Amphidium Schimp. – Gopamosar

Skrifað um September 28, 2014 · in Mosar

Amphidium Schimp. – Gopamosar

Uppréttir blaðmosar, 1-6 cm á hæð. Stöngull þríhyrndur í þverskurði og því sitja blöðin nokkurn veginn í þremur röðum. Rætlingar brúnir og sléttir. Rök blöð eru upprétt eða útstæð en bugðótt eða hrokkin þurr. Vaxa í þéttum þúfum í rökum klettum, hraunum og urðum.

Hér vaxa tvær tegundir. Önnur er tvíkynja og því nær alltaf með gróhirzlur, hin er einkynja og sjaldan með gróhirzlur. Enginn opkrans.
Nokkrar aðrar tegundir líkjast Amphidium, þegar gróhirzlur vantar. Einkum má benda á Cynodontium spp. og Gymnostomum aeruginosum; þá má einnig nefna Grimmia torquata, Hymenostylum recurvirostrum og Anoectangium aestivum (sjá síðar).

Greiningarlykill að Amphidium:

1 Tvíkynja, oftast með gróhirzlur. Blaðfrumur greinilega vörtóttar framan til. Frumur í blaðgrunni litlausar með þunna veggi og sléttar ……. A. lapponicum
1 Einkynja, sjaldan með gróhirzlur. Blaðfrumur ógreinilega vörtóttar eða án vartna framan til. Frumur í blaðgrunni grænar með þykka veggi og oftast strikvörtóttar …….. A. mougeotii
Amphidium lapponicum (Hedw.) Schimp. – klettagopi
Amphidium mougeotii (Bruch et Schimp.) Schimp. – gjótugopi

Helztu heimildir:
A.J.E. Smith, 2004: The Moss Flora of Britain and Ireland. Cambridge University Press
Ágúst H. Bjarnason, 2010: Greiningarlykill að ættkvíslum íslenzkra blaðmosa (Musci) ásamt tegundaskrá. Fjölrit Vistfræðistofu n:r 40. Reykjavík.
Bergþór Jóhannsson: Íslenskir mosar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar n:r 15. janúar 1990
Tomas Hallingbäck et al.: Bladmossor: Kompaktmossor-kapmossor. ArtDatabanken, Sveriges lantbruksuniversitet. Uppsala 2006.
Tomas Hallingbäck, Ingmar Holmåsen, 2008: Mossor. En fälthandbok. Interpublishing. Stockholm.

ÁHB / 28. september 2014

 

P.s. Höfundur hlaut styrk frá Hagþenki 2014 til ritstarfa.

 Leave a Reply