Helzti mjög er að flestu kveðið

Skrifað um November 16, 2021 · in Almennt

Minnisgrein að gefnu tilefni um ævisögu Sigurðar Þórarinssonar

Í nýútkominni ævisögu Sigurðar Þórarinssonar, Mynd af manni I-II, er víða getið um föður minn, Hákon Bjarnason. Það kemur ekki á óvart, því að þeir áttu ýmislegt saman að sælda. Vissulega skarst í odda með þeim tvisvar á langri ævi, en í bæði skiptin tókust fullar sættir, enda var þeim hlýtt hvorum til annars. (Í bókinni er aðeins rætt um annað ágreiningsefnið, en hinu sleppt.)

Eftir lestur á riti þessu mætti gera ýmsar athugasemdir, en hér verður aðeins staldrað við eitt atriði, það er kaflann Upphaf öskulagarannsókna (bls. 200). Fyrst er þar getið um, að Guðmundur Kjartansson hafi haft í hyggju að „rannsaka vikurlög og sandlög vúlkansks uppruna í jarðvegi“ 1933. Að vísu varð lítið úr þeim athugunum, enda beindist hugur Guðmundar að öðrum viðfangsefnum í jarðfræði. Mér þykir næsta víst, að þetta hafi orðið fyrir áeggjan Guðmundar G. Bárðarsonar, því að Finnur, sonur hans, og Guðmundur Kjartansson voru bekkjarbræður í menntaskóla. Guðmundur G. Bárðarson var einmitt þekktur fyrir það að styrkja og hvetja alla, sem fengust við náttúrufræði, og var duglegur við að útvega mönnum styrki. Þetta var fyrir þann tíma, sem náttúrufræðingar tóku að leggja stein í götu yngri manna, sem vildu leggja náttúrufræði fyrir sig.

Það var einmitt Guðmundur G. Bárðarson, sem hvatti föður minn til að kanna útbreiðslu hvítra öskulaga á Norðurlandi, þá er hann hélt í langa ferð ásamt dönskum vini sínum um landið árið 1930. Óhætt er að segja, að þetta hafi verið upphaf öskulagarannsókna hér á landi. Þeir skrifuðu grein um athuganir sínar í Náttúrufræðinginn 1934. Í þessari ferð mældu þeir 17 jarðvegssnið (prófíla) og skráðu öskulög og þykktina á milli þeirra. Á næstu árum fram til um 1940 mældi faðir minn fjölmarga „prófíla“ og tók jarðvegssýni. Sem dæmi má nefna, að árið 1934 voru tekin 44 jarðvegssnið á þessum stöðum frá 22. júlí til 6. september

Við brú á Brúará (3 sýni), Haukadalur (2 sýni), Fellskot í Biskups-tungum (2 sýni), Hraungerði í Flóa (2 sýni), Múlakot í Fljótshlíð, Hlíðarendi í Fljótshlíð, Sámsstaðir (2 sýni), Almenningur á Kápu, Langidalur á Þórsmörk, Dyrhólaey, Heiðarvötn (Vatnahálsi), Flaga, Skaptártungu, Skaftaf.s., Hlíð, Skaptártungu, Skaftaf.s. (3 sýni), Vestan Kirkjubæjarklausturs, Vestan Systravatns, Skaftaf.s., Austan Systravatns, Skaftaf.s., Bæjarstaður í Öræfum, Fagur-hólsmýri, Skaftafell (vestan við Bölta), Ofan við Hæðir, Skaftafelli, Bæjarstaðaskógur, Núpsstaður (2 sýni), Maríubakki, Keldunúpur, Breiðabólstaður á Síðu (2 sýni), Efri-Hvoll (3 sýni), Teigsvötn á Rangárvöllum, Galtalækur, Ásólfsstaðir, Vatnsás Þjórsárdal, Skeljastaðir Þjórsárdal.

Á þessum ferðum voru meðreiðarsveinar Unnsteinn Beck og Einar G. E. Sæmundsen, en Daninn Henning Muus 1930 og 1933, en seinna árið tóku þeir fleiri en 25 „prófíla“. Þá höfðu þeir nokkurn veginn gengið úr skugga um það, að ljósu öskulögin (sem þeir nefndu H1-H5) ættu upptök sín við eða í Heklu.

Það mun hafa verið veturinn 1934, sem Bjarni Sæmundsson bað Hákon að halda erindi um öskulögin á fundi í Náttúrufræðafélaginu, sem haldinn var í náttúrugripasafni Menntaskólans í Reykjavík. Þar var fámennt (10-12 manns), en meðal annarra voru þar Pálmi Hannesson, Magnús Björnsson og Jón Eyþórsson. Þar sagði Hákon meðal annars, að allt benti til þess að efra eða efsta hvíta líparítlagið á Norðurlandi hefði fallið eftir landnám, og það hefði sennilega komið úr Heklu. Þó vildi hann ekki – og gat enda ekki – tímasett það nánar. Taldi hann, að frekari athugun á öskulögum væri aðferð til þess að rekja uppblástur jarðvegs aftur í tímann.

