Fésbókar-raus I

Skrifað um February 6, 2016 · in Almennt · 681 Comments

Fésbókar-raus

 

Á þessum blöðum eru pistlar, sem eg hef sett á fésbókina; á stundum af sérstöku tilefni en oftar tilefnislaust. Hér er þó sleppt mörgum klausum, sem vísa inn á síðuna ahb.is, og eru það einkum greinir í grasafræði. – Greinarkorn þessi eru af ýmsum toga, en sérlega skillítil og eiga sjaldnast nokkurt erindi til fólks almennt. Mér er þess vegna nokkur ráðgáta, hvers vegna eg er að setja þetta á einn stað. Myndum er slept.

 

 

Við Íslendingar höfum lengi þótzt vera miklir spekingar.

„Hrosstönnin ræktar,“ sögðu merakóngarnir hér áður og beittu sveltifóðruðu stóði á sinulubba.

 

 

Hnoðað í tilefni af orðum Kára, þar sem hann sagðist hafa heyrt en tryði því ekki sjálfur.

 

Það er sumra þolgott ráð

þegar skortir rökin

að mæla stoltur: “Mér var tjáð,

en mín er ekki sökin.”

 

 

KVEÐJU-ÁVARP FORSETA:

 

Loksins kveð ég leiðan stað,

laus frá mörgum kvöðum.

Ekki sting eg oftar tað

út á Bessastöðum.

 

 

Eitt sinn mætti eg Örlygi Sigurðssyni (Ögga meistara) ofarlega á Laugavegi. Tókum við tal saman. Hann sagði mér, að hann hefði nýlega fengið það verkefni að mála heiðurshjón að norðan.

Karlinn var talsvert eldri og sagður ekki ýkja skemmtilegur en konan ungleg.

“Ég held ég máli karlinn í akryl, þá er hann fljótur að þorna og get sent hann norður. En konuna mála ég í olíu, sem er lengi að þorna, og þá getur hún verið lengi hjá mér,” sagði kappinn.

 

 

JÓLAPRÉDIKUN Í ODDA

SÍRA Ásmundur prófastur Jónsson í Odda á Rangárvöllum var að prédika á jóladaginn fyrir um 150 árum.

 

Steinn í Bakkakoti og Páll í Fróðholti sátu saman, og Páll var farinn að dotta og sagði: »Er hann ekki bráðum búinn?« – »Nei, hann er ekki nærri búinn,« svaraði Steinn, – »hann á eftir að segja »til er tími, til er augnablik« að minnsta kosti tíu sinnum enn.«

 

Og í sömu andránni sagði síra Ásmundur: »… til er tími, til er augnablik.« En þá varð Fróðholts-Páll vondur og sagði upp úr hrotunum: »Það er líka tími – augnablikið, prófastur minn,« og svo hraut hann að nýju.

Ónefndur var ölvaður á alþingi:

 

Við oss blasir vandi stór

sem við er slæmt að eiga.

Nú iðka menn á þingi þjór

með þambi sterkra veiga.

 

 

DÆMIGER VIÐBRÖGÐ

Eitt sinn var maður sendur til Hollands á vegum Tryggingastofnunar. Hann átti að kynna sér þar allar nýtízku-gerðir eyðublaða fyrir stofnunina. Þegar heim var komið, fór hann í prentsmiðjuna Gutenberg til Óla handsetjara og vildi nú breyta ýmsu. Óli tók vel í það en sagðist ekki mega breyta neinu nema með samþykki verkstjórans.

Þá var verkstjórinn kallaður til og honum sýnt, hverju ætti að breyta. Hann var fljótur til, setti hnefann í borðið og sagði: „Hér verður engu breytt.“

Starfsmanni Tryggingastofnunar féll allur ketill í eld og stundi: „Nú, hvers vegna?“

„Þetta hefur alltaf verið svona,“ svaraði verkstjórinn og þaut í burtu.

 

 

 

LÍKRÆÐA YFIR GÖMLUM DRYKKJUMANNS RÆFLI

Fyrir skömmu birti eg stuttan pistil „Vandasamt þjófnaðarmál“, þar sem sagt er frá meiðyrðamáli, sem Rannveig Magnúsdóttir á Kotströnd höfðaði á hendur séra Ólafi Magnússyni í Arnarbæli í nafni líks bróður hennar, Eyjólfs ljóstolls.

Nú hefur ágætur vinur minn bent mér á, að kafli úr líkræðu prests birtist í blaðinu Templar 8. október 1911.

Ræðan vakti undrun og hneykslan margra. Skömmu síðar birtist ádrepa í blaðinu Ingólfi og fylgir hún með líkræðu prests.

Sjá: http://ahb.is/likraeda-yfir-gomlum-drykkjumanns-raefli/

 

 

Fyrsti verkfræðingur landsins, Sigurður Thoroddsen (1863-1955), hrökklaðist úr embætti landsverkfræðings eftir 12 ára setu og gerðist stærðfræðikennari í MR. (Sagan segir, að það hafi verið meðal annars af því, að hann kom engu tauti við verkstjóra úti á landi, sem treystu frekar brjóstviti en fræðum utan úr heimi við smíði brúa og lagningu vega.)

 

Sigurður var fljótmæltur, svo að ‚pródúkt‘ (það er útkoma úr margföldun) varð ‚prútt‘ eða ‚prudd‘ í munni hans. (Samanber: Stærðfræðingsins stóru sál, / stungið var í pelamál, / prútt, prútt, prútt.)

 

Eitt sinn rak Sigurður nemanda út úr kennslustund. Öðrum nemendum þótti þetta óréttlátt, svo að þeir gengu allir út úr bekknum. – Þetta varð til þess, að nemendurnir fengu áminningu hjá rektor, sem þá var Steingrímur Thorsteinsson (1831-1913).

 

Að lokinni áminningu sagði Steingrímur gamli hin fleygu orð: „Þið megið ekki kippa ykkur upp við, þó að kennari hagi sér stirðbusalega.“

 

 

 

Björn O. Björnsson var meðal annars prestur á Ásum í Skaftártunguhreppi á árunum 1922 til 1933. Á prestskaparárum sínum stundaði hann alltaf nokkurn búskap og hafði þar á meðal fáeinar kýr í fjósi.

Dag nokkurn kemur séra Björn með kú í taumi að Flögu, þar sem hreppsnautið var hýst. Tuddinn var þá leystur af básnum og leiddur til fundar við kúna. Svo líður og bíður, en ekkert gerist.

Bóndinn spyr þá séra Björn, hvort kýrin sé örugglega yxna.

„Um það hef ég ekki hugmynd,“ svaraði prestur.

„Hvers vegna varst þú þá að koma með skepnuna,“ spurði bóndi.

„Ég vildi bara nota góða veðrið,“ svaraði séra Björn og leit til himins.

 

 

 

Steindór Steindórsson frá Hlöðum var blindur síðustu æviár. Hann lá mest fyrir og mókti, en hugsunin var skýr og hann gat haldið yfir manni langar ræður um heima og geima. – Gunnar sonur hans kom á hverjum degi og þuldi yfir honum helztu tíðindi úr bæjarlífinu, enda fylgdist hann vel með þar. Steindór sýndi lítil sem engin viðbrögð við þessum tíðindum. Einn daginn kom Gunnar og sagði meðal annars, að Nói hefði fengið hjarta-áfall og verið fluttur á sjúkrahús.

Þremur eða fjórum vikum seinna var verið að leiða Steindór um ganga á hjúkrunarheimilinu, þegar skyndilega er kallað: „Sæll, Steindór.“

„Hver er það,“ spurði Steindór þá.

„Það er Nói,“ var svarað.

„Lífs eða liðinn?“

„Ég er lifandi,“ sagði Nói þá.

 

„Gott, þá veit ég, hvar ég er,“ svaraði Steindór að bragði.

 

 

 

Margir þingmenn stæra sig af vizku og mikilli reynslu á ýmsum sviðum.

Enginn kemst þó með tærnar þar sem Pétur á Gautlöndum hafði hælana. Á þingi lét hann þessi orð falla (sjá Alþ.tíð. 1923):

„Ég hef reynt bæði skitupest og fjárkláða.“

 

 

 

Á 41. BRÚÐKAUPSDEGI:

 

Ellefta í október

aldrei skal eg gleyma.

Fái eg stund í faðmi þér

fer mig blítt að dreyma.

 

Ljúf er minning, lof sé þér,

lítum daga bjarta.

Ástarþel sem unað ber

yljar mínu hjarta.

 

 

 

„Gjarðaviðurinn er alltaf raunbetri en glerið,“ sögðu gömlu karlarnir, þegar brennivínskútarnir tóku að víkja fyrir glerflöskunum.

 

 

 

Allt í einu kom mér önn ur saga í hug um Rannveigu á Kotströnd Helgadóttur. Hún þótti nokkuð hofferðug og sveitungar hennar sögðu hana líta niður á Sunnlendinga, einkum Ölfisinga og þegar einhver nefndi manninn hennar, sagði hún: „Æ, minnist þér ekki á hann – hann er hér úr Ölfusinu.“

Eitt sinn gisti Guðmundur Friðjónsson á Sandi á Kotströnd og var vel tekið á móti honum. Rannveig leiddi hann um staðinn og sýndi allt, sem hún sagðist hafa verið að framkvæma. „Sjáið nú þetta, og svo verð ég að sýna yður þetta hérna, sem ég var að gera,“ sagði hún og þannig lét hún dæluna ganga.

Guðmundi tók að leiðast sjálfbirgingsskapur frúarinnar eins og hún hafði unnið allt ein og sér, svo að hann spurði með hægð: „Hvað hafið þér verið ekkja í mörg ár, frú mín góð?“

 

 

 

Vandasamt þjófnaðarmál

Margir hafa heyrt nefndan Eyjólf Magnússon „ljóstoll“, sem fæddist á Hraunhöfn í Staðarsveit 1841 en sálaðist á heimili hálfsystur sinnar Rannveigar Helgadóttur á Kotströnd í Ölfusi 1911.

Séra Ólafur Magnússon í Arnarbæli hélt yfir honum ræðurnar, en mæltist svo miðurlega, að Rannveig fór í meiðyrðamál við prest – fyrir hönd líksins.

Málinu var skotið til sýslumanns, Sigurðar Ólafssonar (föður Jóns skrifstofustjóra alþingis), sem úrskurðaði, að það stoðaði lítið, að ummæli prestsins væru gerð dauð og ómerk, því að Eyjólfur væri dauður. – Rannveig sætti sig við úrskurðinn.

„Þetta er vandasamasta þjófnaðarmál, sem eg hef dæmt í um æfina,“ sagði Sigurður sýslumaður. „Ég átti að dæma um, hvort stolið hefði verið hlut, sem aldrei var til – mannorðinu af Eyjólfi ljóstoll.“

 

 

 

 

Maður er nú orðinn svo gamall, að maður kippir sér ekki upp við það, þó að vaðið sé yfir mann. Við endurprentun á veggmyndinni Flóra Íslands, sem var gefin út af Hinu Ísl. náttúrufræðifélagi með styrk frá Ferðamálaráði 1985, var sagt í kynningu, „að við val á tegundum og uppröðun á myndflötinn naut Eggert aðstoðar náttúrufræðinga, þar á meðal formanns H.Í.N., Ágústs H. Bjarnasonar grasafræðings;“ og að „Ágústi var falið að hafa samband við Eggert um gerð veggspjaldsins ….“

Eg taldi rétt að leiðrétta þetta, því að það kom enginn annar að því að velja tegundir og flokka þær en eg einn, auk þess sem eg sá um að fjármagna verkið. Stjórn félagsins var heldur ekkert hrifin af þessu framtaki, því að hún taldi þetta of áhættusamt, að okkur Axel Kaaber frátöldum.

Leiðréttingin hefur nú verið tekin til greina, en þá er svo rækilega strikað yfir nafn mitt, að þess er að engu getið hver átti hugmyndina, sá um fjármögnun, valdi tegundir, flokkaði þær og fékk Eggert Pétursson til þess að taka verkið að sér.

 

Sjá Náttúruminjasafn: http://nmsi.is/

Þetta kemur mér svo sem ekkert á óvart. Þegar Crymogaea gaf út viðhafnarútgáfu af myndum Eggerts í Flóru Íslands, var lengst af aldrei getið um, að eg væri höfundur textans. Ekki er þetta nein nýlunda, því að alls staðar þar sem Náttúrufræðistofnun hefur birt lista yfir íslenzkar flórur er bókar minnar Íslensk flóra með litmyndum hvergi getið. Til dæmis í almenna hlutanum (vol. 6) í hinu viðamikla verki Flora Nordica 2004, eru taldar allar íslenzkar flórubækur nema mín, sömu sögu er að segja á vefnum plantaeuropa.org og í skrá, sem norræna ráðherranefndin lét gera yfir öll gróðurfélög á Norðurlöndum er hvergi minnzt á gróðurfélög, sem eg hef lýst.

Svo aftur sé vikið að veggmyndinni, þykir mér óprýði að hafa ensk nöfn á plöntum. Um þetta var mikið rætt á sínum tíma, en þau eru allsendis óþörf, því að latnesku heitin segja allt sem segja þarf. Í annan stað þykir mér miður, að gefa veggmyndina út í samstarfi við fyrirtæki, sem hefur það eitt að leiðarljósi að græða vel á myndinni. Það var nú eitt af höfuðmarkmiðum að félagið nyti góðs af allri sölu.

 

 

 

 

Göfugt ráð:

Í bæklingnum Leiðarvísir í ástamálum I karlmenn eftir Ingimund Sigurðsson (Nýja bókafjelagið 1922) er mælt með íþróttaiðkun til að herða líkamann, sem muni vekja eftirtekt kvenna.

Þó er sérlega varað við knattsparkinu, þar sem menn verða svo einhliða, að þeir geti um lítið annað talað. Frekar er þar mælt með glímu, sundi og leikfimi.

 

 

 

Baldur Jónsson (1923-1994), barnalæknir, gegndi stöðu héraðslæknis á Þórshöfn á Langanesi 1953 til 1957. – Þá var Þórður Oddgeirsson (1883-1966) prestur í Sauðanesi til 1955.

»Við erum akademikerar og eigum að þúast, Baldur minn, en svo látum við pupulinn þéra okkur,« sagði prestur.

 

 

 

Þórður Benjamínsson hét maður, sem bjó hér á Víkingavatni í tíð tengdaforeldra minna. Hann hafði eitt herbergi til umráða í kjallara. Þórður reisti sér fjárhús, Þórðarkofa, sem stendur enn í túni og ræktaði þar fjárstofn sinn, aðallega forystufé, enda var hann betri af fé en flestir aðrir.

Eitt sinn var hann að ganga við fé og lenti þá ofan í kíl, svo að hann rennblotnaði. Þegar hann kom heim illa til reika, spurði Guðrún húsfreyja, hvers vegna hann hefði álpast ofan í kílinn.

„Það stóð nú bara þannig á spori, Guðrún mín,“ svaraði Þórður.

 

 

 

Í sveitarfélagi nokkru var fenginn maður til þess að teikna hringsjá á stað, þar sem útsjón er mikil. Sést vítt um allar koppagrundir, suður til Herðubreiðar, langt í austur og enn lengra í norður, og mörgum örnefnum var raðað niður á skífuna.

Undir lok vinnunnar varð mönnum ljóst, að mikil eyða var í vesturátt, en þar fer mest fyrir lágum fjallgarði. Brugðu menn þá á það ráð að leita til bónda nokkurs á næsta bæ við sjónarhólinn og spyrja, hvort hann gæti ekki komið með nokkur örnefni til að fylla eyður á hringsjánni.

Bóndi brást vel við þessari málaleitan og sagði, að þarna skammt í vesturátt væri lítið fjall, sem hann kallaði Jarpkollupollafjall.

Enginn viðstaddra kannaðist við þetta nafn né gat skýrt merkingu þess, en nafnið féll vel inn í eyðuna á skífunni og var því greypt í hana.

 

 

 

Guðmundur Andri Thorsson skrifar á fésbók sína „Vörpulegt dýr er veggjalús“, orti Jón Helgason.

Þetta minnir mig á sögu, sem Hafnarstúdent sagði mér fyrir æði löngu um tildrög þessa. – Í herbergi stúdents nokkurs kom upp veggjalúsafaraldur. Hann sópaði þeim alla jafna út um gluggann. Lýsnar tóku sig til og skriðu yfir götuna og upp og inn um gluggann hjá öðrum íslenzkum stúdent (síðar þekktum verkfræðingi). En á leiðinni yfir götuna lentu lýsnar undir sporvagni, svo að vinurinn fékk flatlús.

 

 

 

Í 3. bekk í MR var Heimir heitinn Þorleifsson að ræða um Þórsnesþing. Hann sagði frá því, að þar var barizt vegna deilu um, hvar þingmenn skyldu ganga örna sinna, og urðu menn að fara annað til þess að saurga ekki þingstaðinn.

 

„Vitið þið, drengir, hvað sá staður heitir,“ spurði Heimir..

 

Þá gall í Jónasi Tómassyni: „Stykkishólmur.“

 

Aldrei þessu vant færðust brosviprur yfir andlit Heimis og hann sagði: „Nei, þetta er ekki rétt, Jónas. Dritsker heitir staður sá.“

 

 

 

„Þessi andskoti dugir ekki lengur, merin skítur í ljána,“ sagði góðbóndi austanfjalls, þegar honum varð litið út um gluggann í miðjum sunnudags-húslestrinum einhvern tíma á túnaslætti.

Nú er sumarið liðlega hálfnað.

 

 

KLÓKIR KARLAR

„Það er engin hætta á ofbeit á Íslandi. Þegar dilkarnir færu að léttast hjá bændum myndu þeir fækka fénu, til að dilkarnir yrðu nógu vænir að nýju. Þess vegna lagast ásetningin af sjálfu sér.“

Ofangreind ummæli voru viðtekin skoðun forsvarsmanna bænda á fyrri hluta síðustu aldar.

 

 

 

 

 

Í dag, 30. júní, minnumst við þess, að 100 ár eru liðin frá fæðingu tengdaföður míns, Sveins Björnssonar, bónda á Víkingavatni í Kelduhverfi.

Sveinn tók við búi af föður sínum 15 ára að aldri og bjó í 50 ár; að hluta til nýtti hann þó jörðina 19 árum lengur. Hin síðari ár fékkst hann aðallega við að kljúfa reka og átti ríflega þúsund staura, þegar hann lézt, 16. desember 2000.

Sveinn var mikill búhöldur og sannur drengskaparmaður, sem ólst upp í þingeyskri hugsjónaglóð nýrrar aldar. Hann var sómi sinnar stéttar en framar öllu traustur eiginmaður, góðsamur faðir og göfuglyndur öllu venzlafólki sínu.

Lesa má um Svein hér:

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/581915/

http://www.ismus.is/i/person/id-1001196

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/423223/

 

 

 

Áttræður í dag:

 

Helgi Hallgrímsson

Lagarási 2

700 – Egilsstöðum

 

Kæri vinur. Á merkum tímamótum árnum við þér allra heilla.

 

Enginn fæðist eins og þú

í öllum landsins hreppum,

með hugsunarsamt heilabú

og hóflegt vit á sveppum.

 

Sólveig A. Sveinsdóttir

Ágúst H. Bjarnason

 

 

 

Á unglingsárum var eg oft í girðingarvinnu hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Stærsta verkefnið var girðingin á Mógilsá, en iðulega vorum við að girða í kringum sumarbústaðalönd í nágrenni bæjarins. Verkstjóri var Reynir A. Sveinsson (1916-1995), sem síðar varð eftirlitsmaður á Heiðmörk. Reynir var einstakur öðlingur og með lagni sinni fékk hann okkur til að þræla liðlangan daginn og hvergi hlífði hann sér sjálfum. Öllum þótti vænt um Reyni.

Reynir lagði mikla áherzlu á vönduð vinnubrögð. Hornstaurar voru gerðir eftir kúnstarinnar reglum, vír strengdur hæfilega, sig máttu ekki vera of kröpp og alls ekki var sama, hvernig vír og vírnet voru splæst saman. – Mér til gamans hef eg nú litið á þessar girðingar, rúmri hálfri öld síðar, þegar eg hef átt leið þar um. Í dag skoðaði eg eina slíka girðingu. Handbragð Reynis leyndist ekki.

Þegar við vorum að girða þarna, var virtur lögfræðingur að girða skammt frá. Reynir reyndi að segja honum til, en hann tók engum leiðbeiningum. Hornstaurar lögfræðingsins hafa gefið sig.

 

 

 

Úr Haukadal

Á árunum frá um 1948 fram til um 1970 dvaldi eg oft og tíðum með foreldrum og systkinum austur í Haukadal í Biskupstungum. Þar hafði fjölskyldan afnot af „rauða kofanum“, vistlegu sumarhúsi í eigu Skógræktar ríkisins, sem var þiljað innan með dökkum baðstofupanel og hitað með sjálfrennandi hveravatni. Við systkinin eigum margar góðar minningar frá veru okkar þar.

 

„Rauði kofinn“ stóð á nafnlausri hæð rúma 200 m neðan við kirkjuna, norðan við lægð, sem nefnist Sældarskora. Þar kemur upp heitt vatn á nokkrum stöðum neðst í lægðinni, sem rennur síðan í litlum læk og hverfur út í mýrlendi sunnan við Kúahól.

 

Við eina uppsprettuna hefur verið grafið og komið fyrir veglegri hleðslu. Sumir vilja meina, að þetta sé Marteinslaug. Í minni tíð þarna var uppsprettan oftast kölluð Kúalaug, enda er Kúahóll skammt austur undan. Það eitt veit eg, að Sigurður Greipsson gróf þarna og kom hleðslunum fyrir, og fóru þeir þar í bað, faðir minn og hann. Hvort Sigurður byggði laugina frá grunni eða lagfærði gamlar hleðslur, veit eg hins vegar ekki; tel hið síðara þó miklu sennilegra.

 

Á bökkum Kaldalækjar er hins vegar sjóðandi heitur hver, Marteinshver. Byggt var yfir hann gufubað, sem þótti heilsusamlegt þá, en óvíst er, hvort það geti talizt hollt að anda að sér uppleystum efnum í gufunni. Kartöflur voru oft soðnar í hvernum. (Á myndinni sést hverahrúðurssteinn, sem nú hefur verið fluttur að Marteinslaug. Vonandi verður honum skilað hið fyrsta.)

 

Eitt er mér minnisstætt, sem Sigurður Greipsson sagði mér oftar en einu sinni. Það var í Sældarskoru, þar sem Ari fróði Þorgilsson sat og skrifaði Íslendingabók, og hafði Sigurður það eftir forfeðrum sínum. – Nú er það vitað, að Ari fróði dvaldi frá sjö ára aldri í fjórtán ár í Haukadal. Íslendingabók reit hann ekki fyrr en tæplega sextugur (eftir 1122). Sé þessi arfsögn sönn (ekki sannari, því annaðhvort eru hlutir sannir eða ósannir), hefur Ari fróði leitað heim í Haukadal „á gamals aldri“ eftir að prestsstörfum lauk. Ekki er það ‘ósannara’ en annað.

 

ÁHB / 28. maí 2015

 

 

 

Einn þingmaður (Ásmundur Daði) ældi víst yfir all tog alla:

Þingmennska er stíf og ströng

og starfi ekki lokið,

þótt vín og önnur veizluföng

velli upp um kokið.

 

 

 

Í kennslubók frá 1967 stendur:

 

„Til þess að brjóta saman dúka þarf tvo.“

Spyrja má, hvað gerir maður, ef maður á bara einn dúk.

(Heimild: Vilborg Björnsdóttir og Þorgerður Þorgeirsdóttir: Unga stúlkan og eldhússtörfin 1967.)

 

 

 

Netlusúpa:

1 l vatn

2-3 l af nýtíndri nettlu

Salt

1 matskeið smjör

3 matskeiðar hveiti

2 súputeningar (grænmetis- eða hæns)

1 dl rjómi

Graslaukur mulinn (2-4 matskeiðar)

Harðsoðin egg

4 matskeiðar þurru sherrýi

 

Skolið netlu í volgu vatni, notið helzt sem mest af blöðum og fínum stönglum.

Setjið nettlu í ½ lítra af sjóðandi vatni, saltið lítillega og látið sjóða áfram í minnst 5 mín.

Hellið vatni af og geymið (netlusoð). Saxið netlu í smáa bita.

Bræðið saman smjör og mjöl í potti og þynnið smám saman með netlusoðinu. Setjið þá súputeninga út í og þynnið nú með ½ l af vatni. Sjóðið í fáeinar mínútur og bætið síðan saxaðri netlu og rjóma út í.

Bragðbætið súpu með salti eftir smekk og ef til vill með þurru sherrýi (4-6 matskeiðar).

 

Berið súpu fram nýsoðna með hálfu harðsoðnu eggi og sáldrið graslauki yfir. Gott brauð með smjöri er einnig tilvalið.

 

 

 

Símtal við Þjóðminjasafn:

Fyrir nokkrum árum var eg að kynna mér brenninetlu (Urtica dioica L.), útbreiðslu hennar, notkun og náttúru. (Því miður hef eg ekki lokið enn við það verk; en það er önnur saga.) Meðal annars vissi eg um dúka og klæði, sem voru ofin úr netlu-þráðum, eins og algengt var annars staðar í Evrópu og er reyndar farið að tíðka víða að nýju.

 

Mér datt þá í hug að hringja í Þjóðminjasafnið og spyrja, hvort netludúkar hefðu fundizt við uppgröft á Íslandi. Kvenmaður svaraði, og eg bar upp erindið. „Andartak,“ anzaði hún. Þá heyrði eg hana kalla: „Margrét, hafa fundizt netludúkar við uppgröft?“ – „Hver er að spyrja um það,“ heyrði eg úr fjarska. „Það er einhver kall,“ svaraði símadaman. Síðan hljómaði hátt eftir örstutta bið: „Segðu nei.“

 

Konan sneri sér síðan aftur að símtólinu og sagði við mig mjög háttprúð í tali: „Nei, því miður, þeir hafa aldrei fundizt, því miður.“ – Og þar með þakkaði eg fyrir og kvaddi.

 

 

„Mikið fjári er hann svalur núna.“

„Já, drengur minn, það gerir kuldinn,“ svaraði Þorgeir í Gufunesi.

 

 

 

Hér á fyrri tíð var bráðapest í sauðfé skæð á haustin og fram eftir vetri og hjó feikna skörð í fjárstofn bænda. Sumum bændum tókst þó að verjast betur en öðrum og þóttust þeir hafa tekið eftir því, að samband var á milli veðurfars og pestartilfella. Sumir hýstu fé fyrr en aðrir að hausti og háruðu því áður en hleypt var út á hélaða jörð til þess að koma í veg fyrir sjúkdóminn.

 

Síðar varð ljóst, að bráðapest er bráðdrepandi bakteríu-sjúkdómur og hefur verið þekktur hérlendis frá því snemma á 18. öld. Snemma á síðustu öld tókst að framleiða bóluefni gegn bráðapestinni og gott, ef ekki var lögskipuð bólusetning á sauðfé við bráðapest.

