
Ættkvíslin Abietinella Müll. Hal. er í Thuidiaceae (flosmosaætt) ásamt Helodium (kambmosum) og Thuidium (flosmosum). Til kvíslarinnar heyrir ein eða tvær tegundir, eftir því, hvort afbrigðið hystricosa er talið sérstök tegund eða ekki; það vex ekki hér á landi. Algeng planta á norðurhveli.
Abietinella abietina (Hedw.) M. Fleisch. – tindilmosi
Plöntur eru einfjaðraðar, ýmist stórvaxnar eða fíngerðar, gulgrænar, gulbrúnar eða grænar og vaxa í gisnum breiðum. Greinar eru stuttar, í einum fleti. Á stöngli og neðst á rifi eru greinótt, flosblöð úr stuttum og vörtóttum frumum.

Blöð egglaga, breiðust rétt ofan við grunn og ganga fram í stuttan eða langan odd, 1-2 mm. Þau eru kúpt og með langfellingar. Greinablöð eru minni, egglaga með styttri odd. Rif er einfalt og nær 75-90% upp blaðið.

Frumur eru stuttar, aflangar fremst í blaði, tigullaga eða sexhyrndar um miðju, 7-12×10-17 µm.
Plöntur eru einkynja. Hafa aldrei fundizt með gróhirzlur hér á landi.
Er hér og hvar um landið. Vex í þurri harðbalajörð, í klettum og kjarri. Mjög auðþekkt tegund. Líkist Thuidium tegundum, en þær eru tví- til þrífjaðraðar og er það í raun eini munurinn.
ÁHB / 26. apríl 2017