
Calliergonella cuspidata – Geirsnuddi
Í raun eru margir mosar auðþekktir úti í náttúrunni. Hér kemur ein tegund, sem er frekar stórvaxin og myndar oft stórar breiður við ár og læki, á tjarnarbakka og hvarvetna í votlendi, en einnig í rökum klettum um land allt.
Tegundin, Calliergonella cuspidata (Hedw.) Loeske, eða geirsnuddi, þekkist á því, að greina- og sprotaendar ganga fram í sérkennilegan odd, sem minnir á blýant. Þetta kemur til af því, að blöðin, sem eru allt að 2,5 mm, eru aðlæg á endum stöngla og greina.
Tegundin er oft einráð og sérkennilegur gulgrænn eða gulbrúnn litur á glansandi blöðum setur sterkan svip á umhverfið.