Glómosi (Hookeria lucens) í Eldborgarhrauni

Skrifað um July 20, 2012 · in Mosar · 12 Comments

GLÓMOSI (HOOKERIA LUCENS (HEDW.) SM.) Í ELDBORGARHRAUNI, KOLBEINSSTAÐAHREPPI.
(Hookeria lucens (Hedw.) Sm.) í Eldborgarhrauni, Kolbeinsstaðahreppi
Náttúrufræðingurinn, 69. árg. 2. hefti 2000:69-76.

Inngangur
Undanfarin ár hefur höfundur reynt að líta eftir gróðri hér og hvar eftir því, sem tiltök hafa verið til þeirra hluta. Á ferðum þessum hefur allnokkru verið safnað af plöntum, bæði há- og lágplöntum. Smám saman hefur verið unnið úr efninu. Enda þótt hægt hafi miðað, einkum sökum aðstöðuleysis og vöntunar á safneintökum til að bera saman við,
hefur allnokkuð komið í ljós, sem telja má til nýlundu um tegundir og útbreiðslu þeirra. Ekki hefur verið hirt um að birta niðurstöður þessar, nema að mjög litlu leyti.

Tilgangur þessarar greinar er einkum sá að vekja athygli á mjög sérstæðu gróðurfélagi, sem þrífst vestur í Hnappadal og fáir hafa vitað um, og í annan stað að geta um nýfundna mosategund, sem þar vex.

Tildrögin voru þau, að síðast liðinn vetur las höfundur greinina Jarðhitasvæði eftir Helga Torfason, jarðfræðing, sem birtist í bókinni Íslensk votlendi – verndun og nýting (bls. 89-99). Þar getur Helgi um jarðhitastað við Eldborg í Hnappadalssýslu, þar sem hefur »dafnað mikið og fallegt jurtasamfélag«, eins og segir í greininni.

Á liðnu sumri lagði höfundur því leið sína fyrir forvitnissakir
vestur í Hnappadal. Haukur bóndi Sveinbjörnsson á Snorrastöðum, vísaði
á staðinn í Eldborgarhrauni, sem liggur utan alfararleiðar.
Eldborgarhraun
Áður en lengra er haldið skulu rifjuð upp örfá atriði um Eldborgarhraun
í Kolbeinsstaðahreppi eða Borgarhraun eins og það er nefnt í sögum.
Hraunið, sem er 33,4 km2, er kennt til Eldborgar, stærsta gígs af fimm
á norð-vestlægri sprungu.

Eldborg var áður kölluð »á Mýrum« en nú er jafnan skrifað í bókum »í
Hnappadal«. Hér er þess að gæta, að Mýrar höfðu fyrrum miklu víðari
merkingu, eins og kemur fram í fornum ritum: Í Egils sögu er sagt, að
Skalla-Grímur nam »Mýrar allar út til Selalóns og hið efra til
Borgarhrauns«; í Bjarnar sögu Hítdælakappa segir, að Þórður í Hítarnesi
búi á Mýrum (sbr. vísupartinn: »En fyr einum runni / ægis dýrs og
Mýrar«); í Grettis sögu er Mýrar haft um Kolbeinsstaðahrepp (sbr. vísu
48: »En fyr mér um Mýrar,« o.s.frv.).

Kunn er sagan í Landnámabók um uppkomu elds í Borgarhrauni; þar segir
svo um Sel-Þóri á Ytra-Rauðamel: »Þá var Þórir gamall ok blindr, er
hann kom út síð um kveld ok sá, at maðr reri útan í Kaldárós á
járnnøkkva, mikill ok illiligr, ok gekk þar upp til bæjar þess, er í
Hripi hét, ok gróf þar í støðulshliði; en um nóttina kom þar upp
jarðeldr, ok brann þá Borgarhraun. Þar var bærinn, sem nú er borgin.«

Jóhannes Áskelsson (1955) hélt því fram, að Eldborgarhraun væri í
raun tvö hraun, bruninn (»yngra hraunið«), sennilega runnið eftir
landnám, og aðalhraun (»eldra hraunið«), brunnið fyrir landnám. Minning
um yngra gosið væri því varðveitt í sögn Landnámu, þó að það sé blandað
þjóðsöguefni. En svo háttar til, þegar horft er yfir hraunbreiðuna af
Eldborg, að svartur og úfinn bruni teygir sig til norðurs, vesturs og
suðurs frá borginni, og stingur í stúf við meginbreiðuna, slétta og
víðast vel gróna. Meginröksemdir Jóhannesar fyrir því, að hraunin séu
tvö, voru: 1) Sýnilegur greinarmunur er á gróðri hrauna og 2)
segulstefnan er ólík í þeim. Að auki benti hann á, að bergið í
hraununum væri mismunandi, en það þurfi ekki skilyrðislaust að tákna
aldursmun þeirra, þó að það brjóti síður en svo í bága við, að svo sé.

