Sólveig Aðalbjörg Sveinsdóttir – Útför

Skrifað um December 2, 2016 · in Almennt

Sólveig Aðalbjörg Sveinsdóttir 1948-2016.

Sólveig Aðalbjörg Sveinsdóttir 1948-2016.

 

Sólveig Aðalbjörg Sveinsdóttir, kennari, fæddist 2. júní 1948. Hún lést á heimili sínu 15. nóvember 2016.

Foreldrar hennar voru hjónin Guðrún Jakobsdóttir, f. 1914, d. 2003, frá Holti undir Eyjafjöllum og Sveinn Björnsson, f. 1915, d. 2000, bóndi á Víkingavatni í Kelduhverfi til fimmtíu ára.

Systkini Sólveigar Aðalbjargar eru: Ragna Sigrún, f. 1945, Benedikt Óskar, f. 1951, og Jakob Lárus, f. 1954.

Sólveig Aðalbjörg giftist 11. október 1974 Ágústi H. Bjarnasyni grasafræðingi, f. 30. desember 1945. Foreldrar hans voru hjónin Guðrún Kristín Jóhanna Bjarnason, f. 1919, d. 2004, og Hákon Bjarnason skógræktarstjóri, f. 1907, d. 1989. Synir Sólveigar og Ágústs eru: 1) Hákon, f. 11. mars 1975, tölvunarfræðingur. Kona hans er Þóra Kristín Bjarnadóttir lyfjafræðingur, f. 1. ágúst 1978. Dætur þeirra eru Vigdís Tinna, f. 13. júní 2006, og Sólveig Freyja, f. 16. febrúar 2009. 2) Björn Víkingur rafmagnsverkfræðingur, f. 25. ágúst 1980.

Sólveig Aðalbjörg naut skólagöngu fyrst heima í héraði en fór síðan til Akureyrar. Þar bjó hún hjá föðurbróður sínum, Þórarni skólameistara Björnssyni og konu hans, Margréti Eiríksdóttur. Sólveig lauk stúdentsprófi 1967 og ári seinna prófi frá Kennaraskóla Íslands. Hún sótti síðar tíma í bókmenntafræði og nam svo listasögu við HÍ 1990 til 1993. Á námsárum sínum vann Sólveig margvísleg störf, meðal annars á hótelum bæði hér og erlendis og þá var hún flugfreyja. Hún tók oft til hendinni á búi foreldra sinna, enda var Sólveig vel verki farin og þótti sérlega natin við allar skepnur. Þá átti hún mikinn þátt í ræktunarstörfum tengdaforeldra. Meginhluta starfsævi sinnar fékkst Sólveig við kennslu, einkum í yngri aldurshópum. Lengstan starfsaldur átti hún í Vogaskóla og síðan í Laugarnesskóla. Sólveig hlaut Íslensku menntaverðlaunin 2006 í flokki kennara sem skilað hafa farsælu ævistarfi. Skólaárið 2003-2004 hlaut Laugarnesskóli hvatningarverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur fyrir nýbreytni og þróunarstarf að verkefninu „Perluvinafélagið, þjálfun í jákvæðum samskiptum“, sem Sólveig lagði grunninn að.

Sólveig Aðalbjörg hafði mikinn áhuga á útiveru og sérstakt yndi af að ganga á fjöll. Þau hjón ferðuðust mjög víða um land, bæði byggðir og óbyggðir. Hin síðari ár höfðu Sólveig og Ágúst endurbætt allan húsakost á Víkingavatni ásamt systkinum Sólveigar og dvöldu þar löngum stundum.

Útför Sólveigar Aðalbjargar fór fram frá Háteigskirkju 25. nóvember 2016, og hófst athöfnin klukkan 15. Hún verður síðar lögð til hinstu hvíldar í heimagrafreit fjölskyldunnar á Víkingavatni.

 

Prestur við útför var séra Eiríkur Jóhannsson. Organisti var Kári Allansson.

Forspil var Söngur Solveigar, þá var bæn og félagar úr Karlakór Reykjavíkur sungu Hærra minn guð til þín. Síðan var ritningarlestur og kórinn söng Nú sefur jörðin sumargræn. Þá var ritningarlestur og kórsöngur Lýs, milda ljós.

Lesið var guðspjall og svo kom Svanurinn. þar sem leikið var á orgel og selló.

Að minningarorðum loknum söng Bergþór Pálsson nýtt lag eftir sig við ljóðið Ástarheit eftir ÁHB.

Flutt var bæn og kórinn söng Sveitin mín. Að moldun lokinni söng kór Um dauðans óvissa tíma, 4 erindi.

Þá var blessun og eftirspil Ave Maria eftir Sigvalda Kaldalóns.

Stjórnandi kórsins var Friðrik S. Kristinsson og Helga Björg Ágústsdóttir lék á selló.

Um 500 manns sóttu athöfnina. Fjölskylda Sólveigar bauð til erfidrykkju í Safnaðarheimili Háteigskirkju að lokinni útför.

Hér fer á eftir lag og ljóð (hér):

laga-3

 

Margir urðu til að minnast Sólveigar á útfarardaginn.

Sjá meðal annars hér.

 

 

 

Leitarorð:


Leave a Reply