Mosaburknaætt – Hymenophyllaceae
Til ættarinnar teljast um 600 tegundir. Flestar þeirra vaxa á rökum stöðum, oft undir ýringi frá fossum. Þær eru algengastar í regnskógum hitabeltisins. Þó er ein og ein tegund, sem teygir sig norður á bóginn með ströndum Atlantshafsins. Plöntur ættarinnar eru jafnan dökkgrænar eða svartleitar; auðvelt er að villast á þeim og grófgerðum fléttum og mosum. Þær eru mjög þunnar og viðkvæmar gagnvart þurrki.
Mosaburknar – Hymenophyllum Sm.
Yfirleitt litlir eða mjög litlir burknar. Jarðstöngull mjór, mjög greinóttur. Blöð eitt frumulag á þykkt. Gróhula á þessari ættkvísl er tvískipt eða tvíflipótt. Um 100 tegundir heyra til ættkvíslinni.

Mosaburkni – Hymenophyllum wilsonii Hook.
Fíngerður og smár þekjumyndandi fjölæringur. Jarðstöngull skriðull, mjög greinóttur og mjór. Blöð sígræn, upprétt, stilkur svartur og hárfínn, 0,4-2,5 cm á lengd. Blaðka eitt frumulag á þykkt (nema blaðstrengir); blaðka fjaðurskert í stakstæða, flipótta bleðla. Miðstrengur er brúnleitur og greinist út í hvern bleðil nær alveg fram í blaðenda. Hefur ekki fundizt með gróhirzlur hér á landi.
5-10 cm á hæð. Vex á móbergsklettum við mikinn loftraka; aðeins fundinn á einum stað í Mýrdal.
Enska: Wilson’s hautfarn, film fern, Wilson’s filmy fern
Danska: Hindebregne
Sænska: hinnbräken, hinnblad
Norska: hinnebregne
Finnska: sammalsaiainen
Þýzka: Hautfarn
Franska: hyménophyllum de Wilson
ÁHB / 23.3. 2013
Heimild og ítarefni:
Bergþór Jóhannsson 1976: Mosaburkni, Hymenophyllum wilsonii Hooker, fundinn á Íslandi. Náttúrufræðingurinn, 45. árgangur 1975-1976, 2. tbl.: 105-109