Kettir fyrir bjór

Skrifað um October 28, 2014 · in Almennt


Valtýr Albertsson (1896-1984) frá Flugumýrarhvammi var mikils metinn læknir hér á landi í áratugi. Að loknu prófi héðan frá H.Í. hélt hann til Noregs í framhaldsnám og las lífeðlisfræði við háskólann í Osló veturinn 1924/25.

Þennan sama vetur dvöldu allnokkrir Íslendingar í Osló við nám og störf eða höfðu þar stutta viðdvöl. Af þeim má nefna Barða Guðmundsson, Harald Á Sigurðsson, Jón Thoroddsen og Jakob Möller. Eitt sinn sátu nokkir saman á hótelherbergi eins þeirra og þá hringdi hann og bað um 4 pils. Þá sögðu tveir í kór: „Vertu ekki að hringsnúa þernunni svona – Jakob bað alltaf um þrjá á mann í einu til þess að spara henni ráp.“ – Skömmu seinna kom Valtýr og sagði mönnum frá því, að hann þyrfti á köttum að halda til þess að gera einhverjar lífeðlisrannsóknir á mannkyninu, og hét hann 5 kr. verðlaunum fyrir hvern lifandi kött, sem hann gæti fengið keyptan. Það samsvaraði þá rúmum 6 bjórum á hótelprís.

 

Menn létu ekki segja sér þetta tvisvar. Á leið heim um nóttina reyndu flestir að handsama flökkuketti, en morguninn eftir sögðu menn ekki farir sínar sléttar.

Einn var handtekinn með kött undir hendinni og farið með hann og köttinn á lögreglustöðina. Þessum tókst að sannfæra „övrigheten“ um að hann hefði aldrei drýgt synd síðan í móðurkviði, og var hann þá látinn laus, en kötturinn ekki.

Annar lenti í orrustu við einhvern bandit, sem þóttist eiga köttinn, sem honum tókst að handsama við bakhús á Trondhjemsveien nr. 1. Lögreglan kom á vettvang og fór með alla á stöðina. En þar sagði Íslendingurinn þau orð, sem dugðu: „Kjenner de Henrik Ibsen? Jeg siger som han: Jeg gjör ikke noe menneske men, hverken på land eller sjö. Det sa Terje Vigen og det sier jeg.“ Að þeim orðum sögðum, fékk hann að fara og slapp bótalaust.

 

Þó að svona hörmulega hafði tekizt til í fyrstu atrennu, gáfust menn ekki upp. Tveimur dögum seinna tókst einum að stela ketti í Observatoriegötu og seldi Valtý hann. Gátu menn þá setzt að bjórdrykkju að nýju.

 

ÁHB / 27. október 2014Leave a Reply