
Í pistlinum Þarmaskolun (detox) og saurgjafir var sagt frá því, að tekizt hafði að greina á milli þriggja megingerða af þarma-gerlum í mönnum. Þar mátti greina á milli þriggja vistgerða: Bacteroides, Prevotella og Ruminococcus.
Nú hafa sex bandarískir fræðimenn fundið svipaðar þarma-vistgerðir (enterotypes) í simpönsum, sem lifa villtir í þjóðgarðinum Gombe Stream í Tanzaníu.
Af þessu má draga þá ályktun, að þarma-flóran hafi verið búin að taka á sig endanlega mynd í sameiginlegum forföður manna og simpansa fyrir um 6 miljón árum, þegar leiðir skildi. – Nú einbeita menn sér að því að rannsaka, hvaða þýðingu þessar þarma-vistgerðir hafa í raun og veru fyrir heilsu fólks.
Frá þessu er greint í vísindaritinu Nature Communications. Hér má nálgast PMC-útgáfu greinarinnar (https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC3520023/).
ÁHB / 29.1. 2013
P.s. Kynnið ykkur, hvað PMC-útgáfa merkir.