Meesia – snoppumosar

Skrifað um January 22, 2015 · in Mosar · 2 Comments

Ættkvíslin Meesia Hedwig, (snoppumosar) telst til Meesiaceae (snoppumosaættar) ásamt ásamt kvíslunum Amblyodon (dropmosum), Leptobryum (nálmosum) og Paludella (rekilmosum). Í kvíslinni eru alls 12 tegundir blaðmosa, fjórar tegundir á Norðurlöndum og af þeim tvær hér á landi. Þetta eru meðalstórar, uppréttar plöntur, 2-10 cm á hæð, dökkgrænar til gulgrænar, vaxa í þúfum í margs konar sólríku votlendi.

Blöð eru upprétt eða útstæð, egglensu- eða lensulaga. Rif er breitt og nær fram í blaðenda. Frumur eru rétthyrndar, sléttar og með frekar þykka veggi.
Flestrar tegundir eru tvíkynja og eru gróhirzlur þar algengar; hjá hinum eru þær fáséðari. Stilkar eru jafnan langir og gróhirzlur perulaga, lítið eitt bognar eða óreglulegar með langan, jafngildan háls. Opkrans er tvöfaldur og eru ytri tennur styttri en hinar innri, sem er óvanalegt. Gró eru mjög stór, 30-60 µm að þvermáli og fínvörtótt.
Ættkvíslarnafnið meesia er til heiðurs hollenskum garðyrkjumeistara, David Meese (1723-1770) að nafni.

Greiningarlykill að tegundum innan Meesia ættkvíslar:

1. Blöð snubbótt, ekki í 3 röðum á stöngli, blaðrönd útundin og ótennt. Rif um helmingur af breidd blaðs við grunn ………. M. uliginosa
1. Blöð ydd, í 3 röðum á stöngli, blaðrönd flöt (á stundum útsveigð) og tennt. Rif mest um þriðjungur af breidd blaðs við grunn …………….. M. triquetra

 

Lýsingar á tegundum innan Meesia ættkvíslar:

Meesia uliginosa Hedw. – vætusnoppa

Sjá síðar
Meesia triquetra (L. ex Jolycl.) Ångstr. – keldusnoppa

Sjá síðar

Helztu heimildir:
A.J.E. Smith, 2004: The Moss Flora of Britain and Ireland. Cambridge University Press
Ágúst H. Bjarnason, 2010: Greiningarlykill að ættkvíslum íslenzkra blaðmosa (Musci) ásamt tegundaskrá. Fjölrit
Vistfræðistofu n:r 40. Reykjavík.
Bergþór Jóhannsson: Íslenskir mosar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar n:r 19. Nóvember 1991.
Bergþór Jóhannsson: Íslenskir mosar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar n:r 29. Október 1996.
Tomas Hallingbäck et al.: Bladmossor: Kompaktmossor-kapmossor. ArtDatabanken, Sveriges lantbruksuniversitet.
Uppsala 2008.
Tomas Hallingbäck, Ingmar Holmåsen, 2008: Mossor. En fälthandbok. Interpublishing. Stockholm.

ÁHB / 22. janúar 2015

P.s. Höfundur hlaut styrk frá Hagþenki 2014 til ritstarfa.

 


2 Responses to “Meesia – snoppumosar”

Leave a Reply