Gullskjálfandi ─ Tremella mesenterica

Skrifað um February 11, 2013 · in Gróður · 2 Comments

Gullskjálfandi er áberandi í rekju en skreppur saman í þurrki. Ljósm. ÁHB.

Gullskjálfandi er áberandi í rekju en skreppur saman í þurrki. Ljósm. ÁHB.

Gullskjálfandi, Tremella mesenterica Retz. ex Fr., heitir sveppur einn, sem verður gulur í rekju. Sveppurinn er allur hlaupkenndur og myndar óreglulegar beðjur á rotnandi og fúnum greinum lauftrjáa. Þetta er kólfsveppur, þótt hann minni mjög á asksveppi, því að enginn er hatturinn. Slíkir kólfsveppir teljast til miskólfunga (Tremellomycetidae), sem eru um 500 að tölu og er vitað um 10 tegundir hérlendis.


Í rekjunni síðustu daga hefur gullskjálfandi blásizt allur út og púðalaga, hlaupkennd kvikan með flipa og fellingar orðið mjög áberandi. Í þurrki fer lítið fyrir honum. Hann óx ofan við gamla Blómaval í Sigtúni á limgerðisrunnum, sem því miður tókst ekki að greina örugglega til tegundar. Hann vex á hálffúnum og rotnandi viði eða oftast sem sníkjusveppur á öðrum sveppi (t.d.
Sterum spp. eða Peniophora incarnata, bleikskæni), sem veldur fúa. Hann sendir þá þjófanga inn í þann svepp og dregur til sín næringu úr honum.

Gullskjálfandi vex á lauftrjám. Ljósm. ÁHB.

Gullskjálfandi vex á lauftrjám. Ljósm. ÁHB.

Það, sem er hvað merkilegast, er, að hann skuli vaxa hér um hávetur. Vitað er, að hann vex á vetrum annars staðar á Norðurlöndum en ekki vitað til þess hér áður. Þá er það hin stóra spurning: Er þetta eitt merki um hlýnun? Góð spurning, kann einhver að segja.

Sennilega vex gullskjálfandi sem sníkjusveppur á öðrum fúasveppi. Ljósm. ÁHB.

Sennilega vex gullskjálfandi sem sníkjusveppur á öðrum fúasveppi. Ljósm. ÁHB.


Sveppurinn er mjög algengur víða um veröldina, í Afríki, Asíu, Ástralíu, Evrópu og Norður- og Suður-Ameríku. Hann er bæði bragð- og lyktarlaus en vel ætur.

Nú þykja það áhugaverð tíðindi, að gullskjálfandi myndar vínanda (etanól) úr lígníni, tréni, sem er uppistaða í viði. Þetta er talið geta haft mikla hagnýta þýðingu, er fram líða stundir. Verður fróðlegt að fylgjast með framvindu þeirra mála.

Þar sem gullskjálfandi vekur oft athygli vegna litar, er hann nefndur ýmsum nöfnum, og ýmiss konar hjátrú er tengd við hann. Nöfn á erlendum málum:
Enska: yellow brain, the golden jelly fungus, the yellow trembler og witches’ butter
Danska: Gul Bævresvamp
Norska: gul gelésopp
Sænska: gullkrös, gul gelésvamp
Finnska: keltahytykkä
Þýzka: Goldgelbe Zitterling
Franska: trémelle mésentérique

Helga Hallgrímssyni eru færðar þakkir fyrir góð ráð og leiðbeiningar. Þá minni eg á Sveppabókina eftir Helga, sem er mikið stórvirki.

ÁHB / 11.2. 2013

 

Leitarorð:

2 Responses to “Gullskjálfandi ─ Tremella mesenterica”
 1. Maria says:

  Sæll. Hér stendur að Gullskjálfandi vaxi á lauftrjám, en hann er hér hjá mér á grenistofni sem var höggin fyrir nokkrum árum?

  Kveðja Maria

  • Águst says:

   María sæl. – Eg hef aðeins séð hann á lauftrjám og samkvæmt mínum heimildum á hann að vaxa “einkum” á þeim. Hitt ekki útilokað, alls ekki, þó að eg hafi aldrei séð hann á barrtrjám. Tek fram, að eg er ekki sérfróður um þessa sveppi.
   Kveðja
   ÁHB

Leave a Reply to Águst