Sect. Acutifolia

Skrifað um July 1, 2013 · in Mosar

Sect. Acutifolia (7 teg.)
*Sphagnum warnstorfii Russow — Rauðburi
Sphagnum fimbriatum Wilson — Trafburi
Sphagnum russowii Warnst. — Flekkuburi
Sphagnum girgensohnii Russow. — Grænburi
Sphagnum angermanicum Melin — Glæsiburi
*Sphagnum subnitens Russow &. Warnst. — Fjóluburi
Sphagnum capillifolium (Ehrh.) Hedw. — Flikruburi

Grænfrumur í greinablöðum eru trapisulaga eða þríhyrndar í þverskurði og veit breiðari hlutinn að innra borði. Á íslenzku tegundunum er stöngull grænn, gulgrænn eða rauður; plöntur eru grænar eða rauðar, aldrei brúnar.

1 Greinablöð í 5 röðum á útstæðum greinum ………………… S. warnstorfii
1 Greinablöð ekki í 5 röðum, nema e.t.v. á stuttum greinum í kolli og neðst á greinum ….. 2
2 Stöngulblöð tungulaga-spaðalaga, meira eða minna trosnuð í endann. Einstaka glærfrumur í stöngli með göt …… 3
2 Stöngulblöð tungulaga-þríhyrnd tungulaga, að bláoddur trosnður. Engar glærfrumur í stöngli með göt …… 5
3 Stöngulblöð breikka talsvert að ofan og eru trosnuð og kögruð. Langar og mjóar greinar; aldrei rauður .. S. fimbriatum
3 Stöngulblöð svo til jafnbreið, trosnuð í endann ………………….. 4
4 Með rauða eða bleika flekki, á stundum áberandi rauður (aðeins grænn í skugga); blaðendi trosnaður í bláendann … S. russowii
4 Alltaf grænn. Blaðendi breiður og trosnaður. …………………… S. girgensohnii
5 Stöngulblöð breiðust um miðju. Engar litlar frumur í blaðhornum … S. angermanicum
5 Stöngulblöð ekki breiðust um miðju. Hópar af litlum frumum í blaðhornum ……………. 6
6 Kollur oft grænn í miðju en rauðleitur í jöðrum. Stöngulblöð með totu í endann (innundnar blaðrendur) …. S. subnitens
6 Kollur rauður til grænn, ef rauður, er hann rauður líka í miðju. Stöngulblöð ekki með totu í endann (blaðrendur lítið innundnar) …………………………………………….. S. capillifolium

 

Sphagnum subnitens Russow et Warnst. (fjóluburi)

Smávaxinn eða miðlungsstór. Vex í lausum breiðum, grænn, brúnn eða rauðfjólublár, og með málmgljáa, þegar hann er þurr.

Kollur: Stór. Yztu greinar oft langar (á lengd við efstu greinaknippi); vaxa á stundum yfir hvirfilinn. Hvirfill oft grænn en útstæðar greinar rauðlitar eða brúnar.

Stöngull: Koparbrúnn, ljósgrænn, gulur eða fjólublár. Klæddur 3 eða 4 lögum af glærfrumum, ekki með göt.

Stöngulblöð: 1,3-1,7 x 0,6-1,0 mm; tungulaga þríhyrnd eða þríhyrnulaga aflöng;meira eða minna oddlöng og með innundna jaðra (rörlaga); oddur þverstýfður, tenntur. Blaðjaðar greinilegur, 3-6 frumuraðir um miðbik blaðs en breikkar allnokkuð í neðri hluta.
Glærfrumur í fremri hluta blaðs án styrktarlista og gata en er oft skipt í 2-4 hluta.

 

bb

Efst til vinstri eru glærfrumur í greinablaði umluktar grænfrumum; sú fyrri er séð frá innra borði en hin síðari frá ytra borði. Þar fyrir neðan er þverskurður af greinablaði. Efra blaðið er stöngulblað en hið neðra greinablað. Þá er þverskorinn stöngull lengst til hægri með þremur lögum af glærfrumum. Teikn. ÁHB.

Greinaknippi: 3 eða 4 greinar; 2 útstæðar og 1 eða 2 hangandi og þekja þær stöngul og eru þær mjórri og sívalari en hinar.

Greinablöð: 1,2-2,7 x 0,5-1,0 mm; egglensulaga, ekki í röðum; blaðrendur innundnar framan til. Blaðjaðar 1-3 frumuraðir.
Glærfrumur með allstór göt í frumuhornum og við frumumót á ytra borði en engin á innri hlið.
Grænfrumur þríhyrndar eða trapisulaga með breiðari hlið að innra borði og ná jafnan að ytra borði.

vv

Sphagnum subnitens (fjóluburi) er mjög breytilegur að stærð, útliti og lit. Ljósm. ÁHB.

Sphagnum warnstorfii Russow — (rauðburi)

Vex í breiðum eða lágum þúfum, fíngerður. Sprotar rauðir, rauðfjólubláir, gulgrænir eða grænir.

Kollur: Úréttar greinar mynda 5-horna stjörnu; blöð á greinum útstæð, svo að þau geta virzt þyrnótt.

Stöngull: Rauður eða rauðfjólublár, getur verið gulleitur. Klædddur 2-4 glærfrumum, sem eru ekki með götum.

Stöngulblöð: 0,9-1,3 x 0,5-0,8 mm; tungulaga eða tungulaga þríhyrnd, blaðendi bogadreginn en getur sýnzt yddir vegna þess að blöð eru innundin fremst. Jaðarfrumur greinilegar, 3-7 frumuraðir, breikkar mjög neðarlega.
Glærfrumur jafnan ekki með styrktarlista, kunna þó að vera fáir og ógreinilegir; skipt í tvennt eða þrennt (sjaldan fernt) með þunnum veggjum.

aa

Efst til vinstri eru glærfrumur í greinablaði umluktar grænfrumum; sú fyrri er séð frá innra borði en hin síðari frá ytra borði. Þar fyrir neðan er þverskurður af greinablaði. Efra blaðið er stöngulblað en hið neðra greinablað. Þá er þverskorinn stöngull lengst til hægri með 2-4 lögum af glærfrumum. Teikn. ÁHB.

Greinaknippi: 4 greinar venjulegast; 2 útstæðar og 2 hangandi. (Mjög sjaldan 2 útstæðar og ein hangandi eða 3 útstæðar og ein hangandi.) Talsverður munur á greinum.

Greinablöð: 0,6-1,4 x 0,3-1,0 mm; egglaga eða egglensulaga. Eru í greinilegum fimm röðum á greinum (sést betur þegar plantan er þurr). Blaðrönd innundin fremst og oddur þverstýfður. Jaðarfrumur 1-4 frumuraðir.
Glærfrumur misstórar; í neðri hluta blaðs eru þær miklu mun stærri; er sérstaklega greinilegt á ytra borði. Í fremri hluta blaðs á ytra borði eru göt mjög lítil en með þykkan styrktarhring (mjög gott greiningareinkenni); í neðri hluta eru göt mun stærri.
Grænfrumur eru trapisulaga eða þríhyrndar með þunna veggi. Breiðari hlutinn snýr að innra borði, en þær ná einnig að ytra borði.

Vex í mýrum, við ár, læki og vötn, einnig við jarðhita. Allalgengur um land, nema fremur sjaldséður á Suðurlandi og Norðausturlandi.

bb

Sphagnum warnstorfii er all algengur og jafnan auðþekktur. Ljósm. ÁHB.

 

 Leave a Reply