 

Sumum bændum þótti það að vísu mjög óviturleg ráðstöfun, því að þá varð þurrð á pestarkjöti um allt Ísland, en það þótti ýmsum stórbændum gómsætasti matur ársins. Einn ríkasti bóndi á Suðurlandi smjattaði alltaf, þegar hann hafði lokið pestarkjöts-askinum og sagði:

 

„Gott var nú þetta. Vonandi bregst það ekki að ári. Það er munur á að éta pestarket á haustin en horket á vorin.“

 

 

 

Til vinkonu, sem er vel í skinn komið (í gamni):

 

Þú ert yndi’ á alla lund,

eg enga betri þekki:

Þú hefur vaxtað vel þitt pund,

vigtin lýgur ekki.

 

 

 

Þykktin á ísnum í morgun á að jafngilda þykkt rjómans í mjólkurtrogunum í sumar.

 

Því þykkari þeim mun betra tíðarfar fyrir búpening; vonandi mannfólkið líka. Sums staðar var rjóminn svo þykkur, að hann hélt skaflajárnum.

 

Þegar farið var að selja rjómann, drukku heimilismenn undanrennuna. Þá urðu menn óhraustir og fengu berkla og aðrar meinsemdir.

 

Gleðilegt sumar.

 

 

 

Í huga mínum er ekkert, sem heitir „fjölmenning“. Hér á landi er íslenzk menning og hún hefur í aldanna rás orðið fyrir margskyns áhrifum og tekið ýmsum breytingum; sumar eru þekktar en sjálfsagt aðrar óþekktar.

Undanfarin ár hafa hópar fólks flutt hingað til lands. Margir hafa ólíka siði og venjur, sem þeir vilja ef til vill halda í heiðri. Þeir eiga sína menningu.

 

Vissulega getur svo farið, að þessir hópar komi til með að hafa djúpstæð áhrif á íslenzka menningu. Eg held, við fáum litlu um það ráðið. En íslenzk menning verður ekki að „fjölmenningu“ fyrir það eitt að breytast í tímans rás.

 

Síðan má velta fyrir sér hvað er „íslenzk menning“. Út í þá sálma hætti eg mér ekki.

 

 

 

Lýst eftir draugi

 

Einn ríkasti bóndi austur í sveitum sveik jafnan undan tíund. Einu sinni taldi hann fram 11 kýr en átti 15.

Sveitungar hans tóku sig saman eitt sinn og gerðu út draug, sem var kenndur við Hellnatún, og hann drap fjórar beljur bóndans til þess „að leiðrétta hjá honum tíundina“.

 

Bóndi undi þessu illa og stefndi draugnum. Þetta var um þær mundir, sem spiritisminn var í mestum blóma á Íslandi.

 

Draugurinn mætti hvorki fyrir sáttanefnd né sýslumanni, en var dæmdur í 12 ára fangelsi af forkólfum spiritista, þeim Haraldi Níelssyni og Indriða miðli Einarssyni, en mun hafa drepizt áður en refsivistinni lauk.

 

Fróðlegt væri að fá ítarlegri fréttir af draugi þessum, ef einhver kann frá að segja, sem les þessar línur.

 

 

SÚPUBÍLLINN

Á árum áður var eg á stundum settur í það að keyra túristum hringinn í kringum landið, 40 til 50 manns. Þá var gist á hótelum, oftast Eddu-hótelum. – Það var sama hvar maður kom, alltaf var óbreytt „súpa dagsins“ á boðstólum. Eg fór þá að trúa á „súpubílinn“, stóran tankbíl sem æki hringinn og sprautaði sömu súpunni inn á hvert hótel.

Einu sinni tókst mér að komast fram úr ökutæki, sem eg trúði að væri „súpubíllinn“ og fékk þá staðfestingu á tilvist hans; um kvöldið var boðið upp á sveppasúpu.

 

 

 

SIGRÚN MAGNÚSDÓTTIR VILDI ÞÝÐA EVRÓPSKAR REGLUR Á MILDAN HÁTT:

 

Lævís evrópsk löggjöfin

litlum veldur kvíða,

ef Höllustaða húsprýðin

hana fær að þýða.

 

 

 

ÓLÍK AFSTAÐA

 

Í könnun sem Viðskiptaráð lét fram­kvæma í aðdrag­anda Viðskiptaþings kom fram að margir Íslendingar vilji mikið fyrir lítið, segir í frétt á MBL.IS

Eyjólfur í Hvammi á Landi sagði hins vegar: Maður á alltaf að reyna að fá lítið fyrir ekki neitt.

 

 

 

Hinn 15. marz 1954 flutti sandgræðslustjóri, Páll Sveinsson, erindi í útvarpi. Þar sagði hann meðal annars:

„Með ræktun sandanna kemur árangurinn í ljós á 2-3 mánuðum eins og til dæmis með túnræktinni á söndunum í Gunnarsholti. Það er ekki að undra þótt ýmsir beri með alvöru saman við árangur við ræktun nytjaskóga, þar sem árangri er lofað eftir 100 ár, enda ekki þess að vænta, að hann komi fyrr í ljós.“

 

 

Rétt fyrir miðja síðustu öld dó mektarbóndi austur í sveitum úr taugaveiki.

Það þótti konu hans „simpill dauðdagi“. – „Það dóu tveir sveitarómagar úr henni í fyrra,“ dæsti frúin.

 

 

 

HAUSAVÍXL

»Mér þykir mjög vænt um hvað dæturnar yðar eru lauslátar,« sagði Amalia Brown Oliver Sigurðsson, kona Ásgeirs konsúls Sigurðssonar, þegar hún ætlaði að skjalla landshöfðingjafrúna.

En hún er ekki sú eina, sem hefur haft hausavíxl á orðunum látlaus og lauslát.

 

 

 

Að gamni mínu fór eg yfir „vinalista“ minn á fasbók og flokkaði (árátta „systematikera“). Flokkunin er ekki algild, því að nokkrir geta fallið í tvo (jafnvel þrjá) flokka. – Engu að síður, hér er niðurstaðan:

 

 1. a) 26,5% Fólk, sem eg hef aldrei átt samskipti við svo að eg muni, en kannast við flest af afspurn, þó ekki allt.
 2. b) 25,4% Fólk, sem eg lít á sem kunningja, heilsa því og ræði við það, ef eg átta mig á því.
 3. c) 18,4% Skyldfólk og makar þess.
 4. d) 15,6% Fólk, sem eg tel til vinahóps.
 5. e) 8,1% Fyrrverandi samstarfsfólk.
 6. f) 3,8% Gamlir nemendur mínir.
 7. g) 2,2% Fyrrum skólafélagar.

 

 

Eg man það, að ekki voru allir sjálfstæðismenn ánægðir með þessi orð Péturs Ottesens í Mbl. á útfarardegi Ólafs Thors 5. janúar 1965:

»Kona hans, Ingibjörg Thors, …, er mikil mannkostakona og góðum gáfum gædd. Bar hún með manni sínum hita og þunga starfsins í daglegri önn, og kunni Ólafur Thors sjálfur bezt að meta það athvarf sem honum var jafnan búið í skauti hennar.«

 

 

 

Í MEÐFERÐ

Nú eru ýmsir menn að fara í meðferð, og er allt gott um það að segja. Samkvæmt skráðum heimildum hefur það verið Bólu-Hjálmar, sem fyrstur fór í slíka meðhöndlun á kostnað síns sveitarfélags eftir því sem kemur fram í eftirfarandi ljóðlínum:

»Haf þú nú, Akrahreppur grey,

heila þökk fyrir meðferðina.«

 

 

GOTT RÁÐ

Alúðleg eiginkona bað mig vinsamlega að skreppa í Bónus og kaupa nú eitthvað heilsusamlegt fæði handa okkur. Eg er nú ekki beint leikinn í þessum fræðum og vissi ekkert, hvað kaupa skyldi.

Oft er það nú samt þannig, að í mestu basli er björgin næst. Þá er eg kom í búðina tók eg fljótlega eftir miðaldra, spengilegri konu, sem gekk á röðina í grænmetisklefanum og raðaði heilsufæði í körfuna að því eg bezt fékk séð. Eg tók mér því stöðu fyrir aftan hana og raðaði nákvæmlega því sama í körfuna mína.

 

Síðan fór eg nokkuð fast á eftir henni fram í búðina og tíndi upp hið sama, þar til eg taldi nóg komið.

 

Það þarf ekki að því spyrja; eg hef aldrei komið heim með hollara matarkyns. Konan hæstánægð. – Einföld aðferð.

 

 

ÞAKKIR FYRIR HEILLAÓSKIR:

Ellimerkin engir sjá

á mér – bara hinum.

Þó komu margar kveðjur frá

kærleiksríkum vinum.

 

Þakkir mönnum þarf að tjá

-það í fáum línum:

Afbragð kenna ylinn frá

öllum vinum sínum.

 

 

 

 

Áfengisvarnarnefnd í Þverárhlíðarhreppi

Gústaf A. Jónasson frá Sólheimatungu, ráðuneytisstjóri í dómsmálaráðuneytinu, skipaði Davíð Þorsteinssyni á Arnbjargarlæk að tilnefna tvo menn í áfengisvarnarnefnd Þverárhlíðarhrepps, en sjálfur hafði hann skipað formanninn Þórð á Högnastöðum, sem lézt skyndilega.

 

Davíð skrifaði um hæl og tilnefndi þá Runólf í Norðtungu og Eggert í Kvíum í nefnd með Þórði.

 

Fékk hann brátt heldur ónotalegt bréf frá ráðuneytinu, því að þeir Runólfur og Eggert voru báðir dauðir.

 

Davíð svaraði um hæl og spurði, hvort nefndin ætti ekki að halda fundi eins og aðrar nefndir gerðu oftast. Nú væri Þórður dauður fyrir allnokkru, og „ég vildi umfram allt, að nefndin yrði fundarfær og tilnefndi því þessa tvo látnu heiðursmenn,” sagði Davíð á Arnbjargarlæk.

 

 

FÁLKAORÐA

Nú er mikið rætt um fálkaorðu. Eitt sinn renndi eg í gegnum alla lista yfir orðuhafa og þá kom upp nafn á tveimur alnöfnum, sem báðir fengu kross með stuttu millibili. Hinn seinni var þekktur af störfum sínum, en mér hefur ekki tekizt að grafa upp hver hinn fyrri var. Nú hef eg það fyrir satt, að þarna hafði embætti forsetans orðið á mistök og sent bréf á rangt heimilsfang. Það uppgötvaðist ekki fyrr en um seinan og var sú ákvörðun tekin, að leyfa honum að halda sínum krossi.

 1. jan. 1961: Gísli Þórðarson, bóndi; fyrir búnaðar- og félagsstörf; riddarakross.
 2. júní 1962: Gísli Þórðarson, bóndi og hreppstjóri; fyrir búnaðar- og félagsmálastörf,; riddarakross

 

 

 

Kæri fésbókarvinur.

Hér kemur jólakveðja frá mér:

 

Eg sendi þér kærar kveðjur um jól

með kurteisi, virkt og hlýju.

Hvað svo sem biskup bullar af stól

hljót‘ blessun á ári nýju.

 

ÁHB / 20. desember 2014

 

 

HLÉ

Þá er eg búinn að færa mér heim sanninn um það, að það er alveg hægt að lifa ágætis lífi án fésbókar. Eg fann ekki fyrir djúpum söknuði, þegar eg tók mér pásu hinn 17. október s.l. Samt er eg kominn hér aftur, að minnsta kosti um tíma.

Eg stóð í þeirri trú, að fésbókin væri tímaþjófur, en samt hefur ekki orðið mikið úr verki, svo að satt reynist, að »viljinn nægir lítið, ef verkið er ekki með«. Set þó hér inn það, sem birzt hefur frá 17. október á ahb.is:

Hálfrefir – Dichodontium – glætumosar – Dicranella – rindilmosar – Slegið á hungurtilfinningu – Ljós fita verður að brúnni – Hvers vegna þolir maðurinn áfengi? – Ætt Dicranaceae sensu lato – Kiaeria – hnúskmosar – Verkjalyfið tramadol – Arctoa – totamosar – Stríðinu við bakteríur er hvergi nærri lokið – Mengun í andrúmslofti – Orð í tíma töluð – Einskisverðir ritdómar – Öll prótín í mannslíkama. Einstök uppgötvun – Laktósi og laktósaóþol – Er mjólk óholl? Rannsókn bendir til þess – Styttan af Einari Benediktssyni – Póstur – Kettir fyrir bjór – Hedwigia – brámosar

 

 

 

Nú er runninn upp tími »jólabókanna«. Þar kennir ýmissa grasa, þunnildis sem þykkildis, og eg velti því fyrir mér, hvort aðferðarfræði Gunnars í Ísafold og síðar Leiftri Einarssonar við að meta bækur sé enn í fullu gildi. Hann vó þær í hægri hendi, sveiflaði þeim upp og niður tvisvar sinnum til að finna þungann og verðsetti þær. Honum fénaðist vel.

 

 

 

Hér með tilkynnist vinum og vandamönnum, að eg undirritaður hverf af fésbók frá og með miðnætti 17. október að minnsta kosti fram að 20. desember.

 

Eg mun þó ef til vill halda áfram að setja eitthvað inn á ahb.is öðru hverju úr heimi grasafræðinnar.

Fyrir þessu er engin ein ástæða; það er gott að hvíla sig og aðra.

ÁHB (agusthbj við gmail.com)

 

P.s. Ef forvitnin er alveg að drepa mig, kíki eg kannski inn að nóttu, en svara engu og sendi ekkert. Frí er frí.

 

 

Afskaplega er gott að leggjast upp á sófa á miðjum degi og hvíla sig á iðjuleysinu.

 

 

 

 

MEIRA AF SÝSLUMÖNNUM

Þegar Einar Benediktsson gerðist sýslumaður lifnaði yfir öllum mannskapnum í Rangárþingi, enda gerðust þar áður fá tíðindi, utan lausaleiksbarneignir og smáþjófnaðir. Einar kunni ekki við að láta vera tíðindalaust í kringum sig. Fyrsta veturinn bjó hann í þinghúsinu á Stórólfshvoli, sem var 3×6 m á stærð og hólfað í tvennt. Dyrnar voru svo þröngar, að Vala sýslumannsfrú varð að smokra sér gegnum þær, enda var hún bæði gild að vaxtarlagi og svo gekk hún með Benedikt Örn í neðri maganum.

 

Einar sinnti aldrei sýslumannsstörfum að neinu marki, en lét sér nægja að koma á manntalsþingin á vorin og hneykslaði þá jafnan söfnuðinn með því að stinga þinggjöldunum í buxnavasa sinn.

 

Einar keypti Stóra-Hof fyrir 2800 krónur af ekkjunni Styrgerði „til þess að virða arfleif’ Marðar Valgarðssonar. – „Hann var slyngur lögfræðingur eins og eg – en sá var munurinn á okkur, að hann var lygari og rógberi, en ég segi alltaf satt og er þó skáld samt.”

 

 

 

SVONA EIGA SÝSLUMENN AÐ VERA

Sigurður sýslumaður Skagfirðinga, Sigurðsson frá Vigur (1887-1963) sektaði sjálfan sig fyrir að fara með rollu á vörubíl heim að Réttarholti til að fá úr skorið um markið, en gáði ekki að því, að hann fór yfir aðalvarnarlínu landsins með saklausa kind en fyrir það voru stórar refsingar, fjárútlát eða fangelsi.

 

Nú, rollugreyið var aldrei tekin af bílpallinum og því slapp sýslumaður við minnstu sekt hjá sjálfum sér, eftir nákvæma lýsingu á öllu ferðalaginu.

 

Dómsmálaráðuneytið sá ekki ástæðu til að áfrýja til hæstaréttar.

 

 

 

Sonardóttirin, Sólveig Freyja, var hnuggin yfir því að missa fyrstu barnatennurnar.

Afinn reyndi að hugga hana með þessari hnoðstöku:

 

Hvorki stoðar vol né vein,

þér verður bættur skaðinn.

Þótt tennur hverfi, ein og ein,

aðrar koma‘ í staðinn.

 

 

Margir, sem um Kelduhverfi aka, hafa hrifizt af reyniviðarhríslunni framan við húsið og ofan á þakinu í Kílakoti. Myndir af viðnum hafa birzt í blöðum um allan heim. Bærinn hefur verið í eyði frá 1965/66.

Nú er unnið í því að gera húsið upp, eins og sést á meðfylgjandi mynd. Létta þurfti allmikið á trénu og óvíst, hvort það þolir slíka skerðingu. Nokkur feyskja er komin í stofnana, einkum einn þeirra.

Húsið var byggt 1932 og er reynirinn litlu yngri, sennilega um áttrætt.

 

 

 

Árið 1964 var eg staddur á Klambratúni, þegar styttan af Einari Benediktssyni var afhjúpuð. Eg heyrði þá, þegar Örlygur Sigurðsson vék sér að Ásmundi Sveinssyni og sagði við hann eitthvað í þeim dúr, að nú dytti umferðarhraði niður á Miklubraut, því að allir héldu, að Einar væri umferðarlögregluþjónn, þar sem hann blasti við sjónum manna.

 

Þá sagði Ásmundur af sinni alkunnu hógværð: Það verður nú ekki lengi, því að þeir hafa lofað mér að planta trjám meðfram Miklubraut.

 

Eg man, að mér þóttu þetta eftirtektarverð orð, því að eg var ekki vanur að heyra, að menn hefðu svo mikla trú á trjárækt.

 

Það má svo fljóta hér með, að lögreglan stóð heiðursvörð, þegar forseti, Ásgeir Ásgeirsson, gekk að styttu eftir nýlagðri hellulögn. Skyndilega stökk einn lögregluþjónnin út úr röðinni og heilsaði Geira með handabandi og hvíslaði einhverju í eyra hans skjælbrosandi. Það var sjálfur yfirlögregluþjónninn Erlingur Pálsson, en þeir voru víst gamlir félagar. Við þetta riðlaðist heiðursvörðurinn.

 

 

Margir, sem ganga til berja, taka eftir sérkennilegum roða á bláberjalyngi. Þetta er sníkjusveppur á árssprotum og veldur líka ofvexti, svo að blöðin verða oft stærri en vanalega.

Frá þessu svo og ýmsu öðru um sveppi, er sagt á ahb.is. Þar er fjallað almennt um svepparíkið.

Sjá: http://ahb.is/sveppir/

 

 

 

Í tímaritinu BioEssays birtist forvitnileg grein um svengd manna. Þar er því haldið fram, að bakteríur, sem lifa í meltingarfærum stjórni á vissan hátt, hvað það er, sem við borðum. Það eru fræðimenn við marga bandaríska háskóla, sem hafa tekið þátt í þessari rannsókn.

 

Í meltingarvegi lifa bakteríur, sem samtals vega um 1,5 kg og frumufjöldi þeirra er um 10 sinnum meiri en líkamsfrumurnar. Þarfir þessara baktería eru ærið misjafnar og ákveðið hlutfall ríkir á milli þeirra, að vísu nokkuð breytilegt eftir einstaklingum.

 

Nú er svo talið, að bakteríurnar geti á einhvern hátt sent frá sér boð, sem hafa áhrif á matarlystina. Þessi boð eru í formi efnasambanda, sem áreita taugakerfið. Sennilegast er, að efnin hafi áhrif á skreyjutaug (vagus-taug), sem sér fyrir líffærum bæði í brjóstholi og kviðarholi og tilheyrir ósjálfráða taugarkerfinu (sjálfvirkum taugabrautum). Taugin tengir milljónir taugafrumna við heila.

 

Með því a áreita skreyjutaug geta bakteríurnar valdið hungurtilfinningu eða þrá eftir vissum fæðuefnum og haft áhrif á hegðun manna í því efni. Meðal annars fá vissar sykursæknar bakteríur okkur til þess að innbyrða meiri sætindi en þörf er á.

 

En menn standa ekki alveg varnarlausir. Neiti menn sér um þá fæðu, sem líkaminn kallar á, fækkar þeirri tegund baktería og aðrar ná undirtökunum. Þar með breytist löngun manna í önnur næringarefni.

 

Þetta er gott að vita og látum ekki heilalausar lífverur stjórna áti okkar.

 

 

Þokkalegur morgunn hjá feðgum; þær urðu átta.

 

 

Jónas Hallgrímsson kallar þrenningarfjólu brekkusóley í Hulduljóðum. Blóðsóley hefur hún líka verið nefnd, en algengustu nöfnin eru þrílit fjóla og þrenningargras, -jurt og -fjóla.

Í gömlum ritum segir, að hnefafylli af ferskum blöðum soðin í mjólk og tekin inn kvölds og morgna eyði hrúðurkvilla í húð. Um þessar mundir fara fram miklar athuganir á lækningamætti fjólunnar og binda menn vonir við hana umfram það, sem áður var talið.

 

 

Ákvörðun dagskrárstjóra Ríkisútvarpsins að fella niður dagskrárliðina morgunbæn, morgunandakt og orð kvöldsins byggist á því að lítið er hlustað á þessa dagskrárliði.

Þess í stað ætla forráðamenn útvarpsins að senda prest, eða staðgengil hans, heim til þeirra örfáu, sem þess óska, til að lesa úr biblíunni. Við þetta sparast nokkrar milljónir.

 

 

Umræða um landgræðslumál hefur tekið umtalsverðum breytingum síðast liðna áratugi. Í fyrstu mótmæltu menn almennt, að uppblástur ætti sér stað á Íslandi og flestir töldu sauðfjárbeit vera gróðri til bóta. Á næsta stigi töldu „málsmetandi menn“, að unnt væri að bæta og styrkja gróður með því að dreifa áburði og sá dönskum túnvingli á afrétti og úthaga. Allir áttu að taka þátt í því og voru plastfötur með dágóðum skammti af hvoru tveggja til sölu á hverri benzínstöð, en á vegum ríkisins var flugvél send yfir landið..

 

Þá voru uppi ráðagerðir um að breyta öllu kvistlendi í landinu í graslendi með undrameðali, sem Ameríkanar notuðu til að eyða skógum í Vietnam. Efni þetta var síðar talið valda umtalsverðum hörmungum á fólki, en Íslendingar létu það ekki á sig fá. – Þá var til nokkuð, sem hét Náttúruverndarráð, sem lét sig þetta engu skipta.

 

Hér má lesa frétt, sem birtist í Tímanum 8. september 1974, skrifuð af Helga H. Jónssyni. Hún er dæmigerð fyrir umræðu á þessum tíma.

 

Sjá:

 

 

 

Fram til þessa hefur aðeins eitt efni verið á markaði til að halda mýflugum fjarri. Þetta virka efni heitir di-etyl-tolu-amíð (venjulega skammstafað DEET) og hefur verið í sölu frá 1957.

 

Efnið kemur í veg fyrir, að mýfluga finni lykt af svita manns. Ýmsir ókostir fylgja DEET; meðal annars þeir, að það virkar ertandi á suma og þá veldur það skaða í lífríkinu.

 

Erfitt hefur reynzt að staðsetja rétta lyktarnema í flugunum fyrr en nýverið í bananaflugum (Drosophila melanogaster). Nú vita menn, hvað gerist með flugunni, þegar hún verður fyrir DEET.

 

Á grundvelli þessarar vitneskju voru framleidd mörg efni, sem fæla fluguna frá. Nú hafa menn staldrað við þrjú efni, sem þar að auki koma fyrir í sumum plöntum og dýrum og eru þegar leyfð í matvöru í Bandaríkjunum.

 

Efni þessi munu ekki aðeins nýtast á bökkum laxveiðiáa, heldur einnig í baráttunni við skæða sjúkdóma, eins og malaríu og gulusótt.

 

Sjá frekar: Odour receptors and neurons for detecting DEET and new insect repellents _ Tímaritið Nature:

Odour receptors and neurons for detecting DEET

 

 

Nú á hásumri kvarta margir yfir mýflugum og biti þeirra. Þá er gott að vita, að mývargurinn er ekki bara á höttunum eftir blóði. Samkvæmt nýrri grein í „Journal of American Mosquito Control Association“ sækja þær miklu heldur í fólk, sem er undir áhrifum áfengis. Rannsóknir hafa leitt í ljós, að árásir flugna aukast verulega eftir að menn hafa drukkið aðeins „einn bjór“.

Enn sem komið er er ástæðan ókunn en sennilega liggja nokkrar ástæður að baki. Ef til vill stafar það af hærri líkamshita og aukinni brennslu (hærri styrk koldíoxíðs).

 

 

Þá er búið að hlaða 200 skot, stilla riffilinn (Brno 222) inn á 150 metra og æfa sig svolítið fyrir haustið. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið.

 

 

Löng-stutt-löng, ein löng, þrjár stuttar.

Tími sveitasímans er löngu liðinn. Hleranir halda samt áfram. Víða í sveitum voru margir bæir á sömu línunni og þá gátu menn „hlerað“ símtöl nágranna. Ef margir voru „á línunni“ heyrðist oft illa. Algengt var, að menn kölluðu: „Farið af línunni.“ Sumir voru iðnari en aðrir við að hlera og um það vissu menn. Eitt sinn var kallað: „Farðu af línunni, Jóa.“ Þá var svarað: „Bölvuð lygi, eg er ekki að hlusta.“

Eflaust kunna margir skemmtilegar sögur af sveitasíma.

 

 

 

Koma má í veg fyrir þriðja hvert tilfelli af Alzheimers-sjúkdómi með því að breyta nokkrum þáttum í lífi manna, eftir því sem fræðimenn við háskóla í Cambridge halda fram.

Eftirtalin sjö atriði ráða miklu um framgang sjúkdómsins fyrir utan aukna áhættu við að eldast:

Sykursýki

Hár blóðþrýstingur

Offita

Hreyfingarleysi

Depurð

Reykingar

Lítil menntun

 

Af þessum sjö atriðum er hreyfingarleysi verst og það getur að auki átt þátt í krabbameini og hjarta- og æðasjúkdómum. – Með því að minnka hvern áhættuþátt um 10%, er unnt að draga úr öldrunarsýki um þriðjung árið 2050.

Heimild: Tímaritið Lancet.

 

 

 

Innan fárra ára verður óþarft að bora í tennur. Brezkir vísindamenn hafa þróað tækni, sem fær tennurnar til þess að græða sig sjálfar séu þær beittar rafhöggum.

 

Nú er skemmd í tönn hreinsuð burtu með því að bora og holan síðan fyllt með sérstöku efni, eins og flestir þekkja af eigin raun. Margar fyllingar mistakast (jafnvel þriðja hver) og síðan vinnur tímans tönn á þeim sem öðru. Það þarf því oft að endurtaka leikinn.

 

Þessi nýja aðferð nefnist Electrically Accelerated og Enhanced Remineralisation (EAER), og sé henni beitt örvast flæði af kalsíum og fosfati til skemmdu tannarinnar. Aðferðin gagnast einnig vel til þess að gera tennur hvítar að nýju.

 

Gert er ráð fyrir að aðferðin verði komin í brúk innan þriggja ára.

 

Um þetta má lesa hér:

http://www.theguardian.com/…/fillings-dentists-tooth-decay-…

 

 

Eg man, að það þótti tíðindum sæta, þegar bærinn féllst á að steypa í kringum fjögur reynitré í miðri gangstétt fyrir utan Baugsveg 26 í Skerjafirði fyrir einum 50 árum. Í húsinu bjó Guðmundur Marteinsson, rafmagnsverkfræðingur og formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur. Lóðin var ekki skýrt afmörkuð fyrst í stað, og því hafði Guðmundur plantað eilítið út um víðan völl.

