Flóra Íslands – blómplöntur og byrkningar

Skrifað um July 24, 2019 · in Almennt

Flóra Íslands – blómplöntur og byrkningar. 741 bls. Útg. Vaka-Helgafell 2018
Höfundar: Hörður Kristinsson, Jón Baldur Hlíðberg, Þóra E. Þórhallsdóttir.

Bókin er unnin í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands.

Á haustmánuðum fór það ekki framhjá neinum manni, að út var komin ný bók í grasafræði. Sífelldar auglýsingar í helztu fjölmiðlum, þar sem kynnt var einstakt „stórvirki“, sem „fjallar um allar tegundir íslensku flórunnar“, hvorki meira né minna. Það er þó fjarri sannleikanum, því aðeins er fjallað um háplöntur eða öðru nafni æðaplöntur, en hvorki um þörunga né mosa. Bókin er reyndar mikil að vöxtum, rúmar 740 síður að lengd í stóru broti og vegur 3,1 kg. – Höfundar að texta eru tveir og einn myndhöfundur. Þá segir, að bókin sé unnin „í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands“. Ekki er útskýrt í hverju það samstarf var fólgið.

Nafn bókarinnar, Flóra Íslands, vekur fyrst athygli. Önnur bók hefur borið þetta sæmdarheiti frá aldamótaári 1901 og hún birzt síðan í tveimur útgáfum, 1924 og 1948. Höfundur er Stefán Stefánsson, skólameistari. Vekur furðu, að valið sé bókarheiti, sem til var fyrir og tengist Stefáni skólameistara sterkum böndum í hugum fólks. Stjórn Hins ísl. náttúrufræðifélags, sem á útgáfurétt að Flóru Stefáns, hefði átt að koma í veg fyrir slíka misbrúkun. Bókin er aukinheldur engin venjuleg „flóru-bók“, því að engir greiningarlyklar eru í henni og hún einskorðast ekki við fræðilegar lýsingar á tegundum og útbreiðslu

Undirtitill bókarinnar er „blómplöntur og byrkningar“. Í ljósi núverandi þekkingar spanna þessi tvö hugtök alls ekki allar æðaplöntur, sem fjallað er um í bókinni. Í inngangi eru færð veik rök fyrir því að nota orðið blómplöntur í staðinn fyrir fræplöntur, en ekkert er minnzt á, að jafnar teljast ekki lengur til byrkninga.

Rúmlega fyrstu fimmtíu síðurnar eru nokkurs konar inngangskaflar, sem vikið verður nánar að undir lok greinarinnar. Seinni hluti bókar eru lýsingar á tegundum, um 700 blaðsíður. Þeim er raðað eftir flokkunarfræðinni; fyrst koma ættbálkarnir jafnar, byrkningar, þá barrtré og síðan dulfrævingar. Innan þessara hópa eru svo lýsingar á ættum hafðar á grænum blöðum og innan þeirra koma svo ættkvíslir, ein eða fleiri. – Ættbálkum og ættum er fylgt úr hlaði með stuttum pistlum, sem eru æði misgóðir.

Innan ættanna eru því miður engin skil á milli ættkvísla. Það hefði verið til mikilla bóta að birta greiningarlykla að ættkvíslum á grænu síðunum, því að þar er oftast mikið autt pláss. Lyklarnir hefðu líka þurft að ná til slæðinga, því að þeim er ekkert lýst og ógerlegt að bera kennsl á þá eftir þessari bók. Til að mynda eru 30 kvíslir í grasætt og að auki um níu slæðingar. Þeir eru hafðir aftast í kafla og því er mjög tafsamt að fá heildarsýn yfir allar tegundir innan kvíslar. Þessi tilhögun rýrir gildi bókar mikið.

