Reyrgresi

Skrifað um August 7, 2012 · in Grasnytjar

 

Reyrpuntur

Reyrpuntur

Reyrgresi eða reyr (Hierochloë-odorata) var oft lagt í fatakistur hér á árum áður. Reyr er grastegund, sem vex víða um land, aðallega þó á láglendi. Hann er einkum að finna í útjöðrum skóga og í lágvöxnu kjarri en líka á grýttu valllendi og miklu víðar.

Þó að margir eigi erfitt með að greina grastegundir til tegunda (sjá hér), er þetta sú tegund, sem flestir ættu að geta þekkt. Langmest ber á ljósgrænum, 3-8 mm breiðum, glansandi og um 30 cm háum grasblöðum, sem vaxa upp af blaðbærum renglum. Það eru blöðin, sem menn tína. Stráin eru beinvaxin nema neðst með eitt eða tvö stutt blöð neðan til en allra neðstu blöð visna við blómgun. Punturinn er gisinn, mógljáandi (með fitugljáa) og með bugðóttar greinar.

Reyr vex oftast í stórum breiðum og þá leynir hin alkunna lykt sér ekki. Blöðunum er safnað og þau vanalega bundin í gild knippi og hengd til þerris inni í húsum. Við þurrkinn leggur af blöðunum sæta reyrangan, sem getur haldizt í mörg ár. Eins og fyrr sagði voru blöðin lögð í fatakistur og vörnuðu þau fúkkalykt og héldu frá ýmsum kvikindum, eins og gestafiðrildi (mölflugu) og fló.Reyrgresi

Lyktin stafar af kúmaríni og er vanillukeimur af. Til eru fjölmörg kúmarínefni og eru sum notuð til lækninga (segvarnarlyf). Lyktin hverfur við fyrstu frostnætur.

Seyði af blöðunum er heilsubætandi, þar sem það er hjartastyrkjandi, þvagdrífandi og blóðhreinsandi eins og segir í gömlum heimildum. ReyrvöndurÞað er því gott handa þeim, sem hafa vessafullan líkama. Hæfilegt þykir að drekka einn til tvo tebolla þrisvar á dag. Sé grasið látið renna saman við feiti, læknar það útbrot á hörundi.

Reyrgresi var mikið nýtt annars staðar í Evrópu. Meðal annars var blöðum stráð fyrir framan kirkjudyr í Frakklandi á helgum dögum og gaf frá sér góða lykt, þegar troðið var á þeim. Þá hefur reyrgresi verið notað sem bragðefni í sælgæti, tóbak, gosdrykki og smyrsl. Í Rússlandi var það haft í te og reyrgresisblöð eru enn sett út í pólskan vodka, Żubrówka, og gefa því sérkennilegt bragð og gulan lit.

Ilmreyr (Anthoxanthum odoratum)vex einnig hér á landi og er miklu mun algengari en reyrinn. Lyktin af honum er ekki jafn-sterk og hann sker sig þar að auki ekki mjög úr öðrum grastegundum. Lítil hætta er á að ruglast á þessum tveimur tegundum, þrátt fyrir að nöfnin séu lík.

Ilmreyr

Ilmreyr

 

 

Leitarorð:


Leave a Reply