Bernskuminningar Hákonar

Skrifað um July 2, 2021 · in Almennt

Ég fæddist 13. júlí 1907 í húsinu nr. 35 við Laufásveg í Reykjavík. Foreldrar mínir voru Ágúst H. Bjarnason, [f. á Bíldudal 20. ágúst 1875, d. 22. sept. 1952] þá kennari við Menntaskólann í Reykjavík en síðar prófessor við Háskóla Íslands og Sigríður Jónsdóttir Ólafssonar ritstjóra og alþingismanns [f. í Reykjavík 18. apríl 1883, d. 26. marz 1971]. Ættir þeirra og mína geta allir rekið og skal því sleppt hér.

Hús þetta áttu þau hjónin Sigurður Jónsson barnakennari og síðar skólastjóri og Anna Magnúsdóttir frá Dysjum [í Garðahreppi, Gullbringusýslu], einnig kennari.

Norðan þessa húss var Laufásvegur 31, þar sem Hannes Thorarensen bjó með konu sinni Louise Bartels, en fyrir sunnan var lítið hús eign prestsekkjunnar Rannveigar Gísladóttur [1859-1920; hreppstjóra í Neðrabæ í Selárdal, Árnasonar], en með henni voru Helga dóttir hennar og Jónas sonur hennar [trésmiður, Jónasson prests Björnssonar 1850-1896] með konu sinni Margrétu. Þá var lítið hús á horni Laufásvegar og Baldursgötu, þar sem bjó gamall sjómaður, Einar að nafni, fremur skapstirður og viðskotaillur við börn.

Neðan Laufásvegar bjó Jón Þórarinsson fræðslumálastjóri í húsinu nr. 34 með síðari konu sinni, Sigríði Stephensen, en í nr. 38 bjó Ingibjörg Jensdóttir (1860-1941) [rektors] Sigurðssonar með fósturdóttur sinni Katrínu [Jónsdóttur] og bróður sínum Þórði [stjórnarráðsritara].

Foreldrar mínir bjuggu á efri hæð í húsi Sigurðar til 1916, og á þeim tíma urðu börnin 4. Elstur var ég, fæddur 1907, þá Helga fædd 1909, Jón Ólafur fæddur 1911 og María Ágúst fædd 1912. [Síðar fæddist Haraldur 1922.] – Þau Sigurður og Anna áttu tvö börn, Steinþór fæddur 1904 og Guðrún fædd 1905.

Fyrstu minningar mínar eru því tengdar þessu fólki og þeirra börnum, svo og húsum og heimilisháttum. Þau Steinþór og Guðrún voru sem eldri systkini mín og af þeim og þá einkum Steinþóri lærðist margt hið fyrsta, því að við bjuggum þarna uns ég varð 9 ára. Þá fluttum við haustið 1916 í nýbyggt hús, Hellusund 3, sem faðir minn lét reisa.

Á heimili okkar komu margir, frændur, frænkur, vinir og kunningjar. Systkini föður míns, Þorleifur, Lárus, Brynjólfur og Ingibjörg komu þar oft og við til þeirra, en mestur var þó samgangurinn við afa og ömmu, Jón Ólafsson og Helgu Eiríksdóttur, svo og við Gísla móðurbróður og hans heimili eftir að hann fluttist til Reykjavíkur frá Akureyri. Af vinum foreldra minna minnist ég lengst dr. Ólafs Danielssonar [1877-1957] og Ólafar Sveinsdóttur konu hans, Árna Pálssonar og Ásgeirs Torfasonar efnafræðings og Önnu Ásmundsdóttur, en Ásgeir dó fyrir aldur fram árið 1916. Hann var indæll maður og öllum harmdauði. Þá má ekki gleyma frændfólki móður minnar, en hún var skyld öðrum hverjum Austfirðingi, sem kom í bæinn. En fáir þeirra voru búsettir hér, nema Hansína Eiríksdóttir frá Karlskála, gift Benedikt S. Þórarinssyni. Hún var síðari kona hans og börn þeirra þrjú á líku reki og við systkinin. Var all mikill samgangur milli heimilanna.

Þá er lýst því umhverfi, sem ég ólst upp í fyrsta áratuginn, en það smá stækkaði til ýmissa átta eftir því sem árin liðu.

 

Bernskuminningar eru á svipaða lund hjá flestum og því ástæðulaust að rekja þær nema að því leyti, sem þær setja mark á mann.

