Gleðilegt ár

Skrifað um January 2, 2013 · in Almennt


Í upphafi nýs árs er rétt og skylt að vekja athygli á því, að hér verður engu lofað um framhaldið. Engu að síður er efnið óþrjótandi en við liggur, að manni hrjósi hugur við að takast á við það í frístundum. Í íslenzku flórunni eru um 500 tegundir af háplöntum (æðaplöntum öðru nafni) og tæpar 600 tegundir af mosum. Í ráði var að lýsa þeim öllum smám saman og taka saman lykla til þess að greina þær til tegunda. Lítið sem ekkert verður fjallað hér um sveppi, þörunga og fléttur, nema þá í mesta lagi eina og eina tegund, sem á fjörur rekur. Þá verður reynt að gera gróðri einhver skil og skýra einstök gróðurfélög, þegar líður á sumarið. Það hefur háð svolítið myndavali, að enginn nothæfur filmu-skanni er við höndina; vonandi verður bætt úr því.– Svo má og vera, að óskyldum pistlum verði skotið inn hér og þar, ef tilefni gefst til.
Þá er ekki úr vegi að skýra þann mun, sem er á merkingu orðanna flóra og gróður. Þessum hugtökum er iðulega ruglað saman. Með orðinu flóra er átt við plöntutegundir, sem vaxa á tilteknu svæði. Til hægðarauka er þeim oft skipt í háplöntur (æðaplöntur), það eru byrkningar og fræplöntur (dulfrævingar og berfrævingar), og lágplöntur, það eru fléttur og mosar (blaðmosar og lifrarmosar). Flóra getur líka táknað skrá eða rit, sem greinir frá tegundum á ákveðnu svæði.

Á hinn bóginn táknar gróður líffélagið, sem plönturnar mynda, án tillits til einstakra tegunda. Gróðrinum er unnt að skipa saman í heildir samkvæmt ákveðnum reglum á grundvelli mælinga, eins og gróðurhverfi, gróðursveitir, gróðurfylki og að lokum í gróðurlendi. Til þess að slík skipting sé raunhæf, verður hún að byggjast á víðtækum athugunum. Þegar rætt er um gróður án tillits til ofannefndrar skiptingar er notað orðið gróðurfélag.

Frá síðasta ári er minnisstæðast, að spáð var snjóþungum vetri á Norðurlandi á grundvelli blómgunar beitilyngs, og hefur sú spá þegar ræzt. Um beitilyng segir nefnilega: »Blómgist lyngið alveg fram í topp, verður vetur harður, en séu sprotaendar blómlausir þarf ekki að kvíða vetri. Af blómgun að dæma nú í ár lítur út fyrir, að vetur verði í harðari kantinum, að minnsta kosti á Norðurlandi, …« (sjá: http://ahb.is/beitilyng-%E2%94%80-calluna-vulgaris/).

Þá verður það og að teljast til tíðinda, að kúluskítur fannst í fyrsta skipti í Víkingavatni í Kelduhverfi. (Sjá: http://ahb.is/kuluskitur-eda-vatnadunn/) Nokkrum kúlum var komið fyrir í fiskabúri í Menntaskólanum við Sund, og er ekki vitað annað en, að þar lifi þær góðu lífi.
Sá pistill, sem flestir lásu, fjallaði reyndar ekki um plöntur, heldur hlöðukálfaeldi í Háskóla Íslands. (Sjá: http://ahb.is/hlodukalfaeldi-i-haskola-islands/)
Það er mín von, að sem flestir finni hér hnýsilegt efni, sem vert er að kynna sér.

 Leave a Reply