Óþarfa gróðurskemmdir Vegagerðarinnar

Skrifað um August 6, 2015 · in Gróður

meidavallaskogur(a)

 

Óhjákvæmilegt er að vekja athygli á varasömum vinnubrögðum, sem tíðkast hjá Vegagerðinni víða um land. Nú er allt kapp lagt á að girða meðfram þjóðvegum landsins til þess að halda sauðfénaði frá vegum. Vissulega eru það öfugmæli, því að það ætti að vera skylda eigenda að halda fé sínu innan eigin girðinga. En þannig er það því miður ekki og því verður ríkið að girða sig af.

Það er þó alls ekki sama, hvernig staðið er að verki. Dæmið, sem hér er tekið, er frá nýlögðum akvegi upp í Vesturdal í Kelduhverfi og áfram suður að Dettifossi vestan Jökulsár á Fjöllum. Til þess að létta mönnum vinnu við að girða var farið með stórvirka ýtu og breið braut rudd eftir girðingarstæðinu og gróðurþekjan skafin burt beggja megin vegar. Þetta er gert til þess að spara vinnulaun.

Í fyrsta lagi eru þetta ljót sár í vel gróinn svörð, þó að þau muni gróa smám saman, en þetta er hrein eyðilegging á náttúrlegu gróðurfari. Sá utanvega-akstur, sem skrifað hefur verið um í blöðum í sumar, eru hreinir smámunir í samanburði við þessa eyðileggingu.

Í annan stað er verið að búa í haginn fyrir plöntutegundir, sem eiga ekki heima í þessu gróðurlendi. Mestar líkur eru á því, að alaskalúpína, sem vex hér úti á söndum í breiðum, muni leggja þessar gróðurlausu rásir undir sig. Innan fárra ára verður því blá rönd meðfram veginum inn í þjóðgarðinn.

Vegagerðin hefur að vísu áður komið við sögu hér um slóðir með vafasömum aðgerðum, því á þeirra vegum var sprautað Roundup-eyði innan þjóðgarðsins.

Höfundur þessa pistils hefur reyndar enga óbeit á lúpínu sem slíkri, en telur, að hún eigi tæplega hér heima og hreinn óþarfi að greiða götu hennar á þennan sóðalega hátt.

Nú væri fróðlegt að heyra, hvað sérfræðingar Umhverfisstofnunar segja um þessar óþörfu eyðileggingu og einnig hvernig um þetta mál var fjallað, þegar umhverfismat var gert. Eða er kannski enginn ábyrgur?

  1. ágúst 2015

Ágúst H. Bjarnason

meiðavallaskogur (4)

 Leave a Reply