Kúluskítur eða vatnadúnn

Skrifað um September 28, 2012 · in Almennt · 1 Comment

Þörungahnoðri. Ljósm. ÁHB

Þörungahnoðri. Ljósm. ÁHB

Fyrir skömmu var höfundur þessa pistils að safna botnplöntum í Víkingavatni í Kelduhverfi. Þá tók hann eftir því, að í fjöruborði lágu hér og hvar litlir, grænir hnoðrar, sem rekið hafði á land í svo nefndum Syðri-bol rétt neðan við bæinn Voga.

Stærstu hnoðrarnir voru um 4 cm að þvermáli en flestir rétt rúmur einn sentímetri. Þeir eru gerðir úr þráðlaga grænþörungi. Í bókinni Veröldin í vatninu eftir Helga Hallgrímsson (1979) segir svo:
»Hnoðrarnir vaxa upp á botni vatnanna og þekja þar oft stór svæði. Þegar þeir losna velta þeir eftir botninum og af því fá þeir kúlulagið.«

Mikið hefur verið fjallað um hnoðra þessa, sem eru algengir í Mývatni og verða þar allt að 15 cm að þvermáli. Þar ganga þeir undir nafninu kúluskítur, en Helgi telur betur við hæfi að kalla þá vatnadún. Litlar, egglaga kúlur hafa og fundizt í tveimur vötnum öðrum hér á landi.

Þörungur sá, sem myndar kúlur þessar er grænþráðungurinn vatnaskúfur og nefnist á latínu Aegagropila linnaei.

Vatnaskúfur hefur þrenns konar vaxtarform. A) hann vex í breiðum á vatnsbotni; b) hann lifir sem ásæta á steinum og c) hann myndar vænar kúlur, sem mynda lag á botni.

Önnur grænþörungategund, Cladophora glomerata, mun vaxa innan um vatnaskúf í Mývatni. Ekki er auðvelt að greina á milli þeirra tveggja.

Þörungurinn sem myndar hnoðra. Stækkun 400x. Ljósm. ÁHB

Þörungurinn sem myndar hnoðra. Stækkun 400x. Ljósm. ÁHB

Hér er um að ræða ekta kúluskít en aðeins fremur litla hnoðra, sem slitnað hafa upp úr þörungabreiðu. Frekari athuganir verða að bíða til næsta sumars. Hnoðrarnir hafa verið settir í fiskabúr í Menntaskólanum við Sund, og tíminn mun leiða í ljós, hvort þeir nái að dafna þar.

Þeim, sem vilja fræðast nánar um kúluskít er bent á vefi:
https://notendur.hi.is/~marianne/
http://www.natkop.is/syningar/page.asp?ID=446
http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=138

ÁHB / 28.9.12

 

Leitarorð:

One Response to “Kúluskítur eða vatnadúnn”

Leave a Reply