Á heimili okkar dvaldi fóstra föður míns, María Höskuldsdóttir að nafni, fædd 1837. Hún hafði verið vinnukona hjá afa mínum og ömmu á Bíldudal, þegar faðir minn fæddist 1875. Er afi minn [Hákon Bjarnason] varð úti á Mýrdalssandi í páskaveðrinu 1877, kom amma mín [Jóhanna Þorleifsdóttir] föður mínum í fóstur að Hóli í Bíldudal og var hann þar uns fjölskyldan tók sig upp og flutti til Reykjavíkur. Ef til vill var þessi ráðstöfun hennar til að forða piltinum frá barnaveiki, en sumir segja að hún hafi óttast hefnd guðs fyrir eitthvað, þar sem hún varð að þola margan barnamissi og loks lát eiginmanns og hefur hún því ætlað að narra guð á þennan hátt. En hvað sem því líður, þá ólst faðir minn að mestu upp utan heimilis Jóhönnu, því eftir að hún flutti til Reykjavíkur var hann langdvölum á Eiði á Seltjarnarnesi og einnig í Nesi. En þegar Jóhanna fer til Kaupmannahafnar með eldri börnin til náms, þá var faðir minn skilinn eftir hjá Marju Höskuldsdóttur í Aðalstræti 7 og áttu þau þar fremur þröngan kost. Þetta mun hafa verið 1886 eða næsta ár, er Jóhanna flutti búferlum til Kaupmannahafnar. Faðir minn hefur þá verið um 11 ára. Barnaskólanám hlaut hann hjá Sigurði kennara Sigurðssyni [frá Reykhúsum í Eyjafirði; 1837-1915] í Mýrarhúsa-skólanum, sem var orðlagður kennari. Þótti föður mínum afar vænt um Sigurð alla ævi og kom hann á stundum á sunnudögum á Laufásveg 35 til að matast með okkur. Eftir fermingaraldur var faðir minn notaður til skrifta á skrifstofu bæjarfógetans í Reykjavík og var þar hjá Halldóri Daníelssyni uns móðir hans lét hann sigla til sín til Kaupmannahafnar og kom honum til náms. Lét hann vel að Halldóri Daníelssyni [frá Hrafnagili í Eyjafirði; 1855-1923]. Var það Lárus bróðir hans, sem lét móður hans kalla hann utan, og virðist sem hún hafi afrækt hann á ýmsan hátt. Hann mun hafa farið utan er hann var 17 ára 1892. Marja hafði gengið honum í móðurstað og var mikið ástríki milli þeirra, en ég minnist þess varla að hafa heyrt föður minn tala um móður sína.

Eftir að faðir minn fór utan var Marja á vistum með fjölskyldunni, meðal annars hjá Brynjólfi föðurbróður mínum, sem settist á í Aðalstræti 7 sem kaupmaður. Ekki þótti Marju vistin hjá Brynjólfi of góð. Strax er faðir minn setti bú árið 1906 flutti Marja til hans og var hún þá á sjötugasta ári. Hjá honum og móður minni fékk hún loks áhyggjulausa elli og andaðist hjá þeim 2. í jólum 1914.

Marja Höskuldsdóttir varð því fóstra okkar systkinanna fyrstu árin og er mér enn í minni, þegar hún var að kenna okkur vísur og þulur. Hún vildi líka láta okkur læra faðirvorið og bænastagl upp á gamla mátann og man ég eftir því, að þótt faðir minn léti faðirvorið afskiptalaust, þá hafði hann orð á því við gömlu konuna að ástæðulaust væri að kenna okkur þessa vitleysu og varð það auðvitað til þess að ég lærði aldrei orð af því og þykir bættur skaðinn.

Marja gamla var okkur systkinunum afar góð, eins og hún hafði veið föður okkar. Hún var hið mesta tryggðatröll og vann sínum húsbændum hvað hún mátti.

Hún var ung er hún réðist til Hákonar og Jóhönnu á Bíldudal, en um umhyggju þeirra hjóna fyrir henni er þessi saga. Eitt sinn er Marja var að bera leirtau niður stiga varð henni fótaskortur, svo að diskar þeyttust um allt og brotnuðu. Þá kom Jóhanna fram og kallaði: „Hvað braustu núna,“ en Hákon kom úr annarri átt og sagði: „Meiddirðu þig, Marja mín?“

Þegar Marja Höskuldsdóttir var jörðuð einhvern fyrstu dagana í janúar 1915, var logn og hiti í lofti. Snjór hafði þiðnað af túnum eins og á vordegi. Lágum við börnin niðri á „Gránutúni“ neðan Laufásvegar og horfðum á, þegar svartri kistunni var komið fyrir á líkvagninum. Söknuður minn var mikill, en einhvern veginn var búið að telja okkur trú um að gamla konan væri orðin engill og bætti sá möguleiki nokkuð harm minn, enda þótt óvissan og efinn leitaði á hugann.

