
Í líkamsfrumum manna eru 46 litningar; 22 pör samlitninga og eitt par kynlitninga (venjulega táknað 2n=46). Samlitningarnir eru eins í körlum og konum, en kynlitningaparið í konum er XX og XY í körlum.
Þegar frumur í fólki fjölga sér við það, að ein fruma (móðurfruma) verður að tveimur, tvöfaldast litningarnir og skiptast jafnt á milli tveggja afkvæmisfrumna. Það hefur verið kunnugt í allnokkurn tíma, að í eldri körlum getur Y-litningurinn tapazt við þessar frumuskiptingar af einhverjum óþekktum ástæðum. Fram til þessa hefur verið litið á það sem eðlilegan gang í öldrun manna og hættulaust.
Nú hefur á hinn bóginn verið sýnt fram á, að þeir karlar, sem missa Y-litninginn, eru fjórum sinnum líklegri til þess að fá krabbamein en aðrir. Þetta kann að vera skýringin á því, að karlar lifa skemur en konur og fá oftar krabbamein. Og það kunna að vera fleiri sjúkdómar tengdir þessum breytingum, eins og sykursýki.
Í þessu skyni voru voru blóðprufur teknar úr um 1600 mönnum á aldrinum 70 til 84 ára gömlum og þeim fylgt eftir í nokkur ár. Niðurstaðan var sú, að enginn Y-litningur var í tíunda hverju hvítkorni í fimmta hverjum manni. Jafnframt kom þá í ljós, að þessir menn lifðu að jafnaði fimm árum skemur en aðrir karlar og létust úr krabbameini.
Enn sem komið er hefur engin haldbær skýring fengizt á þessum niðurstöðum, en menn hafa látið sér detta í hug, að ónæmiskerfið veiklist við þennan missi á Y-litningi og líkaminn ráði ekki við að hefta vöxt krabbameinsæxla.
Hér má lesa nánar um þetta:
https://www.nature.com/ng/journal/vaop/ncurrent/full/ng.2966.html
ÁHB / 3. maí 2014