Guðmundur þurfti að standa í nokkru þrefi til þess að fá þetta samþykkt, en það tókst að lokum. Og enn standa þessi tré þarna til prýði og hafa bætt verulega við sig. Slíkt myndi ekki fást nú.

 

 

 

Í október 2004 fór fram atkvæðagreiðsla meðal landsmanna um svo kallað þjóðarblóm, ameríska hugmynd, sem skotið hefur rótum víða í öðrum heimsálfum. Í fyrstu voru 20 tegundir kynntar til sögunnar en síðan voru aðeins sjö, sem kosið var um. Kynning á tegundum var öll afskaplega lítilfjörleg og sums staðar röng. Meðal annars var sagt, að birki væri ýmist karl- eða kvenkynsplöntur. Í ráðgjafanefndinni voru enda engir náttúrufræðingar.

 

Fyrir valinu varð holtasóley (Dryas octopetala) en í öðru sæti gleym-mér-ei (Myosotis arvensis), en í blómi hennar eru fánalitir Svíþjóðar.

 

Svo vill til, að Samar höfðu fyrir löngu tekið holtasóley sem sitt þjóðarblóm og í Noregi hefur eitt fylki valið hana sem einkennisplöntu.

 

Þetta var því alls ekki gáfulegt að velja hana hér. Hefði eg fengið að ráða hefði eg valið klófífu sem einkennisplöntu fyrir Ísland.

 

Vissulega er holtasóley fögur planta og um margt mjög sérstök (meira um það seinna). Nú er hún komin í blóma, um það bil hálfum mánuði fyrr en venjulega. Blóm hennar eru eins og holspegill, sem safnar geislum sólar í einn depil í miðju blómi. Við það beinist hiti inn að frævu og nýtist til frekari vaxtar. Aukinn hiti í blómi verður til þess, að skordýr dvelja þar lengur en ella og atast því meir af frjódufti. Þannig nýtist hver gestur á blóminu betur til frævunar og vegur upp að skordýr eru færri hér en á suðlægari stöðum.

 

 

 

 

Í rúm 30 ár stóð eg þarna í stofu 9 í MS og kenndi verklega líffræði, ásamt samstarfsmönnum. Þeir, sem störfuðu með mér lengst, voru Skúli Þór Magnússon, Hákon Óskarsson og Kristinn Sigmundsson. Mér er óhætt að segja, að samstarf okkar var með ágætum.

 

Þegar við fluttum úr MT í MS, þurfti að láta smíða innréttingu í verklega stofu. Í öðrum skólum voru borð, sem hvorki var hægt að sitja við né standa. Eg teiknaði því sjálfur þessi borð og fékk trésmiðju Sindra til að smíða. Þar kynntist eg Ólafi Guðmundssyni, sem var öðlingur. Með þessu sparaði eg skólanum um þrjár milljónir að sögn Guðmundar Arnlaugssonar í MH.

 

Úr þessari stofu á eg aðeins ljúfar minningar, þó að mig gruni, að ekki allir nemendur, sem þarna glímdu við margvísleg verkefni, taki í sama streng. – Nú er verið að endurbyggja skólann og laga að kröfum tímans. Engu að síður er sárt að sjá, hvernig farið er með þessar mublur.

 

 

 

 

Það er margt, sem eg skil ekki í sambandi við túlkun manna á úrslitum kosninga. a) Dreg í efa, að (ungt) fólk hafi minni áhuga á þjóðfélagsmálum en áður; geta menn vitnað til athugana, sem styrkja það? b) Stefnumál flokka eru mjög keimlík; enginn flokkur, nema Framsókn (illu heilli), setti fram skorinorð baráttumál, sem draga menn á kjörstað. c) Frambjóðendur eru of einsleitur hópur, og margir hópar fólks finna ekkert sameiginlegt með þeim. d) Þegar kjörsókn er lítil, ættu niðurstöður að falla að skoðanakönnunum, en ekki öfugt. e) Sigurvegarar í síðustu kosningum ýmist hættu eða fóru í annan flokk; margir stuðningsmenn höfðu ekki áhuga á að fylgja þeim eftir; fólk verður ekki dregið á asnaeyrum á milli flokka.

 

Kosningavaka í sjónvarpi þótti mér afspyrnu léleg. Skýringar Boga og Ólafs voru grunnfærar, og þeir virtust þekkja lítið til á hinum smærri stöðum á landsbyggðinni. Þeirra tími er liðinn.

 

 

 

Eg komst ekki hjá því að heyra ýmislegt með og móti skógrækt á yngri árum. Sumt af því rifjast upp við ákveðin tilefni.

 1. a) Upp úr 1960 héldu ýmsir „málsmetandi menn“ því stíft fram, að um og eftir næstu aldamót yrði allt timbur verðlaust, því að margs konar gerviefni myndu koma í þess stað.
 2. b) Barrtré geta aldrei þrifizt á Íslandi, því að vetur eru of mildir.
 3. c) Íslenzkur jarðvegur er svo laus í sér (öskublandinn), að tré ná aldrei nægilegri rótfestu, heldur munu þau fjúka um koll í hvassviðrum.
 4. d) Ísland er fyrst og fremst grasræktarland.
 5. e) Tré, sem vaxa á Íslandi, geta aldrei orðið að nytjaviði (gagnviði), því að sumarhiti er ekki nægur.

 

Ef til vill minnist eg fleiri atriða seinna.

 

 

 

Eitt fæ eg aldrei skilið. Í hvert skipti, sem niðurstöður skoðanakannana eru birtar í Ríkisútvarpinu, eru fengnir stjórnmálafræðingar til þess að túlka útkomuna. Mér er spurn: Skilja fréttamenn ekki prósentureikning?

 

 

Það er alltaf eitthvað, sem kemur manni á óvart í náttúrunni, ekki sízt innan grasafræðinnar. Eitt hið markverðasta, og eg þarf að kynna mér nánar, er, planta, sem getur líkzt að minnsta kosti átta öðrum. Þetta er klifurplanta, Boquila trifoliata í Suður-Afríku. Hún vex upp eftir öðrum tegundum og taka blöð hennar á sig mynd þeirra, sem hún skríður eftir, sem geta verið einar átta tegundir. Enn sem komið er hefur engin viðhlítandi skýring fundizt á þessu einstæða fyrirbrigði.

Vissulega er hermilíking vel þekkt fyrirbæri, bæði meðal plantna og dýra, en aldrei áður hefur neitt líkt þessu komið fyrir sjónir manna áður.

Vonandi verður hægt að fjalla nánar um þetta á heimasíðu ahb.is, en þeim, sem vilja kynna sér þetta betur, er bent á slóðina https://whyevolutionistrue.wordpress.com/…/fantastic-and-p…/

 

 

Undanfarna tvo vetur hefur verið sagt frá því í fréttum, að snjóbrot hafi valdið miklum skaða í birkiskógum, einkum í Fnjóskadal. Ef eg man rétt, var mikið gert úr slíku snjóbroti austur á Héraði fyrir allnokkrum árum og talin mikil eyðilegging.

 

Í sumar sem leið fór eg um Fnjóskadal og leit þessar „skemmdir“ með eigin augum. Þegar eg fór að kynna mér þetta nánar, komst eg að því, að þetta er ekkert nýtt fyrirbrigði, heldur ofur eðlilegt á snjóþungum svæðum. Í annan stað þykist eg sjá það, að þetta snjóbrot á mikinn þátt í endurvexti og stuðlar að uppvexti stórra trjáa. Við brotið myndast skellur (gap) í skógarþykknið og ungir teinungar fá aukið ljós og rými.

Það er því engin tilviljun, að stærstu og fegurstu birkitrén er að finna á snjóþungum stöðum eins og í Fnjóskadal og á Héraði. Eru menn sammála þessu?

 

 

 

Ekki er ofsögum sagt af framsóknarmönnum, eins og komið hefur hér fram síðastliðnar vikur og mánuði. Þetta minnir mig á langt viðtal við Ólaf Jóhannesson í Tímanum, sennilega í janúar 1975. Þar sagði Ólafur (ólíó), að hann hafi aldrei verið laxveiðimaður, hestamaður eða kvennamaður, en svo bætti hann við: … »þó hefur ýmislegt á dagana drifið á langri leið«.

Aldrei kom þó fram í viðtalinu, hvað það hafi verið.

 

 

Í ár eru 70 ár frá því mynd þessi var tekin að afloknum fundi skógarvarða með skógræktarstjóra. Þá voru skógarverðir aðeins fjórir og eg er ekki viss, hvort nokkur annar hafi þá starfað á skrifstofunni í Rvík nema skógræktarstjóri einn, þó má það vera. Framlög til skógræktarmála þetta árið voru 268 þúsund krónur en tekjur 31 þúsund.

Á myndinni eru, talið frá vinstri: Fremri röð: Guttormur Pálsson (1884-1964), Hallormsstað, Hákon Bjarnason (1907-1989), Daniel Kristjánsson (1908-1982), Hreðavatni; aftari röð: Garðar Jónsson (1919-2003), Tumastöðum og Einar G. E. Sæmundsen (1917-1969), Vöglum. – Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá þessum tíma og talsverðar breytingar orðið.

 

 

 

Þessa dagana er að gefnu tilefni rætt um virðingu fyrir hinu og þessu og hvort vissu fólki sé sýnd nægileg virðing.

Í eina tíð stóð neðst á eyðublöðum hjá lögreglustjóranum í Reykjavík: Virðingarfyllst og svo átti maður að rita nafn sitt þar undir. Eg hafði það fyrir reglu að strika yfir orðið, en þá var mér sagt, að umsókn yrði ekki afgreidd. En þá bætti eg við: Með tilhlýðilegri virðingu og umsókn rann í gegn.

 

 

Hvað segja málhagir menn um orðin ís, klaka og svell?

Er ekki ís á vötnum, svell á jörðu og klaki safnast á eitthvað, samanber klakastokkur, klakabrynja og klakaklár.

Nú eru víða svellalög um sveitir og klaki á línum.

 

 

Nú er sprengidagur á næsta leiti og þá er rík sú hefð (en kannski ekki ýkja gömul) að hafa saltkjöt og baunir í aðalrétt á hverju heimili. En góð vinkona mín benti mér á nokkuð, sem er vert að gaumgæfa.

Það er komið í tízku að hafa saltkjöt og baunir á öllum vinnustöðum, mötuneytum, skólum og leikskólum. Að mínum dómi er þetta miður. Þessi réttur á að vera inni á heimilum, þar smakkast hann bezt, og ganga í arf til kynslóðanna. Fátt er mikilvægara en að fjölskyldan sameinist við matarborð. En fyrir alla muni, gleymið ekki að setja væna smjörklípu út í baunasúpuna.

 

 

Margir hér á fb hafa gaman af margvíslegum tækjum og tólum. Hér birtast því myndir af snjóbíl Páls Sigurðssonar (1905-1982), hins kunna hestamanns, bílstjóra og gestgjafa, bæði í Fornahvammi og Varmahlíð. Þær voru ekki fáar ferðirnar, sem hann ferjaði menn yfir Holtavörðuheiði í nærri aldarfjórðung. Páll var einstaklega bóngóður, alltaf léttur í lund, þó að oft skylli hurð nærri hælum í erfiðum vetrarferðum, sem gátu tekið upp undir sólarhring.

Þessar myndir eru frá því í marz/apríl 1943, þá er foreldrar mínir fóru með Páli yfir heiðina. Þess má svo geta aukreitis, að móðir mín var alin upp hjá föðursystur Páls, svo að mikill vinskapur var þar á milli.

Ekki þekki eg þessa bíltegund; gæti verið Citroen (?). En seinna eignaðist Páll kanadiskan Bombardier, árgeð 1952.

 

 

 

Hvar er víndrykkja mest? Margir skyldu ætla, að það væri í Frakklandi, á Spáni eða á Ítalíu. Nei, svo er ekki, því að neyslan þar er aðeins um 30 lítrar á mann. Á einum stað í veröldinni nemur neyslan um 74 lítrum, sem er um það bil 105 flöskur, á hvern mann á ári. Þetta er í Páfagarði, Vatíkaninu, sem er stjórnað af æðsta yfirvaldi kaþólsku kirkjunnar. Íbúar þar eru um 800.

 

Næstmesta víndrykkja er í Lúxemborg, og nemur neyslan þar um 56 lítrum á mann á ári. Þar í landi búa um 535‘000 menn. Í þessum tölum reiknast börn með, en þau eru reyndar sárafá, ef nokkur, í Vatikaninu.

Það má því segja, að það á vel við, sem Jón Helgason sagði:

 

Í páfans sal er sælan full

því syndalausnin veitir gull.

Hin bestu vín hann velur sér,

það væri staður handa mér!

 

Þetta kemur fram í brezka blaðinu The Independent.

Sjá:

 

 

Laust eftir klukkan átta í morgun ók eg Laugaveg í norð-vestur. Skyndilega var eg stöðvaður af lögreglu án nokkurrar sýnilegrar ástæðu. Út þusti lögregluþjónn og spurði af þjósti og dónaskap: „Ertu fullur? Varstu að drekka í nótt?“

Vissulega verður manni svarafátt við slíkan fruntaskap og heimtingu á að fá einræð svör. Eg kvaðst vera allsgáður, en það taldi hann vera útúrsnúning við spurningum sínum og skipaði mér að koma inn í lögreglubíl og yrði farið með mig niður á lögreglustöð, þar sem eg yrði sviptur ökuréttindum. Eg var nú farinn að efast um andlegt atgervi þessa manns, og hafði vit á því að láta það ekki í ljósi, en að líkamlegu atgervi virtist mér þetta vera hálfgerður stubbur.

Öndunarsýni sýndi svo ótvírætt 0.

Eftir á að hyggja spyr maður sig að því, hvort svo sé komið í þessari stétt, að valdhroki, sálarþynnka og rustaháttur séu orðin helztu kennimerki.

 

 

 

Vorið 1958 eignaðist eg Agfa kassamyndavél (120, 6×9) líklega eins og þá, sem myndin sýnir. Vélina fékk eg í sumargjöf frá foreldrum mínum.

Eg gerðist ötull ljósmyndari, en fékk átölur frá móður minni, þegar í ljós kom, að eg hafði myndað líkfylgd, sem fór upp Egilsgötu með séra Jakob Jónsson í fararbroddi. Það þótti henni ekki tilhlýðilegt að mynda slíkt. Karli föður mínum fannst þetta aftur á móti ekkert tiltökumál og sagði mér, að séra Jakob væri frændi okkar, hinn vænsti maður, „þó að hann væri prestur“. Þeir frændur voru ekki á einu máli um trúna, en það skyggði alls ekki á vinskap þeirra.

 

 

RÉTT

Samkvæmt líkindareikningi (statistik) lifa þeir lengst, sem eiga flesta afmælisdaga.

 

 

Hafa menn almennt gert sér grein fyrir því, að einn lítri af naglalakki kostar um 180 þúsund krónur. Að vísu hægt að fá eilítið ódýrara en einnig mun dýrara. (10 ml um 1800 krónur.)

 

Venjuleg lakkmálning kostar 3 til 5 þúsund krónur lítrinn.

Nú spyr maður, hvað er svona sérstakt við naglalakk.

 

 

Aðfaranótt 3. febrúar fyrir sjötíu árum brann Hótel Ísland til kaldra kola. Einn maður fórst í brunanum og þótti mikil mildi, að ekki fór ver.

Sérstaklega má í frásögur færa björgun Guðmundar Þorbjarnarsonar bónda á Stóra-Hofi á Rangárvöllum.

Á skrifstofu Búnaðarfélagsins furðuðu menn sig morguninn eftir á dugnaði Guðmundar, að hann skyldi komast lífs af á kaðli frá efstu hæð hússins, kominn yfir áttrætt.

Steingrímur Steinþórsson, búnaðarmálastjóri, stóð í gættinni, hallaði sér að dyrastaf og tautaði: „Hann er vanur þessu, karlinn.“

 

SLÖKKVITÆKI

Eg fór með minn fjallabíl í skoðun í morgun; komst í gegn athugasemdalaust. – Eitt er þó undarlegt. Í breyttum bílum verður að vera handslökkvitæki. Nú spyr eg: Er meiri hætta á bruna í bíl á 35“ dekkjum en á 31“? Svar mitt er: Nei. Hvers vegna er þá þessi kvöð?

Í öðru lagi þarf að láta skoða þessi tæki (oftast duft-tæki) árlega. Það er hreint peninga-plokk. Sérfræðingur segir mér, að tæki séu í lagi, ef nægur þrýstingur er á tækinu sem mælir sýnir; svo og, ef heyrist í duftinu, ef tækið er hrist. – Í Svíþjóð er mælt með að slík tæki séu athuguð á 10 ára fresti.

Getur verið, að hér hafi einhver pólitíkus verið að veita samherja ávísun á árlegan tekjustofn?

 

 

MÆÐIVEIKI

Þeir, sem hafa áhuga á að kynna sér lækningar á mæðiveiki, geta lesið um það hér: http://ahb.is/laekning-a-maediveiki/

 

Upp úr miðjum fjórða áratug síðustu aldar geisaði mæðiveiki í sauðfé hér á landi. Ýmislegt var reynt til þess að lækna féð og var Sigurjón P. á Álafossi einn af “mæðiveikilæknunum” ásamt Sigfúsi Elíassyni, Karel Hjörtþórssyni og svo nefndum Rockefeller, sem mun hafa heitið Halldór. Rockefeller læknaði með steinolíu og af því fékk hann nafnið, Karel notaðist við Coopers baðlyf á járnplötu á prímus, Fúsi læknaði með andalækningum og 200 kg af salti en Sigurjón með Ála og varð sá lækningamáti frægastur.

Um Álalækningar Sigurjóns er það að segja, að megin uppistaðan í lyfinu var kreósót, enda fannst það á lyktinni. Annars var lyfið heimullegt eins og aspirínið og prontosilið var á sínum tíma. Álinn átti bæði að lækna mæðiveiki og garnaveiki, enda kvað Sigurjón þetta vera sama sjúkdóminn. Munurinn var aðeins sá, að mæðiveikin smitaðist aðeins í útsynningi og smitið færi inn um granirnar. En færi smitið inn um afturendann, yrði úr því garnaveiki. Þegar svo garnaveiki og mæðiveiki komu samtímis upp í Hreppunum fundu menn út, að það væri ekki nema eðlilegur hlutur, því að Hreppamenn kölluðu norðaustanáttina oftast öfugan útsynning, og þar með var fundin sönnun fyrir kenningu Sigurjóns.

 

 

LÆKNISVOTTORÐ

Í eina tíð þurftu nemendur í menntaskóla að framvísa læknisvottorði við minnstu frávik í tímasókn. Það var nærri hálft starf að taka við þessum pappírum, flokka þá og merkja inn hjá viðkomandi nemanda.

Læknar virtust geta gefið út slík vottorð bæði langt aftur og jafnvel fram í tímann. Mörg voru þessi vottorð skrautleg, en bezta vottorðið hljóðaði svo:

„Var veikur að sögn ömmu sinnar frá 22. til 26. nóvember.“

Vonandi er þessari kvöð aflétt nú, því að þessi vottorð kostuðu dálaglegan skilding.

 

 

GANGSTÉTTAR

40% af gangstéttinni er fyrir bíla en ekki fólk á Laugateigi, þar sem eg bý. Þegar gangstétt var endurlögð fyrir nokkrum árum, var tekinn flái á stéttina, sem nemur 2 hellubreiddum af 5, auk kantsteins, til þess að auðvelda för bíla inn í innkeyrslur, sem eru við hvert hús.

 

Undanfarinn mánuð hefur stéttin verið eitt klakastykki nema við 2 eða 3 hús, þar sem er snjóbræðsla. Þessi halli á stétt, sem nemur 40% af breiddinni, hefur reynzt stórvarasamur gangandi fólki og jafnvel hættulegur í hálku. Hér í eina tíð var flái á kantsteini látinn nægja til að aka upp á stétt, en nú er hallinn tæp 50% af breidd stéttar. Gaman væri að vita, hvaða snillingur hjá bænum hafi hannað stéttina.

 

Eg vil eindregið skora á bæjar-yfirvöld að laga gangstétt fyrir næsta vetur, því að mörgum skrikar fótur í þessum halla, sem er alveg að nauðsynjalausu.

Gangstéttar eiga að vera fyrir fólk en ekki farartæki.

 

 

 

Í eina tíð var bíll í eigu Skógræktar ríkisins, sem gekk fyrir viðakolum. Þá var gert til kola í stórum ofni á Vöglum í Fnjóskadal. Ef engin olía finnst á Drekasvæðinu koma svona bílar kannski aftur og þá er gott að eiga nógan skóg.

Frá þessu segir á ahb.is

Sjá: http://ahb.is/vidarkolabill-skograektar-rikisins/

 

 

 

Kæru vinir. Eg ætlaði mér að þakka ykkur allar frómar óskir í lítilli stöku og byrjaði þannig:

Góðar kveðjur glöddu mig,

eg gæsku ykkar þakka.

 

En rímleikni mín er ekki meiri en svo, að til varð aðeins einn botn, sem eiginkonan taldi alls ekki við hæfi að birta. Samt læt eg hann fjúka, þar sem enginn annar er tiltækur:

 

Nú fer eg á næsta stig

og nálgast grafarbakka.

 

Hafið heila þökk og gleðilegt ár.

 

 

 

 

SÍRA Ásmundur prófastur Jónsson í Odda á Rangárvöllum var að prédika á jóladaginn fyrir um 150 árum. Steinn í Bakkakoti og Páll í Fróðholti sátu saman. Páll var farinn að dotta og sagði:

»Er hann ekki bráðum búinn?«

 

»Nei, hann er ekki nærri búinn,« svaraði Steinn, – »hann á eftir að segja »til er tími, til er augnablik« að minnsta kosti tíu sinnum enn.«

 

Og í sömu andránni sagði síra Ásmundur: »… til er tími, til er augnablik.«

En þá varð Fróðholts-Páll vondur og sagði upp úr hrotunum: »Það er líka tími – augnablikið, prófastur minn,« og svo hraut hann að nýju.

 

Að svo mæltu óska eg öllum gleðilegrar hátíðar.

 

 

 

Á fyrstu árum Menntaskólans við Tjörnina þótti mörgum rauðleitur bragur á kennurum skólans. Sem dæmi má nefna, að Ólöf Benediktsdóttir í MR sagði, að kennarar í MT væru svo miklir kommúnistar, að þeir kynntu sig fyrir nemendum með gælu-nöfnum.

En meðal kennara í MT þá var Gunna Hofdal, sem var dönsk í aðra ættina og íslenzk í hina, og hét hún þessu ágæta nafni.

 

 

 

Í eina tíð voru alþingismenn sagðir óundirbúnir í ræðustóli þingsins, ef þeir höfðu ekki náð að slokra í sig hálfri flösku af brennivíni áður.

Af innantómum umræðum á þingi núna mætti halda, að þeir væru allir „undirbúnir“.

 

 

Þegar Páll kallaði Helga Seljan skíthæl rifjaðist það upp, að á stað einum var maður ávallt kallaður Stebbi tjaldhæll. – Það vissu það allir, að þessi maður var skíthæll, en kunnu bara ekki við að nota það orð í daglegri umgengni við manninn.

 

 

 

Þessi orð Jónasar Þorbergssonar útvarpsstjóra eru enn í fullu gildi, en hann flutti þau, þegar hann lét af starfi í byrjun árs 1953:

„Ég álít, að hvorki ráðamenn fjár og framkvæmda í landinu né þjóðin í heild hafi enn sem komið er, gert sér fulla grein fyrir því, hvers virði útvarpið hefir verið og muni verða þjóðinni. — Menn láta sér sjást yfir það, að útvarpsdagskráin hefir lyft þekkingarstigi allrar þjóðarinnar til stórra muna. Menn láta sér sjást yfir það, að útvarpið er farvegur þeirrar andlegu sköpunarorku, sem býr með þjóðinni.”

 

 

 

Merkilegar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum lýsingar á huga fólks. Það eru þær Anna Steidle, Eva-Verena Hanke og Lioba Werth við háskólana í Stúttgart og Hohenheim, sem rannsökuðu hóp fólks í miklu ljósi, rökkri og við staðal-lýsingu.

 

Helztu niðurstöður voru þær, að þátttakendur urðu óheftari í rökkri og það hafði örvandi áhrif á sköpunargáfuna. Mikil lýsing hafði öfug áhrif, fólk varð bældara, en hugsunin rökréttari og greiningarhæfni jókst. Þeir, sem að eðlisfari eru drjúgir með sig, breyttust lítið, þó að ljósin yrðu daufari.

 

Þær, sem stóðu að rannsókninni, telja, að þessar niðurstöður geti haft hagnýtt gildi. Þannig má ætla, að þeir, sem vinna hjá ríkislögreglustjóra og í ráðuneyti þurfi aukalampa á skrifborðið en lýsing ætti ekki að skipta alþingismenn neinu máli.

 

Rithöfundar ættu sérstaklega huga að þessum athugunum. Í stað þess að standa í því að selja bækur sínar, þegar dagur er skemmstur, ættu þeir að sitja við skriftir. Þá yrðu skrifaðar betri bækur, sem gætu selzt á sólríkum vordögum.

 

Sjá nánar:

http://proceedings.envpsych2011.eu/files/doc/301.pdf

 

http://www.luxreview.com/news/47/dim-lights-spark-creativity

 

 

 

Misseristal

Þorri, 4. mán. vetrar, hefst á föstudegi 19.-25. janúar

Góa, 5. mán. vetrar, hefst á sunnudegi 18.-24. febrúar

Einmánuður, 6. mán. vetrar, hefst á þriðjudegi 20.-26. marz

Harpa, 1. mán. sumars, hefst á fimmtudegi 19.-25. apríl (sumardeginum fyrsta)

Skerpla (eggtíð), 2. mán. sumars, hefst á laugar-degi 19.-25. maí

Sólmánuður, 3. mán. sumars, hefst næsta mánu-dag eftir 17. júni

Heyannir, 4. mán. sumars, hefst á sunnudegi 23.-29. júli (30. júlí í rímspillisárum)

Tvímánuður (kornskurðarmánuður), 5. mán. sumars, hefst á þriðjudegi 22.-28. ágúst

Haustmánuður, 6. mán. sumars, hefst á fimmtu-degi 21.-27. september

Gormánuður, 1. mán. vetrar, hefst laugardag 21.-27. október (fyrsta vetrardag)

Ýlir (frostmánuður), 2. mán. vetrar, hefst mánudag 20.-26. nóvember (í rímspillisárum 27. nóv.)

Mörsugur (brundtíð), 3. mán. vetrar, hefst á mið-vikudegi 20.-26. desember

 

Rímspillir er þegar sumarauka er skotið inn degi síðar en venjulega (oftast á 28 ára fresti) en við það ruglast dag-setningar messudaga eftir venjulegum rímreglum.

