Stephan G. og andatrúin

Skrifað um October 21, 2013 · in Almennt

Umslagið utan um bréf frá Stephani G.

Umslagið utan um bréf frá Stephani G.

 

Hinn 24. október n.k. eru 96 ár síðan afi minn, Ágúst H. Bjarnason, móttók bréf frá Stephani G. Stephanssyni, setti það í umslag, innsiglaði og skrifaði svo hljóðandi framan á það:

 

Hér innan í liggur „test“ frá
Stephan G. Stephansson
sent mér í lokuðu ábyrgðarbréfi og meðtekið kl. 3½ á hád. í dag. Má bréfið ekki opna fyr en að St. G. St. dauðum og fyr en andatrúarmenn hér eða annarsstaðar þykjast hafa einhver boð að bera frá honum. En í bréfinu stendur, hvað sá raunverulegi St. G. St. ætlar sér að segja, ef til þess komi og hann á nokkurn hátt geti gert nokkur boð frá sér.

 

Reykjavík 24. október 1917

Ágúst H. Bjarnason

 

 

Bréf þetta fékk eg frá föður mínum, Hákoni Bjarnasyni, með leiðbeiningum um, hvernig að skuli standa, ef til þess kemur, að einhver telji sig hafa náð sambandi við St. G. St.

Í tíð föður míns bárust boð um að opna bréfið í tvígang. Aldrei varð að því vegna þess, að áhrifamenn í sálarrannsóknafélagi fengu því afstýrt með einhverjum ráðum.

Enn sem komið er, hefur enginn haft samband við mig. Fari svo, að einhver telji sig vita, hvað stendur í bréfinu, er mér falið að bera textana saman. Ef ekki er rétt til getið hvað þar er ritað, skal loka umslaginu hið snarasta.

 

Leitarorð:


Leave a Reply