1. marz 1935

Skrifað um March 1, 2015 · in Almennt

Hákon Bjarnason á hesrti sínum Krumma.

Hákon Bjarnason á hesti sínum Krumma. Hákon reið alltaf við sléttan leðurtaum.

Fyrir 80 árum, hinn fyrsta marz 1935, var faðir minn, Hákon Bjarnason (1907-1989), skipaður skógræktarstjóri og jafnframt skógavörður í Reykjavík. Hann gegndi stöðunni í 42 og hálft ár. Fyrirrennari hans í starfi var danskur skógfræðingur, Agner Francisco Kofoed-Hansen að nafni (1869-1957). Hann var settur í embættið 1908 en ekki skipaður fyrr en 1925. Kofoed-gamli-Hansen, eins og hann var oftast nefndur í mínu ungdæmi til aðgreiningar frá syni hans, hafði komið hingað til lands tveimur árum áður og ferðast um landið með öðrum skógfræðingi dönskum, Christian E. Flensborg. – Flensborg hafði dvalið hér á landi sjö undanfarin sumur og sinnt margvíslegum störfum ásamt Einari Helgasyni að undirlagi frumkvöðla að skógrækt, þeirra Carls H. Ryders, sjóliðsforingja og skógfræðiprófessorsins Carls V. Prytz.

Allnokkur styrr stóð um ráðningu Kofoeds-Hansens og blönduðust mörg mál þar saman. Á fyrstu árunum voru sandgræðsla og skógrækt undir sama hatti en voru illu heilli aðskilin 1914, og sandgræðslan flutt til Búnaðarfélags Íslands. Maður að nafni Gunnlaugur Kristmundsson (1880-1949) tók alfarið við sandgræðslunni. Oft var grunnt á því góða á milli þessara tveggja manna. Kofoed-Hansen galt fyrir það á þessum árum, að vera danskur. Hann náði ekki tökum á málinu og gerðu menn í því að apa eftir honum skringilegar setningar, eins og: „Þarna sé ég ein á, ég veit hver hún á;“ – og fleira í þessum dúr. Þá varð honum það á á einum stað að sá og gróðursetja í farveg leysingarvatns og skolaði því vitanlega öllu á haf út í fyrstu leysingum að vori.

Kofoed-Hansen naut sjaldnast sannmælis fyrir störf sín hér á landi, einkum á sviði sandgræðslu (sjá: hér). Hann var þó vel menntaður, fylginn sér og harðduglegur ferðamaður. Það hefur löngum verið í minnum haft, að hann fór einn síns liðs ríðandi þvert yfir hálendi Íslands. Þá var hann einkar fær landmælingamaður og kortin, sem hann mældi og dró upp munu vera afburða vel gerð. Vonandi er þeim haldið til haga.

Svo fór, að Kofoed-Hansen var ýtt til hliðar 1935, þá er hann var 65 ára að aldri. Á bak við þá athöfn er saga, sem er að mestu óskráð og verður það kannski alltaf, því að nú eru engir, sem hana kunna.

Eins og áður segir tók Hákon Bjarnason við starfi skógræktarstjóra þennan dag fyrri 80 árum. Embættinu fylgdu nokkrir reiðhestar og að auki átti Hákon sjálfur nokkra gæðinga. Voru hestarnir notaðir til ferðalaga fram til 1942. Árið 1936 kom viðarkolabíll til landsins, sem Kofoed-Hansen hafði pantað, og var hann einkum notaður við flutninga á plöntum út um land og einnig til þess að knýja viðarsagir (sjá: http://ahb.is/vidarkolabill-skograektar-rikisins).

Áður en Hákon tók við starfinu hafði hann ferðast vítt um land, meðal annars til þess að kynna sér ástand birkiskóga og rannsaka jarðveg og þá sérstaklega öskulög frá 1930. Meðal annars rakti hann uppruna „hvítu“ öskulaganna til Heklu og nefndi þau H1-H5. Svo segir hann sjálfur frá í óbirtum pistli (Upphaf öskulagarannsókna á Íslandi):

„Mig minnir, að það hafi verið veturinn 1934, sem Bjarni Sæmundsson bað mig að halda erindi um öskulögin á fundi í Náttúrufræðafélaginu, sem haldinn var í náttúrugripasafni Menntaskólans [í Reykjavík]. Þar var fámennt en ég man eftir Pálma Hannessyni á þeim fundi, Magnúsi Björnssyni og sennilega var Jón Eyþórsson þar líka. Öðrum man ég ekki eftir en alls voru 10-12 manns á fundi. Sennilega má sjá þetta í fundagerðabókum Náttúrufræðafélagsins. Þar sagði ég meðal annars, að allt benti til þess að efra eða efsta hvíta líparítlagið á Norðurlandi hefði fallið eftir landnám, og það hefði sennilega komið úr Heklu. Þó vildi ég ekki – og gat enda ekki – tímasett það nánar. Taldi ég, að frekari athugun á öskulögum væri aðferð til þess að rekja uppblástur jarðvegs aftur í tímann.

Pálmi Hannesson tók til máls á eftir og kvaðst vantrúaður á að Hekla hefði nokkurn tíma gosið hvítum eða ljósum vikri, en norðan Heklu væru hins vegar líparítfjöll. Að öðru leyti fannst honum erindi mitt athyglisvert.