 

 

 

Sigmundur Guðbjarnason skrifar góða grein í Mbl. í dag: Hvernig má bæta minnið. – Þar segir hann frá áhrifum íslezkrar jurtaveigar, sem hefur reynzt til bóta.

Víst er, að enn má margt nýta úr íslenzku flórunni til þess að bæta heilsu manna. Sjálfur hef eg góða reynslu af óþynntum krækiberjasafa. – Eitt vorið þjáðist eg af þyngslum fyrir brjósti og illræmdu kvefi, sem ætlaði aldrei að láta undan. Kristín Steinsdóttir frétti af bágu ástandi mínu og sendi mér flösku af krækiberjasafa. Fann eg strax, hve mikill léttir varð af því að drekka safann kvölds og morgna. Eg var á batavegi, en flaskan dugði skammt til að losa alveg um krankleikann. Fyrir því sendi eg Kristínu þessar vísur:

 

Fullþakkað eg fæ þér vart

flöskuna þú sendir.

En guð þér launar góðverk margt:

Á góðum stað þú lendir.

 

Mig raunatölur ríða‘ á slig

og rifjagikt í síðu.

Lánist þér að lækna mig

launa eg í fríðu.

 

Ótvírætt er, að eg held,

á mig sækir veira.

Flaskan er að fullu geld;

fæ eg kannski meira?

 

Ekki er að orðlengja það, að Kristín sendi mér um hæl tvær flöskur til viðbótar. Fyrr en varði var eg orðinn alheill.

 

 

ORÐTÖK

Í fréttum er sagt frá tilraun til þess að smygla fíkniefni í fílsstyttu. Þar segir: „Hólf sem greina mátti í styttunni vakti grun um að óhreint mjöl væri í pokahorninu.“

 

Var mönnum ekki kennt (í skóla) annars vegar, „að hafa hreint (eða óhreint) mjöl í pokanum“ og hins vegar „að hafa (eða geyma) eitthvað í pokahorninu“, það er að segja luma á einhverju góðu?

Hér hefur tveimur orðtökum verið slegið saman í eitt. Ekki satt?

 

 

GERLAR GÓÐIR

Flestum, sem heyra klamydíu getið, dettur fyrst í hug slæmur kynsjúkdómur, egypzka augnveikin (trakom) eða lífshættulegur lugnasjúkdómur, sem gengur undir nafninu twar.

En þessi gerlar eru ekki bara djöfullegir, heldur hafa þeir komið ýmsu gagnlegu til leiðar.

Sjá á ahb.is: http://ahb.is/chlamydia-gerlar-til-gods-og-ills/

 

 

MIKIL FRAMFÖR

Fyrir skömmu kom út fræðigreinin Alien vascular plants in Iceland: Diversity, spatial patterns, temporal trends, and the impact of climate change og eru höfundar þrír starfsmenn á Náttúrufræðistofnun Íslands.

 

Það skyldi þó ekki vera, að þetta sé hin fyrsta og eina vísindaritgerð, sem birzt hefur um háplöntu-flóru landsins frá þessari stofnun frá stofnun hennar. Margur myndi nú segja, að tími hefði verið til kominn.

Að minnsta kosti man eg ekki eftir öðrum fræðigreinum í svipinn.

 

 

EYJA-HEILKENNI

Í ágúst s.l. birtist grein um eyja-heilkenni meðal mosa í Journal of Ecology, þar sem eg er meðhöfundur. Greinin heitir „Baker’s law and the island syndromes in bryophytes“. Veggspjald um efni greinarinnar hefði verið kjörið á líffræðiráðstefnu þá, sem nú stendur yfir 8. og 9. nóv. En utangarðsmenn eiga ekki greiða leið eftir troðningum hinna stóru spámanna. Fyrir því vel eg að kynna efni greinarinnar á ahb.is en þar má einnig lesa greinina í heild.

Sjá. http://ahb.is/eyja-heilkenni-medal-mosa/

 

 

 

HAFA SKAL ÞAÐ SEM SATT REYNIST

Í eftirfarandi pistli held eg áfram að fjalla um frækaup í Öræfum. Þar er birt bréf frá Oddi í Skaftafelli, sem skýrir þetta mál.

Sjá: http://ahb.is/fraekaupin-i-oraefum/

 

 

 

Á vefsíðu Landgræsðslu ríkisins er pistill um Gunnlaugsskóg í Gunnarsholti á Rangárvöllum, sem kenndur er til Gunnlaugs Kristmundssonar sandgræðslustjóra.

Upphaf hans hljóðar svo:

 

Bændurnir í Skaftafelli, Ragnar Stefánsson o.fl. söfnuðu birkifræi í Bæjarstaðaskógi fyrir Skógrækt ríkisins. Haustið 1938 bar svo við að Hákoni Bjarnasyni, þáverandi skógræktarstjóra, samdi ekki við bændurna um verðið fyrir fræið. Þetta voru stoltir bændur og í stað þess að selja fræið á lægra verði en þeir töldu umsamið, gáfu þeir Gunnlaugi Kristmundssyni sandgræðslustjóra (1907-1947) all nokkuð magn.

 

Um þetta mál fjalla eg á ahb.is. Eg vænti svars frá Landgræðslu ríkisins hið fyrsta, svo að eg geti reifað þetta frekar.

Sjá: http://ahb.is/um-fraesofnun-i-baejarstad/

 

 

„Sjálfsagt getur vesalings Ísland átt á hættu að leggjast í auðn vegna skógleysis og ýmissa stjórnarfarslegra hremminga, en alls ekki af jöklum norðan frá og eldfjöllum sunnan að, eins og segir í alkunnri spásögn hér á landi, sem einhver gamall flautaþyrill hefur væntanlega spunnið upp.“

Svo segir í Ferðabók Sveins Pálssonar frá 1791-1797, og virðast þessi orð enn í fullu gildi.

 

 

Hvernig er það, geta mosar bundið nitur úr andrúmslofti? Nei, en …

Sjá: http://ahb.is/binda-mosar-nitur-ur-andrumslofti/

 

 

Sagt er frá Stephani G. og andatrú á ahb.is.

Sjá: http://ahb.is/stephan-g-og-andatruin/

 

 

Fyrir nokkrum árum tók eg saman pistil um langa-langafa minn, Ólaf Indriðason. Til gamans hef eg sett hann á ahb.is; vonandi kemur meira seinna, en engu skal lofa.

Sjá: http://ahb.is/sjera-olafur-indridason-16-agust-1796-4-marz-1861/

 

 

Sláttuvísur hef eg sett á netið. Sjá ahb.is: http://ahb.is/slattuvisur-kvednar-vor-og-sumar-1939/

 

 

Í Svíþjóð (og sennilega víðar) borga allir með kortum og enginn gengur með peninga á sér. Fyrirtæki vilja ekki taka við peningum, því að þá verða þau rænd. Ætli maður taka út háa fjárhæð í banka, skal tilkynna það með nokkurra daga fyrirvara; þeir þora ekki að geyma peninga í skúffum sínum, þeir verða þá teknir ránshendi.

Allir nota kort og svo mun verða hér á landi líka innan tíðar. Mér datt því helzt í hug að stofna kortafyrirtæki og sá fyrir mér peningaflæði, þar sem eg fengi örfá prósent af því, sem streymdi gegnum tölvuna mína, fyrirhafnarlítið sýsl. Við nánari íhugun komst eg að því, að eg hefði ekkert við þessa milljónatugi að gera. Er ekki skynsamlegast er, að ríkið sjái um þetta og gefi út ríkiskort í staðinn fyrir seðla? – Er eg kannski orðinn kommi?

 

 

Viðarafurðir eiga eftir að aukast mikið á næstu árum. Ekki er ósennilegt, að þær verði nýttar til varmaframleiðslu í einni eða annarri mynd.

Lítil hefð er fyrir viðarbrennslu hér á landi. Þegar grannt er skoðað, er margt, sem hafa verður í huga, þegar viður er nýttur. Mér segir svo hugur, að fleiri en eg hafi gott að því að kynna sér, hvernig standa skuli að verki. Því hef eg tekið saman stuttan leiðarvísi um viðarbrennslu.

Sjá á ahb.is: http://ahb.is/vidarbrennsla/

 

 

Fyrir skömmu dvaldi eg um tíma í Uppsölum í Svíþjóð, en þar nam eg grasafræði á sínum tíma. Eftir á að hyggja var það ekki skynsamlegt að leggja stund á þá fræðigrein, því að aldrei hefur mér hlotnazt starf á því sviði í íslenzku „klíkusamfélagi“. Alltaf er þó jafngaman að koma til Uppsala, þó að gríðarlegar breytingar hafi átt sér stað frá því eg kom þar fyrst haustið 1966. Það er þó huggun harmi gegn, að enn er hægt að fá kaffi og „dammsugare“ á Ofvandahls og Linné trónir enn á stalli sínum í Botaniska Trädgården.

Sjá á ahb.is: http://ahb.is/heimsokn-til-uppsala/

 

 

 

Í sumar sem leið tók eg saman örstuttan pistil til þess að minnast aldarafmælis Guðna Guðjónssonar grasafræðings. Þeir eru ekki margir, sem þekkja til þessa manns, en hann lézt ungur að árum. Hann var nýtekinn við forstöðumannastarfi á Náttúrugripasafninu (nú Náttúrufræðistofnun) eftir drjúgt starf í Danmörku.

Nú hefur mér borizt viðbragð við þessum pistli frá manni, sem þekkir vel til rannsóknastarfa Guðna. Leyfi eg mér að birta það hér:

Thank you very much for the description of Gudni Gudjonsson’s short life. I tried to translate the text with Google translator and think that I have understood most of it. Since I am also investigating the genetics of dandelion apomicts I have consulted the Sorenson and Gudjonsson’s papers many times. Their work has been critized by later researchers, like Åke Gustafsson, but they were completely right. We could show with modern techniques that one apomixis gene was indeed located on the satellite chromosomes and that it occurred in a single dose. This is fully consistent with the excellent work of Gudni Gudjonsson. I have heard that his sudden death was due to a tragic motor accident, but have never read confirmation of this.

Peter van Dijk

 

Þetta færir mér heim sanninn um það, sem eg reyndar taldi mig vita, að Guðni var mjög framarlega á sínu sviði og verðskuldar fyllilega, að nafni hans sé á lofti haldið. – Maður veltir fyrir sér , hver væri stað íslenzkrar grasafræði, hefði hans notið við.

 

Sjá ennfremur: http://ahb.is/aldarminning-gudna-gudjonssonar-grasafraedings/

 

 

 

Nú sé eg ánægjuleg tíðindi á Mbl.is, að þeir hjá Vegagerðinni ætla að hætta að nota eiturefni til þess að drepa plöntur í vegarköntum.

Snemma á þessu ári benti eg á einfalda, danska aðferð til þess að halda plöntum niðri í vegarköntum, þar sagði:

 

Í Svíþjóð og Danmörku er farið að beita nýrri tækni við að eyða óæskilegum plöntum („illgresi“). Í raun er þessi aðferð afar einföld. Snarpheitu vatni er sprautað yfir plönturnar, og þar sem blandað er í vatnið sykurlegi úr maís og kókospálma helzt vatnið nægilega heitt svo lengi, að frumur drepast.

Vel þess virði að kynna sér þetta.

Sjá nánar:

http://www.lkf.se/…/…/id_6347/scope_0/ImageVaultHandler.aspx

 

Það er rétt, að það er erfitt að halda niðri plöntum við vegi, en þó held eg að finna megi ráð við því. Fyrr á árum var ómældu grasfræi dælt í vegarkanta og fylgdu með ýmsir óþurfta slæðingar. Það var ekki gott heldur. Oft datt manni í hug, að þeir fengju óhreinsað og ódýrt grasfræ úr ruslageymslum nágrannalanda.

 

Og nú er upplýsist, að allt hafi verið gert með vitund og vilja Umhverfisstofnunar. Vantar þar ekki hæft fólk til að stjórna og starfa? Eg er á því, að forstjórinn þar hafi enga innsýn í þau verk, sem þarf að vinna á þeim bæ, enda lögfræðingur að mennt.

 

 

Kaldreyking

Í dag var fyrsti silungurinn settur í reyk. Vanda verður til allra verka. Mikilvægt er að söltunin sé rétt, hvorki of né van. Þá verður að gæta að hita í reyktunnunni; ekki má silungurinn soðna. Þetta er svo kölluð kaldreyking og reykt er við sauðatað, minnst tveggja ára gamalt, og birkibörk.

Maður fer ekki langt af bæ á meðan á þessu stendur.

Sjá nánar á ahb.is:

Kaldreyking

 

 

 

Fjárans myndbönd og bekkir; burt með hvoru tveggja:

„Staðreynd málsins er sú að þegar lögreglan þarf að beita valdheimildum sínum til að handtaka fólk þá getur slíkt aldrei litið vel út á myndbandi og sér í lagi fyrir þá sem ekki þekkja til,“ sagði Snorri [form. Landsambands lögreglumanna] og hélt áfram:. „Vissulega er það óheppilegt að þessi bekkur skuli vera þarna á Laugaveginum og fyrir vikið lítur atvikið verr út en ella.“

 

 

Í morgun var eg beðinn um að fara við annan mann suður í Víkingavatnsheiði til þess að sækja geitahjörð vegna yfirvofandi stórviðris. Við Jóhann Gunnarsson lögðum af stað fótgangandi frá Kílakoti og fórum svo kallaða Kílakotsstíga suður í Kílakotshæðir, en þar var síðast vitað um hjörðina. Engar sáum við geitur þar og héldum því áfram suður heiði. Þegar við komum á Þverholt ákváðum við, að eg skyldi halda niður aftur og fara á bíl eftir Vogaslóð suður á móts við Hesthóla og Jóhann kæmi þar niður. Hittumst við þar stuttu síðar. Þá gáfum við upp alla von og töldum ráðlegast að halda heim. Þegar við vorum komnir langleiðina niður af heiðinni sáum við geitahjörðina vestan við okkur nálægt Ólafsgerðishólum.

Nú var ekki annað til ráða en yfirgefa bílinn og tölta af stað drjúgan spöl í vestur með hjörðina niður að Víkingavatni. Eg fór fyrir hópnum og lokkaði geiturnar með brauðmolum af og til. Jóhann rak lestina. Ferðin gekk vel og við vorum komnir heim um hálf sex með 12 geitur.

Vissulega vorum við stoltir af dagsverki okkar og okkur var fagnað með kaffi og rjómapönnukökum. Jóhann er á níræðisaldri og blés ekki úr nös; geri aðrir betur.

 

 

 

Kristín Steinsdóttir og Jón Háldanarson dvöldu hér hjá okkur á Víkingavatni í fjóra daga. Það voru góðir dagar. Ýmislegt var brallað og skeggrætt um hin sundurleitustu mál.

Meðal annars var farið í lautarferð upp í Forvöð og á Vígabjarg. Af Vígabjargi er gott útsýni til Réttarfoss, en varla hefur vistin í Grettisbæli verið góð.

Þá tókst að ljúka svo við smíði á sánunni, að unnt var að prófa hana í fyrsta skipti. Gott var að hafa Jón til halds og trausts við að kynda ofninn. Hann er vanur maður, því að hann hefur séð um að kynda ofna í kísilmálmsverksmiðjunni á Grundartanga í fjölda ára; þá eiga þau hjón álíka sánu í landi sínu í Skarði. Við hleyptum hitanum hæst í 80 gráður og þótti þá öllum nóg um. Það beit verulega í, þegar vatni var ausið yfir steinana, en Jón gaf mér þá og sérvaldi hvern stein.

Í einu orði sagt, frábærir dagar.

 

 

 

Hef kannað áhrif plöntu-eyðis meðfram vegum. Sjá nánar á ahb.is: http://ahb.is/eiturefnahernadur-med-vegum/

 

 

 

Eiturefni í þjóðgarði

Í morgun barst mér svar frá Vegagerðinni (reyndar óundirritað) um eiturefna-notkun eftir að hafa ítrekað spurningu; það hljóðar svo:

 

„Vegagerðin hefur notað graseyðinn Roundup á vegaxlir nokkur undanfarin ár. Einnig hefur efnið Clinik verið notað í sama tilgangi.

 

Það er hinsvegar óheppilegt að nota roundup til að hreinsa trjágróður úr vegrásum eins og gerðist þarna í Öxarfirðinum og verður því hætt þótt það þurfi augljóslega að fjarlægja gróður þarna. Verða farnar aðrar leiðir til þess en að eitra og þar sem það er nú keppikefli Vegagerðarinnar að vera eins umhverfisvæn og kostur er ætti eitrun að vera í algjöru lágmarki.

 

Rétt er að fara yfir það verklag eftir þessa ábendingu. Takk fyrir hana.“

 

Mér þykja þetta fréttir og eitur-efnanotkun innan þjóðgarðs hlýtur að vera stór-mál. – Ætla að skoða þetta betur í ró og næði.

 

 

 

Á morgun-göngu minni í gær þóttist eg sjá ótrúlega lítið drasl meðfram veginum. Vissulega getur það horfið í gras, en það er fagnaðarefni, ef menn hafa látið af vana sínum að fleygja ýmsu lauslegu út um bílglugga.

 

Þegar eg kom í Axarfjörð (eða Öxarfjörð) dáðist eg að birki- og víðikjarri, sem sýndist vel sprottið þetta sumarið. Í landi Ferjubakka og Skinnastaðar tók eg hins vegar eftir því, að gulvíðikjarrið og einstaka birkihrísla meðfram veginum var lauflaust og dautt.

 

Skyndilega flaug mér í hug, að hér hafði verið sprautað eiturefni (illgresis-eyði) til þess að halda vegar-öxlinni hreinni frá kjarrinu. Mikill vöxtur elftingar gat einnig bent til hins sama. Reyndar hafði þetta hvarflað að mér, þegar eg gekk skömmu áður í gegnum Vatnajökuls-þjóðgarð, og sá stóra, dauða fláka af sortulyngi. Þá sló eg þeirri hugsun frá mér, því að tæplega fæst leyfi til þess að nota slík efni innan þjóðgarðs.

 

Nú er það sjálfsagt mikilvægt, að halda kjarr-gróðri frá vegarbrún, en fer ekki betur á því í landi hreinleikans að saga það með kjarrsög heldur en úða eitri yfir plönturnar. Enn hefur ekkert „eitur“ verið framleitt, sem er skaðlaust öðrum en því er ætlað, að því fróðustu menn segja.

Annars staðar á Norðurlöndum hefur eitur-efnanotkun meðfram vegum og járnbrautum mikið verið gagnrýnd. Þar eru aðstæður talsvert öðru vísi en hér og margar plöntur harðsæknari. Hérlendis er ekki um slíkt stórmál að ræða að grípa þurfi til eitur-efnahernaðar meðfram vegum.

 

Nú leikur mér forvitni á að fá að svar frá Vegagerðinni, hvort slíkum meðölum sé beitt hér og hver þau efni þá séu.

 

 

Í morgun þráaðist eg við og ákvað að reyna eina ferðina enn að fara á puttanum út á Kópasker. Lagði af stað frá Víkingavatni rétt um átta og var afar bjartsýnn. Umferð var lífleg og jafnan ekki nema ein eða tvær manneskjur í hverjum bíl, sem voru af öllum stærðum og gerðum. En ekki hafði eg heppnina með mér; þeir þustu framhjá hver á fætur öðrum og létu ekki einu sinni svo lítið að veifa þessum gamla, svartklædda manni, sem stóð eins og steintröll í vegarkantinum.

Eftir rétt tvær klukkustundir var eg kominn langleiðina að Hóli og hafði gengið um 10 km. Um 20 bílar höfðu farið hjá. Þá stansaði skyndilega lítill sendibíll með sex Frökkum, sem buðu mér far í Ásbyrgi. Þaðan hélt eg gangandi að brú yfir Jökulsá, en þar kom þá fyrrverandi bankastjóri á nýjum Benz-jeppa. Ók eg með honum norður fyrir Ferjubakka en hann hélt að sumarbústað sínum. Bauð mér heim í kaffi, sem eg þáði ekki, því að eg varð að hraða för minni.

Áfram var gengið drjúgan spöl en á hæðinni, þar sem sér heim að Skinnastað kom Strætó á blússandi ferð alveg óvænt. Hvílík himnasending, en enginn virtist vita um áætlun þessa fararskjóta þarna í sveitinni. Undir stýri sat Margrét á Fitjum (ættuð frá Fljótshólum) og kom hún mér á áfangastað rétt fyrir hádegi. Það er annar bragur á þessum farkosti en þeim rútum, sem eg ók á áætlun til Hólmavíkur og Rvík – Mývatn (um Sprengisand) fyrir drjúgum 15 árum.

Þetta var fagur morgunn og eg gekk um 20 km af um 60. Af því hef eg bara gott en nú hef eg heitið því að reyna ekki aftur að ferðast um landið sem puttalingur. Á þessari göngu rakst eg á fyrirbæri, sem eg ætla að segja frá á morgun.

 

 

Í dag þurfti eg að ferðast á puttanum dágóðan spöl um Axarfjörð og Kelduhverfi vegna þess, að eg var með bilaðan bíl. Það reyndist þrautin þung. Margir óku framhjá og sýndist mér þunnskipað í flestum bílum. Enginn hafi áhuga á að taka gamlan, svartklæddan mann upp í.

Það var ekki fyrr en góðvinur minn, Árni Logi Sigurbjörnsson, meindýraeyðir Íslands, byssusafnari og veiðikló, átti leið um og þekkti kauða, og ók mér í hlað.

Fyrir 20 til 30 árum þurfti eg oft að nýta mér þennan ferðamáta. Ekki minnist eg annars en það hafi gengið greiðlega. Nú er öldin önnur. Eg sakna gamla tímans.

 

 

Í morgun fékk eg boð um, að eg ætti ógreidda reikninga hjá Vodafón. Eins og heiðvirðum manni sæmir hljóp eg til hér fyrir norðan í Kelduhverfi, hafði samband við bankann og bað um að millifæra, svo að ekki yrði þurrð þar.

 

Það er ekki auðvelt að ná sambandi við þetta símafyrirtæki. Í fjórðu lotu var eg númer 4 í röð og ákvað að bíða eftir svo kölluðum þjónustufulltrúa. Það tók drjúga stund en loks var svarað mennskri röddu. Þá kom í ljós, að eg skuldaði engum neitt og mér tjáð, að boðin voru send út af misgáningi.

Allt vafstur í kringum þetta tók um tvær klukkustundir og nokkur símtöl. Mér kemur helzt í hug að senda Vodafón reikning fyrir þennan tíma (kr. 10‘000) auk hugarangurs í tvær klukkustundir, samtals um 30 þúsund krónur.

 

 

 

Frétt í MBL um snjóskaflinn í Gunnlaugsskarði minnti mig á gamla sögu.

Sjá á ahb.is: http://ahb.is/skaflinn-i-esju-%E2%94%80-raudskrokksjokull/

 

 

Nú hafa 305 manns skoðað grein mína, Lúpína og Hjörleifur, á ahb.is. (Kannski álíka margir og hefðu lesið hana í Morgunblaðinu.)

Greinin er í knappara lagi og hefði mátt rökstyðja margt betur og varpa fram álitamálum. Það eru margar hliðar á þessu máli, sem lengi má ræða. Ekki ætla eg mér að hnotabítast við menn.

Á hitt vil eg minnast, að öll umræða um gróður og plöntur, líf þeirra og þrif, er af hinu góða. Það er þó deginu ljósara, að framvinda í náttúrunni er manninum ekki alltaf að skapi og fer oft aðrar leiðir en skarphyggnustu menn ætla og vilja.

 

 

Fyrir skömmu ók eg ásamt fleira fólki norður Búðarháls á Holtamannaafrétti austan Þjórsár. Þetta er gamla akleiðin yfir Sprengisand. Þegar komið var norður fyrir Hálsamót, dæld, sem skiptir honum í tvo hluta, var ekið niður í átt að Þjórsá. Numið var staðar á móts við Ófærutanga og gengið snertispöl upp að fossakerfi miklu, sem nefnist Dynkur af Gnúpverjum en Holtamenn kalla Búðarhálsfoss. Þar fellur áin fram af mörgum stöllum og myndar marga fossa. Í sólarbirtu, sem var þennan dag, myndast regnbogar yfir hverjum stalli.

Land er þarna víðast örfoka en þar sem gróður leynist ber hann alls ekki á neinn hátt svipmót öræfa-gróðurs. Þetta er rúmlega 100 km inni í landi og í tæplega 400 metra hæð yfir sjó. Vöxtulegt bláberjalyng, víðitegundir, brennisóley, blágresi og margar aðrar tegundir er þarna þó enn að finna. Og í gljúfri árinnar, litlu neðar, eru leifar af birkikjarri.

Manni verður á að hugsa, hvílík dýrð væri þarna innfrá, ef landið hefði fengið að halda gróðurhulu sinni.

 

 

Undanfarnar vikur hef eg lítið fylgzt með á fésbók og enn minna með umræðum í blöðum vegna ferða minna um landið.

Á bæ einum á Suðurlandi rakst eg á gamalt eintak af Morgunblaðinu og þar í var grein Hjörleifs Guttormssonar um lúpínu.

Í morgun tók eg saman pistil um lúpínu, sem birtist á vef mínum ahb.is.

Öll umfæða um lúpínu er af hinu góða.

Sjá: http://ahb.is/lupina-og-hjorleifur/

 

 

Á þessum tímamótum (18. júlí) er vert að minnast aldarafmælis Guðna Guðjónssonar grasafræðings. Hann féll óvænt frá á ungum aldri (1948) en var efni í mikinn grasafræðing. Sjá: http://ahb.is/aldarminning-gudna-gudjonssonar-grasafraedings/

 

 

Hér koma nokkur huggunarorð til þeirra, sem sjá sjaldan til sólar:

Á Hawaí-eyju einni rignir í 350 daga á ári, að meðaltali 12‘350 mm á ári hverju.

Þurrasta meginland jarðar er Suðurskautslandið.

Meira rignir í þéttbýli en strjálbýli, því að vegna óhreininda í lofti yfir slíkum stöðum þéttist vatnsgufan á þessum ögnum. Einnig vegna hitauppstreymis frá þéttbýli stígur heitt loft hærra og ský myndast.

Bærinn þar sem mest rignir er Cherrapunijee á norðaustur Indlandi; 11‘430 mm á ári. Í Evrópu rignir mest í Bosníu.

Þurrasti bær á jörðinni er Arica í norður Chile. Á árunum 1903 til 1918 féll þar ekki dropi úr lofti.

Það rignir víðar en hér á jörðu. Á Titan, stærsta tungli Satúrnusar, rignir metani. Á ástarstjörnunni rignir brennisteinssýru, en hún nær aldrei til „jarðar“, því að hún gufar upp í 25 km hæð frá yfirborði. Á OGLE-TR-56b plánetunni í bogmanninum rignir járnögnum í staðinn fyrir vatn.

Regndropar líta aldrei út sem tár, þó að þeir séu oft táknaðir þannig. Minnstu droparnir eru um 1 mm að þvermáli og kúlulaga. Flestir eru flatir að neðan eða baunlaga. Séu droparnir stærri en 5 mm að þvermáli detta þeir í sundur.

