Hvar eru Möðrudalsöræfi?

Skrifað um May 16, 2013 · in Almennt


Eitt langar mig til þess að bera undir menn almennt. Í nær daglegum tilkynningum frá Vegagerðinni er færð lýst á helztu leiðum. Meðal annars er sagt frá færð um Mývatnsöræfi og síðan Möðrudalsöræfi. Aldrei getið um færð á Hólsfjöllum. Nú veit eg reyndar ekki, hve gamalt örnefnið Möðrudalsöræfi er, en hvergi hef eg séð það merkt inn á kort eins og Mývatnsöræfi. Mig grunar, að almennt hafi verið talað um Möðrudalsfjallgarð. Möðrudalsöræfi eiga sennilega að ná yfir þann fjallaklasa og svæðið suður af því.

Þegar ekið er austur yfir Jökulsá á Fjöllum er komið á Hólsfjöll og ná þau austur á Biskupsháls. Þá er komið í Norður-Múlasýslu og ekið suður Víðidal og um Vegaskarð. Vissulega mætti kalla öræfin þar suður Möðrudalsöræfi, en vegurinn liggur nú ekki þangað, heldur er ekið niður í Langadal fyrir norðan Möðrudalsfjallgarðana tvo og síðan suður yfir Háreksstaðaháls. Aldrei hef eg heyrt talað um , að Víðidalur væri á Möðrudalsöræfum, heldur á Efra-Fjalli.
Mér er því ógerlegt að skilja, að Langidalur sé á Möðrudalsöræfum eins og vefmyndavélin er kölluð, sem þar er.
Sé þetta nú rétt athugað, er mér óskýranlegt, hvers vegna Vegagerðin kemst upp með það að halda því fram, að akvegurinn þarna austur á land liggi um Möðrudalsöræfi.
Fróðlegt væri að fá að heyra skoðun annarra á þessu og þá líka hvernig venja megi Vegagerðina af því að rangnefna staði á landinu.

 

ÁHB / 16. maí 2013

Leitarorð:


Leave a Reply