 

TEGUNDIR

Í grófum dráttum má skipta plöntutegundum, sem vaxa hérlendis, í þrjá hópa: a) innlendar tegundir, það eru þær, sem tilheyra flóru landsins og hafa vaxið hér um langan aldur, b) slæðinga, en það eru tegundir, sem hafa borizt til landsins í seinni tíð og ekki náð fastri búsetu og c) ræktaðar plöntur ýmist til skrauts eða nytja. – Ekki eru glögg skil á milli þessara hópa. Ýmsar ræktaðar plöntur ná að dreifa sér út fyrir ræktun og teljast þá til slæðinga og ýmsir slæðingar ná fótfestu í gróðurfélögum og falla inn í innlenda flóru. Oft er það því álitamál, hvaða tegundir teljast ílendar eða aðeins slæðingar. Dagstjarna (Silene dioica) og apablóm (Mimulus guttatus) eru hér talin fullgildar tegundir flórunnar, en ekki gullgin (Linaria vulgaris), svo að dæmi sé tekið. Verra er þó, að mörgum slæðingum er sleppt eins og tágafífli (Pilosella officinarum) og gemsufífli (Doronicum orientale) og erfitt að sjá rökin fyrir því. Oft er erfitt að átta sig á því, hvort um er að ræða nýja landnema eða gamla slæðinga. Haustlyng er sagður nýr landnemi, en látið ósagt, að tegundarinnar er fyrst getið 1821.

Í annan stað er hugtakið tegund ekki fastmótað. Það, sem sumir kalla eina tegund, vilja aðrir kljúfa í tvær og jafnvel fleiri tegundir. Það er því ógerlegt að tiltaka ákveðinn fjölda tegunda. Mér telst til, að 470 tegundum sé lýst hér sem innlendum og þær taldar til íslenzku flórunnar. Engu að síður vekur það undrun, hvers vegna ekki er minnzt á birtuskúf (Eleocharis mamillata), sem Hörður nefnir þó á heimasíðu sinni. Getur verið, að hann hafi einfaldlega gleymzt? Í kaflanum um lónajurt (Ruppia cirrhosa) er greint frá því, að hérlendis vaxi önnur tegund kvíslar (R. maritima), en hvorki fylgir nafn né mynd af henni. Þá er skollafingur (Huperzia selago) talin ein tegund, en ekki skipt í þrjár eins og nú tíðkast í flestum flóru-bókum. Eg hef áður gert grein fyrir þessum tegundum (sjá: ahb.is/skollafingur-huperzia-selago/). Hér eru þær aftur á móti taldar undirtegundir (=deiliteg.) og hefði verið æskilegt að birta myndir af þeim öllum. Þá skýtur það nokkuð skökku við, að á lista Náttúrufræðistofnunar Íslands er H. arctica skráð sem sjálfstæð tegund. Fjallaskarfakáli eða skeiðarkáli eru ekki gerð sömu skil og skarfakáli, þó að það sé nú talin sjálfstæð tegund. Fleiri dæmi mætti nefna. Aðeins er lýsing og mynd af einni hrímblöðkutegund, en við lestur kemur í ljós, að hér vaxa að minnsta kosti þrjár til viðbótar. Þá hefði mátt geta þess, að sumir telja, að fjallalyfjagras vaxi hérlendis, en víst er, að hvítingjar hafa fundizt. – Augnfróar-tegundir (Euphrasia) eru vissulega erfiðar viðfangs. Kirtilaugnfró er sögð hér E. stricta, en aðrir telja hana til E. arctica. Hvort er rétt (eða nöfnin séu samheiti) verður að bíða betri tíma, en á þetta hefði mátt benda.

 

ÍSLENZK NÖFN

Íslenzku nöfnin eru flest samkvæmt viðtekinni venju og er stuðzt við Flóru Íslands (1948). Oft er þó gerð grein fyrir öðrum nöfnum, en þó vantar mikið á, að þeim séu gerð nægileg skil. Smjörgras ber mörg nöfn, eins og fjallahanatoppur, hanatoppur, lokasjóðsbróðir, óeirðargras og skrapalaupa. Ekkert þeirra er nefnt í bókinni. Þá er heldur ekki minnzt á jóns- og jónsmessu-gras, krosslauf og kæsisgras í umfjöllun á lyfjagrasi. Verra er þó, að sum nöfn eru vitlaust stafsett; hleypisgras er hleypigras, urðafjóla er urðarfjóla og eyrarós er orðin að eyrarrós, eins og hún vaxi aðeins á einni eyri. (Hvar skyldi þessi eina eyri vera?) Sums staðar er minnzt á vetrarblóm til samanburðar við aðrar tegundir. Það nafn er þó ekki að finna í tegundaskrá, aðeins vetrarsteinbrjótur. Staðbundin nöfn eru ekki heldur í tegundaskrá og mörgum slíkum nöfnum er sleppt, sem dæmi má nefna, að liðna er hálmgresi í Kelduhverfi og fingurbjörg, öðru nafni bláklukka, er algengasta nafnið sums staðar á Austurlandi. Engin alþýðunöfn eru í tegundaskránni. Sá, sem þekkir holurt aðeins sem flugnablóm, getur ekki fundið tegundina undir því nafni. Græðisúra ber ótal nöfn, en aðeins þrjú önnur eru tilgreind.

