Bartramiaceae – strýmosaætt

Skrifað um January 25, 2015 · in Mosar

Einn fulltrúi ættarinnar er Bartramia ithyphylla. Ljósm,. ÁHB.

Einn fulltrúi ættarinnar er Bartramia ithyphylla (barðastrý). Ljósm,. ÁHB.

Innan ættarinnar Bartramiaceae (strýmosaættar) eru fjórar ættkvíslir hérlendis en fimm annars staðar á Norðurlöndum. Þetta eru meðalstórar til stórar plöntur, uppréttar, oftar ógreindar en greindar; á stundum eru greinakransar fyrir neðan karlkynhirzlur ofarlega á stöngli.

Blöð eru margvísleg, egglaga til striklaga, ydd eða snubbótt, slétt eða með langfellingar, tennt og ójöðruð. Rif er einfalt, sterklegt, nær fram undir blaðenda eða fram úr. Frumur í blöðum ferningslaga til ferhyrndar, geta verið striklaga, gúlpnar eða vörtóttar, sjaldan sléttar. Gróhirzlur eru kúlulaga til stutt-egglaga, oft óreglulegar með skásett op, oftast álútar og skoróttar. Frumur í barmi lítt þroskaðar eða eru engar. Opkrans enginn, einfaldur eða tvöfaldur.

 

Greiningarlykill að ættkvíslum/tegundum innan Bartramiaceae:

1 Blöð í fimm beinum röðum á stöngli; rætlingar sléttir. Lok með trjónu; opkrans einfaldur; kranstennur samfastar í endann
…………………….. Conostomum tetragonum
1 Blöð ekki í fimm beinum röðum (í undnum röðum á Philonotis seriata); rætlingar vörtóttir. Lok ekki með trjónu; opkrans tvöfaldur eða úrkynjaður; kranstennur, ef til staðar, ekki samfastar í endann ……….. 2

2 Blöð í þremur röðum á stöngli; frumur í framhluta blaða langstrikóttar ……… Plagiopus oederianus
2 Blöð ekki í greinilegum röðum; frumur í framhluta blaða gúlpnar, vörtóttar eða sléttar …… 3

3 Blöð eða blaðjaðar í framhluta tvö eða þrjú frumulög á þykkt; aldrei greinahvirfing fyrir neðan kynhirzlur .. Bartramia
3 Blöð og blaðjaðar í framhluta eitt frumulag á þykkt; oft greinahvirfing fyrir neðan kynhirzlur ……. Philonotis

 

 

Helztu heimildir:
A.J.E. Smith, 2004: The Moss Flora of Britain and Ireland. Cambridge University Press
Ágúst H. Bjarnason, 2010: Greiningarlykill að ættkvíslum íslenzkra blaðmosa (Musci) ásamt tegundaskrá. Fjölrit Vistfræðistofu n:r
40. Reykjavík.
Bergþór Jóhannsson: Íslenskir mosar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar n:r 26. Janúar 1995.
Elsa Nyholm, 1998: Illustrated Flora of Nordic Mosses. Fasc. 4. Copenhagen and Lund.
Tomas Hallingbäck et al.: Bladmossor: Kompaktmossor-kapmossor. ArtDatabanken, Sveriges lantbruksuniversitet. Uppsala 2008.
Tomas Hallingbäck, Ingmar Holmåsen, 2008: Mossor. En fälthandbok. Interpublishing. Stockholm.

 

ÁHB / 25. janúar 2015

P.s. Höfundur hlaut styrk frá Hagþenki 2014 til ritstarfa.

 

 

Leitarorð:

No Responses to “Bartramiaceae – strýmosaætt”

Leave a Reply