgresi þar sem jarðvegurinn var vatnsósa, graslendi þar sem jörð var hæfilega rök og lyngheiði þar sem þurt hefir verið um. En að lokum breiddist birkiskógurinn yfir allan eða svo að segja allan þenna jarðveg, hvort heldur hann var rakur eða þur, og landið var skógi vaxið „milli fjalls og fjöru” eins og sagan segir (sjá hér á undan).

 

ÁHB / 16. nóvember 2015

 

Leitarorð:


Leave a Reply