Amblyodon – dropmosar

Skrifað um January 22, 2015 · in Mosar · 5 Comments

Ættkvíslin Amblyodon P. Beauv. (dropmosar) telst til Meesiaceae (snoppumosaættar) ásamt kvíslunum Meesia (snoppumosum), Leptobryum (nálmosum) og Paludella (rekilmosum).

Í kvíslinni er aðeins ein tegund blaðmosa. Það er því nóg að lýsa tegundinni.

Ættkvíslarnafnið amblyodon merkir sljótenntur; á grísku er amblys, snubbóttur, oddlaus; –odon af odous, tönn. – Sennilega er nafnið tilkomið vegna þess, að ytri kranstennur eru snubbóttar eða þverstýfðar.

 

Amblyodon dealbatus (Sw. ex Hedw.) Bruch & Schimp. – dropmosi

Plöntur eru allt að 2 cm á hæð, ljósgrænar í lausum þúfum. Neðan til á stöngli eru rauðfjólubláir, vörtóttir rætlingar. Blöð eru egglaga, sljótennt fremst. Rif er mjög breitt við blaðgrunn og fer mjókkandi fram undir blaðenda, rif nokkuð gulleitt í fyrstu en verður oft rauðlitt í gömlum blöðum.

Frumur framarlega í blaði mjög stórar, sléttar með þunna veggi, tigullaga sexhyrndar eða ferhyrndar. Frumur mjórri við blaðrönd en mynda þó ekki greinilegan jaðar.
Plöntur tvíkynja. Stilkur uppréttur, rauðbrúnn og oft bugðóttur. Gróhirzla öfug-perulaga, bogin, óregluleg og álút. Háls aðskilinn frá hirzlu og álíka langur og hún. Ytri kranstennur gulbrúnar, stuttar og snubbóttar; innri kranstennur um tvöfalt lengri, litlitlar eða daufgular. Gró 35-44 µm að þvermáli, gulbrún og vörtótt.

Ættkvíslarnafnið ‘dealbatus‘, upplitaður, þakinn hvítu mjöli; dealbare á latínu merkir kalka; albus, hvítur; viðskeyti –atus.

Vex í rökum klettum og gljúfrum. Fremur fátíð um norðvestan- og norðanvert land; á fáeinum stöðum á Mið-Suðurlandi.

 

Helztu heimildir:
A.J.E. Smith, 2004: The Moss Flora of Britain and Ireland. Cambridge University Press
Ágúst H. Bjarnason, 2010: Greiningarlykill að ættkvíslum íslenzkra blaðmosa (Musci) ásamt tegundaskrá. Fjölrit
Vistfræðistofu n:r 40. Reykjavík.
Bergþór Jóhannsson: Íslenskir mosar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar n:r 19. Nóvember 1991.
Bergþór Jóhannsson: Íslenskir mosar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar n:r 29. Október 1996.
Tomas Hallingbäck et al.: Bladmossor: Kompaktmossor-kapmossor. ArtDatabanken, Sveriges lantbruksuniversitet.
Uppsala 2008.
Tomas Hallingbäck, Ingmar Holmåsen, 2008: Mossor. En fälthandbok. Interpublishing. Stockholm.

 

ÁHB / 22. janúar 2015

P.s. Höfundur hlaut styrk frá Hagþenki 2014 til ritstarfa.

 


5 Responses to “Amblyodon – dropmosar”

Leave a Reply