Haukur Jóhannesson (1978) er hins vegar á annarri skoðun og telur, að
það sé ekkert, sem bendi til þess, að Eldborgarhraun hafi myndast í
tveimur gosum, heldur sé sennilegra, að það sé allt runnið í einu og
sama gosinu fyrir 5000-9000 árum. Meginröksemdir Hauks eru: 1) Þar sem
bruninn er apalhraun en hinn hluti hraunsins (»eldra hraunið«)
helluhraun, er ekki hægt að draga neinar ályktanir af mismunandi
gróðri, 2) segulstefna í sögulegum hraunum er mjög breytileg og ekki er
unnt að nota slíkar segulmælingar í þeim tilgangi, sem Jóhannes vitnar
til og 3) munur á bergi á milli hraunanna er ekki eins mikill og
Jóhannes vill vera láta. – Á hinn bóginn bendir Haukur á, að sennilega
hafi sögnin upphaflega átt við Rauðhálsa og Rauðhálsahraun, en færst
yfir á Eldborg og Eldborgarhraun.

Þjófhellisrjóður
En svo aftur sé vikið að tilgangi ferðar, er þess að geta, að
jarðhitastaðurinn í svo nefndu Þjófhellisrjóðri (1. mynd). Að baki
nafninu er saga, sem verður ekki rakin hér (sjá meðal annars Jón
Árnason 1956: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri: Smalarnir frá
Snorrastöðum, IV:160). Norð-austast í þessu rjóðri er hraunbrún brunans
og undir henni er lægð. Í lægðinni, sem er misdjúp eins og í flestum
hraunum, er allur gróður með öðrum svip en annars staðar í hrauninu.
Lægðin var ekki mæld nákvæmlega, en giska má á, að hún sé 6-8 m djúp
miðað við hraunbrún brunans en nokkru lægri sé miðað við brún
aðalhraunsins; breiddin er um 15-20 metrar og um lengdina er örðugt að
segja, því að skilin eru ekki ýkja skörp, en má þó ætla allnokkra tugi
metra.

Víða kemur upp hiti neðst í lægðinni og sums staðar við jaðra hennar,
jafnvel í brunanum. Það var ekki hlaupið að því að kanna vandlega
uppstreymi hita nema eiga á hættu að traðka niður vöxtulegar plöntur,
og því var það að mestu látið ógert. Sumarið 1977 mældi Haukur
Jóhannesson (munnl. uppl.) 42°C í gjótu og fann kalkútfellingar á
tveimur stöðum.

Hið fyrsta, sem athygli vekur, þegar komið er í lægðina, er gróskan
yfir gróðrinum. Burknar og blómjurtir setja sterkan svip á umhverfið,
en birkikjarr, loðvíðir og reyniviður tróna þar yfir. Allt eru þetta
tegundir, sem eru vel þekktar í hraunum, en það er sjaldan, sem þær eru
jafn þroskalegar (2. mynd). Af burknum eru þessar tegundir helstar:
Stóriburkni (Dryopteris filix-mas), fjöllaufungur (Athyrium
filix-femina) og skollakambur (Blechnum spicant).

Þá var það ekki síður annað, sem vakti eftirtekt. Í stað mosaþembu,
sem er tíðust í hraunum sunnanlands og vestan, voru þarna komnar allt
aðrar tegundir, sem settu sérkennilegt yfirbragð á hraunið, þar sem
einhver hiti streymdi upp. Það, sem síðan vakti enn meiri undrun, var,
að í gjótum óx mosategund, sem áður var óþekkt hér á landi (3. mynd).

Glómosi
Hér er um tegundina Hookeria lucens (Hedw.) Sm. að ræða (4. mynd).
Mosaplönturnar eru í meðallagi stórar, lítt eða óreglulega greinóttar,
gljáandi, föl- eða ljósblágrænar; þær eru jarðlægar og vaxa oftast í
litlum breiðum. Flest blöð standa út frá stöngli í tvær áttir og
virðast sprotar því flatir. Blöð eru fremur þéttstæð, flöt, oftast
ósamhverf, breiðegglaga og allstór eða um 3×5 mm; þau eru snubbótt,
heilrend og alveg riflaus.