 

 

Um þetta leyti, 7 ára að aldri, fór margt að festast í minni manns og sumt situr þar nú fastar en allt annað, eftir nærri sex tugi ára. Þegar þetta var, var Reykjavík um eða innan við tíu þúsund manna bær, og Laufásvegur var eins og kattarrófa suður úr Þingholtum alla leið suður að Gróðrarstöð og Kennaraskóla. Þarna bjó margt indælisfólk auk þess, sem áður var nefnt, svo sem Jón Jónsson Aðils sagnfræðingur, Þórarinn Þorláksson málari. Þeir voru svilar, kvæntir Ingileifu og Sigríði Snæbjörnsdætrum. Þá bjó Halldór Sigurðsson úrsmiður þar fyrir sunnan með fjölskyldu sinni, en þaðan var allt óbyggt ofan vegar suður að Kennaraskóla, þar sem Magnús Helgason skólastjóri (1857-1940) bjó með konu sinni [Steinunni Skúladóttur] Thorarensen (1855-1929).

Neðan vegar var stórt og fallegt hús, byggt um aldamótin af Þórhalli Bjarnarsyni þáverandi prestaskólakennara en síðar biskupi Íslands. Þar rak hann mikinn kúabúskap á þeirra tíma vísu, en hann hafði ræktað mikil tún á landi því, sem áður hét Móakot. Túnin náðu niður að suðurenda tjarnarinnar, en þar var mikið og gott gulstararengi. Þegar hér var komið sögu andaðist kona Þórhalls biskups, en Dóra dóttir hans tók við húsfreyjustörfum. Svava, eldri dóttirin, giftist og um þessar mundir Halldóri skólastjóra Vilhjálmssyni á Hvanneyri. Tryggvi var orðinn prestur á Hesti, en Björn yngri sonurinn var ráðsmaður á búinu.

Björn var einstakt prúðmenni og mjög barngóður. Allir drengir nágrennisins, sem síðar verður á minnst, hændust að honum og gerðu honum allt til geðs. Af leikjum þeirra í Laufási óx síðar sérstakur félagsskapur strákanna, sem átti sér þó nokkra sögu [Indíánafélagið].

Sunnan Laufáss var lítið kot, Félagsgarður, og þar næst Gróðrarstöðin, sem komið var á fót um aldamótin. Þar bjó þá Helgi faðir Einars garðyrkjustjóra með konu og dætrum, en þangað flutti svo Einar nokkru síðar með Kristínu Guðmundsdóttur konu sinni og einkasyni, Eiríki [1907-1969], sem gekk ávallt undir nafninu Billi.

 

 

Og þá er komið að leikfélögunum. Af börnum Halldórs úrsmiðs voru þeir Björn leturgrafari [1907-1971] og Sigurður [bæjarstjóri á Ísafirði, 1909-1965] á svipuðu reki og ég. Þorvaldur [1907-1941] sonur Jóns Aðils var jafnaldri minn, en Geir [1904-1972] einum þremur árum eldri og Jón [1913-1983] nokkru yngri. Þá voru tveir synir Haralds Níelssonar, Kornelíus [1906-1961] og Sigurður [1901-1990] í sama húsi, því að séra Haraldur bjó um allmörg ár á Laufásvegi 45, en norðan þess á nr. 43 var Halldór [1906-1996] sonur Vigfúsar í Engey. Á horni Baldursgötu og Laufásvegar voru Jóhannes [1905-1990] og Guðmundur [1904-1987] Björnssynir [báðir bræður veggfóðrarameistarar], en í næsta húsi við Laufásveg 37 var Ragnar [Jónas] Jónasson [1909-1928], sem því miður varð skammlífur eins og reyndar Jón Ingi Erlendsson, sem bjó í húsi Jóns Eyjólfssonar á Baldursgötu …..

 

P.s. Ekki hef eg fundið framhald þessarar frásagnar, en vel má vera að komi síðar í leitirnar. – Um Indíánafélagið má lesa þessa grein í Æskunni:

 

https://timarit.is/page/4628913#page/n29/mode/2up