
Ættkvíslin Fontinalis Hedw. – ármosar – telst til Fontinalaceae (ármosaættar) ásamt tveimur kvíslum öðrum, sem hvorug vex hér á landi. Allar tegundir ættar vaxa í eða við vatn, oft á kafi, bæði í stöðu- og straumvatni. Einkennandi fyrir tegundir ættar er, að blöð sitja í þremur röðum á stöngli. Þetta sést sérstaklega vel á tegundum, þar sem blöð eru kjöluð eða saman brotin.
Hérlendis vex aðeins ein tegund kvíslar og er lýsing á henni látin nægja.
Fontinalis er komið úr latínu, fons, uppspretta.
Fontinalis antipyretica Hedw.– ármosi
Plantan myndar dökkgrænar, grænar eða svartleitar breiður, og geta orðið um 70 cm á lengd, óreglulega greinóttar eða nær fjaðurgreinóttar. Blöð eru að mestu útstæð, í þremur röðum, samanbrotin að endilöngu, 4-8 mm á lengd. Oftast nær kjölur fram í blaðenda en á stundum aðeins í neðri hluta blaðs. Blöð eru egglaga og ganga fram í yddan eða snubbóttan enda.
Flestar frumur eru 10-17 µm á breidd en lengdin allt að 150 µm og veggir í meðallagi þykkir. Við blaðrönd eru frumur ívið mjórri.

Plöntur eru einkynja og gróhirzlur mjög fáséðar.
Tegundin er mjög breytileg en jafnan auðþekkt á saman brotnum blöðum og í þremur röðum á stöngli.
Vex á kafi í vatni fest við steina. Myndar oft breiður. Algeng á láglendi, nema um sunnanvert land og á Norðausturlandi.
Það verður að teljast líklegt, að tegundin hafi verið notuð hér fyrr á árum sem tróð til að þétta með. Engar heimildir hef eg þó fundið um það.
Viðurnafnið antipyretica er annars vegar komið úr latínu, anti-, á móti og hins vegar úr grísku, pyr, eldur.