Hálendishandbókin – Á jeppa um öræfi

Skrifað um July 18, 2012 · in Almennt

BÆKUR- Náttúrufræðirit
Hálendishandbókin
Eftir Pál Ásgeir Ásgerisson. 256 bls.
Útgefandi er Skerpla ehf. Reykjavík 2001. – Ritdómur, Lesbók Morgunblaðsins 25. ágúst 2001:15.

Hálendi Íslands er mikil auðlind, sem standa ber vörð um, og er mönnum mikill vandi á höndum við að varðveita og nýta hana, svo að sómi sé að. Því miður hafa þeir, sem þjóðmálum ráða, haft afar takmarkaðan skilning á gildi þessar auðlegðar og vilja helzt þurrmjólka hana. Það er eins og það þurfi útlendinga til þess að koma sumum mönnum í skilning um mikilvægi hálendisins.

Hvað sem um þetta má annars segja, kýs æði stór hópur fólks að verja sumarleyfi sínu öllu eða miklum hluta til ferðalaga um hálendi
landsins. Ferðamáti er reyndar með ýmsum hætti; sumir fara gangandi en aðrir velja sér fararskjóta af ýmsu tagi, hjól, hest eða ökutæki. Þó að mörgum ógni jeppaæðið, sem gripið hefur þjóðina, því að enginn telst maður með mönnum nema hann eigi lúxusjeppa, helzt á trölladekkjum, verður því seint neitað, að jeppinn er mesta þarfaþing á slíkum ferðum. Sjálfsagt er óhóf í þessu sem mörgu öðru, en þeir eru líka margir, sem eiga íburðarlausa jeppa, og hrífast af slíkum ferðum, þó að þær höfði ekki til allra. Eitt sinn var haft eftir mætum klerki á Norðurlandi, að hann skildi ekkert í honum Jóni vini sínum að vera að skufsast um þessa illfæru vegi á hálendinu, þegar það væru komnir svona góðir vegir í byggð.

Þessari handbók, sem er hér til umfjöllunar, er fyrst og fremst ætlað að auðvelda þeim, sem ferðast á jeppum um hálendið til þess að rata réttar slóðir og finna markverðustu staði. Einnig er bent á forvitnilegar gönguleiðir út frá ýmsum áningarstöðum. Að sið góðra ferðamanna hefst bókin á því, sem heyrir til góðum undirbúningi, hvað nauðsynlegt er að hafa meðferðis, gefin eru ýmis góð ráð og bent á fáein rit til frekari fróðleiks. Hér hefði mátt skjóta inn stuttum kafla um grundvallaratriði, sem hafa verður í huga, þegar ekið er yfir ár.

Bókinni er síðan skipt í fimmtán kafla, sem hver um sig fjallar um öku- og gönguleiðir á afmörkuðum svæðum, eins og leiðir að Fjallabaki, Veiðivötn og Jökulheima, Gljúfurleit og Kerlingafjöll, Kjalveg, í kringum Skjaldbreið, Sprengisandsleið, Gæsavötn, Snæfell, Herðubreið og Kverkfjöll, Loðmundarfjörð, Víkur og Fjörður, Þeistareyki og Víti og
Laka, Blágil og Miklafell. Af þessari upptalningu er ljóst, að bókin spannar að mestu miðhálendi landsins, auk nokkurra svæða á Norður- og Austurlandi.

Við upphaf hvers kafla er yfirlitskort af þeim slóðum sem lýst er, og allvíða eru greinarbetri kort af vissum hlutum. Innan hvers kafla er hverri einstakri leið lýst, greint frá, hversu erfið leiðin er, sagt frá vatnsföllum og svo síðast en ekki sízt eru raktar markverðar sögur af svæðinu og getið um helztu perlur náttúrunnar. Í bókinni eru 350 ljósmyndir, sem segja oft meira en mörg orð.

Það er með ólíkindum, hvað víða hefur verið ekið um hálendi landsins og engin tök á að lýsa öllum leiðum. Mér sýnist sem höfundur hafi víða
sleppt slóðum, sem liggja upp frá einstökum bæjum, enda eru margir bændur lítt hrifnir af mikilli umferð á sínum heiðalöndum. Séu menn í ákveðnum erindagjörðum er reynsla mín sú, að auðsótt er að fá að aka þar um. Þá er heldur engin ástæða í bók sem þessari að eggja menn til að leggja í einhverja tvísýnu.

Eins og áður sagði er megintexti bókar leiðalýsingar. Yfirleitt er frásögn stutt og skýr og laus við allt raup. Höfundur hefur greinilega lagt alúð við verkið og ljóst er, að hann er reyndur ferðalangur. Almennur fróðleikur í bókinni er sóttur í mörg rit og í sjálfu sér bætir bókin litlu sem engu við í þeim efnum.

