Sect. Acutifolia (7 teg.)
*Sphagnum warnstorfii Russow — Rauðburi
Sphagnum fimbriatum Wilson — Trafburi
Sphagnum russowii Warnst. — Flekkuburi
Sphagnum girgensohnii Russow. — Grænburi
Sphagnum angermanicum Melin — Glæsiburi
*Sphagnum subnitens Russow &. Warnst. — Fjóluburi
Sphagnum capillifolium (Ehrh.) Hedw. — Flikruburi
Grænfrumur í greinablöðum eru trapisulaga eða þríhyrndar í þverskurði og veit breiðari hlutinn að innra borði. Á íslenzku tegundunum er stöngull grænn, gulgrænn eða rauður; plöntur eru grænar eða rauðar, aldrei brúnar.
1 Greinablöð í 5 röðum á útstæðum greinum ………………… S. warnstorfii
1 Greinablöð ekki í 5 röðum, nema e.t.v. á stuttum greinum í kolli og neðst á greinum ….. 2
2 Stöngulblöð tungulaga-spaðalaga, meira eða minna trosnuð í endann. Einstaka glærfrumur í stöngli með göt …… 3
2 Stöngulblöð tungulaga-þríhyrnd tungulaga, að bláoddur trosnður. Engar glærfrumur í stöngli með göt …… 5
3 Stöngulblöð breikka talsvert að ofan og eru trosnuð og kögruð. Langar og mjóar greinar; aldrei rauður .. S. fimbriatum
3 Stöngulblöð svo til jafnbreið, trosnuð í endann ………………….. 4
4 Með rauða eða bleika flekki, á stundum áberandi rauður (aðeins grænn í skugga); blaðendi trosnaður í bláendann … S. russowii
4 Alltaf grænn. Blaðendi breiður og trosnaður. …………………… S. girgensohnii
5 Stöngulblöð breiðust um miðju. Engar litlar frumur í blaðhornum … S. angermanicum
5 Stöngulblöð ekki breiðust um miðju. Hópar af litlum frumum í blaðhornum ……………. 6
6 Kollur oft grænn í miðju en rauðleitur í jöðrum. Stöngulblöð með totu í endann (innundnar blaðrendur) …. S. subnitens
6 Kollur rauður til grænn, ef rauður, er hann rauður líka í miðju. Stöngulblöð ekki með totu í endann (blaðrendur lítið innundnar) …………………………………………….. S. capillifolium
Sphagnum subnitens Russow et Warnst. (fjóluburi)
Smávaxinn eða miðlungsstór. Vex í lausum breiðum, grænn, brúnn eða rauðfjólublár, og með málmgljáa, þegar hann er þurr.
Kollur: Stór. Yztu greinar oft langar (á lengd við efstu greinaknippi); vaxa á stundum yfir hvirfilinn. Hvirfill oft grænn en útstæðar greinar rauðlitar eða brúnar.
Stöngull: Koparbrúnn, ljósgrænn, gulur eða fjólublár. Klæddur 3 eða 4 lögum af glærfrumum, ekki með göt.
Stöngulblöð: 1,3-1,7 x 0,6-1,0 mm; tungulaga þríhyrnd eða þríhyrnulaga aflöng;meira eða minna oddlöng og með innundna jaðra (rörlaga); oddur þverstýfður, tenntur. Blaðjaðar greinilegur, 3-6 frumuraðir um miðbik blaðs en breikkar allnokkuð í neðri hluta.
Glærfrumur í fremri hluta blaðs án styrktarlista og gata en er oft skipt í 2-4 hluta.

Greinaknippi: 3 eða 4 greinar; 2 útstæðar og 1 eða 2 hangandi og þekja þær stöngul og eru þær mjórri og sívalari en hinar.
Greinablöð: 1,2-2,7 x 0,5-1,0 mm; egglensulaga, ekki í röðum; blaðrendur innundnar framan til. Blaðjaðar 1-3 frumuraðir.
Glærfrumur með allstór göt í frumuhornum og við frumumót á ytra borði en engin á innri hlið.
Grænfrumur þríhyrndar eða trapisulaga með breiðari hlið að innra borði og ná jafnan að ytra borði.

Sphagnum warnstorfii Russow — (rauðburi)
Vex í breiðum eða lágum þúfum, fíngerður. Sprotar rauðir, rauðfjólubláir, gulgrænir eða grænir.
Kollur: Úréttar greinar mynda 5-horna stjörnu; blöð á greinum útstæð, svo að þau geta virzt þyrnótt.
Stöngull: Rauður eða rauðfjólublár, getur verið gulleitur. Klædddur 2-4 glærfrumum, sem eru ekki með götum.
Stöngulblöð: 0,9-1,3 x 0,5-0,8 mm; tungulaga eða tungulaga þríhyrnd, blaðendi bogadreginn en getur sýnzt yddir vegna þess að blöð eru innundin fremst. Jaðarfrumur greinilegar, 3-7 frumuraðir, breikkar mjög neðarlega.
Glærfrumur jafnan ekki með styrktarlista, kunna þó að vera fáir og ógreinilegir; skipt í tvennt eða þrennt (sjaldan fernt) með þunnum veggjum.

Greinaknippi: 4 greinar venjulegast; 2 útstæðar og 2 hangandi. (Mjög sjaldan 2 útstæðar og ein hangandi eða 3 útstæðar og ein hangandi.) Talsverður munur á greinum.
Greinablöð: 0,6-1,4 x 0,3-1,0 mm; egglaga eða egglensulaga. Eru í greinilegum fimm röðum á greinum (sést betur þegar plantan er þurr). Blaðrönd innundin fremst og oddur þverstýfður. Jaðarfrumur 1-4 frumuraðir.
Glærfrumur misstórar; í neðri hluta blaðs eru þær miklu mun stærri; er sérstaklega greinilegt á ytra borði. Í fremri hluta blaðs á ytra borði eru göt mjög lítil en með þykkan styrktarhring (mjög gott greiningareinkenni); í neðri hluta eru göt mun stærri.
Grænfrumur eru trapisulaga eða þríhyrndar með þunna veggi. Breiðari hlutinn snýr að innra borði, en þær ná einnig að ytra borði.
Vex í mýrum, við ár, læki og vötn, einnig við jarðhita. Allalgengur um land, nema fremur sjaldséður á Suðurlandi og Norðausturlandi.