Frumur í blöðum eru hálfgagnsæjar og svo stórar, að þær sjást við
litla stækkun (10x). Í blaðmiðju eru þær óreglulega sexhyrndar eða
tígullaga, 60-100 µm á breidd, en lengdin er um tvöföld til þreföld á
við breiddina; neðarlega í blaði eru frumur lítið eitt lengri en
örlítið mjórri með jöðrum. Veggir frumna eru heilir og fremur þunnir. Á
stöku stað eru smærri frumuhópar inni á milli, einkum framarlega í
blöðum. Út úr frumum þessum vaxa oft einfaldir, grænir frumuþræðir, sem
kunna að losna frá og verða að nýjum plöntum.

Plöntur eru tvíkynja, en egg- og frjóhirslur eru aðskildar. Tveir
gróhirslustilkar, um 2 cm á lengd, voru á þeim eintökum, sem var
safnað, en engar gróhirslur. Sennilegt er, að gróhirslur þroskist ekki
fyrr en síðla hausts eða í vetrarbyrjun.

Mosategund þessi er fremur auðþekkt og mjög ósennilegt að menn
villist á henni og einhverri annarri. Í þurrki verða blöðin hvítleit og
skínandi. Tegundinni hefur því verið valið nafnið glómosi, sbr. no.
glókollur og so. glóa, blika, tindra, lýsa með hliðsjón af viðurnafninu
lucens, ljómandi, ljós.

Glómosi heyrir til stórri ætt, glómosaætt (Hookeriaceae), en flestar
aðrar tegundir innan hennar lifa í hitabeltinu. Hann vex einkum þar,
sem úrkoma er mikil og vetur mildir eða í hafrænu loftslagi.
Aðalútbreiðslan er í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku vestanverðri. Þá
vex tegundin í Makaronesíu, en það eru eyjaklasar undan vesturstönd
Afríku, og Túnis, en einnig á stöku stað í norðaustur Tyrklandi og
vestur Kákasus og á allnokkru svæði í Karpatafjöllum. Annars staðar á
Norðurlöndum er tegundin algengust í suðvestur hluta Noregs, hún er
víða í Færeyjum, vex á einum 30 stöðum í vestanverðri Svíþjóð en ekki
nema á tveimur stöðum í Danmörku (5. mynd; Bohlin, A. et al. 1977,
Jannert, B. 1996, Jensen, C. 1901, Lawton 1971, Potier de la Varde
1949).

Vaxtarstaður og skilyrði
Búsvæði glómosa á Norðurlöndum eru um margt lík. Í Noregi vex hann
tíðast, þar sem einhver rekja er, í gjótum, neðst við kletta, á
klettasyllum og við læki, einkum í skógum en er þó til á skóglausu
landi. Í Svíþjóð vex tegundin einnig á skuggsælum og rökum stöðum við
vatn, oft á jarðvegi en einnig neðst við rætur trjáa og á steinum. Í
Mið-Evrópu vex glómosi meðal annars á næringarsnauðum stöðum í bland
við barnamosa (Sphagnum).

Þar sem glómosi vex í Noregi, er meðalhiti í janúar á milli 0 og
+4°C, meðalhiti í júlí er á milli +14 og +16°C og ársúrkoma er að
meðaltali meiri en 1000 mm. Samsvarandi tölur á vaxtarstöðum mosans í
Svíþjóð eru: Meðalhiti í janúar er á milli -2 og -1°C, meðalhiti í júlí
á milli +15 og +16°C og ársúrkoma að meðaltali 650-850 mm.

Haukatunga í Kolbeinsstaðahreppi er sú veðurathugunarstöð, sem liggur
næst fundarstað glómosa í Eldborgarhrauni, rétta 5 km þar frá. Þaðan
eru til samfelldar mælingar aðeins frá árunum 1981-1983. Meðaltal hita
í janúar á þeim árum var -3,4 °C, meðalhiti í júlí var +9,6°C og
ársúrkoma 1275,2 mm að meðaltali. Af þessu er ljóst, að hitatölur eru
allnokkru lægri hér á landi en úrkoma ívið meiri. Hér þarf hins vegar
að huga að því, að það er fjarri lagi, að mælitölur þessar segi alla
söguna.