Það er ekkert áhlaupsverk að taka saman rit sem þetta. Það er sjaldnast nóg að hafa farið einu sinni um ákveðinn veg, heldur verða menn að hafa farið margoft til þess að geta leiðbeint öðrum. Engu að síður er það svo, að allvíða hefði mátt laga og leiðrétta ýmsar augljósar villur. Í fyrstu er rétt að geta þess, að í inngangskafla er farið rangt með nafn Þorleifs Einarssonar og hann sagður Guðmundsson; Ólafur Jónsson var ekki jarðfræðingur heldur ráðunautur og hluts Jóns Eyþórssonar í Hrakningum og heiðavegum er að engu getið.

Í verki sem þessu, sem spannar mikinn hluta hálendisins, kemur ekki á óvart, að ýmsar misfellur kunni að vera á. Hér skulu nefnd nokkur dæmi. Ýmsar leiðir að Fjallabaki hafa reynzt mönnum vandrataðar og þó að hér sé reynt að greiða úr þeirri flækju, er ýmislegt við þann kafla að athuga. Sums staðar koma ýmsar viðmiðanir spánnskt fyrir sjónir. Sagt er, að Nyrðri-Fjallabaksleið liggi frá Búrfelli um Dómadal (bls. 20) og á öðrum stað er sagt, að örstutt sé út á þjóðveg við Búrfell og þaðan til byggða í Landsveit (bls. 62). Í báðum þessum tilvikum er Búrfell handan Þjórsár og í annarri sýslu, þó að það blasi við á þessari leið. Frá Keldum á Rangárvöllum er Hekla í norð-austri, en ekki norðri og Vatnafjöll eru suð-austan við Heklu, en ekki austan við. Þá segir, að leiðin að Faxa (bls. 47) liggi á milli Grænafjalls og Kattarhryggja. Réttara er, að hún liggur á milli Kattarhryggja og Grænafjallgarðs, en beygt er út á slóðina á milli Grænafjalls og Skuggafjalla. Oft er ekki fullt samræmi á milli korta. Á bls. 17 er réttilega merkt slóð norðaustur Tungnárfjöll, en á stærra og betra korti bls. 65 er engin slóð sýnd. Engin slóð er sýnd á kortum austanvert við Tindafjall, suður um Stóra-Gil, framhjá Vinstra Snóki upp Axlir, þaðan sem leið liggur í Álftavötn, en hún er greið. Þá er erfitt að átta sig á leiðum frá Hólaskjóli (sjá bls. 17 og 40). Draga má í efa, að menn fari frá Hánípufit yfir Syðri-Ófæru í Hólahraun, því að enginn slóð mun vera yfir Hálsa. Leið vestan Syðri-Ófæru að Bleikáluskeri er mjög sundurgrafin, svo að hún verður trauðla farin.

Ein er sú leið, sem höfundur lýsir og nefnir Eldgjá-Skælingar-Sveinstindur. Skælingar eru víðlent fjalllendi meðfram Skaftá, norð-austur af Eldgjá. Höfundur kallar aðeins staðinn, þar sem skálinn er, Skælinga, en það er ekki rétt, því að þeir ná yfir mun stærra svæði. Skálinn á Skælingum er í Innstu-Botnum, í svo nefndu Stóragili. Kofinn, sem Útivistarmenn endurbyggðu, er ekki hinn forni gagnamannakofi eins og sagt er í bókinni, heldur var hann hlaðinn 1967 og það gerðu Hilmar Gunnarsson, Ásum og Sæmundur Björnsson frá Múla. – Þá lýsir höfundur leið úr Skælingum innundir Uxatinda og á maður dálítið erfitt með að ímynda sér, hvernig hann hefur klöngrast suður fyrir Blautulón og fyrir Veðurháls. Hins vegar liggur sæmileg slóð litlu norðar undir Gretti og rakleiðis á slóðina undir Grænafjallgarði. Á bls. 49 er sagt, að á leið um Faxasund sé komið að tveimur vötnum og síðan sé ekið í suð-austur. Hér mun vera átt við Lónakvíslalón, en þau eru a.m.k. þrjú, og vegur liggur þar í norð-austur. Vissulega mætti tína til nokkur fleiri atriði, til dæmis í Þingeyjarsýslum og víðar, þar sem ónákvæmni gætir, bæði hvað varðar einstakar leiðir og örnefni. Þó að Mývatnsöræfi séu æði víðlend, munu fáir telja þau ná norður á Þeistareykjabungu og undir Eilífi eru Eilífsvötn. Þá gerir höfundur lítið úr þverám Dalsár á Flateyjardalsheiði en sannast sagna geta þær orðið býsna viðsjárverðar í miklum vorleysingum.

Mæla má eindregið með bók þessari handa þeim, sem vilja kynnast öræfaslóðum, þrátt fyrir nokkrar brotalamir. Víst er, að hún getur veitt mörgum, sem eru ekki þeim mun kunnugri á öræfum, allmikið öryggi á ferðum um óbyggðir og allnokkurn fróðleik. Lengi hefur verið þörf á leiðarvísi sem þessum og því er útgáfa þessarar bókar lofsvert framtak.

Leitarorð:


Leave a Reply