Allrahanda úrkoma

Skrifað um July 19, 2013 · in Almennt

Þoka og súld í Vík í Mýrdal. Ljósm. ÁHB.

Þoka og súld í Reynisfjöru. Ljósm. ÁHB.

Hér koma nokkur huggunarorð til þeirra, sem sjá sjaldan til sólar:
Á Hawaí-eyju einni rignir í 350 daga á ári, að meðaltali 12‘350 mm á ári hverju.
Þurrasta meginland jarðar er Suðurskautslandið.
Meira rignir í þéttbýli en strjálbýli, því að vegna óhreininda í lofti yfir slíkum stöðum þéttist vatnsgufan á þessum ögnum. Einnig vegna hitauppstreymis frá þéttbýli stígur heitt loft hærra og ský myndast.
Bærinn þar sem mest rignir er Cherrapunijee á norðaustur Indlandi; 11‘430 mm á ári. Í Evrópu rignir mest í Bosníu.
Þurrasti bær á jörðinni er Arica í norður Chile. Á árunum 1903 til 1918 féll þar ekki dropi úr lofti.
Það rignir víðar en hér á jörðu. Á Titan, stærsta tungli Satúrnusar, rignir metani. Á ástarstjörnunni rignir brennisteinssýru, en hún nær aldrei til „jarðar“, því að hún gufar upp í 25 km hæð frá yfirborði. Á OGLE-TR-56b plánetunni í bogmanninum rignir járnögnum í staðinn fyrir vatn.
Regndropar líta aldrei út sem tár, þó að þeir séu oft táknaðir þannig. Minnstu droparnir eru um 1 mm að þvermáli og kúlulaga. Flestir eru flatir að neðan eða baunlaga. Séu droparnir stærri en 5 mm að þvermáli detta þeir í sundur.
Að jafnaði rignir meira á sumrin en veturna, því að heitt loft geymir meiri raka en kalt. Þegar heitt loft stígur kólnar það, þá myndast ský og hætta á úrkomu eykst. Á sumrin rignir því jafnan síðari hluta dags.
Samkvæmt Trausta Jónssyni veðurfræðingi er mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur á Íslandi úr mælinum á Kvískerjum í Öræfum að morgni 10. janúar 2002. (Sjá hér.) Úrkomusólarhringur nær yfir tímann frá kl. 9 morguninn fyrir mælingadag til kl. 9 mælingadags. Þetta voru 293,2 mm og jafngildir því að 293 lítrar af vatni hafi fallið á hvern fermetra lands sólarhringinnn næstan á undan.
Lendi maður í hellirigningu blotnar maður minnst með því að hlaupa undan vindi á sama hraða og vindurinn blæs samkvæmt einhverjum ítölskum vísindamanni.

ÁHB / 19. júlí 2013

Ýmsar heimildir.

 

 

Leitarorð:


Leave a Reply