Aulacomniaceae – kollmosaætt

Skrifað um December 15, 2013 · in Mosar

Á greinaendum A. palustre eru litlir sprotar með sérstökum æxliblöðum. Ljósm. ÁHB.

Á greinaendum A. palustre eru litlir sprotar með sérstökum æxliblöðum. Ljósm. ÁHB.

Aulacomniaceae – kollmosaætt

Aðeins ein ættkvísl telst til ættarinnar (sjá þar).

 

Aulacomnium – kollmosar

Til ættkvíslarinnar Aulacomnium Schwägr. teljast að minnsta kosti sex tegundir, af þeim vaxa þrjár annars staðar á Norðurlöndum og tvær hérlendis. Plöntur eru uppréttar, frá 1 til að minnsta kosti 10 cm á hæð. Rif nær ekki fram í blaðenda. Blöð eru þéttstæð, ydd eða snubbótt, tennt eða heilrend. Frumur eru hringlaga sexhyrndar, þykkveggja en veggir misþykkir, svo að frumuhol verður stjörnulaga. Á miðri frumu er ein varta beggja megin.
Plöntur eru einkynja. Önnur tegundin þroskar sjaldan gróhirzlur en hin hefur aldrei fundizt með gróhirzlum.

Lykill að tegundum:
1 Blöð jafnan tennt framan til, breiðust neðan miðju, ydd ……….. A. palustre
1 Blöð ótennt, breiðust fyrir ofan miðju, snubbótt ……………… A. turgidum

 

Aulacomnium palustre (Hedw.) Schwägr. – bleikjukollur

Aulacomnium_palustre. Ljósm.þ ÁHB.

Aulacomnium palustre. Ljósm. ÁHB.

Plöntur eru uppréttar, geta náð 15 cm hæð, ljósgrænar í toppinn; vex oft í litlum þúfum en getur verið dreifð. Stöngull er þéttklæddur rætlingaló, oft langt upp. Blöð eru lensulaga, 2,5-5 mm á lengd, ydd, tennt og blaðrönd útundin beggja megin langt upp. Rif endar fyrir neðan blaðodd og er oft bugðótt í endann; á þurrum blöðum er bakhlið rifs hvítglansandi.
Á hverri frumu er ein miðlæg varta; frumuveggir eru mjög misþykkir, sem veldur því, að frumur eru hringlaga sexhyrndar og frumuhol stjörnulaga. Frumur við blaðgrunn eru þó aflangar með slétta veggi, brúnar á lit. Blaðgrunnur er þó nokkur frumulög á þykkt.

A. palustre. Blöð eru ydd og tennt fremst; rif oft bugðótt. Ljósm. ÁHB.

A. palustre. Blöð eru ydd og tennt fremst; rif oft bugðótt. Ljósm. ÁHB.

Upp af greinaendum vaxa litlir sprotar, 3-8 mm á lengd. Þeir eru blaðlausir eða með dreifðum smáblöðum. Á greinaendum eru oft stjörnulaga hópur af smáblöðum. Allt eru þetta sérstök æxliblöð, sem falla af og verða að nýjum plöntum.
Plöntur eru einkynja og gróhirzlur því sjaldséðar.
Vex í alls konar votlendi. Mjög algeng tegund um nær land allt.

 

 

Aulacomnium turgidum (Wahlenb.) Schwägr. – bústinkollur

Plöntur eru uppréttar, geta náð 12 cm hæð, gulgrænar í toppinn; vex í þéttum en lausum þúfum. Rætlingar ná oft langt upp eftir stöngli en eru ekki sérlega áberandi. Blöð eru kúpt og aðlæg, svo að sprotar virðast nokkuð bústnir. Blöð eru breið, 2-3 mm á lengd, mjóst við grunn, blaðendi bogadreginn og kúptur. Blaðrönd útundin upp fyrir blaðmiðju. Rif nær ekki fram í blaðenda.

A. turgidum. Blöð eru snubbótt og heilrend; rif getur verið bugðótt. Ljósm. ÁHB.

A. turgidum. Blöð eru snubbótt og heilrend; rif getur verið bugðótt. Ljósm. ÁHB.

Frumuveggir í miðju blaði mjög þykkir, svo að frumur eru stjörnulaga. Á hverri frumu er lág varta beggja megin. Frumur við blaðgrunn eru þó aflangar með slétta veggi, brúnar á lit. Blaðgrunnur er þó nokkur frumulög á þykkt.
Plöntur eru einkynja og hefur ekki fundizt með gróhirzlur hér á landi.
Vex í rökum jarðvegi, oft lítt grónum; einnig í votlendi. Vex strjált um norðan- og austanvert land.

ÁHB / 15. des. 2013

 

Leitarorð:


Leave a Reply