Í Hákonarlundi – Við afhjúpun minnisvarða um Hákon Bjarnason

Skrifað um July 18, 2012 · in Almennt

Við afhjúpun minnisvarða um Hákon Bjarnason

Góðir áheyrendur.
Hver er þessi fjölæra planta, sem skartar gulum, óreglulegum blómum sínum hér allt í kring? Hvað heitir hún, af hverju vex hún hér og hvaðan kom hún? Sumu af þessu er auðvelt að svara en öðru ekki. Þetta eru fuglaertur (Lathyrus pratensis) af ertublómaætt. Blöðin eru að því leyti sérstök, að þau eru með vafþráðum og þarf plantan að styðja sig við aðrar. Þess vegna er stöngullinn lengi að vaxa eins og á öðrum slíkum plöntum. En hvernig stendur á því, að þessi planta skuli vaxa hér í meira mæli en annars staðar, að vísu teygir hún sig hér niður sveitir, er algeng undir Mýrdalsjökli en þar fyrir utan vex hún aðeins stopult á sex eða sjö stöðum öðrum. Annars staðar á Norðurlöndum eru fuglaertur algengar.

Ekki að ófyrirsynju leitar hugurinn aftur til goðaveldisaldar, þá er ein voldugasta höfðingjaætt á Íslandi sat hér í Haukadal.

Hallur hinn mildi Þórarinsson, sá hinn sami og mundi er Þangbrandur skírði hann þrevetra, bjó hér tæpa sjö tugi ára og fóstraði Teit Ísleifsson (d. 1110), sem stofnsetti hér síðar skóla og sagnaritarann Ara fróða. Hallur var vitur maður, hann fór utan og hafði félag Ólafs konungs helga. Einnig var sonarsonur Teits, Gissur Hallsson, lögsögumaður, bóndi hér í Haukadal, en hann dvaldist við hirð Noregskonungs og fór til Rómar. Hann reit bók um för sína, sem hann nefndi Utanferðarblóm, Flos peregrinationis, en hún er því miður glötuð.

Það er alls ekki loku fyrir það skotið, og má telja fremur sennilegt, að annar hvor bænda hér, Hallur eða Gissur, hafi komið út með fuglaertur frá Noregi, en þær voru allnokkuð ræktaðar þar, einkum í hinum nyrðri héruðum. En eins og ykkur flestum er kunnugt, eru fuglaertur af sama kyni og alaskalúpína og þarfnast því ekki áburðar. Þær hafa því verið nokkurs konar lúpínur þjóðveldisaldar. Hér er að vísu um getgátur að ræða, en hafi Hallur komið með tegundina, þá hefur Ari hinn fróði ekki talið ástæðu til að amast við innflutningi þessum. – Svo er það ekki fyrr en einn fagran sumardag árið 1961 eða tæpum áttahundruð árum síðar, að við feðgar riðum hér inn á Haukadalsheiði hvor með sitt lúpínufræ í plastskjöttum, sem skrjáfaði svo í, að hestarnir urðu hvumpnir, en sáningin að sama skapi ójöfn.

Saga skógræktar og uppgræðslu hér í Haukadal spannar aðeins 60 ár. Það er ekki langur tími, en þó sjáum við nú glæstan árangur, bæði hér sem við stöndum og í hlíðum Sandfells. Gróskan og vöxtur allur núna, að 60 árum liðnum, gefa fögur fyrirheit um hagstætt leiði.

Skógrækt á Íslandi hefur staðið aðeins í 100 ár. Ekki má þó gleyma því, að víðsýnir menn höfðu áður í full 200 ár rætt nauðsyn þess að rækta skóg: Páll Vídalín, Skúli Magnússon og Magnús Ketilsson, svo fáir séu nefndir. Magnús kvað svo fast að orði, að timbur- og viðarskortur væri þungbærari en matarskorturinn. Og á 19. öld hvöttu margir til skógplöntunar; að lokum var það fyrir atbeina Dana, að skógrækt hófst á Íslandi. Margir Íslendingar studdu Danina vel og hvatningarorð manna, eins og Þórhalls biskups Bjarnasonar og Hannesar Hafstein, urðu til þess, að léttara varð undir fæti fyrir þeim, sem hófu skógrækt vorið 1899 á eystra barmi Almannagjár. En 1913 leggst skógplöntun niður til 1937 en hefst varla að ráði aftur fyrr en eftir 1950.

