Fífur – Eriophorum

Skrifað um October 7, 2013 · in Flóra

Brokflói var víða sleginn. Bærinn Brok í Út-Landeyjum var alltaf kallaður Brók og því var nafni hans breytt í Hvítanes. - Ljóst er, að Hallgerður langbrok (hin síðhærða) hefur verið rauðhærð og því af keltneskum ættum. Ljósm. ÁHB

Brokflói var víða sleginn. Bærinn Brok í Út-Landeyjum var alltaf kallaður Brók og því var nafni hans breytt í Hvítanes. - Ljóst er, að Hallgerður langbrok (hin síðhærða) hefur verið rauðhærð; að öðrum kosti hefði hún aldrei verið kennd við brok. Hún var því af keltneskum ættum. Ljósm. ÁHB

Ættkvíslin fífur (Eriophorum L.) telst til hálfgrasaættar (Cyperaceae) ásamt fjórum öðrum kvíslum (Carex, Kobresia, Trichophorum og Eleocharis). Til kvíslarinnar teljast um 25 tegundir, sem vaxa aðallega á norðurhveli jarðar og ekki sízt í votlendi á heimsskautasvæðunum. Þetta eru fjölærar plöntur, þýfðar eða stakar, meðalstórar með sívala eða nærri þrístrenda stöngla með eitt eða fleiri blöð, jafnvel blöðkulaust slíður. Stofnblöð eru þráðmjó eða slétt og ganga fram í mjóan odd, þrístrendan eða flatan.

Ax er endastætt, þéttblóma, egglaga til hnöttótt, einstætt án stoðblaðs eða nokkur saman (2-10), í hálf-kolllaga dúskum með stoðblað við neðsta ax. Axhlífar jafnan himnukenndar. Blóm tvíkynja; burstkrans hármargur, hvítur og lengist mjög við aldinþroskun. Fræflar þrír. Einn stíll, þrjú fræni. Aldin er þrístrend hneta með löng hár.
Ættkvíslarnafnið Eriophorum er komið úr grísku, erion, ull og foros, sá sem ber eða hefur.

Hér á landi vaxa tvær tegundir, hrafnafífa eða einhneppa og klófífa eða marghneppa. Í gömlum plöntulistum eru taldar þrjár tegundir aðrar, sem eiga að hafa fundizt hér: E. gracile, E. latifolium og E. vaginatum. Tveimur fyrr nefndu er oft ruglað saman við klófífu (E. angustifolium) og hinni síðast nefndu saman við hrafnafífu.
Þá er að geta þess, að Áskell Löve (Náttúrufr. 18. árg. 1948 og Íslenzk ferðaflóra 1981) telur tvær tegundir til viðbótar. Í fyrsta lagi nefnir hann kuldafífu (E. triste) sem sérstaka tegund, en flestir líta á hana aðeins sem undirtegund af klófífu (sjá síðar). Í öðru lagi nefnir hann rauðfífu (E. russeolum), sem hann fann aðeins „á einum stað á Hornströndum“, og hún hefur ekki fundizt þar, þrátt fyrir nokkra leit. Flestir aðrir grasafræðingar hafa bæði leynt og ljóst talið fund þennan með ólíkindum. Árið 1970 skoðaði eg eintak Áskels í grasasafninu í Kaupmannahöfn. Mér tókst að ná allnokkrum jarðvegskornum bæði af rótum og einnig úr neðstu blaðslíðrum. Sveinn Jakobsson, jarðfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands, rannsakaði sýnin í smásjá og taldi þau dæmigerð fyrir íslenzkan jarðveg. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu, er rauðfífan ekki talin hér með að svo stöddu.

Greiningarlykill að tegundum:

1 Öxin fleiri en eitt með 1-3 græn stoðblöð; efsta blaðslíðrið með blöðku ……………. klófífa (E. angustifolium)
1 Ax eitt án græns stoðblaðs; efsta blaðslíðrið oft án blöðku ………………………. hrafnafífa (E. scheuchzeri)

 

Klófífa – Eriophorum angustifolium Honck.

Plöntur oft í breiðum frá lang-skriðulum jarðstöngli, lausþýfðar með langar jarðrenglur. Stráin eru örlítið flatvaxin og lítið eitt sverari (1-1,2 mm) en á næstu tegund. Þau eru með löng blöð neðantil. Blöð eru flöt, 2-6 mm á breidd, alsett loftgöngum (sjá þverskurð), kjöluð, flöt eða rennulaga, þrístrend framantil; hringbeygjast oft aftur á bak, af því nafnið „hringabrok“.

Blóm á klófífu láta ekki mikið yfir sér. Ljósm. ÁHB.

Blóm á klófífu láta ekki mikið yfir sér. Ljósm. ÁHB.

Öx eru með 1-3 stoðblöð, græn en oft með svart slíður, 2-8 cm á lengd. Öxin (1-)3-6(-10) á mislöngum hliðflötum leggjum, sem eru sléttir (leggirnir hrjúfir á E. gracile og E. latifolium); hanga að lokum. Axhlífar egglaga til lensulaga, himnukenndar, glærar neðst en mógráar efst, 5-10 mm á lengd. Burstkransinn hvít hár, sem lengjast við aldinþroskun og mynda mislöng fífu-hárin (15-30 mm á lengd). Fræflar þrír, frjóknappar 3 mm, gulir. Fræva ein með þrískipt fræni. Aldin svört, öfugegglaga, þrístrend hneta (2-5 mm).

Vex í ýmiss konar votlendi. Algeng um land allt. Blómgast í maí eða júní. 15-50 cm á hæð.