Að jafnaði rignir meira á sumrin en veturna, því að heitt loft geymir meiri raka en kalt. Þegar heitt loft stígur kólnar það, þá myndast ský og hætta á úrkomu eykst. Á sumrin rignir því jafnan síðari hluta dags.

Samkvæmt Trausta Jónssyni veðurfræðingi er mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur á Íslandi úr mælinum á Kvískerjum í Öræfum að morgni 10. janúar 2002. Úrkomusólarhringur nær yfir tímann frá kl. 9 morguninn fyrir mælingadag til kl. 9 mælingadags. Þetta voru 293,2 mm og jafngildir því að 293 lítrar af vatni hafi fallið á hvern fermetra lands sólarhringinnn næstan á undan. (http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/1049)

Lendi maður í hellirigningu blotnar maður minnst með því að hlaupa undan vindi á sama hraða og vindurinn blæs samkvæmt einhverjum ítölskum vísindamanni.

 

 

Hef dundað mér við að reisa gufubað hér í sveitinni. Húsið er 3×3 m og gufuklefinn verður 2×3 m; kyntur með sérstökum viðarofni. Á aðeins eftir að þilja klefann og setja á stromp. Það bíður betri tíma, því að á morgun verður haldið austur um og eitthvað inn í hálendið; fer efir veðri og vindum.

 

 

 

Fyrir nokkrum dögum gróf eg upp fáeinar lambagrasa-þúfur og skar lítið eitt af rótum, sem nefnast meðal annars holtarætur eða harðasægjur. Gekk þó svo varlega til verks, að þær eiga að lifa áfram. Eftir vandlegan þvott, skar eg þær í um 10 cm langa bita, sauð lengi í vatni, síðan í mjólk og þá steikti eg þær í smjöri á pönnu.

Á einum stað segir: „Allt er matur sem í magann kemst, nema hart þang og harðasægjur.“ Engu að síður var þetta hið ágætasta nasl.

 

 

Eg hef verið að hugleiða kalskemmdir í túnum fyrir norðan. Því miður hef eg rétt aðeins gjóað augunum að þessu á ferð fyrir skömmu. – Vitað er, að pöntur þola meira en menn ætla oft og tíðum. En ákveðið álag, hvert svo sem það er, getur hæglega drepið þær. Aldrei hef eg verið trúaður á þær kenningar, sem settar hafa verið fram um kal. Þær eru allt of einfaldar; lífið er flóknara en svo.

Sennilega verður aldrei hægt að komast hjá kali í einhverri mynd, því að túnaræktun teygir sig um allar koppagrundir, þar sem aldrei ættu að vera tún. Mismunandi tegundir grasa og einstakir stofnar eru misþolin, en gjörnýting túna sem beitiland, einkum að hausti, er sennilega mjög varhugaverð.

Sjá t.d.: http://ahb.is/hlytt-haust-og-haustbeit/

Er túnarækt stunduð hér á landi af nógu mikilli skynsemi?

 

 

Á morgungöngu í Laugardal gekk eg fram á hóp fjörugra leikskólabarna í fylgd gæslufólks. Ánægja skein úr hverju andliti og öll voru þau klædd í endurskinsvesti eins og nú þykir sjálfsagt.

 

En því miður – eitt skyggði á; blessuð börnin voru (að sjálfsögðu óafvitandi) látin bera framan á sér auglýsingu frá tryggingafélagi. Varla átti eg til orð, en vék mér þó að fylgdarmanni barnanna og tók hún undir þessa gagnrýni mína; hafði þó aldrei hugleitt málið.

Nú er spurt: Geta öll fyrirtæki fengið að auglýsa á leikskólabörnum?

 

 

Eg sótti ráðstefnu fyrir stuttu. Þar talaði maður, sem hefur tileinkað sér framburð allra landshluta. Hann sagði vóru; langa og ganga upp á vestfirzku, Strympa með norðlenzkum tilburðum, hv …, svo að hvein í og fleira í þeim dúr.

Eg saknaði þess eins, að hann hefur ekki náð að tileinka sér flámæli. Það er ábyggilega erfiðasti framburður, svo að eðlilegt verði. Hvað er ljótt við flámælsku (suðurnesjamál)?

 

 

 

Gekk mér til hugarhægðar á Úlfarsfell um hádegi, sem eg geri alloft. Þar er oft tíðförult. Segja má, að í hvert sinn finni maður í götuslóða staka vettlinga, trefla, gleraugu, húfur, ýmiss bönd og fleira, sem tilheyrir útivistardóti. Og það vita allir, að þessir smáhlutir kosta sitt.

Hvernig væri nú, að sveitarfélgið setti upp þarna lítinn kassa eða hillu, þar sem maður gæti skilið þessa smáhluti eftir, eigendum til hægðarauka. Ekki þarf það að kosta mikið.

 

 

 

Eg kom að norðan síðla föstudag og náði austur að Hellu á laugardag til þess að sitja Oddastefnu, hina árlegu samkomu Oddafélagsins. Þar hefur frændi minn og vinur, Þór Jakobsson veðurfræðingur, verið í fararbroddi ásamt fleiru góðu fólki. Allt fór þar vel fram og fróðleikur á borð borinn, svo að var til fyrirmyndar. Tilgangur félagsins er að efla fræðslu og umræðu um Oddastað og stuðla að endurreisn hans.

Að stefnu lokinni var haldið í Odda. Sóknarpresturinn, Guðbjörg Arnardóttir, tók á móti hópnum af glaðværð og göfuglyndi. Gengið var á Gammabrekku; þar voru sögur sagðar og farið með vísur og horft yfir, því að þaðan er “eins víðsýnt og augað eygir”, eins og einn forsætisráðherra sagði í áramótaávarpi. Til mun vera orkt bæjatal Rangárvallahrepps, sem hefst: Á Odda byrjar, Kragi, eftir næst / Ekra, For, Strympa, Vindás hæst / Kumli, við þorpið þetta. / Selalækur, svo segi eg frá / síðan Varmadal nefna má … /. – Þeir, sem kunna erindið allt, láti í sér heyra.

Þá var gengið í kirkju og sagði Guðbjörg þar frá þeirri byggingu og dýrum munum í eigu staðarins, meðal annars kaleik frá um 1300. Allir, sem koma að Odda, finna að hér rís höfuðból, þó að ekki séu þar forn mannvirki. Merkir klerkar hafa setið staðinn, misjafnlega þokkaðir þó, eins og segir í þessari gömlu vísu:

Voru í Odda vitringar,

vel sem báru korðann.

En nú sem stendur stjórna þar

stórgripir að norðan.

 

Eftirtektarvert er, hve margir klerkar þar, urðu biskupar, og sumir náðu því að verða biskupsritarar.

 

Þessum laugardegi, 25. maí, var sannarlega vel varið í hópi Oddafélagsins. Eg þakka.

 

 

Það var gamalla manna sögn á Víkingavatni, að óhætt væri að hleypa kúnum út, þegar viss fönn í Veggjunum ofan við bæinn Kílakot væri öll. Enn eru nokkrir dagar í að svo verði, en nú eru engar kýr lengur hér í sveit. Þar með er fönnin orðin gagnslaus með öllu.

Óhætt er víst að veiða fisk í soðið og til að kaldreykja með haustinu, einnig að tína nokkur gæsaegg, bara til þess að minna mann á jarðargróðann.

 

 

Á hvítasunnuhelginni var sólskin og góður hiti hér í Kelduhverfi; fór í einar 13 gráður. Í gærmorgun snemma var krapi á vegum og flughált, en tók fljótt upp og varð skínandi bjart, þegar leið á daginn. Nú í morgunsárið klukkan sex var jörð alhvít, hvass norð-vestan og bleytuhríð. Það viðrar ekki vel til útivinnu.

Plöntur eru lítið teknar við sér; vorperla hefur ekki sézt enn þá, en var í fullum blóma um þetta leyti í fyrra. Varla er komin slikja á tún, en hins vegar er ekkert kal sjáanlegt; brumknappar á birki rétt teknir að þrútna. Smáfuglarnir hafa látið sig hverfa og lambféð hýst. Þrátt fyrir allt er vorið á næsta leiti. (22./5. 2013)

 

 

Gerlar sem grenna

Fólki hefur verið talin trú um, að til séu töflur, sem brenni fitu í líkamanum. Fram til þessa hefur allt slíkt verið tálsýn. En hver veit nema þeir tímar komi, að unnt verði að kaupa töflur, sem brenna líkamsfitu.

Meira um þetta á ahb.is: http://ahb.is/gerlar-sem-grenna/

 

 

 

Í Svíþjóð og Danmörku er farið að beita nýrri tækni við að eyða óæskilegum plöntum („illgresi“). Í raun er þessi aðferð afar einföld. Snarpheitu vatni er sprautað yfir plönturnar, og þar sem blandað er í vatnið sykurlegi úr maís og kókospálma helzt vatnið nægilega heitt svo lengi, að frumur drepast.

Vel þess virði að kynna sér þetta. (24. maí 2013)

Sjá:

http://www.lkf.se/…/…/id_6347/scope_0/ImageVaultHandler.aspx

 

http://www.lkf.se/…/…/id_6347/scope_0/ImageVaultHandler.aspx

 

 

Ætli gangur í stjórnar-myndunar-viðræðunum sé ekki svipaður og segir frá í sögu þessari:

Bóndi nokkur í Rangárvallasýslu var að koma af stranduppboði í Landeyjum með kerru sína klyfjaða af timbri. Í strandaða skipinu var eitthvað af áfengi og höfðu nokkrir dropar af því svifið upp í heilabúið á bónda, svo að hann tók ekki eftir því, að kerran valt, en sat á hesti sínum og barði fótastokkinn, þegar annar bóndi mætti honum og sagði: „Það gengur ekki vel hjá þér núna, Jón minn.“ En Jón hélt áfram að toga í tauminn á hestinum, sem lá afvelta niðri í skurði ásamt kerrunni, og svaraði: „Nei, það gengur ekki vel – en það mjakast þó.“

 

 

Margir kvíða því, að verða hæruskotnir með aldrinum, þó alls ekki allir. Ástæðan fyrir því, að hárið gránar, er sú, að H2S (vetnisperoxið, brintoverilte) safnast fyrir í hársverði. Við það eyðist litarefnið í hárunum.

Nú hafa menn úti í hinum stóra heimi fundið aðferð til þess að koma í veg fyrir þessa söfnun efnisins, sem oxar litarefni í hári. Þeir hafa þó ekki greint frá því, hver galdurinn er, en það mun ekki líða langur tími þangað til þeir opinbera vizku sína. Menn þessir voru að rannsaka skjallbletti (vitiligo), en það er sjúkdómur, sem veldur því, að húðin verður hvít. Sumir hafa fáa slíka bletti á líkama sínum en aðrir verða alhvítir. Það gerist, þegar framleiðsla á litarefni húðarinnar hættir eða efnið eyðist jafnóðum.

Innan fárra ára munu menn og konur því hætta að lita á sér hárið.

Sjá nánar: http://www.eurekalert.org/pub_releases/2013-05/foas-gha050313.php

 

 

 

Fyrstu kynni mín af Þór Vigfússyni voru haustið 1972, þegar eg hóf störf í Menntaskólanum við Tjörnina. Einn morguninn var eg að bjástra við spritt-fjölritara og gekk heldur óhöndullega. Þór kom þar að óbeðinn og sagðist nú skyldi kenna mér í eitt skipti fyrir öll á þennan „vandræðagrip“, eins og hann orðaði það. Sýndi hann mér síðan á sinn ljúfa hátt, hvernig standa ætti að verki. Að lokum sagði hann við mig. „Eitt vil eg brýna fyrir þér alveg sérstaklega, Ágúst minn. Sprittið er alveg ódrekkandi, jafnvel í sárustu neyð.“

Það er mikil eftirsjá að jafn drenglunduðum manni.

 

 

Enn ein ambagan hraut af vörum fréttalesara í sjónvarpsfréttum í kvöld. Orðrétt sagði hann: „Bændur í Svarfaðardal í Eyjafirði.“

Eins og menn ættu að vita er Svarfaðardalur við Eyjafjörð en ekki inni (frammi) í Eyjafirði. Það er munur á því, hvort menn búa í Eyjafirði eða við Eyjafjörð. Akureyri er við Eyjafjörð, en Grund er í Eyjafirði.

 

 

Það getur verið gott ráð fyrir þá, sem eru þjakaðir af magaverkjum að eta standandi. Þetta kemur fram í umfangsmikilli rannsókn í Bretlandi. Sérstaklega á þetta við um þá, sem finna til í efri hluta meltingarfæra og þjást af nábít og brjóstsviða. Þá er kaffi- og brennivínsdrykkja ekki sérlega holl fyrir maga.

Um þetta og miklu fleira má lesa í ítarlegri og hnýsilegri skýrslu:

http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmedhealth/PMH0010055/

 

 

Gott fólk. – Nú er búið að uppgötva af hverju hrunið varð á Íslandi og í fleiri löndum. Ástæðan er sú, að það er meinleg stærðfræðileg villa í Excel-forritinu; og þar með voru allar áætlanir rangar. (Rannsóknaskýrsla alþingis er marklaust plagg.) Það var 28 gamall námsmaður í háskólanum í Massachusetts, sem leiddi þetta í ljós.

Lesið þetta hér: http://www.dn.se/ledare/signerat/peter-wolodarski-ska-ett-raknefel-fa-europas-ledare-att-vakna/

 

 

Gróðurhúsalofttegundir, sem myndast við bruna á benzíni og olíu, valda mikilli mengun í andrúmslofti, eins og menn vita. Mikið kapp er því lagt á að finna nýja orkugjafa.

Nú hafa vísindamenn í Exeter og við rannsóknarsetur Shell í Thornton fundið nýja leið til þess að láta geril (bakteríu) úr þörmum, saurgeril (E. coli), mynda benzín- og dísilolíu-líki úr lífrænu efni. Inn í erfðaefni saurgerils er meðal annars skotið aukageni úr kamfórutréinu (Cinnamomum camphora). Þetta nýja líf-eldsneyti er talið mun betra en það, sem áður hefur verið framleitt.

Sjá: http://www.pnas.org/content/110/19/7642.abstract

 

 

Úrslit kosninga liggja fyrir. Stóra spurningin er, hvers vegna fóru þær á þennan veg. Er það vegna þess, að nú gátu hvorki Siv né Árni úr Eyjum orðið ráðherrar; þá var óhætt að kjósa B og D. Eða nú var engin Jóhanna til þess að bjarga heimilunum lengur; gagnslaust að kjósa S. Þetta eru sennilegar skýringar og ekkert verri en aðrar.

Allir flokkar þykjast vera náttúruverndarsinnar. Samt sem áður hefur enginn skilgreint, hvað það merkir; þar er engum að treysta. Hvar mun ýtutönninni verða beitt: Bjarnarflagi, Teigsskógi, Þjórsá, Kerlingargfjöllum, Langasjó? Allt fyrir þjóðarhag.

 

 

Hver skoðanakönnun á fætur annarri birtist þessa daga á fylgi framboða. Menn leika sér að því að bera tölur saman úr ýmsum könnunum, enda mjög auðvelt að sjá, að 11% er minna en 8%. Engu að síður virðist sem dæmigerður fréttamaður treysti sér alls ekki til þess að segja það stafrétt, heldur leitar ávallt til prófessora í háskólum, sem eg efa að kunni prósentureikning betur en almúginn.

Enn kvíðvænlegri er kosninganóttin, þegar þessir sömu prófessorar eru fengnir í sjónvarpssal. Það eina sem þeir leggja til mála er að bera úrslit saman við gamlar skoðanakannanir, sem hefur nákvæmlega ekkert gildi. Leiðinlegri menn sjást ekki á skjánum.

Hér í eina tíð voru fengnir valinkunnir menn, sem spáðu í spilin eftir því sem tölum skilaði inn, sögðu sögur af fyrri kosningum og ræddu um menn og málefni á léttum nótum en af fullri skynsemi. Það var annar og betri bragur á kosninganóttum í sjónvarpi fyrir tíð stjórnmálafræðinganna.

 

 

 

Fræðaþulurinn Jón R. Hjálmarsson reit kímna grein í Heima er bezt 3. tbl. 63. árg. 2013 um ótíndan langferðarbílstjóra. Minni Jóns og skýrleiki er með eindæmum, en hann er rúmlega níræður að aldri. Þá sakar ekki að minna á þetta einstaka tímarit, Heima er bezt, sem er sneisafullt af margvíslegum fróðleik eftir marga skilríka heiðursmenn. Eg hvet alla til þess að glugga í ritið.

Sjá: http://ahb.is/glettin-grein-eftir-jon-r-hjalmarsson-med-bessaleyfi/

 

 

 

Carl von Linné (1707-1778) skilgreindi tegundarhugtakið út frá útliti lífvera: Species tot numeramus, quot diversæ formæ in pricipio sunt creatæ, eins og það hljóðar á latínu.

 

Við upphaf 20. aldar var hugtakið tegund skilgreint út frá lífsstarfseminni (sjá: Ernst Mayr 1904-2005) og hljóðar þannig:

 

Allir einstaklingar, sem í öllum meginatriðum eru eins að gerð og útliti, geta æxlazt saman og eignazt frjó og heilbrigð afkvæmi, teljast til sömu tegundar.

 

Um 1960 varð mönnum ljóst, að þessi skilgreining var alls ekki einhlít, meðal annars vegna þess, að margar lífverur fjölga sér kynlaust. Þá var horft til þróunarskyldleika lífvera og hugtakið tegund látið ná til hóps lífvera, sem á sér einn sameiginlegan forföður og er skyldari innbyrðis en öðrum hópum. Þegar farið var að greina erfðaefnið DNA , blöstu við ný álitamál. Mjög ólíkar lífverur í útliti geta verið líkar að erfðaefni; þá getur erfðaefnið verið háð því umhverfi, sem lífvera býr við.

 

Ýmsir eru þeirrar skoðunar, að tegundarhugtakið hafi ekkert gildi og vandkvæði við að skilgreina hugtakið færi mönnum heim sanninn um það, að ekki sé rétt að flokka náttúruna á grundvelli tegunda. Á hinn bóginn kunna menn engin önnur ráð enn til þess að skilgreina lífverur í hættu og fjölbreytni náttúrunnar nema með því að styðjast við þetta hugtak.

 

Vegna þessarar óvissu veit enginn, hvað til eru margar tegundir í veröldinni og hafa verið nefndar tölur á milli þrjár miljónir og 100 miljónir. En það sem er furðulegast af öllu furðulegu, er, að maðurinn hefur alltaf horn í síðu einnar tegundar og telur hana eina óalandi og óferjandi og það er: Homo sapiens. (Sjá m.a. lög um náttúruvernd.)

 

 

Nú er búið að sanna það, sem maður hefur alltaf þótzt vita, að norrænn matur er heilsusamlegastur handa okkur hér á norðurslóð. Ekki viturlegt að troða í sig einhverju Miðjarðarhafs-fæði.

Sjá þessa frétt: http://www.dn.se/nyheter/vetenskap/nordisk-kost-bra-for-folkhalsan/

 


681 Responses to “Fésbókar-raus I”
 1. buy essay says:

  Good post. I learn something new and challenging on websites I stumbleupon on a daily basis.

  It’s always exciting to read content from other authors
  and practice something from their web sites. buy essay online

 2. MaryJab says:

  [url=https://tadalafil20mg.online/]price comparison tadalafil[/url]

 3. PaulJab says:

  [url=https://effexor.quest/]effexor 10 mg[/url]

 4. JasonJab says:

  [url=http://prozacfluoxetine.com/]average cost of prozac[/url] [url=http://tadalafilgenericonline.com/]best tadalafil tablet[/url] [url=http://tadalafilatabs.online/]tadalafil canada 20mg[/url] [url=http://albuterolventolin.online/]albuterol purchase without prescription canada[/url] [url=http://disulfiram.quest/]antabuse to buy[/url] [url=http://cialiscanadianpharmacy.online/]cheap cialis canada online[/url] [url=http://iverpill.online/]ivermectin oral 0 8[/url] [url=http://ivermectinttab.com/]ivermectin generic[/url] [url=http://finpecia.quest/]finpecia tablet[/url] [url=http://genericsildenafilcitrate.quest/]20 mg sildenafil 30 tablets cost[/url]

 5. LisaJab says:

  [url=https://canadianpharmacyviagra.quest/]viagra medicine online in india[/url]

 6. BooJab says:

  [url=https://sildenafilutabs.online/]sildenafil 50 mg tablet price in india[/url]

 7. AshJab says:

  [url=https://kamagra.monster/]kamagra 1000 tablets[/url]

 8. AlanJab says:

  [url=http://amoxilamoxicillin.com/]buy amoxicillin 500mg usa[/url] [url=http://ivermectinytabs.com/]ivermectin 50mg/ml[/url] [url=http://albuterolventolin.online/]no prescription ventolin[/url] [url=http://neurontin.monster/]neurontin 300 mg price[/url] [url=http://cialis10.online/]online cialis[/url] [url=http://cymbalta.monster/]cymbalta 40 mg capsule[/url] [url=http://prozacfluoxetine.com/]prozac brand[/url] [url=http://cialisttabs.online/]generic cialis online pharmacy canada[/url] [url=http://fluoxetine.quest/]fluoxetine 40 mg price[/url] [url=http://ivermectinktab.online/]ivermectin 0.5%[/url]

 9. AshJab says:

  [url=https://levitravardenafil.online/]buy levitra online canada[/url]

 10. AmyJab says:

  [url=http://antabuse.today/]buy anti buse[/url]

 11. AshJab says:

  [url=https://abilify.quest/]abilify 15mg tab[/url]

 12. TedJab says:

  [url=http://genericcialispills.quest/]cialis 800 mg[/url]

 13. YonJab says:

  [url=http://ivermectinpill.monster/]stromectol price uk[/url]

 14. LisaJab says:

  [url=https://budesonide.monster/]budesonide 3 mg coupon[/url]

 15. DenJab says:

  [url=http://medviagra.com/]where to buy viagra over the counter uk[/url] [url=http://cialisict.com/]cialis 10mg tablet[/url] [url=http://sildenafilpillcost.com/]sildenafil pills online[/url] [url=http://stratteramedication.live/]strattera price south africa[/url] [url=http://bestviagrageneric.com/]where to order generic viagra[/url]

 16. WimJab says:

  [url=https://cialiswise.com/]cheap cialis with prescription[/url]

 17. KiaJab says:

  [url=http://viagracoupons.quest/]viagra tablet[/url]

 18. AmyJab says:

  [url=http://genericcialis20mgbestprice.monster/]can i buy cialis without a prescription[/url]

 19. AshJab says:

  [url=http://cheapcialis40mgtablets.monster/]cialis 2 mg[/url]

 20. TeoJab says:

  [url=http://sildenafilprotabs.com/]buy sildenafil viagra[/url]

 21. YonJab says:

  [url=http://tadalafilnbuy.com/]tadalafil cheap[/url]

 22. DenJab says:

  [url=https://tadalafilcd.com/]tadalafil 5mg tablets price[/url] [url=https://hpviagra.com/]viagra online usa pharmacy[/url] [url=https://prednisone.online/]prednisone drug costs[/url] [url=https://nexium.monster/]nexium generic price[/url] [url=https://ordersildenafiltablets.com/]where can i buy sildenafil online safely[/url]

 23. DenJab says:

  [url=https://sidenafil.quest/]sildenafil cheapest price in india[/url] [url=https://talafil.quest/]tadalafil cost in mexico[/url] [url=https://sialic.quest/]cialis cheapest price canada[/url] [url=https://cialsgeneric.quest/]discount coupon cialis[/url] [url=https://cialiprice.quest/]cialis daily australia[/url]

 24. CarlJab says:

  [url=http://sildenofiliagra.quest/]buy viagra online generic[/url]

 25. JasonJab says:

  [url=https://viarageneric.quest/]viagra tablets canada[/url] [url=https://buysildenafl.quest/]sildenafil 1.5[/url] [url=https://ciali20mg.quest/]buy cialis over the counter canada[/url] [url=https://viagatablet.quest/]female viagra online purchase in india[/url] [url=https://viarga100mg.quest/]viagra uk order[/url] [url=https://buyingviaga.quest/]viagra pills uk[/url] [url=https://tadalafi.quest/]tadalafil tablets 80 mg[/url] [url=https://buyviaga.quest/]cheap viagra online australia[/url] [url=https://cial20.quest/]cialis without a script[/url] [url=https://tadalalif.quest/]tadalafil 20mg online[/url]

 26. BooJab says:

  [url=http://ivermectinitab.com/]ivermectin for sale[/url]

 27. KiaJab says:

  [url=https://viagara.quest/]cost of viagra 100mg[/url]

 28. BooJab says:

  [url=http://modafinilgeneric.online/]modafinil online prescription uk[/url]

 29. CarlJab says:

  [url=https://buyfluoxetine.online/]fluoxetine tablet prices[/url]

 30. AmyJab says:

  [url=https://buyhydrochlorothiazide.online/]hydrochlorothiazide over the counter[/url]

 31. UgoJab says:

  [url=https://augmentin.live/]augmentin generic pill[/url]

 32. AbertAcume says:

  скільки буде тривати війна в україні 2022 скільки триватиме війна в україні коли закінчиться війна в україні 2022 екстрасенси

 33. Your style is so unique compared to many other people. Thank you for publishing when you have the opportunity,Guess I will just make this bookmarked.2

 34. Blakerep says:

  homeowners insurance rates [url=https://ghi.bloghut.ru]https://ghi.bloghut.ru[/url] university of houston masters in education

 35. Josephneark says:

  how does college financial aid work [url=http://services-sector.ru/clubpointeresam/memberlist.php?mode=viewprofile&u=73679]kenneth chenault american express[/url] rice university website

 36. MichaelDom says:

  norfolk university [url=https://dataput.ru]https://dataput.ru[/url] car repair advice

 37. JoshuaSep says:

  what is the lsat score range [url=https://dataqut.ru]https://dataqut.ru[/url] commercial ice bags

 38. FelipeHax says:

  fixing a leaking faucet [url=https://uhod-za-kozhej-posle-leta.blogspot.com]https://uhod-za-kozhej-posle-leta.blogspot.com[/url] security cameras sacramento

 39. BrettCal says:

  temperature in florida in february [url=https://news-sport-ua.blogspot.com]https://news-sport-ua.blogspot.com[/url] Jacksonville appliances

 40. I like the helpful information you provide in your articles. I’ll bookmark your blog and check again here regularly. I am quite certain I will learn many new stuff right here! Good luck for the next!

 41. Good write-up, I am normal visitor of one’s site, maintain up the excellent operate, and It is going to be a regular visitor for a long time.

 42. Cliftonfap says:

  project management enterprise [url=https://newsmee.ru]https://newsmee.ru[/url] how to become certified ethical hacker

 43. BrianJoype says:

  в айфоне 4s как настроить интернет neoline x cop 9100s цена [url=https://firstneed.ru/post/7]https://firstneed.ru/post/7[/url] яойные картинки стальному алхимику

 44. Wohh exactly what I was looking for, thanks for putting up.

 45. Perfect piece of work you have done, this site is really cool with wonderful information.

 46. Can I just say what a relief to seek out someone who actually knows what theyre talking about on the internet. You definitely know easy methods to deliver a problem to light and make it important. Extra folks need to read this and understand this facet of the story. I cant consider youre no more common since you positively have the gift.

 47. F*ckin’ amazing things here. I am very glad to see your post. Thanks a lot and i am looking forward to contact you. Will you kindly drop me a e-mail?

 48. Thank you for the good writeup. It in fact was a amusement account it. Look advanced to far added agreeable from you! By the way, how can we communicate?

 49. Excellent post. I was checking constantly this blog and I am impressed! Very useful info specifically the last part 🙂 I care for such info much. I was seeking this certain info for a long time. Thank you and best of luck.

 50. Utterly pent articles, Really enjoyed looking through.

 51. Thanks for your own labor on this site. My daughter loves carrying out internet research and it’s simple to grasp why. A lot of people learn all about the lively manner you offer practical secrets on your blog and as well as increase response from visitors on the content and our favorite child has always been studying a lot. Have fun with the remaining portion of the new year. You’re carrying out a brilliant job.

 52. Whats Happening i am new to this, I stumbled upon this I have found It absolutely helpful and it has helped me out loads. I am hoping to give a contribution & aid other customers like its helped me. Great job.

 53. Wonderful beat ! I would like to apprentice whilst you amend your web site, how can i subscribe for a weblog web site? The account helped me a acceptable deal. I were tiny bit acquainted of this your broadcast offered brilliant transparent idea

 54. I wanted to thank you for this great read!! I definitely enjoying every little bit of it I have you bookmarked to check out new stuff you post…

 55. Its like you read my mind! You seem to know a lot about this, like you wrote the book in it or something. I think that you can do with a few pics to drive the message home a bit, but other than that, this is excellent blog. An excellent read. I will certainly be back.

 56. Good info. Lucky me I reach on your website by accident, I bookmarked it.

 57. Do you mind if I quote a couple of your posts as long as I provide credit and sources back to your site? My blog is in the very same niche as yours and my users would definitely benefit from a lot of the information you present here. Please let me know if this alright with you. Many thanks!

 58. Hey, you used to write magnificent, but the last several posts have been kinda boring?K I miss your great writings. Past few posts are just a little bit out of track! come on!

 59. This website online is mostly a stroll-by for all the info you wanted about this and didn’t know who to ask. Glimpse here, and also you’ll definitely discover it.

 60. Hello there! Do you use Twitter? I’d like to follow you if that would be ok. I’m undoubtedly enjoying your blog and look forward to new posts.

 61. I do trust all of the concepts you have introduced for your post. They are very convincing and can definitely work. Nonetheless, the posts are very brief for beginners. Could you please lengthen them a bit from next time? Thanks for the post.

 62. Hi, just required you to know I he added your site to my Google bookmarks due to your layout. But seriously, I believe your internet site has 1 in the freshest theme I??ve came across. It extremely helps make reading your blog significantly easier.

 63. Some really prize posts on this website , saved to favorites.

 64. Very efficiently written story. It will be beneficial to everyone who utilizes it, including myself. Keep doing what you are doing – i will definitely read more posts.

 65. I dugg some of you post as I cogitated they were very beneficial extremely helpful

 66. I love it when people come together and share opinions, great blog, keep it up.

 67. It is in reality a nice and useful piece of information. I am satisfied that you shared this useful info with us. Please keep us up to date like this. Thank you for sharing.

 68. haberci says:

  certainly like your website but you need to take a look at the spelling on quite a few of your posts. Many of them are rife with spelling problems and I find it very troublesome to inform the reality nevertheless I will definitely come back again.

 69. İstanbul hurdacı firması olarak tüm hurdalarınızı adresinizden alıyoruz.

 70. Those are yours alright! . We at least need to get these people stealing images to start blogging! They probably just did a image search and grabbed them. They look good though!

 71. What i don’t realize is in reality how you’re not really much more well-appreciated than you might be right now. You are so intelligent. You understand therefore significantly in the case of this topic, produced me in my view imagine it from so many numerous angles. Its like men and women are not interested until it is something to do with Girl gaga! Your own stuffs nice. All the time take care of it up!

 72. slotakurat says:

  Hi would you mind letting me know which hosting company you’re utilizing? I’ve loaded your blog in 3 different browsers and I must say this blog loads a lot quicker then most. Can you suggest a good web hosting provider at a reasonable price? Cheers, I appreciate it!

 73. Hey! I know this is kind of off topic but I was wondering if you knew where I could locate a captcha plugin for my comment form? I’m using the same blog platform as yours and I’m having difficulty finding one? Thanks a lot!

 74. It is perfect time to make a few plans for the longer term and it is time to be happy. I’ve read this put up and if I may I desire to suggest you few interesting things or suggestions. Perhaps you can write next articles regarding this article. I wish to read more issues about it!

 75. netent slot says:

  I like what you guys are up too. Such intelligent work and reporting! Keep up the excellent works guys I’ve incorporated you guys to my blogroll. I think it will improve the value of my web site :).

 76. Very interesting subject , thanks for posting.

 77. Wonderful beat ! I would like to apprentice while you amend your website, how can i subscribe for a blog website? The account helped me a acceptable deal. I had been a little bit acquainted of this your broadcast provided bright clear idea

 78. pg slot says:

  I am glad to be one of many visitants on this outstanding internet site (:, appreciate it for posting.

 79. Wow, amazing weblog structure! How long have you ever been blogging for? you made running a blog glance easy. The full look of your website is excellent, as smartly as the content!

 80. Thank you for sharing excellent informations. Your web-site is very cool. I’m impressed by the details that you have on this web site. It reveals how nicely you perceive this subject. Bookmarked this web page, will come back for more articles. You, my friend, ROCK! I found simply the information I already searched all over the place and simply could not come across. What an ideal web-site.

 81. It?¦s actually a cool and helpful piece of info. I am happy that you just shared this useful information with us. Please stay us up to date like this. Thanks for sharing.

 82. surgawin says:

  This blog is definitely rather handy since I’m at the moment creating an internet floral website – although I am only starting out therefore it’s really fairly small, nothing like this site. Can link to a few of the posts here as they are quite. Thanks much. Zoey Olsen

 83. Playslot77 says:

  Hmm it seems like your blog ate my first comment (it was extremely long) so I guess I’ll just sum it up what I wrote and say, I’m thoroughly enjoying your blog. I as well am an aspiring blog writer but I’m still new to everything. Do you have any suggestions for newbie blog writers? I’d genuinely appreciate it.

 84. Fastwin77 says:

  Very interesting points you have remarked, thanks for posting.

 85. Betwing88 says:

  I am glad to be a visitant of this thoroughgoing web site! , thanks for this rare information! .

 86. Sensaslot88 says:

  I love the efforts you have put in this, thank you for all the great articles.

 87. data hk says:

  I have been examinating out some of your stories and it’s clever stuff. I will make sure to bookmark your blog.

 88. Thanks a bunch for sharing this with all folks you actually realize what you’re talking approximately! Bookmarked. Please also talk over with my website =). We can have a hyperlink alternate contract between us!

 89. You made some good points there. I looked on the internet for the issue and found most people will approve with your blog.

 90. Howdy! Would you mind if I share your blog with my facebook group? There’s a lot of people that I think would really enjoy your content. Please let me know. Thanks

 91. Its fantastic as your other blog posts : D, regards for putting up.

 92. Carma says:

  It’s in reality a nice and helpful piece of information. I am satisfied that you shared this
  helpful info with us. Please keep us informed like this.
  Thank you for sharing.

 93. swift sped says:

  AFCON 2023 hello my website is stussy tee

 94. the fall hello my website is rtp hero77

 95. sfo airport says:

  atalanta flashscore hello my website is 775 ces

 96. ai cosplay says:

  spin bet303 hello my website is soccer tip

 97. town apk says:

  shopeepay 1000 hello my website is yemi alade

 98. bawa jagung says:

  dilwale photo hello my website is Perfect Guitar

 99. in gacha hello my website is open kitchen

 100. mtown says:

  alphaviril hello my website is nhau không

 101. di nct hello my website is pikaslot

 102. Indira says:

  Today, I went to the beach front with my children. I found a sea shell and gave it to my 4 year old daughter and said “You can hear the ocean if you put this to your ear.” She put the shell
  to her ear and screamed. There was a hermit crab inside and it pinched
  her ear. She never wants to go back! LoL I know this
  is completely off topic but I had to tell someone!

 103. jsEncrypt says:

  jsEncrypt hello my website is jsEncrypt

 104. ligabola says:

  ligabola hello my website is ligabola

 105. kiriku says:

  kiriku hello my website is kiriku

 106. Bet138 says:

  Bet138 hello my website is Bet138

 107. LT1705 says:

  LT1705 hello my website is LT1705

 108. Wav2Lip says:

  Wav2Lip hello my website is Wav2Lip

 109. pt slot says:

  pt slot hello my website is pt slot

 110. ibc bet says:

  ibc bet hello my website is ibc bet

 111. kuršiai says:

  kuršiai hello my website is kuršiai

 112. js加密 says:

  js加密 hello my website is js加密

 113. mu makan says:

  mu makan hello my website is mu makan

 114. result angka says:

  result angka hello my website is result angka

 115. pengertian wildcard hello my website is pengertian wildcard

 116. husband vincent hello my website is husband vincent

 117. salah al says:

  salah al hello my website is salah al

 118. leo rojas says:

  leo rojas hello my website is leo rojas

 119. The Outwaters hello my website is The Outwaters

 120. streaming tetek hello my website is streaming tetek

 121. Suggestive, This is a good website Suggestive

 122. Arousal, This is a good website Arousal

 123. Enhance Anus says:

  Enhance, This is a good website Enhance

 124. Enhance, This is a good website Enhance

 125. Libido, This is a good website Libido

 126. Mature, This is a good website Mature

 127. Mammary, This is a good website Mammary

 128. Sexy, This is a good website Sexy

 129. Enhance, This is a good website Enhance

 130. I have learn some good stuff here. Definitely worth bookmarking for revisiting. I wonder how so much effort you set to create the sort of wonderful informative website.

 131. tlover tonet says:

  Hi my friend! I want to say that this post is amazing, nice written and include almost all important infos. I’d like to see more posts like this.

 132. tlovertonet says:

  Amazing! This blog looks exactly like my old one! It’s on a completely different subject but it has pretty much the same layout and design. Great choice of colors!

 133. What a stuff of un-ambiguity and preserveness
  of valuable know-how about unpredicted feelings.

 134. Michaelfoold says:

  can i order generic clomid for sale: buying generic clomid no prescription – can i order generic clomid no prescription

 135. MichaelEntet says:

  http://amoxil.icu/# buy cheap amoxicillin online

 136. TimothyVok says:

  order prednisone: prednisone without rx – prednisone oral

 137. StevenRog says:

  tamoxifen postmenopausal: п»їdcis tamoxifen – tamoxifen blood clots

 138. StevenRog says:

  buy misoprostol over the counter: cytotec abortion pill – buy misoprostol over the counter

 139. StevenRog says:

  cytotec buy online usa: cytotec online – cytotec buy online usa

 140. Matthewwex says:

  https://canadapharm.life/# canadian online drugstore canadapharm.life

 141. DavidSlono says:

  legit canadian online pharmacy: canada drugs online reviews – ed drugs online from canada canadapharm.life

 142. AndrewJoync says:

  canadian pharmacy india: Canada Drugs Direct – canadian pharmacy world reviews canadapharm.life

 143. Matthewwex says:

  http://indiapharm.llc/# top online pharmacy india indiapharm.llc

 144. Henryteday says:

  canada discount pharmacy [url=https://canadapharm.life/#]Pharmacies in Canada that ship to the US[/url] ed meds online canada canadapharm.life

 145. AndrewJoync says:

  canadian pharmacies comparison: Canadian pharmacy best prices – canadian pharmacy prices canadapharm.life

 146. DavidSlono says:

  canadian pharmacy meds: Cheapest drug prices Canada – onlinecanadianpharmacy canadapharm.life

 147. Matthewwex says:

  http://indiapharm.llc/# indianpharmacy com indiapharm.llc

 148. Henryteday says:

  indian pharmacies safe [url=http://indiapharm.llc/#]India Post sending medicines to USA[/url] cheapest online pharmacy india indiapharm.llc

 149. AndrewJoync says:

  my canadian pharmacy rx: Canadian online pharmacy – reddit canadian pharmacy canadapharm.life

 150. PeterFooks says:

  http://levitradelivery.pro/# Buy Vardenafil online

 151. CharlesEncom says:

  viagra sildenafil 100mg [url=https://sildenafildelivery.pro/#]discount pharmacy sildenafil[/url] buy sildenafil canada

 152. JosephNoigh says:

  http://kamagradelivery.pro/# п»їkamagra
  sildenafil price usa [url=http://sildenafildelivery.pro/#]Cheapest Sildenafil online[/url] sildenafil 50 mg canada

 153. JosephNoigh says:

  https://tadalafildelivery.pro/# best tadalafil generic
  sildenafil generic purchase [url=https://sildenafildelivery.pro/#]Cheapest Sildenafil online[/url] sildenafil generic drug cost

 154. CharlesEncom says:

  sildenafil 25 mg buy online [url=http://sildenafildelivery.pro/#]Buy generic 100mg Sildenafil online[/url] cheapest generic sildenafil uk

 155. JosephNoigh says:

  https://sildenafildelivery.pro/# sildenafil online
  Kamagra 100mg [url=http://kamagradelivery.pro/#]kamagra oral jelly[/url] п»їkamagra

 156. DavidWheef says:

  п»їpaxlovid [url=https://paxlovid.guru/#]Paxlovid buy online[/url] paxlovid covid

 157. Greggwhins says:

  paxlovid cost without insurance: paxlovid price without insurance – paxlovid price

 158. Robertpaype says:

  https://prednisone.auction/# buy prednisone online without a script

 159. DavidWheef says:

  Paxlovid over the counter [url=https://paxlovid.guru/#]buy paxlovid online[/url] paxlovid cost without insurance

 160. Greggwhins says:

  can i get generic clomid without a prescription: clomid generic – how can i get generic clomid price

 161. Robertpaype says:

  http://stromectol.guru/# ivermectin stromectol

 162. DavidWheef says:

  buy paxlovid online [url=https://paxlovid.guru/#]buy paxlovid online[/url] paxlovid for sale

 163. Greggwhins says:

  ivermectin oral 0 8: ivermectin for sale – where to buy ivermectin

 164. Your style is really unique compared to other people I have read stuff from.
  I appreciate you for posting when you’ve got the opportunity,
  Guess I’ll just bookmark this site.

 165. Enriquespene says:

  http://clomid.auction/# where buy generic clomid tablets

 166. RobertRor says:

  generic lisinopril 3973 [url=http://lisinopril.fun/#]buy lisinopril online[/url] lisinopril 12.5 mg price

 167. WilliamSnind says:

  http://lisinopril.fun/# lisinopril price in canada

 168. Keithdic says:

  https://lisinopril.fun/# prinivil 20 mg tablet

 169. Robertsaigo says:

  Cytotec 200mcg price: cheap cytotec – buy misoprostol over the counter

 170. Charlieglola says:

  http://furosemide.pro/# lasix furosemide

 171. RobertRor says:

  buy misoprostol over the counter [url=http://misoprostol.shop/#]Buy Abortion Pills Online[/url] buy cytotec over the counter

 172. WilliamSnind says:

  https://lisinopril.fun/# buy lisinopril online no prescription india

 173. Keithdic says:

  http://finasteride.men/# buy cheap propecia without rx

 174. Robertsaigo says:

  buy cytotec over the counter: Buy Abortion Pills Online – buy cytotec in usa

 175. RobertRor says:

  lisinopril 104 [url=http://lisinopril.fun/#]buy lisinopril canada[/url] cost of lisinopril 40mg

 176. WilliamSnind says:

  http://azithromycin.store/# buy zithromax without presc

 177. Robertsaigo says:

  Cytotec 200mcg price: buy cytotec online – buy cytotec online

 178. Keithdic says:

  http://azithromycin.store/# zithromax antibiotic

 179. RobertRor says:

  lisinopril drug [url=https://lisinopril.fun/#]lisinopril 10 mg online[/url] zestril 10 mg

 180. Robertsaigo says:

  buy propecia now: Finasteride buy online – cost of generic propecia

 181. WilliamSnind says:

  http://furosemide.pro/# lasix dosage

 182. RobertRor says:

  buy cheap generic zithromax [url=https://azithromycin.store/#]buy zithromax z-pak online[/url] zithromax z-pak price without insurance

 183. Keithdic says:

  https://lisinopril.fun/# order lisinopril online

 184. RobertRor says:

  lasix generic name [url=http://furosemide.pro/#]Buy Lasix No Prescription[/url] lasix 40mg

 185. WilliamSnind says:

  https://finasteride.men/# cost propecia price

 186. ForrestMourl says:

  п»їfarmacia online migliore [url=http://farmaciaitalia.store/#]farmacia online piu conveniente[/url] farmacie online autorizzate elenco

 187. ForrestMourl says:

  farmaci senza ricetta elenco [url=https://tadalafilitalia.pro/#]Tadalafil prezzo[/url] farmacia online piГ№ conveniente

 188. ForrestMourl says:

  comprare farmaci online all’estero [url=http://avanafilitalia.online/#]avanafil prezzo[/url] farmacie online sicure

 189. WalterMEn says:

  https://sildenafilitalia.men/# cerco viagra a buon prezzo

 190. Wendellassox says:

  https://sildenafilitalia.men/# viagra acquisto in contrassegno in italia

 191. ForrestMourl says:

  farmacie on line spedizione gratuita [url=http://kamagraitalia.shop/#]kamagra oral jelly consegna 24 ore[/url] farmacia online senza ricetta

 192. Charleshom says:

  canada drugs online reviews [url=https://canadapharm.shop/#]canadian pharmacy meds[/url] canadian pharmacy king reviews

 193. RobertJogue says:

  indian pharmacy: Online medicine order – buy prescription drugs from india

 194. PhilipHus says:

  http://mexicanpharm.store/# buying prescription drugs in mexico online

 195. Stevenhooge says:

  indian pharmacies safe: indian pharmacy paypal – online shopping pharmacy india

 196. Charleshom says:

  medication from mexico pharmacy [url=http://mexicanpharm.store/#]mexican mail order pharmacies[/url] best online pharmacies in mexico

 197. RobertJogue says:

  online shopping pharmacy india: reputable indian pharmacies – india pharmacy mail order

 198. Stevenhooge says:

  canadian pharmacy 24h com: canadian drug prices – canada drugstore pharmacy rx

 199. PhilipHus says:

  http://canadapharm.shop/# cheapest pharmacy canada

 200. Charleshom says:

  medicine in mexico pharmacies [url=https://mexicanpharm.store/#]reputable mexican pharmacies online[/url] purple pharmacy mexico price list

 201. Stevenhooge says:

  reputable mexican pharmacies online: mexican pharmaceuticals online – mexican rx online

 202. RobertJogue says:

  mexican border pharmacies shipping to usa: п»їbest mexican online pharmacies – pharmacies in mexico that ship to usa

 203. PhilipHus says:

  https://canadapharm.shop/# pharmacy canadian

 204. Charleshom says:

  canadian pharmacy checker [url=http://canadapharm.shop/#]canadian pharmacy near me[/url] my canadian pharmacy

 205. RobertJogue says:

  cheapest online pharmacy india: online shopping pharmacy india – reputable indian online pharmacy

 206. PhilipHus says:

  http://canadapharm.shop/# online canadian pharmacy

 207. LarryVap says:

  Consistently excellent, year after year http://prednisonepharm.store/# 1 mg prednisone cost

 208. Anthonydudge says:

  https://cytotec.directory/# buy cytotec in usa

 209. LarryVap says:

  Their free health check-ups are a wonderful initiative http://clomidpharm.shop/# where to get cheap clomid for sale

 210. BrentUnaxy says:

  zithromax cost uk [url=https://zithromaxpharm.online/#]zithromax buy online no prescription[/url] buy zithromax without prescription online

 211. LarryVap says:

  Their online prescription system is so efficient http://cytotec.directory/# buy cytotec pills online cheap

 212. LarryVap says:

  They make international medication sourcing effortless https://nolvadex.pro/# nolvadex for sale

 213. Anthonydudge says:

  https://clomidpharm.shop/# can you get cheap clomid price

 214. FrankGlymn says:

  clomid tablets: where to buy clomid without a prescription – can you buy cheap clomid now

 215. LarryVap says:

  The free blood pressure check is a nice touch http://prednisonepharm.store/# prednisone 40 mg tablet

 216. BrentUnaxy says:

  prednisone 20mg for sale [url=https://prednisonepharm.store/#]prednisone otc uk[/url] how to purchase prednisone online

 217. FrankGlymn says:

  zithromax 500mg price: buy zithromax – zithromax 600 mg tablets

 218. LarryVap says:

  A beacon of reliability and trust https://prednisonepharm.store/# prednisone canada pharmacy

 219. LarryVap says:

  Their free health check-ups are a wonderful initiative https://cytotec.directory/# buy cytotec online

 220. FrankGlymn says:

  zithromax 500 mg: generic zithromax online paypal – where can i buy zithromax uk

 221. LarryVap says:

  Definitive journal of drugs and therapeutics http://prednisonepharm.store/# prednisone 500 mg tablet

 222. FrankGlymn says:

  buy cytotec pills: buy misoprostol over the counter – cytotec pills buy online

 223. Anthonydudge says:

  http://prednisonepharm.store/# prednisone 10 mg canada

 224. BrentUnaxy says:

  Abortion pills online [url=http://cytotec.directory/#]buy cytotec pills[/url] cytotec abortion pill

 225. LarryVap says:

  A pharmacy that prides itself on quality service https://nolvadex.pro/# nolvadex estrogen blocker

 226. FrankGlymn says:

  tamoxifen citrate pct: tamoxifen premenopausal – does tamoxifen cause weight loss

 227. Michaelamild says:

  buy prescription drugs from canada cheap [url=https://edwithoutdoctorprescription.store/#]prescription drugs canada buy online[/url] best ed pills non prescription

 228. MichaelVunda says:

  http://edpills.bid/# treatment for ed

 229. Michaelamild says:

  pills for erection [url=http://edpills.bid/#]best erectile dysfunction pills[/url] ed medications

 230. StevenCah says:

  http://edpills.bid/# best ed pills

 231. Lesliedrync says:

  cheapest ed pills: top ed drugs – ed pills otc

 232. Michaelamild says:

  ed meds online [url=http://edpills.bid/#]erection pills viagra online[/url] buy erection pills

 233. JamesPeF says:

  discount drugs online https://reputablepharmacies.online/# canadian pharmaceutical companies that ship to usa
  certified canadian pharmacies

 234. MichaelVunda says:

  https://edwithoutdoctorprescription.store/# ed meds online without doctor prescription

 235. Michaelamild says:

  legitimate canadian mail order pharmacies [url=https://reputablepharmacies.online/#]canadian pharmacy no prescription needed[/url] on line pharmacy with no perscriptions

 236. StevenCah says:

  https://edwithoutdoctorprescription.store/# prescription drugs online without doctor

 237. MichaelVunda says:

  http://edpills.bid/# new treatments for ed

 238. Michaelamild says:

  canadian drug [url=https://reputablepharmacies.online/#]reputable mexican pharmacies[/url] best internet pharmacies

 239. JamesPeF says:

  online canadian pharmacy https://edpills.bid/# ed pill
  drug canada

 240. Lesliedrync says:

  buy prescription drugs without doctor: buy prescription drugs – buy prescription drugs from canada cheap

 241. Michaelamild says:

  prescription meds without the prescriptions [url=https://edwithoutdoctorprescription.store/#]generic viagra without a doctor prescription[/url] prescription drugs without prior prescription

 242. MichaelVunda says:

  https://reputablepharmacies.online/# best canadian pharmacy for viagra

 243. Robertstisa says:

  ed prescription drugs: non prescription ed pills – legal to buy prescription drugs from canada

 244. Robertstisa says:

  cure ed: pills for erection – best ed treatment pills

 245. Michaelamild says:

  medicine for erectile [url=https://edpills.bid/#]best ed pills online[/url] compare ed drugs

 246. MichaelVunda says:

  https://reputablepharmacies.online/# canadian drug pharmacy

 247. Robertstisa says:

  prescription drugs online without doctor: viagra without doctor prescription amazon – prescription drugs without prior prescription

 248. Ronaldkeefe says:

  https://mexicanpharmacy.win/# pharmacies in mexico that ship to usa mexicanpharmacy.win

 249. Timothyhah says:

  canadian pharmacies that deliver to the us [url=https://canadianpharmacy.pro/#]canadian pharmacy 365[/url] safe canadian pharmacies canadianpharmacy.pro

 250. Charlessoymn says:

  reputable mexican pharmacies online: Medicines Mexico – buying prescription drugs in mexico mexicanpharmacy.win

 251. MichealAllok says:

  http://canadianpharmacy.pro/# pharmacies in canada that ship to the us canadianpharmacy.pro

 252. Charlessoymn says:

  reputable mexican pharmacies online: Medicines Mexico – best online pharmacies in mexico mexicanpharmacy.win

 253. Ronaldsenda says:

  http://indianpharmacy.shop/# Online medicine order indianpharmacy.shop
  canada pharmacies

 254. MichealAllok says:

  http://indianpharmacy.shop/# best online pharmacy india indianpharmacy.shop

 255. Timothyhah says:

  mexican border pharmacies shipping to usa [url=https://mexicanpharmacy.win/#]Mexico pharmacy[/url] buying from online mexican pharmacy mexicanpharmacy.win

 256. Charlessoymn says:

  indian pharmacy: indian pharmacy to usa – indian pharmacy online indianpharmacy.shop

 257. Timothyhah says:

  canadian pharmacy 365 [url=http://canadianpharmacy.pro/#]Cheapest drug prices Canada[/url] canadian pharmacy online ship to usa canadianpharmacy.pro

 258. MichealAllok says:

  http://mexicanpharmacy.win/# reputable mexican pharmacies online mexicanpharmacy.win

 259. Ronaldkeefe says:

  https://indianpharmacy.shop/# indian pharmacies safe indianpharmacy.shop

 260. ArronSpoip says:

  http://indianpharmacy.shop/# best india pharmacy
  online pharmacy india

 261. Timothyhah says:

  medicine in mexico pharmacies [url=http://mexicanpharmacy.win/#]Mexico pharmacy[/url] purple pharmacy mexico price list mexicanpharmacy.win

 262. MichealAllok says:

  https://canadianpharmacy.pro/# canadapharmacyonline com canadianpharmacy.pro

 263. Timothyhah says:

  Online medicine order [url=http://indianpharmacy.shop/#]international medicine delivery from india[/url] indian pharmacies safe indianpharmacy.shop

 264. MichealAllok says:

  https://indianpharmacy.shop/# best online pharmacy india indianpharmacy.shop

 265. Ronaldsenda says:

  http://mexicanpharmacy.win/# buying prescription drugs in mexico online mexicanpharmacy.win
  prescription drugs canada

 266. Timothyhah says:

  india pharmacy [url=https://indianpharmacy.shop/#]Cheapest online pharmacy[/url] reputable indian online pharmacy indianpharmacy.shop

 267. RobertEdids says:

  http://canadianpharmacy.pro/# best canadian pharmacy canadianpharmacy.pro
  indian pharmacies safe