Það varð hlutskipti Hákonar Bjarnasonar að marka stefnu undir merki gróandans í staðfastri trú á framtíð skógræktar. Nú er það lögmál, sem illa verður komizt hjá, með hverja stefnu, að á siglingu sinni er hún ýmist á öldutoppum eða í bylgjulægð. Sannarlega urðu öldudalir djúpir og krappir á stundum en höfuðatriðið var að halda stefnunni og láta árveknina ekki sljóvgast, því að fyrr en varir lyftir farkosturinn sér á næstu öldu. Mér er óhætt að segja, að þetta var hans trúa og hann fylgdi því einu að málum, sem hann hugði sannast. Það sýnist kannski örlítil þversögn í því, að maður sem á stundum gat verið eilítið óþolinmóður skyldi sýna af sér slíkt langlundargeð að sá til skóga. Og ákafi hans og kappsemi við það leyndi sér ekki í svip hans og verkum, jafnvel svo að sumum fannst nóg um.

Á þessari stundu er bæði rétt og skylt, en þó einkanlega ljúft, að minnast þess, að Hákon átti marga ágæta samherja, samstarfsmenn og vini, sem stóðu með honum í blíðu og stríðu. Það var hans styrkur. Marga mætti nefna hér til og alla verðuga, lífs og liðna, en verður látið ógert. Þó vil eg gera undantekningu, því að í dag er borinn til grafar Gunnlaugur Briem, fyrrverandi ráðuneytisstjóri til margra ára, heiðursfélagi Skógræktarfélags Íslands og mikill og einlægur vinur föður míns. Í því sambandi get eg sagt frá því, að eitt sinn sem oftar vorum við feðgar að ræða um heima og geima og hann alltaf að veita manni holl ráð, eins og þeir muna, sem hann þekktu bezt.

»Ef þú, Ágúst, þarft einhvern tíma að fara og ræða við mann í ráðuneyti,« sagði hann, »skaltu skrifa hjá þér á eftir, hvað ykkar fór í milli; og það kom sér oft vel, enda gerði eg það alltaf, nema þegar eg talaði við Gunnlaug Briem, hann brást mér aldrei.« – Með slíkum manni hlýtur að hafa verið gott að starfa.

Eins og eg gat um áðan gefa gróskan og vöxturinn, sem við okkur blasa, fögur fyrirheit um hagstætt leiði skógræktar í náinni framtíð. Þannig var það ekki fyrir 60 árum og víst hefur þurft nokkurn kjark og áræði til þess að hefjast hér handa eins og þá var umhorfs. Eigandi Haukadals í þá daga, hinn mikli eljumaður Sigurður Greipsson, var öðrum mönnum skynsamari, því að hann sá í hvert óefni stefndi vegna mikils uppblásturs og lét föðurleifð sína af hendi, henni til bjargar. Eftir því sá hann aldrei að eigin sögn.

Nú hafa margir einstaklingar, félög og stofnanir sameinast um að reisa þessa myndarlegu og sérstæðu súlu til minningar um verk föður míns, Hákonar Bjarnasonar. Hún er gerð af miklum hagleik af efniviði, sem hann hafði mætur á og af þeirri list, sem hann dáði mest. Til gamans má geta þess, að sem ungur drengur skar hann út eftir tilsögn Ríkarðs Jónssonar, og hann átti safn útskorinna muna.

Þá veit eg fullvel, að fáir eða enginn staður var föður mínum kærari en þessi hér. Haukadalur skipaði ávallt sérstakan sess í huga hans og reyndar okkar allra í fjölskyldunni. Hér var það, sem hann tók sjálfur þátt í öllum störfum frá fyrstu tíð, hér dvaldist fjölskyldan löngum með honum mörg sumur. Hér áttum við margar unaðsstundir.

Fyrir hönd fjölskyldunnar þakka eg þá miklu virðingu og vinsemd, sem minningu hans er sýnd, listamanninum færi eg heila þökk og öllum þeim öðrum, sem að þessu framtaki unnu. Og að lokum tökum við undir með Stephani G. sem sagði: að alfaraleið verður einstígur hans, / þó aldirnar fenni yfir sporin.

Ræðan var flutt við afhjúpun minnisvarða um Hákon Bjarnason í Haukadal í Biskupstungum í ágúst 2002

Leitarorð:


Leave a Reply