Aldarminning Guðna Guðjónssonar grasafræðings

Skrifað um July 18, 2013 · in Almennt · 58 Comments

Guðni Guðjónsson, grasafræðingur.

Guðni Guðjónsson, grasafræðingur.

Í dag, 18. júlí, eru hundrað ár frá fæðingu Guðna Guðjónssonar grasafræðings, en hann var með efnilegustu grasafræðingum þessa lands. Sjálfsagt eru þeir ekki margir, sem kunna skil á þessum manni, því að hann lézt óvænt um aldur fram 31. desember 1948.
Guðni var ættaður úr Rangárvallasýslu, alinn upp í Reykjavík og lauk stúdentsprófi frá MR 1933. Um haustið sigldi hann til Kaupmannahafnar, þar sem hann lauk prófi í grasafræði og starfaði næstu 15 árin. Að því loknu flyzt hann heim og tekur við stöðu forstöðumanns grasafræðideildar Náttúrugripasafnsins. Því miður auðnaðist honum ekki lengi að starfa þar, því að hann féll frá við lok ársins 1948.
Sá er hér heldur á penna hafði augljóslega engin kynni af Guðna. Á hinn bóginn bjuggu foreldrar hans í næsta nágrenni í Norðurmýrinni og á unga aldri heyrði maður mikið talað um son þessara hjóna sem einn álitlegasta grasafræðing og sviplegt fráfall hans.
Vísindastörf Guðna Guðjónssonar eru eðlilega ekki mikil að vöxtum, en ótvírætt er, að þau voru á sinni tíð með hinum merkari á sviði grasafræði. Hann birti fáeinar ritgerðir, ýmist einn eða í samvinnu við aðra, og af verkum hans að dæma hafði hann mestan áhuga á tegundum, sem fjölga sér við geldæxlun. Skömmu fyrir andlátið skrifaði hann ásamt dönskum samstarfsmanni, dr. Thorvald Sörensen, greinina „Spontaneous Chromosome Aberrants in Apomictic Taraxaca”, en hún fjallar um vöxt kíms án frjóvgunar.
Sennilega er þekktasta grein Guðna engu að síður ritdómur, sem hann reit um Íslenzkar jurtir eftir Áskel Löve og kom út 1945. Ritdómurinn birtist í Tímariti Máls og menningar og þótti mjög harður og óvæginn á þeim tíma enda vakti hann óskipta athygli. Ekki skal hér lagður dómur á þessa ritsmíð, en ritdómurinn sýnir, að Guðni var maður einarður og vel að sér í sínum fræðum.
Af ummælum samferðarmanna Guðna er ljóst, að hann var hvers manns hugljúfi, hjálpsamur og greiðvikinn og lipurmenni í umgengni. Þá var hann forkur til vinnu og lagði hart að sér við öll vísindastörf.
Þessum fáu línum hér var aldrei ætlað að gera úttekt á ævi og starfi Guðna Guðjónssonar, sem þó væri þarft verk. Hér er aðeins verið að minnast manns, sem án efa hefði breytt miklu í þekkingu á flóru Íslands, hefði honum auðnazt líf og heilsa.

 

ÁHB / 18. júlí 2013


58 Responses to “Aldarminning Guðna Guðjónssonar grasafræðings”

Leave a Reply