 268. MichealAllok says:

  https://canadianpharmacy.pro/# best canadian pharmacy canadianpharmacy.pro

 269. Timothyhah says:

  safe canadian pharmacy [url=https://canadianpharmacy.pro/#]Pharmacies in Canada that ship to the US[/url] the canadian drugstore canadianpharmacy.pro

 270. Ronaldkeefe says:

  http://canadianpharmacy.pro/# canadian pharmacy king reviews canadianpharmacy.pro

 271. RobertEdids says:

  http://canadianpharmacy.pro/# canadian online pharmacy reviews canadianpharmacy.pro
  india online pharmacy

 272. MichealAllok says:

  http://indianpharmacy.shop/# indian pharmacies safe indianpharmacy.shop

 273. Timothyhah says:

  top 10 pharmacies in india [url=http://indianpharmacy.shop/#]Best Indian pharmacy[/url] world pharmacy india indianpharmacy.shop

 274. MichealAllok says:

  http://canadianpharmacy.pro/# reliable canadian pharmacy reviews canadianpharmacy.pro

 275. RobertEdids says:

  https://indianpharmacy.shop/# world pharmacy india indianpharmacy.shop
  cheapest online pharmacy india

 276. Timothyhah says:

  reputable indian pharmacies [url=https://indianpharmacy.shop/#]Order medicine from India to USA[/url] top online pharmacy india indianpharmacy.shop

 277. MichealAllok says:

  http://indianpharmacy.shop/# Online medicine order indianpharmacy.shop

 278. RobertEdids says:

  http://indianpharmacy.shop/# indian pharmacy indianpharmacy.shop
  best india pharmacy

 279. Timothyhah says:

  canada ed drugs [url=https://canadianpharmacy.pro/#]Canada Pharmacy[/url] canadian pharmacy phone number canadianpharmacy.pro

 280. Ronaldsenda says:

  http://canadianpharmacy.pro/# legit canadian pharmacy canadianpharmacy.pro
  prescription online

 281. MichealAllok says:

  https://indianpharmacy.shop/# india pharmacy mail order indianpharmacy.shop

 282. RobertEdids says:

  http://canadianpharmacy.pro/# best canadian online pharmacy canadianpharmacy.pro
  online pharmacy india

 283. Timothyhah says:

  precription drugs from canada [url=https://canadianpharmacy.pro/#]canadian pharmacy meds review[/url] canadian pharmacy reviews canadianpharmacy.pro

 284. MichealAllok says:

  https://canadianpharmacy.pro/# online canadian pharmacy canadianpharmacy.pro

 285. RobertEdids says:

  http://indianpharmacy.shop/# online pharmacy india indianpharmacy.shop
  indianpharmacy com

 286. RobertMuh says:

  Viagra 100mg prix [url=https://viagrasansordonnance.pro/#]Acheter du Viagra sans ordonnance[/url] Viagra Pfizer sans ordonnance

 287. VictorWhila says:

  Pharmacie en ligne livraison 24h: kamagra pas cher – acheter medicament a l etranger sans ordonnance

 288. Jerryidexy says:

  https://viagrasansordonnance.pro/# Acheter viagra en ligne livraison 24h

 289. RobertMuh says:

  acheter medicament a l etranger sans ordonnance [url=https://cialissansordonnance.shop/#]cialis prix[/url] acheter mГ©dicaments Г l’Г©tranger

 290. VictorWhila says:

  Viagra homme sans prescription: Viagra sans ordonnance 24h – Prix du Viagra 100mg en France

 291. JasonSwoni says:

  acheter mГ©dicaments Г l’Г©tranger: levitrasansordonnance.pro – pharmacie ouverte

 292. RobertMuh says:

  Viagra sans ordonnance pharmacie France [url=http://viagrasansordonnance.pro/#]Viagra generique en pharmacie[/url] Prix du Viagra en pharmacie en France

 293. Jerryidexy says:

  https://pharmadoc.pro/# Pharmacies en ligne certifiées

 294. VictorWhila says:

  acheter medicament a l etranger sans ordonnance: cialis prix – Pharmacie en ligne sans ordonnance

 295. RobertMuh says:

  Pharmacie en ligne livraison gratuite [url=https://pharmadoc.pro/#]pharmacie en ligne[/url] Pharmacies en ligne certifiГ©es

 296. Jerryidexy says:

  http://cialissansordonnance.shop/# Pharmacie en ligne sans ordonnance

 297. VictorWhila says:

  Pharmacie en ligne France: acheterkamagra.pro – acheter medicament a l etranger sans ordonnance

 298. Jerryidexy says:

  https://levitrasansordonnance.pro/# acheter medicament a l etranger sans ordonnance

 299. VictorWhila says:

  Pharmacie en ligne livraison 24h: pharmacie en ligne sans ordonnance – Pharmacie en ligne livraison 24h

 300. JasonSwoni says:

  Meilleur Viagra sans ordonnance 24h: Meilleur Viagra sans ordonnance 24h – SildГ©nafil Teva 100 mg acheter

 301. RobertMuh says:

  Viagra sans ordonnance 24h Amazon [url=http://viagrasansordonnance.pro/#]viagra sans ordonnance[/url] Viagra 100mg prix

 302. VictorWhila says:

  Meilleur Viagra sans ordonnance 24h: Meilleur Viagra sans ordonnance 24h – SildГ©nafil 100 mg sans ordonnance

 303. Jerryidexy says:

  http://levitrasansordonnance.pro/# acheter medicament a l etranger sans ordonnance

 304. AndresWesty says:

  https://pharmadoc.pro/# Pharmacie en ligne pas cher
  п»їpharmacie en ligne

 305. RobertMuh says:

  pharmacie ouverte [url=https://levitrasansordonnance.pro/#]Pharmacie en ligne livraison 24h[/url] Pharmacie en ligne fiable

 306. VictorWhila says:

  п»їpharmacie en ligne: pharmacie en ligne – Pharmacie en ligne livraison gratuite

 307. Jerryidexy says:

  http://levitrasansordonnance.pro/# Pharmacie en ligne France

 308. VictorWhila says:

  Pharmacie en ligne livraison 24h: cialissansordonnance.shop – acheter mГ©dicaments Г l’Г©tranger

 309. RobertMuh says:

  pharmacie ouverte [url=http://levitrasansordonnance.pro/#]levitra generique[/url] Pharmacie en ligne livraison rapide

 310. Jerryidexy says:

  http://levitrasansordonnance.pro/# Acheter médicaments sans ordonnance sur internet

 311. Olivernut says:

  zithromax capsules price [url=https://azithromycin.bid/#]zithromax capsules australia[/url] zithromax price canada

 312. AaronFraxy says:

  how can i get clomid without rx: buying generic clomid prices – buy generic clomid

 313. Andrewfloaf says:

  http://azithromycin.bid/# zithromax 250mg

 314. Jamesappow says:

  http://azithromycin.bid/# cost of generic zithromax

 315. Olivernut says:

  zithromax tablets [url=http://azithromycin.bid/#]where can i get zithromax over the counter[/url] how much is zithromax 250 mg

 316. AaronFraxy says:

  clomid without a prescription: where to get cheap clomid – can you get clomid for sale

 317. Andrewfloaf says:

  https://prednisonetablets.shop/# prednisone 80 mg daily

 318. AaronFraxy says:

  purchase amoxicillin 500 mg: amoxicillin 775 mg – medicine amoxicillin 500

 319. Olivernut says:

  amoxicillin over counter [url=https://amoxicillin.bid/#]generic amoxil 500 mg[/url] amoxicillin over counter

 320. Andrewfloaf says:

  https://prednisonetablets.shop/# where can i buy prednisone without a prescription

 321. AaronFraxy says:

  stromectol: buy ivermectin nz – ivermectin topical

 322. Olivernut says:

  zithromax capsules price [url=http://azithromycin.bid/#]can you buy zithromax over the counter in australia[/url] zithromax cost uk

 323. Andrewfloaf says:

  https://azithromycin.bid/# where to buy zithromax in canada

 324. AaronFraxy says:

  zithromax buy online: buy cheap zithromax online – average cost of generic zithromax

 325. Jamesappow says:

  http://prednisonetablets.shop/# generic prednisone otc

 326. Chrisgam says:

  zithromax 500 mg lowest price drugstore online: zithromax 250 mg – cost of generic zithromax

 327. Olivernut says:

  cheap clomid price [url=https://clomiphene.icu/#]where buy generic clomid no prescription[/url] cost of clomid without dr prescription

 328. AaronFraxy says:

  amoxicillin 50 mg tablets: amoxicillin capsules 250mg – price of amoxicillin without insurance

 329. Andrewfloaf says:

  https://azithromycin.bid/# zithromax cost canada

 330. Olivernut says:

  generic amoxicillin over the counter [url=http://amoxicillin.bid/#]amoxicillin online purchase[/url] amoxicillin 875 mg tablet

 331. AaronFraxy says:

  stromectol medication: ivermectin uk coronavirus – stromectol xl

 332. Andrewfloaf says:

  https://clomiphene.icu/# how can i get generic clomid without dr prescription

 333. AaronFraxy says:

  how to buy zithromax online: buy generic zithromax online – zithromax for sale cheap

 334. Andrewfloaf says:

  http://clomiphene.icu/# cost of cheap clomid pill

 335. Olivernut says:

  where can i buy amoxocillin [url=https://amoxicillin.bid/#]amoxicillin online purchase[/url] generic amoxicillin over the counter

 336. Jamesappow says:

  http://clomiphene.icu/# can i get cheap clomid without insurance

 337. AaronFraxy says:

  where buy generic clomid prices: can i buy generic clomid pills – how to get generic clomid tablets

 338. Andrewfloaf says:

  https://azithromycin.bid/# zithromax online pharmacy canada

 339. Olivernut says:

  purchase prednisone canada [url=https://prednisonetablets.shop/#]prednisone for cheap[/url] prednisone 15 mg tablet

 340. Dropping by to express my gratitude for your efforts. Keep it up!

 341. Timothyfepay says:

  mexican pharmaceuticals online [url=https://mexicanpharm.shop/#]Online Pharmacies in Mexico[/url] best online pharmacies in mexico mexicanpharm.shop

 342. CharlesPub says:

  buying prescription drugs in mexico: Certified Pharmacy from Mexico – п»їbest mexican online pharmacies mexicanpharm.shop

 343. Each post you publish is a masterclass in its own right. Thanks for the insights!

 344. Jerrysow says:

  https://canadianpharm.store/# canadapharmacyonline legit canadianpharm.store

 345. Timothyfepay says:

  canadian pharmacy prices [url=http://canadianpharm.store/#]Best Canadian online pharmacy[/url] canadian pharmacy price checker canadianpharm.store

 346. CharlesPub says:

  india pharmacy mail order: Indian pharmacy to USA – best online pharmacy india indianpharm.store

 347. Patricksuers says:

  http://canadianpharm.store/# legal canadian pharmacy online canadianpharm.store

 348. Jerrysow says:

  https://mexicanpharm.shop/# buying prescription drugs in mexico mexicanpharm.shop

 349. MichaelSowly says:

  indianpharmacy com: international medicine delivery from india – pharmacy website india indianpharm.store

 350. Timothyfepay says:

  my canadian pharmacy review [url=https://canadianpharm.store/#]Pharmacies in Canada that ship to the US[/url] reliable canadian pharmacy canadianpharm.store

 351. CharlesPub says:

  indian pharmacy online: international medicine delivery from india – best online pharmacy india indianpharm.store

 352. I appreciate that you always respond to comments. It makes a difference.

 353. Jerrysow says:

  http://indianpharm.store/# Online medicine home delivery indianpharm.store

 354. CharlesPub says:

  mexican mail order pharmacies: medication from mexico pharmacy – mexican mail order pharmacies mexicanpharm.shop

 355. Timothyfepay says:

  cheapest pharmacy canada [url=http://canadianpharm.store/#]Pharmacies in Canada that ship to the US[/url] canadian pharmacy cheap canadianpharm.store

 356. MichaelSowly says:

  india pharmacy: international medicine delivery from india – indian pharmacy paypal indianpharm.store

 357. Patricksuers says:

  https://mexicanpharm.shop/# mexico pharmacy mexicanpharm.shop

 358. You bring fresh and innovative ideas to your readers with each post.

 359. Your blog is a go-to source for insightful analysis and perspectives.

 360. You have an exceptional ability to engage and inspire your audience.

 361. You’ve built a blog that’s both informative and a pleasure to read.

 362. Your dedication to providing valuable content shines through every post.

 363. Patricksuers says:

  http://mexicanpharm.shop/# mexican rx online mexicanpharm.shop

 364. You’ve created a blog that’s as entertaining as it is informative.

 365. Your insights are always groundbreaking and enlightening.

 366. You bring fresh and innovative ideas to your readers with each post.

 367. Your blog is a go-to source for insightful analysis and perspectives.

 368. Your commitment to quality and depth in your writing is clear.

 369. You manage to make even the most technical topics accessible and interesting.

 370. Your blog stands out for its quality and depth of insight.

 371. Your blog provides a unique blend of insights and practical advice.

 372. CurtisNem says:

  list of canadian pharmacy: online ed medication no prescription – northwestpharmacy

 373. MerleRak says:

  best online pharmacy: approved canadian pharmacies online – reputable canadian pharmacy online

 374. I have been browsing online more than 3 hours today, yet I never found any interesting article like yours.
  It’s pretty worth enough for me. Personally, if all site owners
  and bloggers made good content as you did, the web will be much more useful
  than ever before.

 375. Your writing style is captivating! I was engaged from start to finish.

 376. RobertMywow says:

  pharmacy world [url=http://canadadrugs.pro/#]canada online pharmacy reviews[/url] cheap prescriptions

 377. MerleRak says:

  canadian pharmacy prices: canadian drug store prices – highest discount on medicines online

 378. EugeneErumn says:

  ed meds online [url=http://edpill.cheap/#]male ed pills[/url] online ed pills

 379. This was a great read—thought-provoking and informative. Thank you!

 380. Your blog is a go-to resource for me. Thanks for all the hard work!

 381. Budgeting says:

  I’m so grateful for the information you’ve shared. It’s been incredibly enlightening!

 382. Bennymib says:

  non prescription ed pills: cheap cialis – best non prescription ed pills

 383. Your attention to detail is remarkable. I appreciate the thoroughness of your post.

 384. Bennymib says:

  meds online without doctor prescription: generic cialis without a doctor prescription – meds online without doctor prescription

 385. WilliamBuifs says:

  https://certifiedpharmacymexico.pro/# best mexican online pharmacies

 386. Bennymib says:

  real viagra without a doctor prescription usa: cialis without a doctor prescription – buy prescription drugs online

 387. Bennymib says:

  world pharmacy india: п»їlegitimate online pharmacies india – reputable indian pharmacies

 388. WilliamGar says:

  http://medicinefromindia.store/# Online medicine home delivery

 389. EugeneErumn says:

  indian pharmacy online [url=https://medicinefromindia.store/#]best india pharmacy[/url] indian pharmacy paypal

 390. Bennymib says:

  best over the counter ed pills: ed treatment review – gnc ed pills

 391. Juliodup says:

  medicine in mexico pharmacies mexican border pharmacies shipping to usa best online pharmacies in mexico

 392. TravisSmeld says:

  https://mexicanph.com/# mexico drug stores pharmacies
  buying from online mexican pharmacy

 393. TravisSmeld says:

  http://mexicanph.com/# reputable mexican pharmacies online
  medication from mexico pharmacy

 394. PeterSeern says:

  buying prescription drugs in mexico mexican pharmaceuticals online mexico pharmacies prescription drugs

 395. TravisSmeld says:

  https://mexicanph.com/# medicine in mexico pharmacies
  mexican drugstore online

 396. ArmandoSpulk says:

  http://mexicanph.com/# mexican rx online
  mexico drug stores pharmacies [url=https://mexicanph.com/#]best online pharmacies in mexico[/url] reputable mexican pharmacies online

 397. TravisSmeld says:

  https://mexicanph.com/# mexican rx online
  reputable mexican pharmacies online

 398. Thank You For Shedding Light On This Subject. Your Perspective Is Refreshing!

 399. ArmandoSpulk says:

  http://mexicanph.shop/# pharmacies in mexico that ship to usa
  mexican mail order pharmacies [url=https://mexicanph.shop/#]buying prescription drugs in mexico online[/url] mexican online pharmacies prescription drugs

 400. Your Post Was A Beacon Of Knowledge. Thank You For Illuminating This Subject.

 401. TravisSmeld says:

  https://mexicanph.shop/# buying from online mexican pharmacy
  medicine in mexico pharmacies

 402. JerryInsax says:

  buying prescription drugs in mexico online [url=http://mexicanph.com/#]reputable mexican pharmacies online[/url] best online pharmacies in mexico

 403. Your Post Has Been Incredibly Helpful. Thank You For The Guidance!

 404. ArmandoSpulk says:

  http://mexicanph.com/# reputable mexican pharmacies online
  pharmacies in mexico that ship to usa [url=http://mexicanph.com/#]mexican online pharmacies prescription drugs[/url] mexican drugstore online

 405. TravisSmeld says:

  https://mexicanph.shop/# purple pharmacy mexico price list
  п»їbest mexican online pharmacies

 406. ADAS Targets says:

  Your Passion For This Subject Shines Through Your Words. Inspiring!

 407. Your blog is like a good friend – reliable, comforting, and always there when you need it. Sending love from Asheville!

 408. I always look forward to your latest posts. They never fail to impress! Sending love from Asheville.

 409. Your blog is like a cup of hot cocoa on a chilly day – comforting and delightful. Sending love from Asheville!

 410. Thank you for sharing your expertise with the world through your blog. Asheville residents are grateful for your contributions.

 411. ArmandoSpulk says:

  https://mexicanph.com/# mexican drugstore online
  mexican rx online [url=http://mexicanph.shop/#]mexican rx online[/url] mexico drug stores pharmacies

 412. Thank you for consistently delivering valuable content. We’re proud followers from Asheville!

 413. Your blog is a true gift to the world. We’re big fans from Asheville!

 414. Your writing is like a breath of fresh air, invigorating and rejuvenating. We’re proud followers from Asheville!

 415. Your blog is a true gift to the world. We’re big fans from Asheville!

 416. Auto Blog says:

  What a fantastic article! We’re big fans of your blog here in Asheville and eagerly await your next post.

 417. Auto Blog says:

  Your blog is a sanctuary of wisdom and inspiration. We’re grateful readers from Asheville!

 418. TravisSmeld says:

  http://mexicanph.com/# mexican rx online
  best online pharmacies in mexico

 419. Auto Blog says:

  Your writing is like a breath of fresh air, invigorating and rejuvenating. We’re proud followers from Asheville!

 420. Auto Blog says:

  Your words have a way of resonating deeply with your readers. Thank you for sharing your wisdom with us. Asheville loves your blog!

 421. Your blog is a treasure trove of information. Thank you for sharing your wisdom with us. Asheville can’t get enough!

 422. Your blog is a true masterpiece, crafted with care and passion. Sending love from Asheville!

 423. Auto Blog says:

  Your words have a way of resonating deeply with your readers. Thank you for sharing your wisdom with us. Asheville loves your blog!

 424. ArmandoSpulk says:

  http://mexicanph.com/# best online pharmacies in mexico
  mexican mail order pharmacies [url=https://mexicanph.com/#]mexico drug stores pharmacies[/url] buying prescription drugs in mexico

 425. Your blog is a treasure trove of information. Thank you for sharing your wisdom with us. Asheville can’t get enough!

 426. Your blog is a testament to your dedication and expertise. We’re proud fans from Asheville!

 427. Your writing is like a gentle breeze, refreshing and uplifting. We’re big fans of your blog from Asheville!

 428. Your words have the power to uplift and inspire. Thank you for sharing your gift with us. Asheville loves your blog!

 429. Leonardjoume says:

  where to buy ivermectin pills: stromectol tab price – stromectol covid 19

 430. Stephenoneno says:

  http://buyprednisone.store/# prednisone coupon

 431. Charleshab says:

  https://stromectol.fun/# ivermectin oral 0 8
  purchase prednisone no prescription [url=https://buyprednisone.store/#]buy prednisone no prescription[/url] prednisone rx coupon

 432. Leonardjoume says:

  amoxil pharmacy: amoxicillin without a prescription – where can i get amoxicillin

 433. Your posts always leave me feeling inspired and motivated. Thank you for brightening our days. Asheville loves your blog!

 434. Thank you for sharing such insightful content! In Asheville, we love your blog and can’t wait to come back for more.

 435. Thank you for enriching our lives with your wonderful blog. Asheville is blessed to have you!

 436. Stephenoneno says:

  http://amoxil.cheap/# amoxicillin brand name

 437. Thank you for enriching our lives with your wonderful blog. Asheville is blessed to have you!

 438. Charleshab says:

  http://amoxil.cheap/# how to buy amoxycillin
  cheapest price for lisinopril [url=http://lisinopril.top/#]lisinopril tablet 40 mg[/url] lisinopril 25

 439. Leonardjoume says:

  lasix 100 mg: Buy Furosemide – lasix 100 mg

 440. Leonardjoume says:

  ivermectin 18mg: ivermectin lice oral – ivermectin human

 441. Stephenoneno says:

  http://amoxil.cheap/# buying amoxicillin online

 442. Your posts always leave me feeling enlightened and inspired. Thank you for sharing your knowledge with us. Asheville sends its love!

 443. Your blog is a true reflection of your passion and expertise. Asheville is lucky to have you!

 444. I always look forward to your latest posts. They never fail to impress! Sending love from Asheville.

 445. Stephenoneno says:

  https://stromectol.fun/# buy minocycline 100mg online

 446. Your blog is a true masterpiece, crafted with care and passion. We’re proud supporters from Asheville!

 447. Charleshab says:

  https://stromectol.fun/# ivermectin cream uk
  price of ivermectin tablets [url=http://stromectol.fun/#]ivermectin 1 topical cream[/url] buy ivermectin for humans uk

 448. Your blog is a sanctuary of wisdom and inspiration. We’re grateful readers from Asheville!

 449. Stephenoneno says:

  https://stromectol.fun/# ivermectin 3 mg

 450. Your writing is like a breath of fresh air, invigorating and rejuvenating. We’re proud followers from Asheville!

 451. Charleshab says:

  https://lisinopril.top/# price of lisinopril generic
  furosemide 100mg [url=http://furosemide.guru/#]Over The Counter Lasix[/url] lasix furosemide

 452. Stephenoneno says:

  https://lisinopril.top/# prinivil 5 mg tablets

 453. Charleshab says:

  https://lisinopril.top/# lisinopril uk
  stromectol online canada [url=http://stromectol.fun/#]minocycline 50mg for sale[/url] where to buy ivermectin pills

 454. Your posts always leave me feeling enlightened and inspired. Thank you for sharing your knowledge with us. Asheville sends its love!

 455. Stephenoneno says:

  http://furosemide.guru/# furosemide 40 mg

 456. Charleshab says:

  http://buyprednisone.store/# prednisone 5 mg tablet without a prescription
  lisinopril 18 mg [url=http://lisinopril.top/#]lisinopril 10mg tablet[/url] lisinopril 12.5 mg 20 mg

 457. Your writing is like a beacon of light in the darkness, guiding us towards knowledge and understanding. Asheville appreciates your blog!

 458. RonaldTuh says:

  https://indianph.xyz/# indian pharmacy online

 459. ArthurJab says:

  india online pharmacy reputable indian online pharmacy indian pharmacy paypal

 460. Antonionusly says:

  https://indianph.com/# india pharmacy
  reputable indian pharmacies [url=https://indianph.xyz/#]reputable indian online pharmacy[/url] online shopping pharmacy india

 461. FobertMowly says:

  Aviator Spribe казино играть по стратегии
  Understand me?
  Добро пожаловать в захватывающий мир авиаторов! Aviator – это увлекательная игра, которая позволит вам окунуться в атмосферу боевых действий на небе. Необычные графика и захватывающий сюжет сделают ваше путешествие по воздуху неповторимым.

  Играйте в Aviator Spribe играть на компьютере и станьте победителем азартного приключения!
  Aviator игра позволит вам почувствовать себя настоящим пилотом. Вам предстоит совершить невероятные маневры, выполнять сложные задания и сражаться с противниками. Улучшайте свой самолет, чтобы быть готовым к любым ситуациям и становиться настоящим мастером.
  Основные особенности Aviator краш игры:
  1. Реалистичная графика и физика – благодаря передовой графике и реалистичной физике вы почувствуете себя настоящим пилотом.
  2. Разнообразные режимы игры и миссии – в Aviator краш игре вы сможете выбрать различные режимы игры, такие как гонки, симулятор полетов и захватывающие воздушные бои. Кроме того, каждая миссия будет предлагать свои собственные вызовы и задачи.
  3. Улучшение и модернизация самолетов – в игре доступны различные модели самолетов, которые можно покупать и улучшать. Вы сможете устанавливать новое оборудование, улучшать двигательность и мощность своего самолета, а также выбирать различные варианты окраски и декорации.
  Aviator краш игра – это возможность испытать себя в роли авиатора и преодолеть все сложности и опасности воздушного пространства. Почувствуйте настоящую свободу и адреналин в Aviator краш игре онлайн!
  Играйте в «Авиатор» в онлайн-казино Pin-Up
  Aviator краш игра онлайн предлагает увлекательную и захватывающую игровую атмосферу, где вы становитесь настоящим авиатором и сражаетесь с самыми опасными искусственными интеллектами.
  В этой игре вы должны показать свое мастерство и смекалку, чтобы преодолеть сложности многочисленных локаций и уровней. Вам предстоит собирать бонусы, уклоняться от препятствий и сражаться с врагами, используя свои навыки пилотирования и стрельбы.
  Каждый уровень игры Aviator краш имеет свою уникальную атмосферу и задачи. Будьте готовы к неожиданностям, так как вас ждут захватывающие повороты сюжета и сложные испытания. Найдите все пути к победе и станьте настоящим героем авиатором!
  Авиатор игра является прекрасным способом провести время и испытать настоящий адреналиновый разряд. Готовы ли вы стать лучшим авиатором? Не упустите свой шанс и начните играть в Aviator краш прямо сейчас!
  Aviator – играй, сражайся, побеждай!
  Aviator Pin Up (Авиатор Пин Ап ) – игра на деньги онлайн Казахстан
  Aviator игра предлагает увлекательное и захватывающее разнообразие врагов и уровней, которые не оставят равнодушными даже самых требовательных геймеров.
  Враги в Aviator краш игре онлайн представлены в самых разных формах и размерах. Здесь вы встретите группы из маленьких и быстрых врагов, а также огромных боссов с мощным вооружением. Разнообразие врагов позволяет игрокам использовать разные тактики и стратегии для победы.
  Кроме того, Aviator игра предлагает разнообразие уровней сложности. Выберите легкий уровень, чтобы насладиться игровым процессом, или вызовите себе настоящий вызов, выбрав экспертный уровень. Независимо от выбранного уровня сложности, вы получите максимум удовольствия от игры и окунетесь в захватывающий мир авиаторов.
  Играйте в Aviator и наслаждайтесь разнообразием врагов и уровней, которые позволят вам почувствовать себя настоящим авиатором.

