
Þær plöntur, sem fjölga sér með fræi, nefnast fræplöntur. Gömul venja er að skipta þeim í tvo hópa:
a) BERFRÆVINGA (Gymnospermae; gríska gymnos, nakinn, ber)
b) DULFRÆVINGA (Angiospermae; gr. angeion, kista; smækkunarorð af angos, umbúðir, ílát.)
Í berfrævingum eru fræin nakin eða „ber“ á milli hreisturskenndra blaða í svo kölluðum könglum. Í dulfrævingum eru fræin umlukt fræblöðum í blóminu og sjást því ekki, þau eru „dulin“ í frævunni.
Flestir berfrævingar tilheyra þallarætt (Pinaceae), barrtrjám, og eru enda tré eða runnar með síðvöxt, sem merkir, að stofn þeirra gildnar af viði (viðarvef) með árunum. Viður barrtrjáa er gerður úr nær einsleitum viðartrefjum en ekki líka úr viðaræðum eins og í lauftrjám (harðviði). Blöð standa í gormlaga langröðum eða kransi, eru oftast nállaga (barr), en geta þó verið mjúk og breið. Flestar tegundir fella ekki blöðin reglubundið og eru því sígræn.
Æxlunarfæri berfrævinga eru í svo nefndum könglum (strobilus, ft. strobili), sem eru ummyndaðir stönglar eða sprotar. Blómhlífarblöð eru engin. Þetta eru því ekki blóm í skilningi grasafræðinga, heldur karl- og kvenkynhirzlur, sem sitja saman í axleitri skipan, köngli, á stuttum legg. Til að mynda á furu vaxa tvenns konar könglar, karlköngull og kvenköngull. Einir (Juniperus communis) hefur þá sérstöðu, að hann er tvíbýlisplanta, en þá eru sérstakar karl- og kvenplöntur (sjá síðar).
Karlköngullinn er lítill og ótrénaður. Neðan á hverju blaði í könglinum, smágróblaði, sitja tvær smágróhirzlur, en það eru fræflar með skjaldlaga frjóknappa.

Í þeim verða til smágró við meiósu, sem síðan þroskast í frjókorn. Utan um smágróið er tvöfaldur veggur. Hinn ytri losnar frá að hluta og myndar vængi. Inni í gróinu fer fram frumuskipting, sem leiðir til þess, að þar verða tvær frumur að lokum, æxlifruma (sáðmyndunarfruma) og frjópípufruma. Nú er frjókornið tilbúið til að flytjast yfir á kvenkynhirzlu, og eftir það tekur við frekari þroskun þess. – Karlkönglar eru mjög svipaðir í flestöllum barrtrjám. Þeir visna mjög fljótt eftir að frjókornin eru rokin út í veður og vind. Mörgum er í nöp við að kalla þá köngla, en því miður eigum við ekkert annað orð um þá. Þetta eru ekki blóm, því að engin eru blómhlífablöðin.

Kvenköngullinn er mun stærri og flóknari að allri gerð. Í honum eru tvenns konar hreistursblöð. Neðst er þekjuhreistur, sem er ummyndað laufblað, og ofan á því situr hreisturskennt fræblað (köngulhreistur), ummyndaður sproti. Endi fræblaðsins (einkum á furu) er oft þykkvaxinn og nefnist það garður (apohysis). Á garðinum er oft kúlumynduð hnúfa (umbo) eða broddur (spinosus). Fræblöð og þekjuhreistur eru oft samvaxin og á einstaka tegund skagar þekjuhreistrið út fyrir fræblaðið.

Ofan á fræblöðunum vaxa stórgróhirzlur og í þeim eru eggbú, oftast tvö saman, og eru þau umlukt egghimnum. Á einum stað teygjast himnurnar í tvo flipa, eggmunnavarir, og á milli þeirra er þröng rás inn í eggbúið (sjá síðar).

Þekjuhreistrið þroskast að jafnaði fyrst og er áberandi um það leyti sem frævun fer fram. Fræblöðin vaxa síðar og loka könglinum til að vernda hið vaxandi fræ. Meira um myndun karl- og kvenkynhirzlna síðar.
Eins og áður sagði, eru kvenkönglar mjög breytilegir að stærð og útliti. Þeir eru frá örfáum sentímetrum til 50 cm á lengd og hinir stærstu vega um 5 kg.
Hér má sjá ýmsar gerðir af kvenkönglum.
ÁHB / 2.2. 2013