Oft er greint frá því, hver var fyrstur til að segja frá tiltekinni tegund hér á landi. Þetta er þörf viðbót við flóru-bók Johs. Gröntved frá 1942. Þó má benda á, að það er ekki alls kostar rétt það, sem segir um fund engjakambjurtar í Vaglaskógi. Skógarvörðurinn þar hafði fyrir miðjan áttunda áratug síðustu aldar orð á því, að gulblóma tegund væri tekin að vaxa í skóginum, sem enginn þekkti. Flest bendir því til þess, að tegundin sé tiltölulega nýkomin til landsins. Ætla má út frá tilvitnun, að Hjörleifur Guttormsson hafi fyrstur greint frá ljósalyngi hérlendis 1988. Það er einfaldlega ekki rétt. Í grein í Mbl. 1985 er sagt frá því, sem stuttu síðar var endurbirt í tímaritinu Týli. Sums staðar er gerð grein fyrir hvaðan íslenzku nöfnin eru runnin. Það á þó ekki við um nöfnin hlaðkollu, efjuskúf, krakanál og um nafnið melablóm, sem var endurvakið. Á þessu kann þó að vera „eðlileg“ skýring.

Með útgáfu þessarar bókar hefði verið fullt tilefni til að endurskoða nöfn á nokkrum íslenzkum tegundum. Farið hefði betur á að nefna vatnsnál síkjaskúf í samræmi við aðrar nafngiftir og velja annað nafn á engjakambjurt, sem er hræðilegt ónefni. Þar sem ættkvísl steinbrjóta er nú klofin í tvennt, Saxifraga og Micranthes, hefði verið rétt að greina kvíslirnar að með nýju nafni.

Nöfn á mörgum ættum eru önnur en menn hafa vanizt. Þetta er ávallt álitamál og lítið við því að segja. Þó geri eg athugasemd við, að nafnið grímublómaætt er fellt niður og hnúðrótarætt komið í staðinn. Þá má geta þess, að eitt sinn var rík áherzla lögð á, að plöntunöfn ættu að vera án viðskeytts greinis, en því er því miður ekki fylgt í þessari bók.

 

FRÆÐINÖFN

Eins og vera ber eru skráð fræðinöfn tegunda og taka þau latneskum beygingum. Skýringar á tvínafnakerfi Linnés eru samt mjög takmarkaðar. Á einum stað segir, að seinna nafnið „er eigið heiti tegundar“, hvernig svo sem ber að skilja það. Á erlendum málum kallast þessi liður nafns „epitet“ og lagt var til fyrir mörgum árum að kalla það viðurnafn. Á hinn bóginn kemur víða fyrir í þessari bók, að viðurnafnið er kallað „tegundarheiti“ (sjá bls. 352, 552, 599, 650), sem er alrangt. Merkilegt, ef höfundar kunna ekki betur tvínafnakerfi Linnés.

Höfundar nota orðið deilitegund fyrir ‚subspecies‘, en ekki undirtegund, sem er þó miklu rökréttara, nema á einum stað (bls. 179); eflaust ná fæstir að skilja orðið þar. Þá er á hinn bóginn skrifað forma fyrir tilbrigði og var. (varietas) fyrir afbrigði. Það er því lítið samræmi í hlutunum.

Alþjóða nafnareglur mæla svo fyrir, að „aðaltegund“ skuli skráð sem undirtegund, ef hluti stofnsins er aðgreindur, og þá er viðurnafn tegundar endurtekið án nafnhöfundar. Sams konar regla gildir um afbrigði (varietas) og tilbrigði (forma). Allmikill misbrestur er á því, að þessari reglu sé fylgt í bókinni. Sjá til dæmis stjörnusteinbrjót. Þar stendur: „Önnur deilit. alpigena er í fjalllendi Suður-Evrópu …“ en engin önnur undirtegund er skráð í kaflanum. Þeir, sem eru ekki vel heima í nafnareglum, fá tæpast skilið, hvernig á þessu stendur, því að það hefur láðst að skrá „aðaltegundina“ sem undirtegund: subsp. stellaris. Eins er háttað með kattarjurt (subsp. islandica), og með réttu ættu bæði lækjagrýta og gullbrá að vera subsp. fontana og subsp. compacta Hedberg, svo að fá dæmi séu nefnd. Þá eykur enn á glundroðann, þegar undirtegund af vetrarblómi er kölluð „önnur tegund“.

Eftir því, sem bezt er vitað, heyrir skarifífill til ættkvíslinni Scorzoneroides en ekki Leontodon. Sama er að segja um apablóm, tilheyrir ekki Mimulus lengur heldur Erythranthe.

Þá vekur það sérstaka athygli, að nafnhöfunda er hvergi getið við tegundarheiti, nema í fyrirsögnum. Aragrúi fræðiheita, meðal annars allra slæðinga, er án nafnhöfunda og það eitt og sér rýrir verulega verkið sem fræðirit.

 

LÝSINGAR

Meginefni bókarinnar eru lýsingar á hverri tegund. Þessar lýsingar eru að mestu leyti samhljóða pistlum Harðar Kristinssonar á vefnum floraislands.is, sem hafa staðið þar með litlum breytingum í áratug, ef ekki lengur. Styrkleiki bókarinnar felst einmitt í þessum skýringum, sem eru í flestum tilvikum hnitmiðaðar. Helzt mætti setja út á niðurröðun efnis. Fyrst er tíundað hvort tegund sé stór eða lítil og síðan er blómum, aldinum og fræi lýst. Lýsing á stöngli og blöðum kemur svo síðast, sem er órökrétt. Þetta er að vísu ekki algilt, efnisröðun er önnur og betri til dæmis í köflunum um víðitegundir.

Engar stærðarviðmiðanir eru í bókinni, heldur eru tegundir sagðar stórar eða litlar eftir atvikum. Myndir sýnast mér í engu samræmi við raunverulega stærð, þannig er sandlæðingur um 15 cm á lengd, en í náttúrunni verður hann tæpir 4 cm, og er hann sýndur álíka langur og lokasjóður, sem getur verið 40 cm á hæð. Lýsingar eru mjög misítarlegar og gætir oft misræmis. Sagt er frá því, að blóðberg er oft með hvít blóm, en ekki minnzt á hvítingja meðal beitilyngs.

Á stöku stað hafa slæðzt inn villur. Blóm á krossjurt og engjakamjurt eru sögð 10-15 sentímetrar á lengd, en á að vera millímetrar. Þá eru forblöð á mýrfjólu sögð standa „lítið eitt ofar“ en á miðjum blómlegg, en þau eru „neðar“ eins og myndin sýnir réttilega. Þá má velta því fyrir sér, hvort blóm á blákollu séu í axi eða kolli fremur en klasa eins og þar stendur. Þá er sagt, að í músareyra sé „frævan oftast með tíu stílum“, en samkvæmt Flora Nordica (2001) eru stílarnir aðeins fimm.

Að loknum lýsingum er oft sagt frá skyldum og líkum tegundum og bent á góð greiningareinkenni. Þetta eru yfirleitt mjög notadrjúg ráð, enda efast enginn um kunnáttu Harðar í þeim efnum. Vissulega hefði mátt tilgreina fleiri sérkenni, eins og til dæmis breið stoðblöð á dvergasteinbrjóti og lengd frjóknappa á krakanál. Óþarft er hins vegar að endurtaka sérkennin við hverja tegund í stað þess að vísa á milli og þannig hefði mátt spara talsvert pláss. Líkar tegundir eru einnig oft og tíðum hvor á móti annarri (t.d. bls 132 og 3). Með einföldum greiningarlyklum hefði verið unnt að sleppa þessum athugasemdum.

