Örnólfur Thorlacius – Minning

Skrifað um February 17, 2017 · in Almennt

Örnólfur Thorlacius

Örnólfur Thorlacius

Örnólfur Thorlacius var óviðjafnanlegur vizkubrunnur og fágætur fræðari, ekki aðeins nemendum sínum heldur þjóðinni allri. Hann var ólatur við að skrifa fróðleikspistla um allt á milli himins og jarðar. Afköst hans á þessu sviði eru með ólíkindum. Honum var einstaklega lagið að koma flóknum hlutum til skila á einfaldan og skýran hátt. Margir máttu mikið af honum læra.
Örnólfur Thorlacius var mér einstaklega velviljaður, þegar ég hóf kennslu við MT. Það var mikill styrkur að því að fá að leita til hans um fjölmörg atriði um kennslu og efni. Fyrir það er mér bæði ljúft og skylt að þakka. Ég sat löngum hjá honum og skrifaði niður ýmsar æfingar og tilraunir. Hann átti það til að segja: „Ég hef nú aldrei fært þetta í letur, svo að þú sendir mér þetta kannski seinna.“ Hann kunni vel að meta, þegar ég sendi honum fjölritað hefti áletrað: Með kveðju til höfundar.

Eitt sinn hringdi hann í mig og spurði, hvort ég vildi koma og semja með honum nokkrar krossaspurningar. Við sátum við heilan dag og meðan ég var að böggla einni spurningu saman, samdi hann tíu slíkar. Alltaf öðru hverju litum við þó upp, og Örnólfur kom með einhvern fróðleiksmola, því að hann var óvenju vel heima í nánast öllum hlutum. Þá var gamansemin aldrei langt undan. Ein spurningin hljóðaði þannig: Kylfur er þekktar: (a) meðal þörunga, (b) meðal sveppa, (c) meðal gródýra og svo bætti Örnólfur við að bragði: (d) sem meðal við óspektum á almannafæri.

Við fráfall Örnólfs er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa borið gæfu til að kynnast honum og eignast vináttu hans. Ég fór ætíð ríkari af hans fundi og naut þess að blanda við hann geði. Fjölskyldu Örnólfs votta ég mína innilegustu samúð.

Ágúst H. Bjarnason

Örnólfur Thorlacius fæddist 9. september 1931. Hann lést 5. febrúar 2017. – Örnólfur var jarðsunginn 15. febrúar 2017.Leave a Reply