Pálmi Hannesson tók til máls á eftir og kvaðst vantrúaður á að Hekla hefði nokkurn tíma gosið hvítum eða ljósum vikri, en norðan Heklu væru hins vegar líparítfjöll. Að öðru leyti fannst honum erindið athyglisvert.

Bjarni Sæmundsson þakkaði fyrir erindið og kvað það skemmtilegt verkefni, sem framundan væri, og sagði að lokum í tilefni af orðum Pálma, að menn mættu aldrei taka nokkurn hlut gefinn í náttúruvísindum og þyrfti að skoða það nánar hvers konar vikri eldfjöllin spúðu, til dæmis hafði askan úr Kötlu, sem hann hafði safnað 1918, verið all-gráleit.

Hákon var störfum hlaðinn á þessum árum, en jafnframt því að gegna embætti skógræktarstjóra var hann framkvæmdastjóri við mæðiveikivarnir. Hann réð því Unnstein Beck til að teikna upp „prófíla“ og skrá útbreiðslu öskulaga á kort veturinn 1936/37, en Unnsteinn var þá á síðasta ári í menntaskóla. Auk hvítu laganna er þar greindur Hekluvikurinn frá 1845 og einnig askan frá gosinu 1693.

Þá má geta þess, að hinn 15. september 1936 grófu þeir Unnsteinn Beck í tóft á Hofstöðum í Skagafirði. Þar komu þeir niður á hrosslegg, sem lá undir „efsta ljósa“ öskulaginu, og þar með mátti slá því föstu, að lagið hafði fallið eftir landnámsöld.

Út frá þeim gögnum („prófílum“), sem Hákon hafði þegar aflað, þótti honum einsýnt eftir að hafa kynnt sér sögulegar heimildir, að aska þessi hafi komið úr Heklu 1341. Í greininni Þjórsárdalur (Ársr. Skógr.f. Íslands) frá 1937 telur hann, að „[l]íkindi eru til, að þá hafi dalbúarnir orðið að flýja dalinn …“. – Sigurður Þórarinsson komst að sömu niðurstöðu í doktorsritgerð sinni 1944. Síðar kom í ljós, að þetta ártal var talið rangt. Fyrir þetta fékk SÞ ákúrur nokkrar af hálfu Ólafs Lárussonar og Jóns Steffensen, sem töldu, að eyðingin hefði átt sér stað um 1050. „Þetta er Sigurði mátulegt, því að hann tók þetta frá mér,“ á Hákon að hafa sagt af þessu tilefni.

Eg fæ ekki betur séð en Sigurður og Hákon hafi ferðast fyrst saman sumarið 1937. Kemur það heim og saman við það, sem stendur í ofannefndri bók, þar sem vitnað er í dagbók Sigurðar frá 20. ágúst 1937. Þar segir, að þeir hafi farið að Skeljastöðum í Þjórsárdal „hvar við grófum prófíla bæði í kirkjugarði og bæjarrústum (sjá prófíla)“. – Það, sem kemur ekki fram í þessari dagbókarfærslu, er, að Hákon var þarna í annað sinn (sjá prófíla 1934 hér framar) til að sannreyna fyrri athugun. Hér var það, sem Hákon taldi „efsta ljósa lagið“, sem hann nefndi H-1, hafa valdið því, að byggð eyddist í Þjórsárdal.

Sumrin hér á eftir ferðuðust þeir félagarnir saman til frekari athugana á öskulögum og fór ávallt vel á með þeim. Sú saga verður ekki rakin hér. Þess má þó geta, að þeir skrifuðu grein um athuganir sínar, sem birtist í Geografisk Tidsskrift 1940. Upp frá þessu gaf Hákon sig lítið að jarðvegsprófílum, en hafði jafnan auga með þeim við og við, einkum í sambandi við áfok. Doktorsritgerð Sigurðar 1944 kom Hákoni þó í opna skjöldu og urðu nokkur eftirmál út af henni, sem nú er flest gleymt og grafið.

Í tilvitnaðri bók segir: „Sjálfsagt má deila um hver fékk fyrstur þá hugmynd á Íslandi að nota öskulög í jarðvegi til aldursgreininga.“ Vissulega er það satt og rétt og það hefur verið deilt um lítilfenglegri atriði en þetta. Engu að síður leyfi eg mér að halda því fram, að enginn, sem kynnir sér málið í þaula, velkist í vafa um, hver lagði grunninn að þessu merkilega starfi.

 

 

 

Leitarorð: