Posted in

Amblystegium – rytjumosar

Amblystegium serpens, rytjumosi, vex hér við stöðuvatn. Ljósm. ÁHB.
Amblystegium serpens, rytjumosi, vex hér við stöðuvatn. Ljósm. ÁHB.
Amblystegium serpens, rytjumosi, vex hér við stöðuvatn. Ljósm. ÁHB.
Amblystegium serpens, rytjumosi, vex hér við stöðuvatn. Ljósm. ÁHB.

Ættkvíslin Amblystegium Schimp. – rytjumosar – heyrir til Amblystegiaceae (rytjumosaættar). Til þeirrar ættar teljast 20-25 kvíslir með samtals um 140 tegundir. Tegundir ættarinnar eru æði ólíkar, en margar þeirra eru þó með sveigð blöð og einfalt rif. Flestar tegundir vaxa í einhvers konar votlendi eða á rökum stöðum.

Fyrrum töldust níu tegundir til þessarar kvíslar en nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós, að þær flestar eru lítið sem ekkert skyldar. Af þessum níu tegundum uxu þrjár hér á landi. Nú hafa tvær þeirra verið sameinaðar í eina tegund og fluttar í aðra ættkvísl (Hygroamblystegium), svo að eftir stendur ein í þessari kvísl. Hér er lykill til þess að greina sundur þessar tvær tegundir:

1 Rif 40 µm eða mjórra við blaðgrunn. Blöð fíntennt frá grunni og fram í blaðenda ….. A. serpens

2 Rif 45-100 µm við grunn. Blöð heilrend eða ógreinilega tennt framarlega …… Hygroamblystegium varium

Amblystegium er úr grísku, amblys, snubbóttur, oddlaus og stege, þak, þekja, hvelfing. Hér er átt við lok á gróhirzlu.

 

Amblystegium serpens (Hedw.) Schimp. – rytjumosi (skógarytja)

Jarðlægar plöntur, óreglulega greinóttar, grænar, jafnvel gul- eða brúnleitar, fíngerðar í gisnum eða þéttum breiðum. Rætlingar sléttir. Axlarhár er aðeins eitt við hvert blað með 1, sjaldan 2, efstu frumu um 6 µm á breidd. Blöð eru 0,5-1,1 mm á lengd, lensu- eða egglensulaga og mjókka smám saman í mjóan odd. Þau eru upprétt eða útstæð, bein eða lítið eitt bogin. Blaðrönd er fíntennt oft frá grunni og fram í odd. Rif er einfalt, mjótt, 10-30 (-40) µm við grunn, breytilegt að lengd, um 30-80% af blaðlengd.

Frumur eru tigullaga, 12-55 x 7-12 µm, 3-5:1, veggir fremur þykkir, holulausir. Frumur í blaðhornum svipaðar öðrum frumum.

Plöntur eru tvíkynja. Oft með gróhirzlur.

Vex á ýmsum skuggsælum og rökum stöðum á ýmsu undirlagi eins og trjám, jarðvegi, timbri, steinsteypu, sjávarfitjum og í hrauni. Er hér og hvar um landið nema sízt á Suður- og Austurlandi.

Viðurnafnið serpens merkir líkur snáki og þar er átt við að plantan skríður, er jarðlæg.