Frækaupin í Öræfum

Skrifað um November 3, 2013 · in Almennt

Miðtorfur í Bæjarstað 1935. Ljósm. Hákon Bjarnason.

Miðtorfur í Bæjarstað 1935. Ljósm. Hákon Bjarnason.

Það er rétt, sem mér hefur verið bent á, að óþarft er að bíða svars frá Landgræðslu ríkisins í sambandi við umsögn þeirra um frækaup föður míns. Sjá hér. Þetta virðist skrifað af einhverri undirliggjandi meinfýsni í garð hans. Aldrei vissi eg til þess, að hann hafi verið svikull í samningum við menn. Það er því áhugavert að fá að heyra, hvaða heimildir liggja á bak við þessa frásögn.

 

Á hinn bóginn þekki eg mál þetta frá hans hlið og skal það að nokkru leyti rakið hér. Árið 1935 var Bæjarstaður girtur fyrir tilstuðlan Skógræktarfélags Íslands og sá faðir minn um þá girðingarvinnu ásamt bændum í Öræfum. Birki í Bæjarstað var löngum víðfrægt og hafði skógarvörðurinn á Hallormsstað oft fengið fræ þaðan fyrir lítið sem ekkert. Á þessum árum var mikill skortur á trjáplöntum. Það var því samið við bændur um, að þeir myndu safna fræi fyrir Skógrækt ríkisins og fá greitt samkvæmt reikningi. Í gömlum bréfum má að hluta rekja þessi viðskipti, eins og t.d.

Greitt Fræreikningur kr. 539.-
Laun – 100.-
Bæjarstaðarskógur – 256,50

 

Víst er, að bændur í Öræfum voru ánægðir með þessa aukabúgrein eða „snatt atvinnu“ eins og þeir kölluðu hana.

Þá gerist það haustið 1937, nánar tiltekið 28. nóvember, að Oddur Magnússon í Bölta skrifaði föður mínum bréf, þar sem í stendur meðal annars þetta (nöfn tekin út og X sett í staðinn):

„Mér er tjáð það og haft eftir Hæðabræðrum, að þetta mikla birkifræ sem X senda nú síðast sé þá að einhverju leiti mjög fljótfengið og ef til vill nokkuð vafasöm framtíð með trygga skó[g]rækt af þessu fræi okkar, ef svo ætti að ganga.

Þeir kváðu hafa sópað saman fok fræi og bar[r]i (fallin[n]i sinu) sem safnast hefur með öldum hér fram með brekkunum á sléttum sandi.

Menn hafa orðið varir við að þessu hafi þeir sópað og fóru svo með þessa stóru poka.

Eg vildi biðja þig athuga vel þetta fræ, áður en þið dembið því saman við annað fræ héðan, svo vari sé slegin við þessari snatt atvinnu sem við gætum átt von á að hafa af ósvikul[l]i fræsöfnun.

Þetta hefur að sjálfsögðu ekkert orðast við þá X-menn og er ekki vert að gera úr því neitt veður. Þetta er kannski alt besta fræ en bara ekki úr Bæ[j]arstaðarskógi!!”

 

Bréf frá Oddi Magnússyni í Skaftafelli.

Bréf frá Oddi Magnússyni í Skaftafelli.

Á forsendum þessa bréfs neitaði faðir minn að borga tilteknum mönnum fullt verð fyrir fræið, þar sem það var ekki tínt í Bæjarstað. Hins vegar bauð hann þeim lítið eitt lægra verð, sem þeir sættust ekki á, en sendu það til Gunnlaugs Kristmundssonar.

Þessu til skýringar skal getið, að Hæðabræður eru Jón og Ragnar Stefánssynir. Það kemur því undarlega fyrir sjónir, að Ragnar skuli tilgreindur í pistli Landgræðslunnar, þar sem hann var ekki í þeim hópi, sem sópaði „saman fok fræi“, eins og sést af þessu bréfi.

Taka má undir með Oddi, að ekki er vert að gera úr þessu neitt veður, en ekki sakar að þessi hlið málsins komi fram. Í einfeldni minni hélt eg, að það væri löngu runnið upp fyrir landgræðslumönnum, að trén í Gunnlaugsskógi bæru ekki neitt svipmót „Bæjarstaðarbirkis“. Ekki vil eg þó fullyrða neitt í þessu samhengi, en það er víst auðvelt að komast að því með nútíma erfðatækni.

Litlu neðar í pistli um Gunnlaugsskóg stendur þetta: „Sagan endurtók sig haustið 1944 og enn fékk Gunnlaugur fræ.“ – Það væri fróðlegt að fá að vita, hvað hér er átt við og hvaða heimildir liggja hér að baki.

ÁHB / 3. nóvember 2013

Leitarorð:


Leave a Reply