Calliergon – hrókmosar

Skrifað um October 27, 2016 · in Mosar

Calliergon (Sult.) Kindb. – hrókmosar

Kvíslin er af ættinni Calliergonaceae – hrókmosaætt – ásamt sex öðrum og teljast 20 til 25 tegundir til hennar. Aðrar kvíslir hér á landi eru:

Straminergon (seilmosar)
Loeskypnum (hómosar)
Scorpidium (krækjumosar)
Warnstorfia (klómosar)
Sarmentypnum (kengmosar)

Til Calliergon heyra 4 til 6 tegundir og vaxa þrjár þeirra hér á landi, einum færri en annars staðar í Evrópu.

Plöntur eru stórvaxnar, greinóttar og standa hliðargreinar út í allar áttir. Blöð eru breið og bein, snubbótt með einfalt rif. Hornfrumur eru tútnar með þunna veggi. Axlarhár eru mörg og löng. Blaðfrumur eru mjóar og langar; oft má sjá rætlinga-myndandi frumur nærri rifi eða blaðenda.

 

Lykill að tegundum innan Calliergon:
1 Hornfrumur ná inn að rifi eða næstum því. Skil litlítilla eða litlausra hornfrumna og frumna fyrir ofan ekki skörp ………………. C. cordifolium
1 Skil hornfrumna og frumna fyrir ofan mjög skörp …………………………. 2

2 Rif 95-282 µm á breidd við grunn; ógreint og nær fram undir blaðenda. Hornfrumur ná næstum inn að rifi . ……. …………………… C. giganteum
2 Rif 52-119 µm á breidd við grunn; greinótt eða kvíslótt og endar talsvert neðan við blaðenda. Hornfrumur ná mest þrjá fjórðunga inn að rifi ……………………………… C. richardsonii

 

Calliergon cordifolium (Hedw.) Kindb. – vætuhrókur

Plöntur eru grænar, ljósgrænar en brúnleitar neðst, (5-)10-15 cm á hæð, lítið og alhliða óreglulega greinóttar, glansandi. Yztu frumur á axlarhárum stutter. Blöð bein, upprétt eða útstæð, hjartalaga til mjó-egglaga, heilrend, snubbótt og kúpt. Rif einfalt, 54-117 (-133) µm á breidd við grunn, og nær næstum fram í blaðenda. Blaðrönd er niðurhleypt.

Frumur striklaga til tigullaga með þunna veggi, 7-13 x 40-140 µm, en jaðarfrumur mjórri með þykkari veggi. Blaðhorn eru stór og ná svo til alla leið inna að rifi, efri mörk óglögg. Hornfrumur tútnar og litlitlar.

Calliergon cordifolium. Teikn. ÁHB.

Calliergon cordifolium. Teikn. ÁHB.

Plöntur eru tvíkynja og gróhirzlur sjaldséðar. Gró 13-20 µm að þvermáli.

Vex í alls konar votlendi. Vex strjált víða en þó ekki um landið suð-austanvert.

Hætta er á að rugla tegundinni við C. giganteum, ef tegund sú hefur ekki sitt einkennandi »jólatrés-vaxtarlag«. Á báðum tegundum ná hornfrumur næstum inn að rifi en hornfrumur á C. cordifolium mynda ekki skörp skil við frumur fyrir ofan í blaðinu og rif er mjórra. Á Straminergon stramineum ná hornfrumur ekki eins langt inn að rifi en hærra upp með blaðrönd.

 

Calliergon giganteum (Schimp.) Kindb. – tjarnahrókur

Plöntur grænar, gulgrænar, brúnleitar eða jafnvel rósrauðar, grófar, oftast uppréttar, 10-30 cm. Jafnan reglulega, alhliða greinóttar. Efsta fruma axlarhárs stutt. Blöð bein, upprétt eða útstæð, 2-3 mm, breiðegglaga, kúpt og snubbótt. Rif einfalt, 95-282 µm breitt við grunn og nær fram undir blaðenda. Greinablöð minni og mjórri en stöngulblöð og minna um margt á blöð á C. cordifolium nema hvað hornfrumur eru betur afmarkaðar.- Oft er sagt, að tegundin minni um margt á reglulegt jólatré í vexti.

Frumur strik- eða tigullaga, 40-164 × 7-11 µm; frumur við blaðrönd mun mjórri og með þykkari veggi. Horn eru stór og mjög vel afmörkuð, ná frá blaðrönd um 70-95% inn að rifi. Hornfrumur eru tútnar með þunna veggi, litlausar.

Calliergon giganteum. Teikn. ÁHB.

Calliergon giganteum. Teikn. ÁHB.

Plöntur eru einkynja og því ekki oft með gróhirzlur. Stilkur 4-5,5 cm. Gróhirzla brún eða rauðlituð, bogin og álút. Gró 15-20 µm að þvermáli.

Vex við vætu, bæði mikla og litla. Mjög algengur um mest allt land.

 

Calliergon richardsonii (Mitt.) Kindb. – tjarnahrókur

Plöntur grænar, gular eða brúnleitar á stundum rauðbrúnar, grófar, oftast uppréttar, 8-20 cm. Jafnan lítið alhliða greinóttar. Efsta fruma axlarhárs aflöng. Blöð bein, upprétt eða útstæð, breiðegglaga og þá 2-4 mm eða hjartalaga til kringlótt, þá 1,5-2,0 mm; kúpt og snubbótt. Rif einfalt, 53-119 µm breitt við grunn og klofið fremst, nær 50-90% að blaðenda.

Frumur strik- eða tigullaga, 50-133 × (7-)8-13(-14) µm; frumur við blaðrönd mun mjórri og með þykkari veggi. Horn eru stór og mjög vel afmörkuð, ná frá blaðrönd um 60-80% inn að rifi. Hornfrumur eru tútnar með þunna veggi, litlausar.

Calliergon richardsonii. Teikn. ÁHB.

Calliergon richardsonii. Teikn. ÁHB.

Plöntur eru tvíkynja og því oft með gróhirzlur. Stilkur 4,5-6 cm. Gróhirzla brún eða rauðlituð, bogin og álút. Gró 17-30 µm að þvermáli.

Vex við vætu, bæði mikla og litla. Mjög algengur, einkum um landið norðanvert.

 Leave a Reply