Á eftir lýsingum kemur það, sem kalla má „almennan fróðleik“. Í þessum hluta er víða komið við sögu, en frásagnir af hverri tegund eru mislangar, frá tæpri hálfri síðu í eina og hálfa. Þarna ægir ýmsu saman og það virðist ekki hafa verið mótuð nein heildarstefna, hvað átti að koma fram. Þessi hluti bókar er eins sundurlaus og verða má, og það hefur ekki verið gerð nein tilraun til þess að ritstýra efni. Vissulega leynist þarna einn og einn fróðleiksmoli, en á heildina litið er þetta afar slakur þáttur í gerð bókar og hefði þurft að lesa prófarkir mun betur. Til að mynda er á sömu síðu sagt skírum orðum þrisvar sinnum, að berjaarfi sé annað nafn á fjöruarfa. Og tvívegis á sömu síðu segir, að hagamýs safni sortulyngs-aldinum til vetrarforða. Í miðri efnisgrein um nytjar krækilyngs hefur skotizt inn klausa um leifar þess í fornum jarðlögum.

Sérstaka athygli vekur, að sagt er, að fjallasmári „myndar langar ofanjarðarrengur en að auki þykka jarðstöngla sem safna forðanæringu og voru þeir kallaðir murur. Mururnar voru grafnar upp á haustin eða vorin og étnar hráar eða soðnar eins og segir í alkunnri vísu: „Áttu börn og buru, grófu rætur og muru.““ – Aldrei hef eg séð heimild fyrir því, að þessi plöntutegund hafi verið nýtt á þennan hátt og ekki kannast eg við þessar löngu ofanjarðarrenglur. Steindór Steindórsson og fleiri tengja þessa sögn við tágamuru. Fróðlegt væri að frétta af heimildum fyrir þessu.

Á einum stað segir svo: „Hjá nokkrum tegundum barrtrjáa líkist fræið þó beri, …“ Þetta er kolvitlaust, því að það er köngullinn, sem líkist beri, en inni í honum er fræið. Ekki ætla eg Herði að vita þetta ekki, en sýnir, að prófarkalestri er mjög ábótavant. Annað dæmi um slælegan yfirlestur. Á einum stað segir (bls. 63): „Þetta er einn algengast jafninn í Evrópu ….“ En í næstu málsgrein segir: „Miðað við að þetta sé eini vaxtarstaður burknans á Íslandi …“ Jafni og burkni er tvennt ólíkt.

Einkennileg er umsögn eða auglýsing á andlitskremi Guðrúnar Marteinsdóttur í pistli um þrenningarfjólu. Ekki er ljóst, hvaða erindi það á í þessa bók.

ÚTBREIÐSLA OG STAÐARNÖFN

Útbreiðsla tegunda er sýnd á kortum fyrir hverja tegund. Ætla má, að þessi kort séu hin sömu og birtast á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands og á heimasíðu Harðar Kristinssonar. En hér hefur eitthvað farið meira en lítið úrskeiðis, því að í stað „punktakorta“ er útbreiðslan sýnd með grænum klessum, þar sem punktarnir hafa runnið saman. Útbreiðsla margra tegunda sýnist því mun samfelldari, en hún er í raun og veru. Kortin eru mikil óprýði í bók þessari.

Oft eru taldir upp fundastaðir tegunda. Nokkuð er þar um misfellur. Sagt er, að kúmen vaxi „á Hlíðarenda“, en það eru að minnsta kosti sjö bæir með því nafni hér á landi og ekki vita allir, að átt er við bæinn í Fljótshlíð. Þá er Geitafell, þar sem Helgi Jónasson á Gvendarstöðum fann fölvastör, ekki í Reykjahverfi heldur hinum forna Aðaldælahreppi (nú Þingeyjarsveit). Á einum stað segir: „… í Grímsnesi, Biskupstungum, Haukadal og Hrunamannahreppi,“ en eins og kunnugt er Haukadalur í Biskupstungum, og reyndar á fleiri stöðum.

