
Í Oddakirkjugarði er legsteinn, sem sker sig ekkert úr áþekkum slíkum, nema grannt sé skoðað. Á honum stendur:
Hér hvíla hjónin frá
Bjóluhjáleigu
Jón Eiríksson
(1830-1918)
og
Guðrún Filippusd.
(1834-1901)
Steinn þessi var reistur skömmu eftir lát Guðrúnar 1901 og hentugast þótti að klappa allan textann á steininn um leið og hann var gerður. Þar fylgdi sá böggull skammrifi, að Jón bóndi var enn bráðlifandi. Tveimur síðustu tölustöfum í dánarári Jóns var því sleppt og járnþynna var fest yfir nafn Jóns og textann þar fyrir ofan.


Á báðum hliðum legsteinsins eru því tvö göt fyrir festingar á járnþynnunni og enn má glöggt sjá far eftir hana. Þá sést greinilega, ef gaumgæfilega er rýnt í síðasta tölustafinn í dánarári Jóns, að hann er ekki jafn haganlega gerður og aðrir tölustafir.

Þá fylgir sögunni, að Einar Benediktsson hafi sagt, þegar hann sá Jón við leiði konu sinnar: »Þarna stendur aumingja karlinn hann Jón gamli Eiríksson – og horfir á sinn eigin legstein. – Gaman væri að geta gert það.«
ÁHB / 20. júlí 2015