
Vængburknaætt – Pteridaceae
Áður var hlíðaburknaætt (Adiantaceae), sem er fremur lítil ætt, klofin út úr vængburknaætt (Pteridaceae). Innan hennar eru sex ættkvíslir, Adiantum, Aspidotis, Notholaena, Cheilanthes, Pellaea og Cryptogramma; flestar tegundir eru ásætur í hitabeltinu. Aðeins ein tegund síðast nefndu ættkvíslarinnar vex á Norðurlöndum. Sameiginlegt einkenni allra tegunda er, að gróhula er engin; þess í stað skýla niðurorpnar blaðrendur gróhirzlum. Nú er ekki talin ástæða til þess að halda þessu aðgreindu, svo að ættkvíslinni er að nýju skipað í vængburknaætt.
Hlíðaburknar – Cryptogramma R. Br. ex Richardson
Til ættkvíslarinnar teljast 9 tegundir, sem vaxa aðallega í Asíu og Norður-Ameríku.
Hlíðaburkni – Cryptogramma crispa (L.) R. Br. ex Hook.
Jarðstöngull er uppréttur og greinóttur. Blöð af tveimur gerðum, grólaus og gróbær; ljósgræn í þéttum brúskum. Stilkur ljósgrænn en verður fölbrúnn undir haust, miklu lengri en blaðka, einkum á gróblöðum; gisflosugur efst en þéttflosugur neðst. Blaðka margskipt, þrífjöðruð. Bleðlar fjaðursepóttir með fleyglaga grunn á grólausum blöðum. Bleðlar gróbærra blaða striklaga og heilrendir; rendur verpast niður, svo að þeir virðast sívalir við þroskun gróa. Gróhirzla myndar aflanga gróbletti á neðra borði, sem eru huldir af niðurorpnum blaðröndum; engin gróhula.
8-15 cm á hæð. Vex í grýttum hlíðum. Mjög sjaldgæfur; hefur fundizt aðeins á tveimur stöðum á Vestfjörðum.
Nöfn á erlendum málum:
Enska: parsley fern, crisp rockbrake
Danska: Persillebregne
Sænska: krusbräken
Norska: hestespreng
Finnska: liesu
Þýzka: Rollfarn
Franska: cryptogramme crépue, cryptogramme crispée
Sjá myndir af hlíðaburkna á neti:
Hlíðaburkni
ÁHB / 23.3 2013