Það hefur löngum verið þekkt, að plöntur njóta mjög sérstakra
vaxtarskilyrða í dældum og gjótum í hraunum. Þegar þar við bætist, að
glómosi vex í gjótum, sem heit gufa leikur um, er ljóst, að almennar
veðurfarsmælingar segja næsta lítið um aðstæður á staðnum. Sennilega er
loft rakamettað árið um kring og ósennilegt, að þar frysti. Glómosi vex
yfirleitt í þó nokkrum skugga, og var einna dýpst um 50 cm inni í gjótu
en einnig við op í forsælu. (6. mynd)

Hitinn úr gjótum hefur ekki aðeins áhrif á plöntur þar inni, heldur
gætir áhrifa hans verulega út í hraunið, eins og glöggt má sjá á
mosavexti þar. Ekki er víst, að hitinn hafi úrslitaáhrif á
háplöntuflóruna í dældum, svo sem burkna, því að hún nýtur snjóþungans
og svo mun ríkja þar mikið logn, hverju sem viðrar.

Af tegundum, sem uxu í gjótum og við op þeirra uppi á hrauninu, þar
sem áhrifa frá jarðhita gætir, má nefna mosategundir þessar:
Aneura pinguis (fleðumosi)
Bartramia ithyphylla (barðastrý)
Calypogeia muelleriana (laugagyrðill)
Dicranum majus (fagurbrúskur)
Diplophyllum albicans (urðaflipi)
Fissidens osmundoides (vætufjöður)
Frullania tamarisci (klettakrýsill)
Hypnum cupressiforme (holtafaxi)
Hypnum jutlandicum (laugafaxi)
Lejunea cavifolia (skjóðumosi)
Lophozia ventricosa (urðalápur)
Metzgeria furcata (skuggarefill)
Plagiochila porelloides (sniðmosi)
Plagiothecium cavifolium (holtaglit)
Pohlia spp. (skartmosar)
Polytrichastrum formosum (kjarrlubbi)
Polytrichum juniperinum (jarphaddur)
Ptilidium ciliare (móatrefja)
Radula complanata (skorusepi)
Rhizomnium pseudopunctatum (heiðafaldur)
Rhytidiadelphus loreus (urðaskraut)
Saelania glaucescens (blámosi)
Sphagnum subnitens (fjóluburi)
Timmia bavarica (gjótutoppur)
Weissia controversa (hagahnýsill)

Sú tegund, sem kom skemmtilegast á óvart, var Fissidens osmundoides (vætufjöður), en hún óx næst glómosa og sums staðar ríktu þær saman.
Þetta er einmitt algengasta fylgitegund glómosa annars staðar á
Norðurlöndum ásamt lifrarmosanum Trichocolea tomentella; hann fannst þó ekki, en ekki er loku fyrir það skotið, að hann geti leynst þarna.

Að sjálfsögðu er ofangreindur listi ekki tæmandi, því að allmargar aðrar tegundir vaxa á svæðinu. Tíminn, sem staldrað var þarna við, nægði hvergi til þess að kanna svæðið nema að mjög litlu leyti, og enn hefur ekki verið unnið úr öllum efniviði, sem var safnað. Óhætt er samt að fullyrða, að jarðhitastaður þessi sé meðal sérstæðustu búsvæða hér á landi og er ótvírætt verður ítarlegrar könnunar, hafi einhver bolmagn til þess að kosta hana. Sem stendur er staðnum engin hætta búin af átroðningi, enda utan alfararleiðar, en samt er nauðsynlegt að vera á varðbergi.

Þakkarorð
Það er Hauki Sveinbjörnssyni á Snorrastöðum að þakka, að höfundur rataði í Þjófhellisrjóður. Pálína Héðinsdóttir var höfundi sem oft áður innan handar við að útvega heimildir. Bjarni Richter tók smásjármyndir. Guðrún Gísladóttir dró fram gögn á Veðurstofu Íslands. Aðalsteinn Davíðsson las handrit og lagði á ráðin um nafngift. Bera Þórisdóttir las útdrátt á ensku. Fólki þessu eru færðar kærar þakkir.