Klófífa setur sterkan svip land og vekur jafnan athygli. Ljósm. ÁHB.

Klófífa setur sterkan svip land og vekur jafnan athygli. Ljósm. ÁHB.

Klófífa hefur löngum valdið grasafræðingum heilabrotum. Á Norðurlöndum eru axleggir sléttir og þannig er klófífa aðskilin frá E. gracile og E. latifolium. Í Norður-Ameríku eru axleggir hrjúfir eða hærðir og hefur verið lýst sem ssp. scabriusculum. Þessi undirtegund virðist að mörgu leyti lík afbrigðinu var. triste, sem var lýst frá Spitsbergen, en Hadač og Áskell Löve lýstu sem sérstakri tegund (E. triste), en nú er almennt talin undirtegund (ssp. triste) af klófífu. Skil hér á milli eru ekki glögg og því ekki ólíklegt, að undirtegundin ssp. triste vaxi hér á landi, þó að það hafi ekki verið endanlega staðfest.

Greina má á milli undirtegundanna á þessa leið:
1 Axleggir hárlausir; axhlífar mógráar ………………………….. ssp. angustifolium
1 Axleggir stinnhærðir; axhlífar dökkgráar eða nærri svartar ………. ssp. triste (Th. Fr.) Hultén

Klófífan er áberandi planta, bæði blöð og aldin. Nöfnin eru því mörg. Af blöðum hefur plantan hlotið nöfnin brok, fjallabrok og hringabrok en vegna litar nöfnin rauðbroti og rauðbreyskingur. Nafnið fífa þekkja flestir, en einnig eru kunn nöfnin mýrafífa, krossfífa, klófífa og marghneppa, dregið af því, að fífuhnoðrar eru venjulega nokkrir saman (3-6).
Fræullin, lóin, hefur verið notuð til þess að fylla kodda og sessur, og einnig var hún spunnin saman við venjulega ull, en það gefst ekki vel. Hún hefur verið nefnd „arctic wool“.
Fífukveikir voru snúnir úr hnoðrunum fyrrum, og er það auðvelt, einkum í rekju. Ekki er ósennilegt, að fífuleggirnir hafi einnig verið notaðir í ljósfæri, saman ber hendinguna: „logar á fífustöngum“.
Brok eða fífuhey var víða aðalgrasið í útheyskapnum. Þótti ágæt fóðurjurt, ef hún var snemmslegin og verkaðist vel.
Viðurnafnið angustifolius merkir með mjó blöð; angustus, mjór, þröngur; folium, blað.

Samnefni: Eriophorum polystachyum L.; E. angustifolium Honck. ssp. subarcticum (V. N. Vassil.) Hultén (ssp. angustifolium).

Nöfn á erlendum málum:
Enska: common cottongrass
Danska: Smalbladet Kæruld
Norska: duskull
Sænska: ängsull,
Finnska: luhtavilla, monitähkäinen villa
Þýzka: Schmalblättriges Wollgras
Franska: linaigrette à feuilles étroites

 

 

 

Hrafnafífa – Eriophorum scheuchzeri Hoppe

Jarðstöngull skriðull. Strá einstök eða fá saman, sívöl og gild, uppsveigð eða upprétt. Neðstu blaðslíður gulgrá til brúnleit. Blöð eru rennulaga, létt og flöt í oddinn, sett loftgöngum (sjá þverskurð); stráblöð eru stutt og líta stráin því út sem blaðlaus séu.
Ax endastætt, fyrst hnöttótt til egglaga, en verður hnöttótt eða jafnvel meira á þverveginn, þá er fífan vex. Axhlífar svartbrúnar með mjóan hálfgagnsæjan fald, mjó-þríhyrndar, 4-10 mm á lengd, miðrák nær ekki fram í odd.

Hrafnafífa í blóma. Ljósm. ÁHB.

Hrafnafífa í blóma. Ljósm. ÁHB.

Burstkransinn skjannahvít hár eða lítið eitt gulleit, sem lengjast við aldinþroskun og mynda fífuna (15-30 mm á lengd). Fræflar eru þrír, frjóknappar um 1 mm á lengd, gulir. Fræva ein með þrískipt fræni. Aldin svört, öfugegglaga, flöt, þrí- til nærri ferstrend hneta (1,8-2,2 mm).

Vex í ýmiss konar votlendi, ekki sízt á sendnu undirlagi. Algeng um land allt. Blómgast í maí eða júní. 10-35 cm á hæð.
Nafnið einhneppa er nýgervingur til aðgreiningar frá marghneppu. Sennilegt er, að nafnið hundafífa eigi fremur við þessa tegund en klófífu og í því felist niðrandi merking, vegna þess að erfiðara er að snúa kveiki úr hrafnafífu en klófífu.

Fátt er fallegra en breiða af hrafnafífu. Ljósm. ÁHB.

Fátt er fallegra en breiða af hrafnafífu. Ljósm. ÁHB.

Viðurnafnið scheuchzeri er til heiðurs svissneskum prófessor, Johann Scheuchzer (1684-1738), og merkir „Scheuchzers ull“.

Samnefni: Eriophorum capitatum Host, E. altaicum Meinshausen
Nöfn á erlendum málum:
Enska: Scheuchzer’s Cottongrass, white cotton-grass
Danska: Hovedformet Kæruld
Norska: snøull
Sænska: polarull, polar-ängsull
Finnska: töppypäävilla
Þýzka: Scheuchzers Wollgras
Franska: linaigrette de Scheuchzer

ÁHB / 7. okt. 2013

 

Leitarorð:


Leave a Reply