Ekki er þó fjallað nákvæmt um allar tegundir, en um eina er sagt, að hana „…vantar helst á flatneskjum Suðurlandsins.“ og um aðra, að hana „vantar helst á sléttum láglendisins og á öræfum Ódáðahrauns.“ Vera kann, að „flatneskjur Suðurlands“ séu sama svæði og „sléttur láglendisins“. Um gullbrá er sagt, að hún vaxi „… í deiglendi til fjalla í byggð“.

 

MYNDIR

Það, sem helzt prýðir bókina, eru myndir Jóns Baldurs Hlíðbergs. Eg ætla ekki að fara mörgum orðum um þær, enda brestur mig kunnáttu til þess. Óhætt er þó að segja, að þær eru flestar gerðar af miklum hagleik eins og Jóns Baldurs var von og vísa.

Helzt sakna eg þess, að enginn mælikvarði er við myndirnar, eins og áður var minnzt á. Til að mynda er sandmunablóm teiknað sem löng spíra, en það er oftast innan við 10 cm á hæð og greinótt. Þá þykja mér stönglar á blálilju of fíngerðir og ekki er að sjá, að stöngulblöð á fjandafælu fari stækkandi eftir því, sem ofar dregur á stöngli, eins og er raunin. Æskilegt hefði verið að birta mynd af krónublöðum á horblöðku og þá vantar öll háblöðin á klasanum. Svipað er að segja um bjöllulilju, en þar eru ekki sýnd nein stoðblöð (háblöð) og hin löngu stoðblöð á grænlilju koma ekki fram. Þá virðast hlutföll í gerð plantna ekki alltaf eðlileg; sjá til dæmis fjallabrúðu, þar sem blóm virðist mun stærri að þvermáli í samanburði við hæð og blóm á sauðamerg sýnist fremur lausblaða en samblaða.

Um tröllastakk segir réttilega, að „blöðin eru í stofnhvirfingu,“ en það kemur ekki fram á myndinni, þar sem blöðin eru teiknuð upp eftir stöngli.

Það kann að vera, að ástæðan fyrir þessum misfellum, sé sú, að aðeins eitt eintak hafi verið haft til hliðsjónar, sem var ekki dæmigert fyrir viðkomandi tegund.

 

ORÐFÆRI

Það var ekki beinlínis ætlunin hér að fjalla um orðfæri í bókinni. Á hinn bóginn verður varla hjá því komizt að fjalla lítillega um málfar, því að allvíða er þar pottur brotinn. Mörg dæmi eru um sérstæðar setningar.

Hér skulu aðeins nefnd örfá dæmi: a) „Tegundagreining er erfið hjá tungljurtum.“ b) „Bókin [Flóra Íslands] sýndi vel hvar við vorum stödd og hvar vantaði þekkingu á útbreiðslu plantnanna…“ c) „Nú má því segja að pendúllinn hafi tekið töluverða sveiflu til baka frá sjöunda áratugnum …“ d) „líkist ýmsum öðrum hvítum tegundum …“ e) : „.. oft lífsspursmál fyrir plöntuna að hafa aðgang að illa fengnu vatni og næringu.“ f) fræ reyndust „hafa lífeðlislegan dvala“ og til að rjúfa hann var að láta fræin „upplifa hitasveiflu“, g) „hnoturnar …, sem eru án svifs“. h) „Líklega notar hann [tjarnalaukur] fjardreifingu með vatnafuglum til að komast frá suðvesturlandinu til annarra landshluta.“ i) „Oft er erfitt eftir útliti einu saman að aðgreina þessar tegundir með neinni vissu.“ j) „Genetískir einstaklingar smjörgrassins eru taldir vera langlífir.“ k) Á bls. 400 er sagt frá plöntu í „evrópsku Ölpunum“; hvar eru Alpafjöll annars staðar?. l) „Á heimsmælikvarða er gulmaðran afar breytileg í útliti og litningatölu.“ m) „Þetta hefur væntanlega ekki verið skoðað í íslenskum stofnum.“ Þar fór í verra. n) „Trjónustör aðhyllist ekki norðurhjarann.“ o) „þótt fjari af henni“ [plöntunni], það er þótt fjari út undan plöntu. – Mörg fleiri dæmi mætti nefna.