Heimildir
Bohlin, A., Gustafsson, L. & Hallingbäck, T. 1977: Skirmossan, Hookeria lucens, i Sverige. – Svensk Bot. Tidskr. 71: 273-284..
Borgfirðingasögur. Sigurður Nordal og Guðni Jónsson gáfu út. – Hið ísl. fornritafélag 1938. Reykjavík.
Dixon, H.N. 1954: The Student’s Handbook of British Mosses. – 582 bls. London.
Egils saga Skalla-Grímssonar. Sigurður Nordal gaf út. – Hið ísl. fornritafélag 1933. Reykjavík.
Grettis saga Ásmundarsonar. Guðni Jónsson gaf út. – Hið ísl. fornritafélag 1936. Reykjavík.
Haukur Jóhannesson 1978: Þar var ei bærinn, sem nú er borgin. – Náttúrufr. 47: 129-204.
Helgi Torfason, 1998: Jarðhitasvæði: 89-99 – Í: Íslensk votlendi – verndun og nýting. Ritstjóri Jón S. Ólafsson. Reykjavík.
Jannert, B.: Hookeria lucens, skirmossa, vid Vättern. – Svensk Bot. Tidskr. 90: 83-85.
Jensen, C. 1901: Bryophyta: 120-184. – Í: Botany of The Færöes, part I. Kaupmannahöfn.
Johansson, T. 1980: Hookeria lucens, en tredje lokal i Halland samt en annorlunda biotop i Trollehallar. – Mossornas Vänner 10: 12.
Jóhannes Áskelsson 1955: »Þar var bærinn, sem nú er borgin.« – Náttúrufr. 25: 122-132.
Jón Árnason, 1956: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. IV. 684 bls. Reykjavík.
Landnámabók. Jakob Benediktsson gaf út. – Hið ísl. fornritafélag 1968. Reykjavík.
Lawton, E. 1971: Moss flora of the Pacific North-west. – Hattori Bot. Lab., Nichinan, Japan.
Nyholm, E. 1960: Illustrated Moss Flora of Fennoscandia. II. Musci. Fasc. 4. Lund.
Potier de la Varde, R. 1949: Nouveaux éléments de la flore tunisienne. – Rev. Bryol. Lichenol. 18:82.
Smith, A.J.E. 1978: The moss flora of Britain and Ireland. – 706 bls. Cambridge University Press.
Störmer, P. 1969: Mosses with a western and southern distribution in Norway. – Universitetsforlaget, Oslo.
Þorleifur Einarsson 1970: Þættir um jarðfræði Hnappadalssýslu. Árbók Ferðafélags Íslands: 105-123.
Þorvaldur Thoroddsen, 1911: Lýsing Íslands II. 673 bls. Kaupmannahöfn.

Summary
Hookeria lucens (Hedw.) Sm. new to Iceland

Hookeria lucens (Hedw.) Sm. has been found in the lava field Eldborgarhraun in west Iceland, which constitutes the first record of this species in Iceland.

The moss grew in a small cavities in the lava in a large depressions, Þjófhellisrjóður, where the prevailing habitat conditions are of a special nature. Hot steam rises from cracks in the lava and the bottom and field layer are very different from what it is elsewhere.

The collected specimens are conserved in the author’s herbarium.

Póstfang höfundar / Author’s address:
Ágúst H. Bjarnason,
Laugateigi 39
105 Reykjavík
Netfang (e-mail): agusthbj@gmail.com

Myndir
1. mynd – Nútímahraun í Hnappadal. – Recent lava flows in Hnappadalur, West-Iceland. Heimild/From Haukur Jóhannesson 1978.

2. mynd – Gróskumikill gróður í Þjófhellisrjóðri í Eldborgarhrauni. – Luxuriant vegetation in a depression with favorable condition in Þjófhellisrjóður, in the lava field Eldborgarhraun. Ljósm./photo Á. H. B. (16. júlí 1999).

3. mynd – Glómosi með tveimur gróstilkum en án bauka. – Hookeria lucens with two fruit-stalks without capsules. Ljósm./photo Á. H. B.

4. mynd – Glómosi: a. greinótt eintak, b. blað og c. frumur í efri hluta blaðs með nokkrum rætlingum frá smávöxnum frumum. – Hookeria lucens: a. sparsely branched specimen, b. leaf and c. cells in the upper part of stem leaf with uniceriate rhizoids produced from small cells. Teikning/drawings Á. H. B.

5. mynd – Skráð útbreiðsla glómosa. – Known distribution of Hookeria lucens. Heimild/From Störmer 1969, Bohlin et al. 1977 (revised).

6. mynd – Hraungjóta, burkninn er skollakambur. – An opening to a hole in the lava field, the fern is Blechnum spicant. Ljósm./photo Á. H. B. (16. júlí 1999).

Aðvörun:

Á þessum stað: http://floraislands.is/mosar.html stendur skírum stöfum orðrétt:

»Eini íslendingurinn sem lagt hefur stund á mosaflóru Íslands af nokkurri alvöru, er Bergþór Jóhannsson.«

Menn eru því beðnir um að trúa því mátulega, sem greint er frá á vefslóð þessari.

Leitarorð:

12 Responses to “Glómosi (Hookeria lucens) í Eldborgarhrauni”
  1. I was shocked to see 1-2 people I never expected ??

  2. Who exits after logging in to the site?

  3. wegouufr says:

    tadalafil drug where to buy tadalafil on line

  4. best price usa tadalafil tadalafil without a doctor prescription

Leave a Reply