 462. BryanLam says:

  buy prescription drugs from india [url=http://indianph.com/#]online shopping pharmacy india[/url] top 10 pharmacies in india

 463. ArthurJab says:

  india pharmacy mail order best online pharmacy india best online pharmacy india

 464. RonaldTuh says:

  http://indianph.com/# indian pharmacies safe

 465. Antonionusly says:

  http://indianph.xyz/# top 10 online pharmacy in india
  best online pharmacy india [url=http://indianph.com/#]pharmacy website india[/url] pharmacy website india

 466. IrvindrilT says:

  https://diflucan.pro/# diflucan fluconazole

 467. IrvindrilT says:

  https://cipro.guru/# ciprofloxacin order online

 468. IrvindrilT says:

  http://cipro.guru/# buy generic ciprofloxacin

 469. RobertMar says:

  http://sweetiefox.online/# Sweetie Fox
  lana rhoades modeli [url=https://lanarhoades.fun/#]lana rhoades izle[/url] lana rhodes

 470. Eddiearish says:

  http://lanarhoades.fun/# lana rhoades izle

 471. RobertMar says:

  http://angelawhite.pro/# Angela White
  eva elfie modeli [url=https://evaelfie.pro/#]eva elfie modeli[/url] eva elfie modeli

 472. Eddiearish says:

  http://angelawhite.pro/# Angela White

 473. RobertMar says:

  https://abelladanger.online/# abella danger izle
  abella danger video [url=https://abelladanger.online/#]Abella Danger[/url] abella danger izle

 474. RobertMar says:

  http://evaelfie.pro/# eva elfie modeli
  eva elfie izle [url=http://evaelfie.pro/#]eva elfie[/url] eva elfie izle

 475. RobertMar says:

  http://lanarhoades.fun/# lana rhoades
  eva elfie filmleri [url=http://evaelfie.pro/#]eva elfie izle[/url] eva elfie video

 476. RobertMar says:

  http://angelawhite.pro/# Angela White izle
  ?????? ???? [url=http://angelawhite.pro/#]Angela White filmleri[/url] Angela White izle

 477. RobertMar says:

  http://angelawhite.pro/# ?????? ????
  Angela White filmleri [url=http://angelawhite.pro/#]Angela White filmleri[/url] Angela White

 478. RobertMar says:

  https://evaelfie.pro/# eva elfie filmleri
  abella danger izle [url=https://abelladanger.online/#]Abella Danger[/url] abella danger filmleri

 479. RobertMar says:

  https://sweetiefox.online/# Sweetie Fox izle
  lana rhoades filmleri [url=https://lanarhoades.fun/#]lana rhoades video[/url] lana rhoades video

 480. Howardnum says:

  which online dating site is best: http://evaelfie.site/# eva elfie hot

 481. JasonGot says:

  eva elfie full video: eva elfie hd – eva elfie new videos

 482. Well I definitely liked studying it. This tip procured by you is very constructive for good planning.

 483. Howardnum says:

  free online adult dating site: http://lanarhoades.pro/# lana rhoades solo

 484. JasonGot says:

  sweetie fox video: sweetie fox full – sweetie fox

 485. JasonGot says:

  eva elfie hot: eva elfie new videos – eva elfie full videos

 486. Howarddoutt says:

  aviator login: aviator bet – aviator game

 487. Howarddoutt says:

  ganhar dinheiro jogando: ganhar dinheiro jogando – jogo de aposta

 488. Marcussaw says:

  п»їbest mexican online pharmacies [url=https://mexicanpharm24.shop/#]mexican pharmacy[/url] reputable mexican pharmacies online mexicanpharm.shop

 489. ManuelAnign says:

  http://indianpharm24.com/# mail order pharmacy india indianpharm.store

 490. Robertsuh says:

  http://canadianpharmlk.shop/# canadian pharmacies compare canadianpharm.store

 491. RichardIdend says:

  indian pharmacies safe: cheapest online pharmacy – buy prescription drugs from india indianpharm.store

 492. RichardIdend says:

  п»їbest mexican online pharmacies: Medicines Mexico – mexican drugstore online mexicanpharm.shop

 493. IrwinImari says:

  prednisone 10mg tablet cost: side effect of prednisone – 3000mg prednisone

 494. Anthonyembok says:

  can i purchase prednisone without a prescription [url=https://prednisonest.pro/#]prednisone 20 mg purchase[/url] prednisone online

 495. WayneTrofs says:

  how can i get cheap clomid for sale: when do you take clomid – where can i get cheap clomid without insurance

 496. Shawnfoony says:

  http://pharmnoprescription.pro/# no prescription needed pharmacy

 497. Patrickemile says:

  buy pills without prescription [url=https://pharmnoprescription.pro/#]canada prescription drugs online[/url] canadian pharmacy without a prescription

 498. JamieSnava says:

  canadian pharmacy price checker: the canadian pharmacy – canadian pharmacy no scripts

 499. JamesCoemn says:

  buying from online mexican pharmacy [url=https://mexicanpharm.online/#]mexican pharmaceuticals online[/url] best online pharmacies in mexico

 500. JamesCoemn says:

  best online pharmacy india [url=http://indianpharm.shop/#]india pharmacy[/url] indian pharmacies safe

 501. Robinbaiva says:

  https://pharmacynoprescription.pro/# online doctor prescription canada

 502. JamesCoemn says:

  canadian pharmacy [url=http://canadianpharm.guru/#] best canadian pharmacy online[/url] canada rx pharmacy world

 503. Carlosgic says:

  http://indianpharm.shop/# online shopping pharmacy india

 504. Carlosgic says:

  https://indianpharm.shop/# indian pharmacy

 505. Keithblugh says:

  http://sweetbonanza.bid/# sweet bonanza demo

 506. EdwardGuils says:

  http://aviatoroyna.bid/# aviator sinyal hilesi ucretsiz
  sweet bonanza hilesi [url=https://sweetbonanza.bid/#]sweet bonanza 90 tl[/url] sweet bonanza free spin demo

 507. bulantogel says:

  Im no longer certain the place you’re getting your information, but great topic. I must spend some time studying more or working out more. Thanks for wonderful information I used to be searching for this info for my mission.

 508. Frankken says:

  canl? slot siteleri: en cok kazandiran slot siteleri – bonus veren slot siteleri

 509. RobertPah says:

  mexican online pharmacies prescription drugs: cheapest mexico drugs – mexican border pharmacies shipping to usa

 510. Charlesles says:

  reputable indian pharmacies: top 10 pharmacies in india – world pharmacy india

 511. I wanted to thank you for this great read!! I definitely enjoying every little bit of it I have you bookmarked to check out new stuff you post…

 512. Charlesles says:

  top online pharmacy india: Cheapest online pharmacy – top 10 pharmacies in india

 513. Davidamulk says:

  order amoxicillin online: over the counter amoxicillin – amoxicillin order online no prescription

 514. EdwardPaw says:

  generic zithromax online paypal: zithromax 500mg – zithromax 1000 mg pills

 515. Davidamulk says:

  prednisone 7.5 mg: prednisone 2.5 tablet – prednisone cost in india

 516. EdwardPaw says:

  can i order cheap clomid for sale: get generic clomid without dr prescription – where can i get cheap clomid

 517. Davidamulk says:

  zithromax antibiotic: zithromax 250 mg pill – generic zithromax 500mg india

 518. JohnnieBubre says:

  http://tadalafiliq.shop/# Generic Cialis without a doctor prescription

 519. RalphTwelt says:

  http://kamagraiq.shop/# cheap kamagra

 520. JohnnieBubre says:

  https://kamagraiq.com/# buy Kamagra

 521. JohnnieBubre says:

  http://tadalafiliq.com/# Cialis 20mg price

 522. IsaacAxona says:

  Generic Tadalafil 20mg price: cheapest cialis – Cialis 20mg price in USA

 523. Robertassum says:

  http://tadalafiliq.com/# cheapest cialis

 524. LamarMok says:

  best india pharmacy: Healthcare and medicines from India – reputable indian pharmacies

 525. LamarMok says:

  mexican pharmaceuticals online: Pills from Mexican Pharmacy – mexican drugstore online

 526. Daviddraps says:

  canadapharmacyonline com: List of Canadian pharmacies – canadian pharmacy scam

 527. aizen power says:

  What Is Aizen Power? Aizen Power is presented as a distinctive dietary supplement with a singular focus on addressing the root cause of smaller phalluses

 528. Sight Care says:

  Hi, Neat post. There’s an issue together with your site in web explorer, might check thisK IE still is the market chief and a huge component of other folks will omit your wonderful writing because of this problem.

 529. Chaseargug says:

  ordering drugs from canada: CIPA approved pharmacies – pharmacy rx world canada

 530. Jameswal says:

  where to buy nolvadex: effexor and tamoxifen – tamoxifen endometriosis

 531. WilliamJax says:

  doxycycline 100 mg: doxycycline vibramycin – buy doxycycline monohydrate

 532. Valuable info. Fortunate me I found your site accidentally, and I’m stunned
  why this twist of fate didn’t happened in advance!
  I bookmarked it.

 533. Russellsom says:

  buy doxycycline without prescription: doxycycline 200 mg – buy doxycycline for dogs

 534. WilliamJax says:

  pct nolvadex: tamoxifen and depression – cost of tamoxifen

 535. Russellsom says:

  tamoxifen endometriosis: clomid nolvadex – how to prevent hair loss while on tamoxifen

 536. Russellsom says:

  buy cytotec in usa: buy cytotec in usa – cytotec abortion pill

 537. WilliamJax says:

  cipro pharmacy: ciprofloxacin generic – ciprofloxacin 500 mg tablet price

 538. Russellsom says:

  ciprofloxacin order online: ciprofloxacin over the counter – where can i buy cipro online

 539. WilliamJax says:

  nolvadex 10mg: tamoxifen vs raloxifene – does tamoxifen cause weight loss

 540. I went over this website and I believe you have a lot of superb info , saved to favorites (:.

 541. WilliamJax says:

  ciprofloxacin 500mg buy online: п»їcipro generic – buy cipro cheap

 542. Russellsom says:

  where can i buy cipro online: buy cipro online – cipro generic

 543. WilliamJax says:

  online doxycycline: buy cheap doxycycline – doxycycline 100mg price

 544. Gut optim says:

  I have recently started a site, the information you provide on this web site has helped me tremendously. Thank you for all of your time & work.

 545. Domenictes says:

  buy amoxicillin online with paypal: buy amoxicillin online cheap – generic amoxicillin cost

 546. BrainUsexy says:

  http://stromectola.top/# ivermectin for sale

 547. You have observed very interesting details ! ps nice web site.

 548. Michaelhappy says:

  generic zithromax medicine: zithromax price canada – zithromax 500 mg lowest price pharmacy online

 549. Domenictes says:

  order minocycline 50mg online: order stromectol – ivermectin buy australia

 550. Hello there! I could have sworn I’ve been to this blog before but after browsing through some of the post I realized it’s new to me. Nonetheless, I’m definitely glad I found it and I’ll be bookmarking and checking back frequently!

 551. Thank you for another informative website. Where else could I get that kind of information written in such a perfect way? I have a project that I am just now working on, and I’ve been on the look out for such information.

 552. HarveyPeaph says:

  https://onlinepharmacyworld.shop/# best no prescription pharmacy

 553. AustinBap says:

  best ed medication online: ed doctor online – ed med online

 554. HarveyPeaph says:

  http://edpill.top/# pills for ed online

 555. AustinBap says:

  canadian prescription drugstore reviews: best website to buy prescription drugs – buy drugs online without prescription

 556. JoshuaMethy says:

  web c? b?c online uy tín: casino tr?c tuy?n – web c? b?c online uy tín

 557. JamesGat says:

  http://casinvietnam.shop/# danh bai tr?c tuy?n

 558. MichaelPribe says:

  casino tr?c tuy?n vi?t nam [url=https://casinvietnam.com/#]casino tr?c tuy?n uy tin[/url] game c? b?c online uy tin

 559. Chrishet says:

  danh bai tr?c tuy?n [url=http://casinvietnam.com/#]casino online uy tin[/url] game c? b?c online uy tin

 560. I know this if off topic but I’m looking into starting my own blog and was wondering what all is required to get set up? I’m assuming having a blog like yours would cost a pretty penny? I’m not very web savvy so I’m not 100 sure. Any tips or advice would be greatly appreciated. Many thanks

 561. Fitspresso stands out among the crowded health supplement market as an exceptional product.

 562. JamesGat says:

  http://casinvietnam.shop/# casino tr?c tuy?n vi?t nam

 563. JamesGat says:

  http://casinvietnam.shop/# casino tr?c tuy?n

 564. MichaelInwaw says:

  http://canadaph24.pro/# best canadian pharmacy

 565. I intended to create you one bit of remark to be able to give thanks the moment again relating to the marvelous opinions you’ve shared at this time. It is really surprisingly generous with people like you to give extensively all numerous people might have marketed for an e book to make some money on their own, even more so considering that you could have done it in the event you wanted. The principles also worked to become fantastic way to fully grasp most people have the identical dreams the same as my own to know the truth lots more around this problem. Certainly there are some more fun situations up front for individuals that take a look at your blog.

 566. MichaelInwaw says:

  https://indiaph24.store/# mail order pharmacy india

 567. MichaelInwaw says:

  http://indiaph24.store/# indian pharmacies safe

 568. MichaelInwaw says:

  http://indiaph24.store/# top online pharmacy india

 569. MichaelInwaw says:

  http://canadaph24.pro/# online canadian drugstore

 570. MichaelInwaw says:

  http://mexicoph24.life/# medication from mexico pharmacy

 571. MichaelInwaw says:

  http://canadaph24.pro/# ed drugs online from canada

 572. MichaelInwaw says:

  http://indiaph24.store/# buy prescription drugs from india

 573. MichaelInwaw says:

  https://mexicoph24.life/# buying from online mexican pharmacy

 574. fitspresso says:

  I like what you guys are up too. Such smart work and reporting! Keep up the excellent works guys I?¦ve incorporated you guys to my blogroll. I think it will improve the value of my website 🙂

 575. Hola! I’ve been following your web site for a while now and finally got the courage to go ahead and give you a shout out from Atascocita Tx! Just wanted to say keep up the fantastic job!

 576. MichaelInwaw says:

  http://canadaph24.pro/# safe reliable canadian pharmacy

 577. Loving the information on this site, you have done outstanding job on the blog posts.

 578. Do you mind if I quote a couple of your posts as long as I provide credit and sources back to your webpage? My blog site is in the very same area of interest as yours and my visitors would definitely benefit from some of the information you present here. Please let me know if this okay with you. Many thanks!

 579. Wow! Finally I got a weblog from where I be able to in fact obtain valuable
  facts concerning my study and knowledge.

 580. Charlesbeaug says:

  http://finasteride.store/# cost of generic propecia for sale
  lisinopril 7.5 mg [url=http://lisinopril.network/#]cheap lisinopril 40 mg[/url] lisinopril pills 2.5 mg

 581. fitspresso says:

  The next time I learn a weblog, I hope that it doesnt disappoint me as much as this one. I mean, I know it was my choice to learn, but I truly thought youd have one thing interesting to say. All I hear is a bunch of whining about something that you would fix in case you werent too busy on the lookout for attention.

 582. RandallClife says:

  online lisinopril: lisinopril 40 mg tablet – generic lisinopril 40 mg

 583. Jamesnealp says:

  buy viagra here: Buy generic 100mg Viagra online – viagra canada

 584. I’ve been exploring for a little for any high-quality articles or blog posts on this kind of house . Exploring in Yahoo I ultimately stumbled upon this web site. Studying this info So i’m happy to express that I have a very excellent uncanny feeling I came upon exactly what I needed. I most surely will make sure to don’t fail to remember this web site and provides it a look regularly.

 585. Jamesnealp says:

  Generic Viagra for sale: Buy generic 100mg Viagra online – Generic Viagra online

 586. I in addition to my buddies have already been taking note of the best tips and hints from your web site and then quickly developed a horrible feeling I had not expressed respect to the web site owner for those tips. All of the boys became happy to read through all of them and have now honestly been taking pleasure in those things. Appreciate your getting really considerate and for selecting these kinds of incredible things most people are really needing to understand about. My very own sincere apologies for not expressing appreciation to you sooner.

 587. Jamesnealp says:

  Generic Levitra 20mg: levitrav.store – Levitra online pharmacy

 588. Jamesnealp says:

  Buy Cialis online: Cialis 20mg price in USA – cialis generic

 589. ElmerCab says:

  Cialis 20mg price [url=https://cialist.pro/#]Generic Tadalafil 20mg price[/url] buy cialis pill

 590. Jamesnealp says:

  Levitra 10 mg buy online: Levitra generic price – Vardenafil online prescription

 591. Tylercruff says:

  http://cenforce.pro/# Cenforce 100mg tablets for sale

 592. GeorgeHes says:

  Kamagra 100mg price: kamagra.win – buy kamagra online usa

 593. Davidmum says:

  mexican online pharmacies prescription drugs [url=https://pharmmexico.online/#]mexican mail order pharmacies[/url] mexico drug stores pharmacies

 594. Donaldtoulp says:

  rx pharmacy coupons: overseas pharmacy no prescription – canadian prescription pharmacy

 595. Williamtrush says:

  pharmacies in mexico that ship to usa: mexican rx online – mexican border pharmacies shipping to usa

 596. Davidmum says:

  mexican drugstore online [url=http://pharmmexico.online/#]reputable mexican pharmacies online[/url] medicine in mexico pharmacies

 597. Williamtrush says:

  meds online no prescription: buy drugs without prescription – prescription online canada

 598. Davidmum says:

  top 10 online pharmacy in india [url=https://pharmindia.online/#]Online medicine home delivery[/url] online pharmacy india

 599. Donaldtoulp says:

  onlinecanadianpharmacy: reputable canadian pharmacy – canadian pharmacy online store

 600. Donaldlibia says:

  best online pharmacies without prescription: online meds no prescription – canadian pharmacy without a prescription

 601. Williamtrush says:

  top 10 online pharmacy in india: mail order pharmacy india – india pharmacy

 602. Davidmum says:

  legitimate online pharmacy no prescription [url=https://pharmnoprescription.icu/#]canadian mail order prescriptions[/url] prescription online canada

 603. Williamtrush says:

  buy prescription drugs online without doctor: purchasing prescription drugs online – cheap prescription medication online

 604. Davidmum says:

  medication from mexico pharmacy [url=https://pharmmexico.online/#]purple pharmacy mexico price list[/url] medication from mexico pharmacy

 605. Donaldtoulp says:

  cheapest prescription pharmacy: pharm world store – canadian pharmacy discount coupon

 606. Williamtrush says:

  best canadian online pharmacy reviews: medication canadian pharmacy – rate canadian pharmacies

 607. Davidmum says:

  online pharmacy india [url=https://pharmindia.online/#]india pharmacy[/url] п»їlegitimate online pharmacies india

 608. Henrytem says:

  zithromax z-pak price without insurance: buy zithromax no prescription – zithromax prescription

 609. Marvinalich says:

  buy doxycycline cheap [url=https://doxycyclinea.online/#]order doxycycline 100mg without prescription[/url] doxycycline 500mg

 610. RichardEmuse says:

  vibramycin 100 mg: where can i get doxycycline – doxycycline 100mg

 611. Henrytem says:

  amoxicillin 500mg tablets price in india: buy amoxicillin 250mg – buy amoxicillin without prescription

 612. Marvinalich says:

  neurontin 214 [url=http://gabapentinneurontin.pro/#]neurontin generic brand[/url] neurontin 100mg discount

 613. Henrytem says:

  prednisone 40 mg: buying prednisone mexico – cheap prednisone online

 614. RichardEmuse says:

  zithromax z-pak: where to buy zithromax in canada – zithromax z-pak price without insurance

 615. Henrytem says:

  zithromax for sale usa: can i buy zithromax over the counter in canada – cost of generic zithromax

 616. Marvinalich says:

  neurontin cost australia [url=http://gabapentinneurontin.pro/#]neurontin 30 mg[/url] where can i buy neurontin online

 617. Henrytem says:

  where can i get prednisone: prednisone 7.5 mg – prednisone prescription drug

 618. Marvinalich says:

  neurontin 600 mg capsule [url=https://gabapentinneurontin.pro/#]order neurontin online[/url] neurontin brand name

 619. RichardEmuse says:

  zithromax 500 mg: can you buy zithromax over the counter in mexico – zithromax 500 mg lowest price online

 620. Marvinalich says:

  prednisone 54899 [url=http://prednisoned.online/#]prednisone 1 mg daily[/url] over the counter prednisone pills

 621. Henrytem says:

  how to buy amoxicillin online: price of amoxicillin without insurance – can i purchase amoxicillin online

 622. Marvinalich says:

  how to get amoxicillin [url=http://amoxila.pro/#]amoxicillin tablets in india[/url] amoxicillin 800 mg price

 623. Fitspresso says:

  I am constantly thought about this, thankyou for posting.

 624. Albertcrymn says:

  mexican border pharmacies shipping to usa: mexican drugstore online – mexican pharmaceuticals online

 625. ThomasRaw says:

  mexico drug stores pharmacies: mexico pharmacies prescription drugs – mexican mail order pharmacies

 626. KennethApevy says:

  https://mexicanpharmacy1st.com/# purple pharmacy mexico price list

 627. What Is Sugar Defender?Sugar Defender is a new blood sugar-balancing formula that has been formulated using eight clinically proven ingredients that work together to balance sugar levels.

 628. zen cortex says:

  What is ZenCortex? ZenCortex is a cutting-edge dietary supplement meticulously crafted to provide essential nutrients that support and enhance healthy hearing

 629. Woah! I’m really enjoying the template/theme of this website. It’s simple, yet effective. A lot of times it’s hard to get that “perfect balance” between usability and appearance. I must say you have done a excellent job with this. Additionally, the blog loads super quick for me on Opera. Outstanding Blog!

 630. zencortex says:

  What is ZenCortex? ZenCortex is a cutting-edge dietary supplement meticulously crafted to provide essential nutrients that support and enhance healthy hearing

 631. Fitspresso says:

  Appreciate it for all your efforts that you have put in this. very interesting information.

 632. Very efficiently written information. It will be useful to everyone who employess it, including me. Keep up the good work – i will definitely read more posts.

 633. Thanks for every other wonderful article. The place else may just anybody get that kind of info in such a perfect way of writing? I have a presentation next week, and I am at the look for such information.

 634. ThomasCom says:

  buy neurontin: neurontin 400 – neurontin cap 300mg price

 635. RobertHen says:

  https://gabapentin.club/# neurontin online

 636. Java Burn is the world’s first and only 100 safe and proprietary formula designed to boost the speed and efficiency of your metabolism by mixing with the natural ingredients in coffee.

 637. I have been absent for a while, but now I remember why I used to love this site. Thank you, I¦ll try and check back more often. How frequently you update your site?

 638. StevenAgomy says:

  https://cheapestindia.shop/# top 10 pharmacies in india

 639. Robertdweno says:

  Farmacie on line spedizione gratuita [url=https://eufarmacieonline.shop/#]п»їFarmacia online migliore[/url] acquistare farmaci senza ricetta

 640. The unique perspective on this subject was enlightening. It’s refreshing to see someone so passionate about their topic.

 641. Ralphdossy says:

  farmacias online seguras en espaГ±a: farmacia online madrid – farmacia online madrid

 642. The finesse with which you articulated The points has me captivated. It’s as if you’re speaking my language.

 643. Javaburn says:

  Your style is so unique compared to many other people. Thank you for publishing when you have the opportunity,Guess I will just make this bookmarked.2

 644. Shedding light on this subject like you’re the only star in my night sky. The brilliance is refreshing.

 645. Brilliant piece of writing. It’s like you’re showing off, but I’m not even mad.

 646. The writing has the warmth and familiarity of a favorite sweater, providing comfort and insight in equal measure.

 647. KeithFug says:

  Sildenafil teva 100 mg sans ordonnance [url=http://viaenligne.com/#]Acheter du Viagra sans ordonnance[/url] Viagra homme prix en pharmacie sans ordonnance

 648. Edwardtix says:

  Pharmacie Internationale en ligne: Acheter Cialis 20 mg pas cher – pharmacie en ligne sans ordonnance

 649. Great write-up, I’m normal visitor of one’s web site, maintain up the excellent operate, and It’s going to be a regular visitor for a long time.

 650. The ability to convey hard to understand ideas so effortlessly is as attractive as a perfectly tailored suit.

 651. Just what I was searching for, thankyou for posting.

 652. XRumer23atomo says:

  Hello!

  This post was created with XRumer 23 StrongAI.

  Good luck 🙂

 653. zencortex says:

  What Is ZenCortex? ZenCortex is an ear health booster that protects ears from potential damage and improves your hearing health.

 654. fitspresso says:

  Nice blog! Is your theme custom made or did you download it from somewhere? A design like yours with a few simple adjustements would really make my blog shine. Please let me know where you got your theme. Many thanks

 655. Champyx says:

  Youre so cool! I dont suppose Ive read anything like this before. So good to seek out any person with some original thoughts on this subject. realy thanks for beginning this up. this web site is something that is needed on the web, someone with a bit of originality. useful job for bringing one thing new to the web!

 656. Some truly wondrous work on behalf of the owner of this internet site, utterly outstanding content material.

 657. Edwardtix says:

  Achat mГ©dicament en ligne fiable: Levitra sans ordonnance 24h – п»їpharmacie en ligne france

 658. AllenDiz says:

  trouver un mГ©dicament en pharmacie: kamagra 100mg prix – pharmacies en ligne certifiГ©es

 659. What Is Sugar Defender Supplement? Sugar Defender is a plant-based supplement and it helps to regulate the blood sugar levels in the body.

 660. XRumer23atomo says:

  Hello.

  This post was created with XRumer 23 StrongAI.

  Good luck 🙂

 661. Edwardtix says:

  pharmacie en ligne france livraison belgique: Pharmacies en ligne certifiees – pharmacies en ligne certifiГ©es

 662. Discovering your post has been the highlight of my day! Your insights are not only valuable but presented in such an engaging manner. It’s a pleasure to find content that both educates and entertains. I’m truly grateful for the effort you put into your work. Looking forward to more.

 663. I truly enjoy reading through on this internet site, it has fantastic blog posts. “Do what you fear, and the death of fear is certain.” by Anthony Robbins.

 664. AllenDiz says:

  Pharmacie Internationale en ligne: Medicaments en ligne livres en 24h – pharmacie en ligne pas cher

 665. Robertpet says:

  Viagra vente libre pays: Acheter du Viagra sans ordonnance – Viagra gГ©nГ©rique sans ordonnance en pharmacie

 666. The next time I learn a weblog, I hope that it doesnt disappoint me as much as this one. I imply, I do know it was my choice to learn, however I actually thought youd have something attention-grabbing to say. All I hear is a bunch of whining about one thing that you possibly can repair when you werent too busy on the lookout for attention.

 667. Nice blog here! Additionally your web site quite a bit up very fast! What web host are you the usage of? Can I am getting your affiliate hyperlink in your host? I want my web site loaded up as fast as yours lol

 668. fitspresso says:

  FitSpresso: An Outline FitSpresso is a weight management formula made using five herbal ingredients.

Leave a Reply