Styttan af Einari Benediktssyni

Skrifað um October 31, 2014 · in Almennt


Árið 1964 var eg staddur á Klambratúni, þegar styttan af Einari Benediktssyni var afhjúpuð. Eg heyrði þá, þegar Örlygur Sigurðsson vék sér að Ásmundi Sveinssyni og sagði við hann eitthvað í þeim dúr, að nú dytti umferðarhraði niður á Miklubraut, því að allir héldu, að Einar væri umferðarlögregluþjónn, þar sem hann blasti við sjónum manna.

Þá sagði Ásmundur af sinni alkunnu hógværð: „Það verður nú ekki lengi, því að þeir hafa lofað mér að planta trjám meðfram Miklubraut.“

Eg man, að mér þóttu þetta eftirtektarverð orð, því að eg var ekki vanur að heyra, að menn hefðu svo mikla trú á trjárækt. En nú hefur verið samþykkt að flytja Einar á berangur við sjóinn (sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/31/styttan_af_einari_ben_flutt_ad_hofda/).


Það má svo fljóta hér með, að lögreglan stóð heiðursvörð, þegar forseti, Ásgeir Ásgeirsson, gekk að styttu eftir nýlagðri hellulögn. Skyndilega stökk einn lögregluþjónnin út úr röðinni og heilsaði Geira með handabandi og hvíslaði einhverju í eyra hans skælbrosandi. Það var sjálfur yfirlögregluþjónninn Erlingur Pálsson, en þeir voru víst gamlir félagar. Við þetta riðlaðist heiðursvörðurinn.

 

Sagt er, að lifnað hafi yfir öllum mannskapnum í Rangárþingi, þegar Einar Benediktsson gerðist sýslumaður, enda gerðust þar áður fá tíðindi, utan lausaleiksbarneignir og smáþjófnaðir. Einar kunni ekki við að láta vera tíðindalaust í kringum sig. Fyrsta veturinn bjó hann í þinghúsinu á Stórólfshvoli, sem var 3×6 m á stærð og hólfað í tvennt. Dyrnar voru svo þröngar, að Vala sýslumannsfrú varð að smokra sér gegnum þær, enda var hún bæði gild að vaxtarlagi og svo gekk hún með Benedikt Örn í neðri maganum.

Einar sinnti aldrei sýslumannsstörfum að neinu marki, en lét sér nægja að koma á manntalsþingin á vorin og hneykslaði þá jafnan söfnuðinn með því að stinga þinggjöldunum í buxnavasa sinn.

Einar keypti Stóra-Hof fyrir 2800 krónur af ekkjunni Styrgerði „til þess að virða arfleif’ Marðar Valgarðssonar. – „Hann var slyngur lögfræðingur eins og eg,“ er haft eftir Einari, – „en sá var munurinn á okkur, að hann var lygari og rógberi, en ég segi alltaf satt og er þó skáld samt.”

 

ÁHB / 31. október 2014

 

Leitarorð:


Leave a Reply