Einn af inngangsköflum bókar nefnist „Blómalitir“. Gegnum gangandi í þeim kafla er talað um „lituð blóm“ og „skærlituð krónublöð“ eins og þau hafi verið máluð með vatnslitum; í stað þess að tala um lit blóm og skærlit krónublöð.

Eitt er það sagnorð, sem ofnotað er í bókinni. Það er sögnin „vanta“. Í hugum flestra táknar sögnin að skorta eða þarfnast. Dæmi: Enn vantar hurðir í húsið (en þær koma); þig vantar hlý föt.

Í bókinni er þessi sögn notuð í tíma og ótíma. Örfá dæmi skulu nefnd. Um hófsóley er sagt: „krónublöð vantar“, eins og þau eigi að vera þar; „bikarblöð vantar“ á geitkál, skógarkerfil og spánarkerfil og „stórreifar vantar“ á tvær hinar síðarnefndu. „[H]vítu jaðarblómin vantar“ á hlaðkollu. (Það skyldi þó ekki vera, að hlaðkolla eigi að vera eins og baldursbrá.) – Þá tekur ekki betra við, þegar rætt er um útbreiðslu tegunda. Geithvönn „vantar því á sumum útskögum“ og „hana vantar að mestu á hálendinu“, og krossfífil „vantar á heimsskautasvæðin“. Fjölmargar aðrar tegundir „vantar“ á hina og þessa staði eftir því, sem segir í bókinni.

Mig minnir, að það hafi verið upp úr aldamótunum 1900, sem efnafræðingar bentu á, að „kolvetni“ væru aðeins gerð úr kolefni og vetni og ættu ekkert skylt við sykrur eða „kolhydröt“. Engu að síður er þetta rangnefni, kolvetni, notað alls staðar í bókinni. Frumefnið nitur er ýmist nefnt köfnunarefni eða nítur. Þá er enginn greinarmunur gerður á hugtökunum gróður og planta. Á nokkrum stöðum stendur, að tilteknar tegundir vaxi „innan um annan gróður“, þar sem átt er við, að þær vaxi innan um aðrar plöntutegundir.

Allmikið er um slangur, óþýdd hugtök og rangar beygingar orða. Talað er um „steríl blóm“, tegundir blómgast ekki heldur blómstra, nema á einum stað er greint frá hrafnaklukkum, sem „blómga alfarið hvítum blómum“. Skarifífill er flokkaður sem „heterókarpísk tegund“ og rætt er um „amphiatlantiska stofna“. Sögnin „umlykja“ er jafnan rangt beygð (umlukið í stað umlukt) og eignarfall fleirtölu af frumu er ýmist fruma eða frumna. Tuggan „í dag“ (to day) er á mörgum síðum í stað nú, núna eða nú á tímum. Þá fæ eg ekki skilið, hvernig orðin „karlleiðin“ og „kvenleiðin“ eru hugsuð.

AÐ LOKUM

Maður spyr sig að því, hverjir komi til með að hafa not af þessari stóru og um margt veglegu bók. Menn taka hana ekki með sér út í náttúruna, heldur mun hún liggja á stofuborðum. Án efa munu margir hafa gaman af að blaða í henni. Engir greiningarlyklar eru í bókinni og því getur verið tafsamt að finna tilteknar tegundir. Þá bætir það ekki úr skák, að aðeins eitt nafn er um hverja tegund í tegundaskrá, sem er svo óhöndullega fyrir komið, að hún er ekki aftast, heldur fyrir framan langa kafla um tilvísanir og heimildir. Það er því mjög seinlegt að fletta upp í henni.

Hér hefur verið farið nokkuð fljótt yfir sögu miðað við stærð þessarar bókar. Margt annað mætti tína til. Það verður að segjast, að bókin er ekki jafn vandað fræðirit og búast hefði mátt við af hendi Harðar Kristinssonar. Eðli máls samkvæmt hefur hér verið einblínt á það, sem miður fer. Hins vegar skal engin fjöður yfir það dregin, að hafa má allgóð not af bókinni, einkum og sér í lagi, hvað varðar lýsingar á tegundum.

 

Reykjavík 24. júlí 2019.

Ágúst H. Bjarnason

 

Leitarorð:


Leave a Reply