Enn og aftur um þarma-flóru

Skrifað um March 6, 2013 · in Almennt

Mynd þessi var sótt á vísindavefinn án heimildar.

Mynd þessi var sótt á vísindavefinn án heimildar.


PISTLARNIR um Þarmaskolun (detox) og saurgjafir og Meira um þarma-flóru virðast hafa vakið talsverða athygli, ef dæma má eftir heimsóknum á þennan vef. Þar var meðal annars bent á, að lið lækna og lyfjaiðnaðar hafa sýnt þessu máli lítinn áhuga.

Nú hlýtur að verða breyting á afstöðu þeirra til þessara mála, því að nýverið birtist niðurstaða á vandaðri rannsókn í hinu virta tímariti The New England Journal of Medicine (NEJM).

Þar er greint frá því, að það tókst að lækna 94% sjúklinga, sem þjáðust af steinsmugu af völdum Clostridium difficile, með saurgjöf. Þá er hefðbundinni lækningu með sýklalyfjum var beitt, náði aðeins 27% fullum bata.

Greinin heitir: Duodenal Infusion of Donor Feces for Recurrent Clostridium difficile og má nálgast hér. (http://www.nejm.org/doi/full/10.1056/NEJMoa1205037)

 

Ekki sakar að rifja upp, að í þörmum eru biljónir gerla, sem samanlagt vega jafnmikið og heilinn (1400 g). Í gerlum þessum eru um 3,3 miljónir gena og til samanburðar eru aðeins um 20‘000 gen í líkmsfrumum manna.

Það er ekki fjarri sanni, að líta megi á þarma-flóruna sem ígildi líffæris, sem gegnir mikilsverðu hlutverki. Hún verndar gegn smiti, stuðlar að skynsamlegum efnaskiptum í líkamanum, umbreytir fæðuefnum, svo að þau nýtist betur en ella, sundrar eiturefnum og nýmyndar vítamín (K-vítamín, biotín, ríbóflavín, fólsýru, þíamín), ómissandi amínósýrur og fjölmörg efni önnur, sem líkaminn þarfnast.
Við þetta má bæta, að athuganir á músum leiða í ljós, að þær, sem hafa enga þarma-flóru, eru ofvirkar og eiga til að taka of mikla áhættu í lífinu.

 

Það er löngu þekkt, að inntaka sýkla-lyfja getur skaðað þarma-flóruna til langs tíma. Venjulega nær gerla-flóran sér aftur á strik innan fáeinna vikna eða mánaða en þess eru dæmi, að viku-skammtur af lyfjum til að lækna magasár, geti valdið fjögurra ára óþægindum.

 

ÁHB / 6.3. 2013

 

Leitarorð:


Leave a Reply