Bjarni Sæmundsson þakkaði fyrir erindið og kvað það skemmtilegt verkefni, sem framundan væri, og sagði að lokum í tilefni af orðum Pálma, að menn mættu aldrei taka nokkurn hlut gefinn í náttúruvísindum og þyrfti að skoða það nánar hvers konar vikri eldfjöllin spúðu, til dæmis hafði askan úr Kötlu, sem hann hafði safnað 1918, verið all gráleit.“

 

Þessum rannsóknum hélt Hákon áfram í allmörg ár, unz Sigurður Þórarinsson helgaði sér þetta viðfangsefni, en Hákon bauð Sigurði með sér í könnunarleiðangra, fyrst 1936, enda var hann á sífelldum ferðal-ögum. Svo sagði Unnsteinn Beck, lögfræðingur, að hann hefði verið fenginn til þess að færa alla jarðvegs-„prófíla“ inn á kort og reikna heildarþykkt og útbreiðslu öskulaga veturinn 1936/37, þegar hann var á síðasta ári í M.R.

Á árum áður hafði Hákon dvalizt bæði á Englandi og í Svíþjóð til þess að kynna sér jarðvegsrannsóknir. Árið 1934 var hann beðinn um að taka að sér jarðvegsrannsóknir á vegum Atvinnudeildar háskólans og hugði á samstarf við Þóri Guðmundsson (1896-1937), sem var fyrsti forstjóri stofnunarinnar. Óvænt andlát Þóris skömmu eftir ráðningu Hákonar varð hins vegar til þess, að þessar fyrirætlanir gengu ekki eftir. Hákon taldi, að þeir menn, sem tóku við af Þóri, hefðu hvorki vilja né skilning á slíkum athugunum.

Þess í stað varð Hákon framkvæmdastjóri Mæðiveikivarna frá 1937-1941. Meðal annars fólst það starf í því að hafa á hendi yfirstjórn pestargirðinga um landið og ráða varðmenn. Svo hart lagði Hermann Jónasson að honum að taka að sér þetta starf, að hann fékk sjálfdæmi að ákvarða sér laun fyrir það. Svo mikill erill fylgdi þessu starfi, að þá missti Hákon svefn í eina skiptið á ævinni.

Tvisvar á starfsævinni fékk Hákon tilboð um önnur störf um miðjan sjöunda áratuginn. Annars vegar var það staða við íslenzka stofnun og hins vegar við Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (Food and Agriculture Organization of the United Nations, FAO). Fyrra starfið afþakkaði hann umyrðalaust en tók sér þó nokkurn umhugsunarfrest gagnvart hinu síðara. Af því varð þó ekki.

Árið 1971 lagði Hákon það til við Ingólf Jónsson, landbúnaðarráðherra, að Skógrækt ríkisins og Landgræðsla ríkisins yrðu sameinuð. Bauðst hann til að gegna stöðunni í eitt eða tvö ár og láta svo af störfum. Ingólfur aftók þetta með öllu, þó að um 5 miljónir gætu sparazt.

Hér verður hvorki vikið að störfum Hákonar sem skógræktarstjóra né því, sem honum líkaði annars vegar bezt við í starfi og hins vegar verst. (Innan sviga má geta þess, að hann talaði alloft um skilningsleysi vissra ráðamanna.)

Hákon flutti fjöldamörg erindi í útvarpi og fyrirlestra á fundum. Þá var hann ötull við skriftir. Heildstæð ritaskrá hefur þó ekki verið enn tekin saman. Megnið af greinum og skýrslum birtust í Ársriti Skógræktarfélags Íslands eða tæpir 180 pistlar. Sennilega hefur enginn skrifað meira um skógrækt á Íslandi en hann.

Samt er það nú svo einkennilegt, að í bókinni Íslandsskógum, hundrað ára sögu, sem kom út 1999, og gefin var út að tilhlutan Skógræktar ríkisins, leyfðu höfundarnir sér, þeir Sigurður Blöndal og Skúli Björn Gunnarsson, að þumba fram af sér allar tilvitnanir í greinir eftir Hákon Bjarnason, sem birtust í Ársriti Skógræktarfélags Íslands. Engu að síður geta höfundar þess, að þetta hafi verið aðalheimildir að verkinu.

 

Á langri ævi eignaðist Hákon marga góða vini. Fyrst er að geta þeirra, sem hann tengdist í gegnum starfið og störfuðu með honum hjá Skógrækt ríkisins og í Skógræktarfélagi Íslands. Frá Kaupmannahafnarárunum má nefna Steinþór Sigurðsson, Gísla Gestsson, Jakob Benediktsson, Skúla Þórðarson, Barða Guðmundsson, Valtý Albertsson og Steindór Steindórsson, sem urðu vinir hans alla tíð síðan. Af öðrum óvandabundnum vinum má nefna Skúla Skúlason, ritstjóra, Gunnlaug Briem, Hermann Jónasson, Agnar Kofoed-Hansen, Jón Eyþórsson, Brodda Jóhannesson, Trausta Einarsson, Sigurð Þórarinsson, svo að aðeins fáeinir séu nefndir.

 

ÁHB / 1. marz 2015

 

Leitarorð:


Leave a Reply